Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2011 Október

31.10.2011 16:31

Víkingur og Mostri í Powerade-bikar

Dregið í 64-liða úrslit Powerade-bikar karla
Á föstudag var dregið á skrifstofu KKÍ í 64-liða úrslit Powerade-bikarkeppni karla.

Félög í Iceland Express-deild karla og 1 deild karla koma inní 32-liða úrslit.

41 lið var skráð til leiks og fara 19 þeirra í 64-liða úrslit.

Eftirfarandi lið drógust saman:
Laugdælir-KR-b
Álftanes-Fjölnir-b
Stjarnan-b-Augnablik
Haukar-b-Katla
Leiknir-Reynir Sandgerði
KV-Víkingur Ólafsvík
Mostri-Valur-b
Tindastóll-b-Patrekur
Njarðvík-b-Bolungarvík

ÍBV situr hjá og fer beint í 32-liða úrslit ásamt félögum í Iceland Express-deild karla 1. deild karla.

Leikið verður dagana 11.-14. nóvember.

31.10.2011 15:48

Snæfell hafði betur í framlengingu

Snæfell marði Tindastól í Lengjubikarnum


31. október 2011

Stórslemmuleikur var í Lengjubikarnum í Hólminum í gærkveldi þegar Snæfell fékk Tindastól í heimsókn. Hlutirnir hafa ekki alveg verið að ganga hjá þessum liðum að undanförnu, sérstaklega ekki Stólunum sem skiptu um þjálfara á dögunum en þar er nú kominn við stjórnvölinn Hólmarinn Bárður Eyþórsson sem mætti að nýju á sinn gamla heimavöll. Leikurinn var hörkuspennandi frá upphafi til enda, mikil keyrsla og tilþrif. Framlengja þurfti eftir venjulegan leiktíma en Snæfellingar náðu að lokum að knýja fram sigur, 93:91.

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn og aldrei mikill munur á liðunum. Staðan í leikhléi 40:39 fyrir Snæfelli. Tindastólsmenn náðu síðan góðum tökum á leiknum í upphafi seinni hálfleiks og komust mest í 11 stiga forustu, en heimamenn gerðu vel að laga stöðuna í 60:62 fyrir lokakaflann.

 

 

 

 

Tindastólsmönnum tókst aftur að slíta sig frá í byrjun síðasta leikhluta, en sveiflur voru í leiknum og hvorugt liðið vildi gefa sinn hlut. Snæfell var komið yfir 78:74 þegar ein og hálf mínúta var eftir af venjulegum leiktíma. Tindastóli tókst að brúa það bil og komast tveimur stigum yfir 83:81 og aðeins hálf þriðja sekúnda eftir þegar Snæfellingar tóku leikhlé. Sá tími dugði Pálma Frey Sigurgeirssyni til að jafna metin með sniðskoti 83:83. Sama spennan hélt síðan áfram í framlengingunni og segja má að þá hafi úrslitin ráðist á vítalínunni. Tindastólsmenn voru að klikka á sínum skotum, en Snæfellingar sýndu meira öryggi og náðu að lokum að knýja fram sigur, 93:91.

Hjá Snæfelli var Marquis Hall stigahæstur með 30, 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Quincy Cole var með 14 stig og 11 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 14 og 4 fráköst, Hafþór Gunnarsson 11 stig, Sveinn Arnar Davíðsson 8 stig og 4 stoðsendingar, Ólafur Torfason 7 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar, Pálmi Freyr 6 stig og 4 fráköst og Egill Egilsson 3 stig. Hjá Tindastól var Trey Hampton með 20/7 frák/3 stoð og Friðrik Hreinsson 18/3 frák/5 stoðs.

 

30.10.2011 21:02

Snæfellsstúlkur unnu Hamar 80-70

Umfjöllun: Snæfell færði Hamri fjórða deildartapið í röð
Karfan.is

Umfjöllun: Snæfell færði Hamri fjórða deildartapið í röð

 
Hamarsstúlkur, sem hafa það hlutskipti eftir 3 leiki í deildinni að verma botnsætið, mættu í Hólminn og tókust á við Snæfell sem var sæti fyrir ofan. Ingi Þór sat í stúkunni og tók út leikbann í þessum leik.
Byrjunarliðin:
Snæfell: Hildur Sig, Hildur Björg, Alda Leif, Helga Hjördís, Kieraah Marlow.
Hamar: Hannah Tuomi, Samantha Murphy, Jenný Harðar, Álfhildur, Kristrún Rut.
 
Snæfell byrjaði á ferskari endanum og áttu fyrstu fjögur stigin og Hamar vaknaði á 6:53 og settu sína fyrstu körfu og komust svo í 7-9 eldhressar. Stúlkurnar voru farnar að hitna í báðum liðum en Snæfell strögglaði þó meira í sínum aðgerðum og fengu Hamarsstúlkur oft körfu og villu að auki og kláruðu þau skot. Snæfell hékk þó ekki langt undan og gekk erfiðlega að koma niður auðveldum skotum á meðan Hamar nýtti sín betur hinumegin. Staðan var 15-20 fyrir Hamar eftir fyrsta hluta.
 
Samantha Murphy fór mikinn fyrir Hamar á upphafsmínútum annars hluta og kom Hamri í 15-29 með stolnum boltum og þriggja stiga körfum, allt í fleirtölu. Snæfell hafði einungis skorað þrjú stig gegn sterkri svæðisvörn gestanna undir miðjann hlutann og lítið sem ekkert að sjá á leik þeirra sem gaf til kynna endurkomu í leikinn að ráði. En þær sýndu annað og áttu 13-1 kafla sem gaf þeim allann séns í leikinn aftur og með því svara svæðisvörninni með svæðisvörn og staðan varð 30-32 í hálfleik.
 
32-32 hófust leikar í þriðja hluta og Hildur Sigurðardóttir fylgdi eftir með þrist 35-32 og spretturinn hjá Snæfelli varð 18-1 áður en Hamar skoraði. Hamarsstúlkur stigu þó skrefið fram fyrir og náðu forystunni 37-41 á svipaðann hátt og áður í leiknum þar sem Snæfell strögglaði í sóknum sínum en þá kom Björg Guðrún inná og jafnaði 41-41 með einum ísköldum úr horninu. Taflið snerist svo við þegar Snæfell sótti hratt á og náði 51-46 forskoti þar sem Hamar fór að hitta illa, mjög kaflaskiptur leikur í gangi og staðan 55-49 fyrir Snæfell fyrir lokasprettinn í leiknum.
 
Snæfell náðu að halda sér á forystuskónum og var staðan 63-54 undir miðjann hluta þegar Lárusi fannst tími til kominn að ræða málin við sit lið sem komst ekki mikið inn í leikinn til að sækja á. Hildur Sigurðardóttir sá um 6 stig fyrir Snæfell með hraðaupphlaupum og setti miðið fyrir Snæfell á lokasprettinum. Þær komust í 75-59 þegar talið var niður í síðustu þrjár mínútur leiksins. Hamar fóru að pressa um allan völl til að reyna að fá boltann en sóknir runnu út í sandinn oft en mikið var stólað á Samantha Murphy í þriggja stiga skotum en Snæfell tók fráköstin og kláruðu leikinn sannfærandi í fjórða hluta og unnu 80-70.
 
 
Umfjöllun: Símon Hjaltalín

28.10.2011 23:05

Blakveisla í Stykkishólmi nú um helgina


 

Íþróttaviðburður ársins í Stykkishólmi!


Nú er komið að því! Leikið verður í íslandsmeistaramóti 3ju og 4ju deilda í blaki helgina 29. - 30. okt í íþróttamiðstöð Stykkishólms. Hingað eru að koma 24 lið af blakkonum til að keppa á laugardag og sunnudag. Mótið hefst kl 08:00 á lau og er spilað til 20:00 um kvöldið og aftur frá 08:00 á sunnudag.  Við vonum að Hólmarar gefi sér tíma til að kíkja á mótið og fá sér kaffi og meðí í litlu sjoppunni okkar og styrkja þannig deildina okkar.

 

  • Snæfell mun spila kl 09:00, 12:00 og 17:00 á laugardag.
  • Einnig er Víkingur Reynir með lið
  • Leikjaniðurröðun sunnudags ræðst af úrslitum laugardagsins.

 

Blakdeild Snæfells mun sömu helgi hefja sölu á happadrættismiðum sem er fjáröflun deildarinnar fyrir veturinn. Vinningaskráin er enn glæsilegri en í fyrra og má þar nefna kr. 20.000,- inneign í Bónus, kr. 10.000,- bensínúttekt hjá Orkunni, olíutékk hjá Dekk og smur, útað borða hér og þar, gistingar á hótelum og fullt af öðrum vinningum, inneignum og gjafabréfum á ólíklegustu stöðum. Miðaverð er það sama og í fyrra eða kr. 1.000,- Við munum svo gleðja hjörtu bæjarbúa með því að ganga í hús og bjóða miðana til sölu í nóvembermánuði og svo verður dregið þann 1. des.

  • Miði er tækifæri, munið það!!! 

Stjórnin

 

28.10.2011 00:07

Snæfell tapaði fyrir ÍR

Eftir leik í Hellinum: Kjaftshögg að fá á sig 35 stig í fyrsta leikhluta
27 10 2011 |

Eftir leik í Hellinum: Kjaftshögg að fá á sig 35 stig í fyrsta leikhluta

 
Níels Dungal var að öðrum ólöstuðum einn sterkasti maður ÍR í kvöld þegar liðið lagði Snæfell í Iceland Express deild karla. Kappinn var að vonum sáttur með sigurinn eftir tvo tapleiki í síðustu umferðum og sagði sigurinn gríðarlega mikilvægan fyrir ÍR-liðið.
,,Sigurinn var mikilvægur fyrir andann í liðinu og þá sérstaklega þegar vantar hjartað í liðið, Sveinbjörn Claessen, og besta sóknarmanninn, Jimmy Bartolotta," sagði Níels og kvaðst sáttur með fjögur stig eftir fjórar umferðir.
 
,,Við byrjum á hörku leikjum, töpum fyrir nýliðum Þórs sem eru með gott lið og svo vita allir stærð Grindvíkinga en með sigri á Snæfell og vera 2-2 í deildinni eftir fjórar umferðir er áægtt með menn í meiðslum."
 
Hvað áttu von á að svona sigur geri fyrir hópinn?
,,Þetta þjappar hópnum saman, þegar vantar tvo svona sterka leikmenn þá axla aðrir meiri ábyrgð og það verða allir orðnir sterkari og betri þegar Jimmy og Sveinbjörn koma inn," sagði Níels og viðurkenndi að ÍR-ingar hefðu verið full gestrisnir í upphafi leiks.
 
,,Það var kjaftshögg að fá á sig 35 stig í fyrsta leikhluta og þetta var hreint ekki vel gert af Hólmurum, hélt ég þekkti þá betur en þetta," sagði Níels í léttum tón. ,,Annars skora þeir bara 45 stig í næstu þremur leikhlutum svo það er ekki hægt að vera annað en sáttur.
 
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells kvaðst alls ekki ósáttur við sína menn í kvöld þó vissulega væri grautfúlt að tapa.
 
,,Við fórum í svona ,,comfort zone" í fyrsta leikhluta og spiluðum gríðarlega vel á öllum vígstöðfum og skiptum hraustlega inn á völlinn, það voru allir klárir en svo töpum við 29-11 í öðrum leikhluta," sagði Ingi og talaði um að Snæfellsliðið hefði orðið bensínlaust á lokasprettinum.
 
,,Mér fannst vanta villur undir körfunni í lokin og í staðinn koma ÍR-ingar með hraðaupphlaup í bakið á okkur, þetta var bara svoleiðis leikur og mér fannst hann fara frá okkur þegar ÍR nær að sprengja upp vörnina okkar með boltum á veiku hliðina og setja niður tvo til þrjá þrista. Þá var komin smá brekka hjá okkur en við hættum ekki og áttum smá séns hér í lokin en urðum bara bensínlausir," sagði Ingi sem er að innleiða Marquis Hall í stöðu leikstjórnanda eftir að félagið lét Brandon Cotton fara.
 
,,Ég er alls ekki ósáttur við liðið í kvöld, við sýndum að við erum stutt komnir í því sem við erum að gera, erum eiginlega á byrjunarreit en við börðumst svo ég er þokkalega ánægður en ég er aldrei ánægður með tap, bara grautfúll yfir því."
 
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson: Níels fór mikinn í Hellinum í kvöld
 

27.10.2011 05:27

UEFA framlag í yngriflokkastarf

UEFA hefur ákveðið, líkt og áður, að hluti af þeim tekjum sem sambandið hafði af Meistaradeild UEFA (Champions League) 2010/2011 skuli renna til félaga í öllum aðildarlöndum UEFA til eflingar knattspyrnu barna- og unglinga.  Uppgjör vegna Meistaradeildarinnar sem lauk vorið 2011 hefur nú farið fram og fá íslensk félög um 43 milljónir króna í sinn hlut til barna- og unglingastarfs.  Samkvæmt ákvörðun UEFA skulu öll framlög vegna Meistaradeildar UEFA til barna - og unglingastarfs renna til félaga í efstu deild.  Framlag UEFA skiptist því á milli félaga í Pepsi-deild karla.

Stjórn KSÍ hefur samþykkt að leggja til um 45 milljónir króna til viðbótar sem skiptist á milli aðildarfélaga í öðrum deildum og utan deilda en skipting á framlagi til barna - og unglingastarfs verður þá með þeim hætti að félög úr Pepsi-deild fá kr. 3.620.000 sem er framlag UEFA,  félög úr 1. deild fá kr. 1.600.000 , félög í 2. deild karla fá kr. 1.100.000 hvert, önnur félög í deildarkeppni kr. 800.000 og félög utan deildarkeppni kr. 250.000.  Úthlutun er háð því að félög haldi úti starfsemi í yngri flokkum og skulu félög utan deildarkeppni og félög sem ekki halda úti starfsemi hjá báðum kynjum sækja sérstaklega um framlag.

Greiðslan til félaganna skal renna óskipt til eflingar knattspyrnu barna og unglinga frá yngstu iðkendum til og með 2. aldursflokks karla og kvenna.  Samtals er því framlag til barna- og unglingastarfs fyrir árið 2011 áætlað um 90 milljónir króna.

Félögin á Snæfellsnesi fá samkvæmt þessu 3.200.000kr sem skiptist þannig

Víkingur  1.600.000

Snæfell  og UMFG  800.000 hvort félag


26.10.2011 22:43

Opið hjá Skotgrund á fimmtudag

Æfingasvæðið opið á fimmtudaginn - upphitun fyrir rjúpuna

Við erum að stefna að því að hittast á fimmtudaginn og brjóta nokkrar dúfur.  Smá upphitun fyrir rjúpnaveiðina (fyrir þá sem fara á rúpu).  Nánari tímasetning verður auglýst síðar en einnig verður hægt að fylgjast með umræðunni á facebook síðu félagsins.  Við vonumst til að sjá sem flesta, allir velkomnir, ÞÚ líka!
Skrifað af JP

26.10.2011 22:33

Uppskeruhátíð Snæfellings

Uppskeruhátíð Snæfellings verður haldinn á Innri-Kóngsbakka í Helgafellssveit

föstudaginn 11. nóvember,kl 19.30 svo þið megið fara að taka daginn frá.

Það verður grillveisla og maturinn á hagstæðu verði.

 

Nánar verður þetta auglýst þegar nær dregur.

En þið megið fara að finna lopapeysuna.

 

Við erum á fullu að safna vinningum fyrir happdrættið sem verður á Uppskeruhátíðinni

Þeir sem vilja koma vinningum til okkar fyrir happdrættið mega hafa samband  í

netfangið herborgs@hive.is eða síma 893 1584

eða gunnar@logos.is  sími 860 2337

ef þið lumið á skemmtiatriði fyrir uppskeruhátíðina, eins ef hesteigendafélögin vilja komi með  atriði

þá endilega látið okkur vita.

 

Veitt verða verðlaun fyrir hæst dæmdu kynbótahross ársins og einnig verða knapar verðlaunaðir.

Þeir sem hafa verið að láta dæma hjá sér hross á árinu mega koma upplýsingum um dómana til Didda Odds

netfangið dodds@simnet.is  eða í síma 861 4966

26.10.2011 22:30

Úrslit foladasýningarinnar

Foladasýningin gekk vel og vorum við bara ánægð með mætinguna.Eiríkur setti inn fullt af myndum sem hann tók á sýningunni og þökkum við honum kærlega fyrir það, þarna sjást allskonar útfærslur af því hvernig skuli sýna folöld svo þau komist á verðlaunapall.

Úrslitin 
Hryssur

Her er Jara frá Brimilsvöllum


1. 
Jara frá Brimilsvöllum, jörp
Móðir:  Yrpa frá Brimilsvöllum
Faðir;  Breki frá Brimilsvöllum
Eigandi Gunnar Tryggvason

2.
Gola frá Bjarnarhöfn, ljósjörp
Móðir:  Rjúpa frá Bjarnarhöfn
Faðir:  Dofri frá Steinnesi.
Eigandi Herborg Sigurðardóttir

3. 
Aska frá Grundarfirði, brún
Móðir:  Fluga frá Gundarfirði
Faðir:  Dofri frá Steinnesi
Eigandi Tinna Mjöll Guðmundsdóttir

4.
Eilíf frá Stykkishólmi
Móðir:  Tígla frá Stykkishólmi
Faðir:  Dagur frá Smáhömrum  ll
Eigandi Sæþór Þorbergsson

5.
Sveifla frá Hrísdal, rauðstjörnótt
Móðir:  Sigurrós frá Strandarhjáleigu
Faðir:  Seiður frá Flugumýri ll
Eigandi Hrísdalsdhestar

Hestar


Hér er Kjarval frá Hellnafelli

1.
Kjarval frá Hellnafelli, rauðstjörnóttur
Móðir:  Snilld frá Hellnafelli
Faðir:  Kjarni frá Þjóðólfshaga
Eigandi Kolla og Diddi

2.
Röðull frá Söðulsholti, rauður með halastjörnu
Móðir:  Lipurtá frá Söðulsholti
Faðir:  Ábóti frá Söðulsholti
Eigandi Söðulsholt

3.
Kjölur frá Hrísdal,  rauðstjörnóttur
Móðir: Þófta frá Hólum
Faðir:  Sveinn-Hervar frá Þúfu
Eigandi Hrísdalshestar

4.
Skírnir frá Kverná,  móálóttur, tvístjörnóttur
Móðir: Dögg frá Kverná
Faðir:  Álffinnur frá Syðri Gegnishólum
Eigandi Rúnar Þór, Ragnar Jóhannsson og Guðfinna Jóhannsdóttir

5.
Dagur frá Kóngsbakka, leirljós
Móðir: Dís frá Reykhólum
Faðir:  Máttur frá Leirulæk
Eigandi Lárus Hannesson

6.
Byr frá Brimilsvöllum, jarp stjörnóttur
Móðir:  Kviða frá Brimilsvöllum
Faðir:  Breki frá Brimilsvöllum
Eigandi Gunnar Tryggvason


Folald sýningarinnar valið af áhorfendumDagur frá Kóngsbakka, leirljós
Móðir: Dís frá Reykhólum
Faðir:  Máttur frá Leirulæk
Eigandi Lárus Hannesson


Rekstrarstjórinn og aðstoðarmaðurinn hans.


Hér er svo skrá yfir öll folöldin sem voru skráð

26.10.2011 21:30

Marquis Sheldon Hall til Snæfells


Marquis Sheldon Hall gengin til liðs við Snæfell

Snæfell frá Stykkishólmi hafa ráðið leikstjórnandann Marquis Sheldon Hall og mun hann leika með þeim gegn ÍR-ingum annað kvöld í Seljaskóla þegar liðin mætast klukkan 19:15.  Marquis er um 180 cm og lék hann með LeHigh háskólanum í bandaríkjunum.  Marquis lék á síðasta tímabili með Aalborg í dönsku deildinni þar sem hann þótti standa sig gríðarlega vel og var eftirsóttur. 

 


24.10.2011 10:05

Snæfell tapaði í vesturbænum

úr leik Snæfells og Hauka

Eini leikur kvöldsins í Iceland Express deild kvenna fór fram í vesturbæ Reykjavíkur þar sem heimastúlkur í KR tóku á móti Snæfelli.  Fyrir leikinn skipuðu þessi lið tvö efstu sæti deildarinnar og því von á hörkuleik. 

Snæfellskonur komu sterkar til leiks og létu finna fyrir sér.  Gestirnir komust í 6-0 og héldu KR-ingum vel í skefjum.  Svart-hvítar voru þó aldrei langt undan og hleyptu Hólmurum aldrei of langt fram úr.  Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 13-16, gestunum í vil og allt útlit fyrir toppleik.

Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta og í þeim fyrsta.  Snæfell var skrefi á undan lengst af , en eftir fjölmargar tilraunir KR-stúlkna tókst þeim loks að jafna leikinn í stöðunni 34-34 og komust að lokum yfir eftir flautu-sniðskot frá Reyönu Colson.  Staðan 36-34 í hálfleik og allt í járnum.

Eftir sjóðheitar flatbökur í hálfleik virtust liðin hafa skipt um hlutverk.  Nú var það KR sem var alltaf skrefinu á undan, og með góðu framlagi frá Reyönu og Margréti Köru náðu þær upp ágætis forskoti.  Leikur Snæfells liðsins datt aðeins niður um miðbik leikhlutans og það nýttu heimastúlkur sér ágætlega og héldu forskoti sínu við 10 stigin.  Staðan fyrir lokafjórðunginn var 60-50, en leikurinn svo sannarlega ekki búinn.

Hólmarar urðu fyrir nokkru áfalli í upphafi fjórða leikhluta þegar Ingi Þór Steinþórsson fékk sína aðra tæknivillu í leiknum, fyrir fremur litlar sakir að því er virtist, og þurfti því að skunda upp í stúku.  KR stelpur tóku við þetta öll völd á vellinum um stundarhríð og Reyana Colson fór á kostum bæði í sókn og vörn.  Í stöðunni 67-54 tóku Hólmarar svo leikhlé til að reyna að ná festu í sinn leik.  Það tókst ágætlega, og gestirnir tóku að saxa mjög á forskot vesturbæinga, og þegar 20 sekúndur lifðu af leiknum skildu einungis 4 stig liðin að.  Nær komust gestirnir þó ekki og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Margrét Kara Sturludóttir innsigluðu sigur KR í nokkuð kaflaskiptum leik. 

Reyana Colson var stigahæst KR-inga í leiknum með 29 stig auk 9 frákasta og Sigrún Sjöfn kom næst með góða tvennu, 20 stig og 10 fráköst.  Hjá gestunum var Kieraah Marlow stigahæst með 23 stig og Alda Leif Jónsdóttir bætti við 16.

 

Texti:  Elías Karl Guðmundsson


23.10.2011 09:06

Valsstúlkum dæmdur sigur á Snæfell

Úrskurður aga- og úrskurðanefndar


Aga- og úrskurðanefnd KKÍ barst kæra eftir leik Vals og Snæfells í Iceland Express-deild kvenna þann 12. október síðastliðin.

Snæfell hafði betur í leiknum 70:79.

Valur kærði úrslit leiksins á þeim forsendum að einn leikmaður Snæfells, Kieraah Marlow, væri ekki með leikheimild í upphafi leiks.

Aga- og úrskurðanefnd hefur dæmt í málinu og hlýtur Valur sigur í umræddum leik 20-0.

Sjá allan dóminn hérna.

23.10.2011 08:55

Mostri vann Patrek sannfærandi

Mostramenn ferskir á heimavelli
22 10 2011

Mostramenn ferskir á heimavelli

 
Mostri Stykkishólmi mætti Patreki sem skipað er brottfluttum Patreksfirðingum í höfuðborginni en íþróttafélag Patreksfirðinga á Patró heitir Hörður ykkur til upplýsinga. Mostri í Stykkishólmi tók því á móti Patreki eftir að hafa unnið síðasta leik með 42 stigum gegn Heklu í 2. deild. Þetta var leikur kattarins að músinni þar sem Patreksmenn komust illa og lítið inní leikinn og staðan 39-24 í hálfleik.
Leikurinn fór 75-55 fyrir Mostra en Patrekur átti fína spretti inn á milli þess sem Mostramenn slökuðu á taumnum en þeir náðu aldrei að færa það sér í nyt. Mostramenn hlupu fljótt á Patreksmenn og komumst í 20 stiga mun í seinni hálfleik og í fjórða hluta var mest beðið eftir að nýja klukkan í íþróttahúsinu í Hólminum sem var vígð í þessum leik, teldi niður í lokaflautið. Nokkuð af áhorfendum var á leiknum og greinilega ekki körfuboltasvelti í Stykkishólmi. Óskar Hjartarson átti flottann leik fyrir Mostra með 17 stig, 10 fráköst, 10 stoðsendingar.
 
Stigahæstir hja Mostra:
Þorbergur Sæþórsson 22 stig og 10 fráköst. Óskar Hjartarson 17 stig, 10 fráköst, 10 stoðsendingar, Árni Ásgeirsson 12 stig, 13 fráköst, Gulli 10 stig, 7 fráköst, 9 stoðsendingar.
 
Stigahæstir hjá Patrek:
Víkingur 16 stig. Ólafur Long 9 stig. Óli Ingi 9 stig.
 

22.10.2011 16:00

Snæfell tapaði í Þorlákshöfn

Þór stal sigri í lokin

Þórsarar í Þorlákshöfn stálu sigri í lokin eftir að hafa verið undir 78-83 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Darrin Govens setti þá þrist og kom Þr nær 81-83 og svo tvo til þegar þeir jafna 83-83 þegar um hálf mínúta var eftir. Leikhlé var þegar 11 sekúndur voru eftir og kláraði Marko Latinovic svo dæmið úr lay-up 85-83 og naumt tap Snæfells í jöfnum leik.

 


Þór var yfir í upphafi leiks eftir fyrsta hluta 18-14 en Snæfell herti á tökunum og jafnaði 21-21 og komust yfir i kjölfarið. Leikurinn var jafn og skemmtilegur og staðan í hálfleik 41-41. Liðin skiptust á að skora og var munurinn varla meiri en 6 stig til eða frá. Staðan var 64-68 fyrir Snæfell eftir þriðja hluta sem héldu því að vera yfir mest yfir fjórða hlutann en létu sigurinn renna sér úr greipum í lokin. 

 

Það er alveg ljóst að það er flott og skemmtileg deild sem bíður okkar í vetur og ekki farið í einn einasta leik með gefinn sigur fyrirfram.

 
 
Hjá Snæfelli var Brandon Cotton með 35 stig og enga stoðsendingu. Pálmi 13/4 stoð.
Nonni 9/9 frák/4 stoð. Quincy Cole 8/14 frák og hitti einungis úr 2 af 10 úr tveggja stiga skotum sínum.
 
 
Hjá Þór var Darrin Govens gerði 27 stig og gaf 5 stoðsendingar. Guðmundur Jónsson 16/5 frák/4 stoð og setti 4 of stóra þrista á okkur. Darri Hilmarsson 13 stig.

 

Nánari tölfræði leiksins

22.10.2011 15:58

Ungl.fl. kvenna hjá Snæfell.


Stelpurnar í unglingaflokki léku sinn fyrsta leik gegn Keflavík á heimavelli mánudaginn 17. október.  Liðin mættust einmitt í úrslitaleik á síðasta tímabili þar sem mjótt var á munum.

 


Snæfellsstúlkur sem voru án Berglindar Gunnarsdóttur sem gekk undir aðgerð á hné í síðustu viku hófu leikinn af krafti og leiddu 9-4 og 19-12 eftir fyrsta leikhluta.  Björg Guðrún sem á við meiðsli að stríða lék leikinn og smellti tveimur þristum í lok leikhlutans. 

 

Keflavíkurstúlkur sem eru með efnilegt lið náðu að jafna leikinn og mikil barátta í gangi, staðan í hálfleik 31-31.  Snæfellsstúlkur náðu undir lok þriðja leikhluta 45-36 forystu og héldu henni þar til í stöðunni 52-47.  Þá komur sex stig í röð frá Keflavík sem komust yfir 52-53. Sara Mjöll Magnúsdóttir villaði út og munaði heldur betur um hana.

 

Lokamínúturnar voru mjög spennandi og fengu stelpurnar flott tækifæri til að komast yfir á ný en fóru illa með góð færi.  Keflavíkurstúlkur með Telmu í fararbroddi sigu framúr á lokaskrefinu og tryggðu sér sigurinn og var breiddin þeim drjúg á lokametrunum.  Lokatölur 58-60.


 
Stigaskor Snæfells: Hildur Björg Kjartansdóttir 18 stig, Björg Guðrún Einarsdóttir 15, Ellen Alfa Högnadóttir 11, Sara Mjöll Magnúsdóttir 8, Rebekka Rán Karlsdóttir 4, Aníta Rún Sæþórsdóttir 2 og Silja Davíðsdóttir 0.

 

Stigaskor Keflavíkur: Telma Ásgeirsdóttir og Sara Hinriksdóttir 14 stig, Soffía Sigurðardóttir 11, Aníta Viðarsdóttir 9, Sigrún Alberts 7, Katrín Jóhanns 3 en þær Lovísa Fals, Helena Árna, Birta Jóns, Sandra Lind, Rán Eysteins og Bríet Hinriks 0.


 
Næsti leikur stúlknanna í unglingaflokk er gegn Val þriðjudaginn 25. október í Vodafonehöllinni.

 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31