Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2010 Febrúar

27.02.2010 21:16

Vinnuþjarkur HSH 2009

Í dag var veitt viðurkenning fyrir Vinnuþjark HSH 2009

Það var einróma ákvörðun stjórnar HSH að veita þeim hjónum

Kristján Ríkharðsson og Þórunn Björg Einarsdóttir

Viðurkenninguna Vinnuþjarkur HSH


Getraunastarfið hefst í ágúst. Fljótlega eru settir af stað tveir getraunaleikir áskorendaleikur og hópleikur. Mætum kl 10.00 á laugardögum í Íþróttahúsið þar sem Stjáni gerir klárt til að menn geti tippað en Tóta fer í eldhúsið og gerir klárt kaffi og meðlæti. Opið er til kl 13.00. Síðan er beðið eftir úrslitum í ensku leikjunum svo að hægt sé að reikna út stig í hópleiknum. Áskorendaleikurinn  gengur út á að bátarnir í Snæfellsbæ keppa við fyrirtæki í landi, sá sem tapar skorar á annan,  ef um bát er að ræða þarf hann að skora á annan bát. Í áskorendaleiknum þarf að svo þegar úrslit eru komin að hringja í menn til að láta vita hver hefur unnið og hver tapað og fá svo næstu áskorun sem þarf að vera kominn í síðasta lagi á hádegi á þriðjudögum svo að hægt sé að setja upplýsingar um leikinn í bæjarblaðið Jökul. Á hverjum þriðjudegi skrifar Stjáni grein í bæjarblaðið Jökul og segir frá báðum leikjunum og minni á hin ýmsu atriði sem snúa að getraunastarfinu svo sem félagsnúmeri og fl. Nokkuð vel hefur gengið að fá verðlaun í leikina sem eru af ýmsum toga svo sem hótel gisting og fl. Getraunastarfinu líkur um miðjan maí með verðlaunaafhendingu. Sumarstarfið byrjar oftast á því að við hringjum eða sendum tölvupósta í fyrirtæki til að safna auglýsingum á völlinn fyrir sumarið. Þegar nálgast leikdag fer Tóta í búð og verslar inn til að hafa hlaðborð fyrir leikmenn og starfsfólk. Þetta útheimtir mikla vinnu því að hlaðborðið er undirbúið í eldhúsinu heima hjá þeim hjónum. Tveimur tímum fyrir leik er síðan farið með allt sem á að vera á hlaðborðinu í Íþróttahúsið þar sem Tóta sér um að setja kræsingarnar á borð og smyr brauð sem sett er í klefa hjá dómurum leiksins ásamt ýmsu öðru góðgæti. Á meðan Tóta sér um þetta setur Stjáni  búninga fyrir leikmenn í klefann og raða þeim eftir kúnstarinnar reglum, síðan er Stjáni í gæslu á meðan leik stendur. Eftir leik er svo frágangur á öllum sem tekur yfirleitt nálægt tveimur tímum. Þau hjónin hafa leysa öll verkefni sem þau eru beðin um að vinna fyrir Víking í gegnum árin eins vel og hægt er.26.02.2010 13:12

UMFG- Augnablik, æfingarleikur

Breyting á æfingaleik

Vegna óviðráðanlegra orsaka urðum við að hætta við leikinn á móti Val/Fame sem átti að vera kl 15:00 laugardaginn 27. feb.

En í staðinn er áætlaður leikur við Augnablik þennan sama dag á Ásvöllum í Hafnarfirði kl 11:00.

Semsagt:

Grundarfjörður - Augnablik laugardaginn 27.02 - 2010 kl 11:00 að Ásvöllum.
Það er áætluð brottför frá Samkaup kl 07:30 í fyrramálið. Laugardag.  Vinsamlegast vera mættir fyrir þann tíma. Við þurfum að vera komnir á Ásvelli kl 10:00. Við erum með hópferðabíl í þetta. Hver og einn þarf að koma með 1500 kr í bensínpening.

Hópurinn sem fer frá Grundarfirði er þessi:
Tommi
Jón Frímann
Tryggvi
Ingi Björn
Hinni Rauði
Viktor
Þorri
Benedikt
Axel (frá Borgarnesi)

Muna að koma með sokka, buxur og hlý föt... það verður eflaust kalt. Við spilum í gulu treyjunum aftur. Sokkar og buxur eru frjálst val en fínt að miða við að vera bara í svörtum buxum og gulum sokkum ef þið viljið vera eins og Tommi ofurhetja.Þessi kappi mætir víst...


Og þessi líka.


Og líklega þessi líka.

Þetta verður stemming.

26.02.2010 09:54

Fréttir frá Vestarr

Fréttir úr starfi

Jæja félagar, nú er biðin eftir sumrinu farin að verða óbærileg en ef allar góðar vættir eru með okkur þá eru þetta ekki nema 2 mánuðir í viðbót.

Það er að frétta úr starfinu að Garðar Svans og strákarnir frá Almennu umhverfisþjónustunni eru búnir að skipta um rotþró.  Þeir stóðu í þessum skítverkum í hörkufrosti og eiga mikið hrós skilið fyrir að klára þetta fyrir okkur.  Hér sjást kapparnir að störfum:


Setta gámurinn er kominn út á völl og búið að stilla honum upp.  Það á eftir að klæða hann og gera hann snyrtilegan, koma á hann ljósum ofl.  Síðan geta félagsmenn leigt sér pláss í honum eða keypt sér pláss til eignar.  Þeir sem vilja setja upp sinn eigin skáp geta svo innréttað sitt pláss eins og þeir vilja en innan stærðarmarka að sjálfsögðu.  Þeir sem vilja leigja sér pláss geta fengið það fyrir kr 5.000 á ári en þeir sem vilja kaupa pláss til eignar geta keypt það á kr 30.000.  Við munum væntanlega kalla saman vinnuhóp á næstu misserum til þess að klára gáminn.

Þeir sem hafa keyrt upp á völl hafa væntanlega séð að búið er að dreifa skít á völlinn.  Við munum láta skítinn liggja enn um sinn á vellinum en reyna að slóðdraga áður en völlurinn verður opnaður í vor.

Nýja stjórnin verður með sinn fyrsta fund á sunnudaginn kemur ( 21. feb kl 20 í framhaldsskólanum) og verða meðal annars festir fundartímar bæði fyrir vetur og sumar.  Þegar búið er að ákveða þá verða þeir birtir hér á síðunni.  Ef einhver vill koma einhverjum skilaboðum inn á fundinn er hægt að senda það í tölvupósti til mín, Péturs, Önnu Maríu eða bara hvers sem er sem í stjórninni er.  Nýja stjórnin er svo skipuð:

Pétur V. Georgs, formaður
Anna María Reynisdóttir, ritari
Þórður Magnússon, gjaldkeri
Páll Guðmundsson, formaður vallarnefndar
Garðar Svansson, formaður mótanefndar
Hugrún Elísdóttir, formaður kvennanefndar
Dagbjartur Harðarson, formaður nýliðanefndar
Guðlaugur Harðarson, formaður skálanefndar

Formenn nefnda eru skv breytingum sem gerð var á lögum félagsins nú sjálfkarfa í stjórn félagsins.  Þeir velja sér svo félaga til þess að fullmanna nefndirnar og verður það birt hér á vefnum hvernig þær líta út þegar þær eru fullskipaðar.

Nýju lögin hafa ekki borist mér í hendur en ég mun einnig birta þau hér um leið og ég kemst yfir þau.  Við munum síðan birta allar fundargerðir stjórnar hér á vefnum líkt og gert var í fyrra.  Einnig eru fundargerðir aðgengilegar undir liðnum "Skrár" hér hægra meginn á síðunni.

Meira er það ekki í bili.  Ég bið að heilsa að sinni, góðar stundir.

Skrifað 20.2.2010 kl. 13:45 af Þórði Magg

26.02.2010 09:51

Snæfell tapaði fyrir Haukum

Myndasafn: Bikarmeistararnir ekki í vandræðum með Snæfell
Frétt af karfa.is

 Bikarmeistararnir ekki í vandræðum með Snæfell

 
Subwaybikarmeistarar Hauka tóku á móti Snæfell í Iceland Express deild kvenna í gærkvöldi þar sem lokatölur urðu 71-52 Haukum í vil. Heather Ezell átti myndarleik í liði Hauka en þessi öflugi bandaríski leikmaður gerði 39 stig, tók 10 fráköst, stal 5 boltum og gaf 4 stoðsendingar.
Sherell Hobbs var stigahæst í liði Snæfells með 27 stig, 13 fráköst og 4 stolna bolta. Haukar eru öruggir í efsta sæti B-riðils og munu því leika í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn Keflavík, Grindavík eða Hamri, allt eftir því hvernig síðasta umferðin fer. Það eru svo Njarðvík og Snæfell sem slást um síðasta sætið í úrslitakeppninni en í augnablikinu hefur Snæfell betur innbyrðis og kemst í úrslitakeppnina ef Njarðvík tapar fyrir Haukum í síðustu umferð deildarinnar og Snæfell vinnur Val í Vodafonehöllinni.
 

25.02.2010 12:31

4 stúlkur úr Snæfell í Landslið.

Fjórar frá Snæfelli með landsliðum á NM.

Snæfell á fjóra fulltrúa í yngri landsliðum sem fara á norðurlandamót eða NM sem verður í Solna Svíþjóð 12-16maí. Þetta eru Hildur Björg Kjartansdóttir í U16 landsliði stúlkna. Björg Guðrún Einarsdóttir, Hrafnhildur Sævarsdóttir og Sara Mjöll Magnúsdóttir allar í U18 landsliði stúlkna.

 


mynd. Ingi Þór Steinþórsson

 

Það er gaman eiga fulltrúa frá okkar liði og eiga þessar stúlkur verðskuldað sæti í landsliðunum þar sem þær hafa staðið sig mjög vel með stúlknaflokki og meistaraflokki kvenna. Mikið hefur mætt á þeim í vetur, spilað marga leiki og oft verið undirmannaðar í stúlknaflokki þar sem þær stíga upp hver af annari. Tölfræðiupplýsingar fundust um stúlkurnar í meistaraflokki en ekki stúlknaflokki sem myndi hækka þær verulega upp, en lítum á tölurnar.

 


Hildur Björg Kjartansdóttir mynd. Þorsteinn Eyþórsson

Hildur Björg Kjartansdóttir er fædd 1994 og því 16 ára á árinu, hefur verið með 1.9 stig og 2 fráköst að meðaltali í leik með meistaraflokki og spilað 16 leiki. Hildur er efnilegur leikmaður sem er bara á uppleið.


Björg Guðrún Einarsdóttir mynd. Þorsteinn Eyþórsson

Björg Guðrún Einarsdóttir er fædd 1992 og er 18 ára á árinu hefur verið með 4.1 stig, 2.1 frákast og 1.8 stoðsendingu að meðaltali í þeim 18 leikjum sem hún hefur spilað með meistaraflokki. Björg átti 15 stig gegn liði Keflavíkur í vetur og sannar að hún er stórkytta að upplagi.


Hrafnhildur Sævarsdóttir mynd. Þorsteinn Eyþórsson

Hrafnhildur Sævarsdóttir er fædd 1993 og er 17 ára á árinu, hefur verið með 4.5 stig og 4.6 fráköst í þeim 18 leikjum með meistaraflokki í vetur. Hrafnhildur hefur verið óvægin undir körfunni og er að vinna sig upp í fráköstum og fínum hreyfingum í teignum sem skilar henni langt.


Sara Mjöll Magnúsdóttir mynd. Þorsteinn Eyþórsson
 

Sara Mjöll er fædd 1992 og verður 18 ár árinu. Sara hefur verið með 1.4 stig og 1.7 frákast í þeim 7 leikjum sem hún hefur tekið þátt í með meistaraflokknum en hún kom aftur inn í liðið eftir áramót þar sem hún dvaldist erlendis fyrir áramót. Sara kemur sterk inn hefur fundið taktinn fljótt þar sem hún er kunnug flestum fjölum í íþróttahúsinu í Stykkishólmi.

 

Við óskum stúlkunum okkar góðs gengis á norðurlandamótinu í Solna Svíþjóð 12-16 maí.

-sbh-25.02.2010 08:35

Víkingur vann ÍH 3-0

Sigur gegn ÍH í æfingaleik (3-0)

21. febrúar 2010
Víkingar báru  sigurorð af ÍH 3-0 í hörkuleik sem fram fór á gervigrasvellinum í Laugardalnum í dag. Það voru þeir Þorsteinn Már Ragnarsson, Almir Cosic og Ingólfur Kristjánsson sem skoruðu mörk Víkinga í dag. Staðan í hálfleik var 2-0 Víkingum í hag en síðari hálfleikur var einnig mjög fjörugur og fengu Víkingar fullt af færum til þess að bæta fleiri mörkum við. Það var þó varamaðurinn og markvörðurinn Ingólfur Kristjánsson sem innsiglaði sigurinn með góðu marki eftir að hafa fylgt eftir hornspyrnu okkar manna. Ingólfur var svo settur í markið 5. mínútum síðar og Einar Hjörleifsson fór í hægri bakvörð.

Hópurinn er sem fyrr frekar þunnur en í dag vantaði; Brynjar Gauta sem var meiddur, Fannar Hilmars sem enn er að jafna sig eftir aðgerð, Aleksandrs Cekulajevs sem væntanlegur er til landsins í næstu viku.

Byrjunarlið: Einar í markinu, Bega og Tomasz í miðvörðum, Ólafur Hlynur (V) og Alfreð Hjaltalín (H) í bakvörðunum. Á hægri væng var Andri Hafsteins, Sindri Hrafn á þeim vinstri, Ejub djúpur á miðjunni, Almir Cosic og Dominik fyrir framan hann en Þorsteinn einn á toppnum.

Bekkurinn: Ingólfur Kristjánsson, Jón Haukur Hilmarsson og Brynjar Kristmundsson.

24.02.2010 13:38

Héraðsþing HSH


Stjórn HSH með Bikar Snæfells úr  Bikarkeppni KKÍ

Héraðsþing HSH 2010 var haldið í Stykkishólmi í gær.
Þingið var vel sótt og starfsamt. Gestir þingsins voru Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, Sæmundur Runólfsson, framkvæmdarstjóri UMFÍ og Sigríur Jónsdóttir, framkvæmdarstjórn ÍSÍ.  Dagný Þórisdóttir og Seselía Pálsdóttir, Snæfell, voru sæmdar starfsmerki UMFÍ og Þorbergur Bæringsson, Snæfell, var sæmdur Gullmerki ÍSÍ    Þing forsetar voru Dagný Þórisdóttir og Hjörleifur K. Hjörleifsson og stýrðu þau þinginu af mikill röggfestu. Á þingu voru m.a. samþykktar úthlutunarreglur fyrir stjórn vegna styrkja, fækkun þingfulltrúa, sektir vegna seinkunar á skilum í felix.
Stjórn HSH gaf öll kost á sér til endurkjörs en gerðar voru breytingar á varastjórn . Edda Sóley Kristmansdóttir, Guðbjörn Egilsson, Karen Olsen og Högni Högnason skipa nýja varastjórn.
Veitingar á þingu voru í boði Stykkishólmsbæjar og sá Lúðrasveit Stykkishólms um þær fyrir bæinn, færum við þeim bestu þakkir fyrir góðar veitingar.
Alexander Kristinsson bauð svo til þings hjá Reyni Hellissandi að ári.
Fleirri myndir af þinginu eru svo inn á myndasíðu hér til hliðar.
Sesselía og Dagný með Starfsmerki UMFÍ. Helga Guðjónsdóttir formaður UMFÍ


Þorbergur með Gullmerki ÍSÍ og Sigríður Jónsdóttir, ÍSÍ

Sesselía og Þorbergur, Til hamingju með viðurkenningarnar.

23.02.2010 13:45

Héraðsþing HSH 2010

Héraðsþing HSH verður sett kl. 18.00 í dag í
Grunnskóla Stykkishólms

Aðildarfélög HSH eiga rétt á að senda 63 þingfulltrúa á þingið.


Af þingi HSH 2007 í Grundarfirði

21.02.2010 16:01

Snæfell Bikarmeistarar

HSH óskar Snæfell til hamingju með Bikarmeistaratitilinn
Hlynur í léttu bikarspjalli

Hlynur Elías Bæringsson fyrirliðin okkar var beðinn um að skrifa nokkrar línur til að sjá hans mynd af stórleikjum sem þessum. Ekki lét landsliðsfolinn sitt eftir liggja enda meistari að upplagi og svaraði spurnum okkar af kostgæfni. Eins og flestum er kunnugt hefur Hlynur verið á toppnum í vetur yfir frákastahæstu menn Iceland express deildarinnar með 15.06 fráköst að meðaltali. Einnig er hann með langhæstu framlagsstig leikja eða 575 stig í allt, 112 stigum á undan næsta manni, 33.82 að meðaltali.

 


 

Þú varst í hópnum 2003 og 2008 tekið bæði silfur og gull hvernig er fílingurinn fyrir svona leiki?"Fyrst og fremst er mikil tilhlökkun, að spila þessi leiki er það sem virkilega situr eftir í huganum. Hinir leikirnir eiga það margir til að renna saman í eitt en svona leikjum man maður alltaf eftir. Stemmningin, lætin og andrúmsloftið er hreint magnað."

 

 

Hvernig líst þér á mótherjana í Grindavík, hvar er styrkleiki og hvar er veikleiki þeirra?

 

 

"Þeir eru með mun jafnara lið en oft áður, í gegnum tíðina voru þeir oft með öll sín helstu vopn fyrir utan, þ.e.a.s. í bakvörðunum, hins vegar með frábærum leikmanni eins og Darrel Flake er mikið betra jafnvægi hjá þeim og þeir með mjög gott lið. Þetta er liðið sem var spáð öllum titlum áður en þeir hikstuðu aðeins í byrjun móts, þá aðallega vegna meiðsla. Þeir eru því með mikið af styrkleikum en lítið af veikleikum, sem þeir þó hafa og eru viss atriði sem við ætlum að nýta okkur á laugardaginn."

 

Hvað leggur Snæfell áherslu á í leiknum?

 


"Vörn og fráköst eru algjört lykilatriði eins og í öllum leikjum, svo viljum við helst hafa flæðið gott í leiknum og sem flestir komist í takt við leikinn. Þannig þurfum við ekki að treysta á stórleiki frá einstökum leikmönnum heldur getum unnið þetta saman innan liðsins. Ef við gerum það er ég viss um að við vinnum."

 

 

Skilaboð til stuðningsfólks fyrir leikinn?

 

 

"Þau eru einföld, mæta snemma og draga sem flesta með sér í rauðum bolum. Sleppa sér aðeins og hafa læti og hætta aldrei að hvetja sama hvernig staðan er, reynsla síðustu ára kennir okkur það að hætta aldrei. En aðallega vona ég að allir skemmti sér vel og njóti dagsins."

 

-sbh-


16.02.2010 08:24

Snæfell lagði FSU

Úrslit: Stigaregn á Selfossi

 
Tveir leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í kvöld þar sem stigunum rigndi inn á Selfossi. FSu tók á móti Snæfell í Iðu þar sem lokatölur voru 115-133 Snæfell í vil! Þá átti Grindavík ekki í teljandi vandræðum með Blika.
 
Úrslit kvöldsins:
FSu 115-133 Snæfell
Grindavík 94-68 Breiðablik
 
Richard Williams fór mikinn í liði FSu í kvöld með 40 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Í liði Snæfells var Sean Burton atkvæðamestur með 25 stig en fjórir leikmenn Snæfells gerðu 22 stig eða meira í kvöld og sex leikmenn voru með 15 stig eða meira.
 

15.02.2010 09:56

Nýr leikmaður hjá Víking

Aleksandrs Cekulajevs semur við Víking

15. febrúar 2010

Víkingur samdi í gær við sóknarmanninn Aleksandrs Cekulajevs en hann hefur verið til reynslu hjá félaginu í u.þ.b. 10 daga. Aleksandrs kemur frá Lettlandi og spilaði áður með FkJurmala-VV. Aleks sem er 25 ára gamall hefur undanfarnar tvær helgar spilað æfingaleiki með Víkingum og skorað í þeim 6 mörk. Þrjú gegn Ými frá Kópavogi og þrjú gegn Ægi frá Þorlákshöfn í gær sunnudag.

Aleksandrs flaug í morgun til Lettlands þar sem hann mun dvelja fram að mánaðarmótum eða þar til hann snýr aftur til Íslands og mun því hefja æfingar að nýju. Hann mun styrkja framlínu liðsins til muna enda um snöggann og jafnframt klókann framherja að ræða.

Á myndinni til hliðar má sjá Aleks og Jónas Gest formann knattspyrnudeildar eftir undirskrift samningsins.

   

15.02.2010 09:55

Víkingur lagði Ægi

4 - 1 sigur gegn Ægi frá Þorlákshöfn

14. febrúar 2010

Víkingar unnu í dag glæstann sigur á Ægi frá Þorlákshöfn í æfingaleik sem fram fór í Akraneshöllinni í dag. Víkingar komu ákveðnir til leiks og ekki var langt um liðið þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Þar var að verki Þorsteinn Már Ragnarsson eftir langa stungu sendingu frá Tomazsi Luba. Þorsteinn var einn á auðum sjó og renndi boltanum snyrtilega framhjá markverði Ægismanna. 1-0 og aðeins 10 mínútur liðnar af leiknum. Andstæðingarnir lögðu þó ekki árar í bát og einungis 7. mínútum síðar voru þeir búnir að jafna metin með afar sérkennilegu marki.

Svo virtist vera sem sóknarmaður Ægis hafi brotið á Tomaszi og þar með komist einn inn fyrir vörn okkar manna. Aðstoðardómari flaggaði líkt og um brot væri að ræða en Þórður Már Gylfason ágætur dómari þessa leiks lét sér fátt um finnast og lét leikinn halda áfram. Leikmenn Víkings héldu að leikurinn hefði stöðvast við merki aðstoðardómarans, af þeim sökum var eftirleikur sóknarmannsins auðveldur og staðan 1-1.

Þá var komið að þætti Aleksandrs Cukulajevs sem hefur verið á reynslu hjá félaginu síðustu 10 daga eða svo. Hann kom Víkingum yfir eftir að Ægismenn höfðu bjargað tvisvar á línu eftir hornspyrnu Víkinga. Aleksandrs var þá vel á verði og afgreiddi knöttinn í markið. Hann var svo aftur á ferðinni áður en Þórður flautaði til loka fyrri hálfleiks. Að þessu sinni komst hann einn inn fyrir vörn Ægismanna, lék laglega á markvörðinn og lagði boltann í netið af miklu öryggi. Staðan því 3-1 fyrir Víkinga í hálfleik.

Bæði lið gerðu breytingar á liðum sínum í síðari hálfleik sem gerði það að verkum að spil liðanna riðlaðist umtalsvert. Víkingar voru þó mun sterkari aðilinn þó Ægismenn hafi barist vel og átt ágætis sóknartilburði. Vörn Víkinga með þá Tomasz Luba og Bega í fararbroddi stóðust öll áhlaup gestanna (ef svo má segja) auk þess sem Einar var öryggið uppmálað milli stanganna. Víkingum tókst þó að setja eitt mark til viðbótar en þar var að verki Aleksandrs Cukulajevs sem kórónaði sína aðra þrennu í jafn mörgum leikjum. Hann slapp þá inn fyrir vörn Ægismanna og vippaði boltanum skemmtilega yfir markvörðinn og í netið. Víkingar hefðu hugsanlega geta bætt marki eða mörkum við en Sindri Hrafn Friðþjófsson átti prýðisgott skot að marki sem markvörður Ægismanna verði vel undir lokinn en þar við sat. 4-1 sannfærandi sigur hjá Víkingum sem virðast vera bæta sig jafnt og þétt.

Byrjunarlið Víkings: Einar (f) í markinu, Luba og Bega í miðvörðum, Dominik í hægri bakverði, Alfreð Hjaltalín í þeim vinstri. Á miðjunni voru Ejub og Brynjar Gauti, á vinstri væng var Ólafur Hlynur, á hægri væng Andri Hafsteinsson. Frammi voru svo þeir Þorsteinn og Aleksandrs.

Varamannabekkur: Jón Haukur Hilmarsson (inn 75. mín), Sindri Hrafn Friðþjófsson (inn 70 mín).

Fannar Hilmarsson og Brynjar Kristmundsson voru ekki leikfærir í dag en Brynjar á við meiðsli að stríða aftan í læri en Fannar er enn að jafna sig eftir aðgerð á nefi.

Maður leiksins: Aleksandrs Cukulajevs


      

15.02.2010 09:50

Tap fyrir Njarðvík


Unglingaflokkur Njarðvíkur kom í heimsókn í Stykkishólm og mætti þar Snæfelli í bikarkeppninni.

Eftir barning í upphafi leiks komst Snæfell í 10-4 með þristum frá Guðna og Agli en Njarðvík er með sterkann hóp í unglingaflokki og gáfu lítið eftir. Snæfell sem spilar ekki með unglingaflokk í deildarkeppni eru einungis skráðir á bikarkeppnina, voru að leiða framan af fyrsta hluta en naumt þó þegar staðan var 21-19. Kristján Pétur átti svo 9 stig fyrir Snæfell í þremur þristum en Njarðvík ekki langt undan og staðan 32-25 fyrir Snæfell eftir fyrsta fjórðung.

 

Njarðvík kom til baka í öðrum hluta og komust nær 36-35 eftir að skot Snæfells voru ekki að detta. Njarðvík breytti í 2-3 svæðisvörn og komust yfir 37-40 með góðum körfum frá Elísasi. Kristján Pétur var í stuði í stöðunni 49-49 þegar hann setti fjórða þristinn niður og Snæfell leiddi í jöfnum leik 52-49 í hálfleik.

 

Kristján var kominn með 14 stig fyrir Snæfell og Egill 10 stig. Páll Fannar var kominn með 9 stig. Hjá Njarðvík var Hjörtur kominn með 23 stig og var Snæfelli erfiður undir körfunni en Valur var kominn með 13 stig.

 

Eftir baráttu jafnaði Njarðvík 59-59 þegar Hjörtur stal boltanum og brunaði upp völlinn. Elías kom þeim svo í 59-64 eftir góðann þrist og grænir voru að herða sig upp. Snæfell missti niður dampinn í vörninni og Njarðvík komst fljótt í 60-68. Rúnar setti megaþrist þegar Njarðvík komst 10 stigum yfir 63-73 og lítið féll Snæfellsmegin. Njarðvík pressaði mjög vel upp völlinn og uppskar góða forystu eftir þriðja hluta 67-83 þar sem Snæfell var að missa boltann beint í hendurnar á þeim.  Egill hjá Snæfelli var svo farinn út af með 5 villur.

 

Ekki lagaðist staðan framan af fjórða hluta í stöðunni 67-88. En þegar Kristján Pétur setti tvo þrista og staðan varð 80-90 eygðu Snæfellingar von um að læðast nær. Ekki náði Snæfell að klóra í bakkann þrátt fyrir fjölda skota og mikkla baráttu undir lokin. Njarðvík komst áfram í bikarnum eftir sigur 83-94.

 

Hjörtur var gríðalega öflugur hjá Njarðvík með 35 stig og Valur með 17 stig. Styrmir kom svo sterkur inn með 12 stig. Hjá Snæfelli var Kristján heitur með 31 stig og Páll Fannar 24 stig.

 

Símon B. Hjaltalín.

Myndir. Þorsteinn Eyþórsson

15.02.2010 09:49

Úrslit úr Vestamannaeyjamótinu

Minniboltamótið í Vestmannaeyjum.

Helgina 5-7. feb s.l. fóru minniboltastrákarnir hans Nonna til Vestmannaeyja og kepptu þar 4 leiki. Nonni komst hinsvegar ekki með og ég var svo heppin að fá að fara í hans stað.  Með í för voru líka gríðarlega gott teymi foreldra og vil ég þakka þeim fyrir skemmtilega og vel heppnaða ferð.  Helgin byrjaði á þessum líka hrikalega veltingi alla leið til eyja en við þessi hörkutól hrisstum það nú fljótt af okkur. Strákarnir eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir góðann árangur og fyrir að vera til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Ekkert mál að fara með svona hóp í keppnisferðalag.

 

 

Á laugardaginn áttu strákarnir fyrsta leik gegn sterku liði FSU sá leikur fór ekki vel þrátt fyrir frábæra frammistöðu. Snæfell var yfir með 5 stigum fyrir seinasta leikhlutan en FSU menn unnu þann leikhluta sannfærandi 14-4. Lokatölur leiksins voru 40-35 og stigin í liði Snæfells voru Jón Páll með 16 stig, Hermann með 8 stig, Elías með 5 stig og þeir Jón Glúmur, Almar Njáll og Finnbogi Þór voru allir með 2 stig  Þetta var mikil sorg og mikil reiði en við ákváðum strax að gleyma þessum leik og klára hina 3 sem eftir voru með stæl.

 

 

Næsti leikur var á móti Hrunamönnum, þann leik unnu Snæfellsstrákar sannfærandi 36-16.  Stigaskor: Jón Páll 14 stig, Almar Njáll 8 stig, Jakob Breki 6 stig, Hermann Örn 4 stig og Davíd Einar og Tómas Helgi skoruðu sitthvor 2 stigin. Elías Björn átti einnig góðan leik og í staðinn fyrir að skora stigin sjálfur mataði hann aðra leikmenn með góðum stoðsendingum.

 


 

Á sunnudagsmorguninn áttum við fyrsta leik kl 09:00 á móti ÍBV, en ÍBV hafði tekist að vinna FSU á laugardeginum og því komin pressa á okkar menn. Snæfellsstrákar komu strax sterkir til leiks og spiluðu hrikalega vel í sókninni, vörnin átti hinsvegar eftir að batna þegar leið á leikinn. Þeir áttu hverja glæsisóknina á fætur annari og röðuðu niður körfum, ÍBV fundu engin svör við leik okkar manna og endaði leikurinn á öruggum sigri 45-25. Stigaskorið var þannig að Jón Páll var stigahæstur með 18 stig og Almar með 12 stig, leikstjórnendurnir Elli og Jakob áttu báðir mjög góðan leik og stjórnuðu liðinu vel, Elli skoraði 6 stig og Jakob 4 stig. Finnbogi, Hermann og Tómas voru allir með 2 stig.

 

 

Seinasti leikur mótsins var á móti Valsmönnum. Smæfellsstrákarnir voru ekki orðnir saddir og voru harðákveðnir í því að vinna stóran sigur. Leikurinn byrjaði með körfu frá Jóni Páli eftir glæsilega stoðsendingu frá Jakobi Breka. Boltinn rúllaði vel í sókninni og endaði í flestum tilfellum með 2 stigum. Í fyrsta leikhluta sáum þeir Jón Páll og Hermann um að skora stigin. Þeir voru hinsvegar duglegir að ná sér í villur í þessum leikhluta og voru báðir búnir að ná sér í 3 villur í lok leikhlutans, ekkert nema baráttuvillur auðvitað, því þessi leikur átti svo sannarlega að vinnast!

 

Annar leikhluti hófst með látum og Hermann Örn skoraði fyrstu stigin þar, Elías og Almar komu gríðarlega ákveðnir inn í 2.leikhluta og skoruðu sitthvor 6 stigin.  3 leikhlutan unnu hinsvegar Valsmenn með tveimur stigum. Dawið Einar átti fyrstu körfu þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta sá Elías um að stjórna liðinu og hélt áfram að gefa góða stoðsendingar á stóru mennina sem voru svo ekki í vandræðum með að skila boltanum á réttan stað. Almar skoraði 6 stig og Hermann og Finnbogi sitthvor 4 stigin. Þennan leikhluta spiluðu strákarnir frábæra vörn og Valsmönnum tókst ekki að skora stig á móti 15 stigum Snæfells. Síðasti leikhlutinn einkenndist af mikilli leikgleði eins og reyndar allur leikurinn sem skilaði sér með 30 stiga sigri okkar manna. Strákarnir héldu áfram að sýna sínar bestu hliðar og komu mér sífellt á óvart með góðum leikskilningi og fleiru. Frábær leikur í alla staði.

 

 

Þetta dugði því miður ekki til að fara upp um riðil en góður árangur engu að síður og komu strákarnir mér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á óvart með skemmtilegum leiktilþrifum.

Frábært mót og gaman að fá að stýra svona skemmtilegum og hæfileikaríkum hópi. Ég vil bara nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig og óska strákunum góðs gengis á næstu mótum.

 

 

Erna Rut Kristjánsdóttir

 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31