Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Janúar

27.01.2012 08:53

Snæfell vann KR

Úrslit: Snæfell kvittaði fyrir bikartapið í DHL-Höllinni
26 01 2012 | 21:09

Úrslit: Snæfell kvittaði fyrir bikartapið í DHL-Höllinni

Í kvöld hófst þrettánda umferðin í Iceland Express deild karla þar sem allra augu beindust að viðureign KR og Snæfells en liðin mættust einmitt á mánudag þar sem KR sló Hólmara út í Poweradebikarkeppninni. Í kvöld komu Ingi Þór Steinþórsson og lærisveinar fram hefndum með 93-94 sigri í enn einum spennuslag þessara liða.

 
KR-Snæfell 93-94 (22-20, 31-22, 18-28, 22-24)
 
KR: Joshua Brown 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Robert Lavon Ferguson 17/14 fráköst, Finnur Atli Magnusson 16/9 fráköst, Dejan Sencanski 14/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 11, Martin Hermannsson 7, Ólafur Már Ægisson 3, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Páll Fannar Helgason 0, Kristófer Acox 0, Jón Orri Kristjánsson 0.
 
Snæfell: Quincy Hankins-Cole 27/7 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 22/9 fráköst/5 stoðsendingar, Marquis Sheldon Hall 17/5 stoðsendingar, Hafþór Ingi Gunnarsson 9, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 6/6 fráköst, Sveinn Arnar Davidsson 6/5 fráköst, Ólafur Torfason 4, Óskar Hjartarson 3, Magnús Ingi Hjálmarsson 0, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Snjólfur Björnsson 0, Daníel A. Kazmi 0.
 

24.01.2012 10:16

Snæfell féll út í tvíframlengdum leik


Joshua Brown tryggði KR í kvöld farseðilinn inn í undanúrslit Poweradebikarkeppninnar eftir 111-104 sigur KR gegn Snæfell í tvíframlengdum háspennuleik. Brown gerði 49 stig í leiknum og þegar í harðbakkanna sló tók hann KR liðið á bakið og bar það í átt að sigri, mögnuð frammistaða hjá þessum áræðna leikstjórnanda. Áður en leikurinn hófst var mínútu þögn til minningar um knattspyrnumanninn Sigurstein Gíslason sem nýverið féll frá eftir erfið veikindi en Sigursteinn gerði garðinn m.a. frægan með KR á sínum tíma og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með klúbbnum. Sigursteinn gekk í raðir KR árið 1999 en þá varð liðið bæði Íslands- og bikarmeistari í knattspyrnu.
 
Heimamenn í KR byrjuðu betur og léku þétta vörn, lítið var skorað á upphafsmínútunum en það fóru þó að detta körfur og KR tók frumkvæðið 6-0. Ingi Þór splæsti þá í leikhlé fyrir Hólmara sem komu út með fimm stig í röð en þá tók KR aftur á rás, mættu með 7-0 áhlaup og staðan 13-5. Dejan Sencanski kom KR svo í 26-15 með þriggja stiga körfu og röndóttir leiddu síðan 27-17 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Hafþór Gunnarsson og Ólafur Torfason létu vel að sér kveða í liði gestanna í öðrum leikhluta þar sem Snæfell skoraði 30 stig gegn 18 frá KR og leiddu gestirnir því 44-46 í leikhléi. Jón Ólafur Jónsson var daufur í dálkinn í fyrri hálfleik í liði Snæfells og skoraði sín fyrstu stig eftir 15 mínútna leik. Robert Ferguson var að stríða stóru leikmönnum Snæfells og dró þá vel út úr teignum og setti m.a. tvo þrista í leikhlutanum en það voru þó Hólmarar sem leiddu.

Ferguson var með 12 stig hjá KR í hálfleik og þeir Brown og Sencanski 10. Hjá Snæfell voru Hafþór og Marquis Hall báðir með 11 stig.

 
Nýting liðanna í hálfleik:
KR: 48% í teignum, 33,3% í þriggja og 46,1% í vítum
Snæfell: 70% í teignum, 22,2% í þriggja og 72,7% í vítum

KR opnaði þriðja leikhluta 10-0 og mættu með flotta vörn inn í síðari hálfleikinn. Snæfell gekk illa að finna leið upp að körfu KR og þeir Jón Ólafur Jónsson og Quincy Hankins-Cole fengu báðir sína fjórðu villu í þriðja leikhluta.

Með hverri mínútunni í þriðja leikhluta hitnaði undir Brown leikstjórnanda KR og lokaði hann þriðja leikhluta með flautukörfu uppi á lyklinum og KR leiddi 66-61 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Marquis Hall átti góða kafla hjá Snæfell í kvöld og minnkaði muninn í 68-64 með þriggja stiga körfu og voru það hans fyrstu stig í síðari hálfleik. KR náði snemma tíu stiga forskoti en Hólmarar létu ekki stinga sig af, Ferguson fór af velli í liði KR með fimm villur en þrátt fyrir hans fjarveru var KR ávallt við stjórnartaumana.

Það var ekki fyrr en undir lok fjórða leikhluta sem Snæfell færðist nær, Brown reyndi hvað hann gat til að halda Hólmurum fjarri og aðrir KR-ingar voru í nokkru áhorfendahlutverki með þá Ferguson og Sencanski á bekknum með fimm villur en sá síðarnefndi fór skömmu á eftir Ferguson á tréverkið.
 
Brown kom KR í 83-77 þegar 1.25mín. voru til leiksloka, hér hrökk í gang magnaður kafli hjá KR, Quincy fær villu og víti að auki, 83-80 og skömmu síðar vippar stóri maðurinn sér upp fyrir utan þriggja og jafnar 83-83! KR hélt í sókn en Quincy ver skot frá Finni Atla en næsta sókn Hólmara var illa ígrunduð og því varð að framlengja.
 
Snæfell lék svæðisvörn í framlengingunni enda hafði maður á mann vörnin ekki virkað mikið gegn Brown sem skyldi alla eftir í reyk. Jón Ólafur minnkaði muninn í 88-87 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka og Pálmi Freyr kom gestunum svo yfir 88-89 á vítalínunni. Næsta KR sókn vildi ekki verða að körfu og brotið var á Pálma sem kom Snæfell í 88-91 þegar 13 sekúndur voru til leiksloka. Títtnefndur Brown brunaði þá yfir völlinn og setti gríðarlega erfiðan og myndarlegan dreifbýlisþrist og jafnaði metin 91-91 þegar 5 sekúndur voru eftir af framlengingunni. Snæfell tókst ekki að nýta tímann til að gera út um leikinn og því varð að framlengja á nýjan leik þökk sé svakalegri frammistöðu hjá Brown.

 Í stöðunni 95-94 í seinni framlengingunni nennti Brown þessu ekki lengur og tók málin ennfrekar í sínar hendur. Kappin fór hér á kostum, kom KR í 97-94, næst 99-94 með tveimur vítum og svo 101-94 með gegnumbroti og maðurinn skoraði í öllum regnbogans litum! Lokatölur reyndust 111-104 KR í vil og KR-ingar geta þakkað Brown fyrir að liðið verði með í næsta bikardrætti enda lygileg frammistaða hjá kappanum sem fékk 44 framlagsstig fyrir sína vasklegu framgöngu í kvöld. Martin Hermannsson var einnig traustur á lokasprettinum og fékk ansi vænar mínútur í reynslubankann.


 
Myndasafn frá leiknum á Karfan.is


 

22.01.2012 20:03

Ótrúlegar tölur í sigri á Fjölni

Snæfell í undanúrslit eftir sigur á Fjölni

Kieraah Marlow skoraði 32 stig fyrir Snæfell í dag. stækka

Kieraah Marlow skoraði 32 stig fyrir Snæfell í dag. mbl.is/Golli

Snæfell komst í dag í undanúrlit í Poweradebikar kvenna í körfuknattleik með stórsigri á Fjölni, 90:45, í Grafarvoginum.

Lokatölurnar voru í raun ótrúlegar því að loknum fyrri hálfleik var staðan 47:36 fyrir gestina úr Stykkishólmi. Fjölnir skoraði hins vegar 9 stig í síðari hálfleik og er úr leik í bikarkeppninni. 

Brittney Jones skoraði 30 stig fyrir Fjölni eða 2/3 af stigum liðsins í leiknum. Keiraah Marlow skoraði 32 stig fyrir Snæfell og Alda Leif Jónsdóttir 19 stig.

19.01.2012 22:43

UMFÍ auglýsir eftir mótshaldar ULM 2015

Umsóknir óskast um að halda 18. Unglingalandsmót UMFÍ 2015

ulm_2015Ungmennafélag Íslands óskar eftir umsóknum frá sambandsaðilum og sveitarstjórnum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 18. Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður 2015.


Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð haldin um verslunarmannahelgina ár hvert. Keppt er í fjölda íþróttagreina í aldursflokknum 11-18 ára. Á Unglingalandsmótum er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Unglingalandsmót UMFÍ hafa á undanförnum árum hlotið góðar við tökur hjá fjölskyldufólki jafnt sem ungu fólki, enda góður kostur sem heilbrigð skemmtun um mestu ferðahelgi ársins. Unglingalandsmót UMFÍ 2012 verður haldið á Selfossi, 2013 á Höfn og 2014 á Sauðárkróki.


Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið mikil lyftistöng fyrir bæjarfélögin þar sem þau hafa verið haldin og hleypt lífi í innra starf þeirra félaga sem komið hafa að framkvæmd mótanna.


Umsóknum um að halda 18. Unglingalandsmót UMFÍ 2015 skal skilað til Þjónustumiðstöðvar UMFÍ, Sigtúni 42, 104 Reykjavík fyrir 30. júní 2012.

19.01.2012 22:03

Snæfell með auðveldan sigur á Haukum

Tilþrifalítið í Snæfellssigri.


Haukar mættu alls tíu í Stykkishólm til að mæta Snæfelli í 12.umferð Iceland express deildar karla. Nýji leikmaður Hauka Aleek Joseph Pauline sat hjá og var í borgarlegum klæðnaði að sinni en hann fékk högg á hné á sinni fyrstu æfingu en einnig var Sævar Ingi Haraldson var fjarri góðu gamni. Hjá Snæfelli voru allir þokkalegir.Liðin virkuðu bæði frekar köld og lengi í gang og þá sérstaklega í oft mistækum sóknum sínum en varnarleikurinn var ágætur beggja megin. Staðan var 7-7 þegar 2 mínútur voru eftir og lítið markvert á meðan liðin voru að fóta sig í leiknum nema að Jón Ólafur hjá Snæfelli hafði fengið tæknivillu vegna mótmæla örlítið fyrr í leiknum. Snæfell komst fljótt í 12-7 og svo 14-9 en staðan eftir fyrsta leikhluta var 14-10 fyrir heimamenn í Hólminum.


Pétur ákvað að taka leikhlé fljótt í öðrum hluta þegar Snæfell voru komnir yfir í 20-10 og lítil sem engin hreyfing á Haukum í áttina að koma sér í leikinn. Emil Barja kom Haukum nær 25-21 eftir góðann þrist og meira flæði kom í leik þeirra. Haukur Óskarsson bætti einum til í stöðuna 28-26 og Haukar gerði góða atlögu að Snæfelli sem var að ströggla í sóknum sínum og hittu illa og átti alls ekki góða kafla í vörninni um stund. Hálfleikstölur voru 34-30 fyrir Snæfelli í voðalega ósannfærandi leik á köflum hjá öllum á vellinum. Leikurinn virkaði tilþrifalítill og tómur á köflum og áferðafallegur var hann aldrei.


Hjá Snæfelli var Quincy Cole kominn með 9 stig og 6 fráköst honum næstur var Sveinn Arnar með 7 stig. Í liði Hauka var Haukur Óskarsson búinn að fleyta liðinu ágætalega með 10 stig og með honum í fleytingum var Emil Barja með 8 stig og 7 fráköst en Chris Smith hafði einnig tekið 7 fráköst.


Pálmi Freyr kom sterkur inn í seinni hálfleikinn og setti tvo þrista og Quincy bætti einum til fyrir Snæfell og staðan fljótt 45-36 fyrir Snæfell. Í stöðunni 49-40 hrukku Haukar í gang í nokkrum sóknum sínum og löguðu stöðuna 49-46 með Hayward Fain fremstann í flokki. Kaflaskil voru í þriðja hluta þegar Snæfell stökk svo frá Haukum aftur og komust í 60-48 þar sem skotin duttu heldur betur og þetta staðan fyrir lokafjórðunginn en Marquis Hall setti svip sinn á leik Snæfells í þriðja hluta líkt og Fain hjá Haukum.


Fjórði hluti hófst líkt og sá fyrsti lítið skorað, hittni slök, mistök og mikið hnoð eða hörð bárátta ef það á að kallað það eitthvað og eiginlega stundum leiðinlegt að horfa á satt best að segja. Leikurinn einkenndist samt af hörku. Sveinn Arnar setti flott þrjú stig og staðan varð 72-56 fyrir Snæfelli sem höfðu aðeins verið að fikra sig frá en Haukur Óskars svaraði fyrir Hauka strax. Haukur og Christopher fóru svo útaf með fimm villur undir lokin hjá Haukum. Snæfell sigldi sigrinum í land þrátt fyrir fína baráttu Hauka, 80-70 þar sem Quincy Cole átti loka hnikkinn með háloftatroðslu eftir sendingu frá Sveini Arnari.

 

Tölfræði leiksins

 

19.01.2012 21:59

Naumt tap í hörkuleik

KR hefndi í Hólminum í hörkuleik

KR mætti úr veðurofsanum í Hólminn en þar var rjómablíða að vanda. Snæfellsstúlkur tóku þar á móti þeim og voru fyrir leikinn í 5. sætinu með 16 stig en KR í 4. með 18 stig.


KR byrjaði yfir 0-6 og Snæfell strögglaði í sóknum sínum svo að Ingi Þór splæsti í leikhlé í stöðunni 2-6. Það virtist gefa Snæfelli spark og Helga Hjördís setti strax þrjú stig og meira líf færðist í leikinn og Snæfell stigi á eftir 7-8. Erica Prosser setti einn sjóðheitann þrist og staðan 7-13 fyrir KR og þær höfðu skrefin framar Snæfelli fram undir lok hlutans þegar staðan var 14-17 en Alda Leif setti þá einn á flautunni og jafnaði 17-17 en Alda var einkar drjúg Snæfellsmegin.

 


Snæfell komst strax í 24-17 með mikilli baráttu og þáðu fráköstin með þökkkum eftir að sóknir KR runnu út í sandinn hvað eftir annað. Vörn KR var ósannfærandi og hæg þegar Snæfell komst í  27-19 og hreyfðu boltann vel í sókninni. Anna María Ævarsdóttir kom einum þrust í netið strax eftir leikhlé KR en Hildur Sig svaraði strax á móti og staðan 30-22 fyrir Snæfell undir miðjann annann leikhluta. Með þrist frá Sigrúnu Sjöfn og stolnum bolta í næstu sókn með auðveldu sniðskoti frá Erica Prosser fikraði KR sig aðeins nær 33-27. Snæfell hélt þó forystunni í hálfleik 38-31.


Í hálfleik í liði Snæfells var Alda Leif komin með 11 stig og Hildur Sigurðardóttir 8 stig og 7 stoðsendingar. Þeim næst var Kieraah Marlow með 6 stig og 8 fráköst. Hjá KR var Bryndís Guðmundsdóttir þeirra hressust með 10 stig og Erica Prosser henni næst með 9 stig.


Snæfell komst í 40-31 í upphafi þriðja hluta en KR saxaði á það fljótt 40-36 þar sem Sigrún Sjöfn setti þrjú. Þrátt fyrir að Snæfell héldi forkotinu yfir þriðja hluta jafnaði KR 45-45 og komust svo yfir 45-46 með vítaskotum Hafrúnar Hálfdánardóttur en sóknir Snæfells voru líkt og hjá KR í fyrri hálfleik skotin duttu ekki í netið. Anna María setti þrist á síðustu sekúndu þriðja hluta sem gaf KR forystu 48-49 og leikurinn jafn og spennandi.

 

 

 

Anna María var sjóðheit utan þriggja stiga línunnar og setti sinn þriðja af þremur fyrir 50-52 KR í vil. Liðin skiptust á að skora og um miðjann fjórða hluta var staðan 53-56 fyrir KR og allt í járnum. Helga Hjörís átti flottann þrist til að jafna fyrir Snæfell 58-58 þegar um 3 mínútur voru eftir og átti hún fínann kafla og eftir mikið þref og vesen í sóknum Snæfells jafnaði hún aftur með þrist 63-63 og staðan var 65-65 þegar 30 sekúndur voru eftir.


Sigrún Sjöfn setti þá tvö + víti í 65-68 og 20 sek. Staðan var 66-68 þegar 5.6 sekúndur voru eftir og Margrét Kara klikkaði á sniðskoti og braut á Kieraah Marlow og Snæfell fékk innkast á miðjum sínm vallarhelmingi en eftir tvo sénsa frá Hildi og Hildi í Snæfelli á að fá boltann niður í netið þá skoppaði boltinn af og tíminn rann út með 66-68 fyrir KR á töflunni sem tóku sigurinn með sér heim í þessari umferð og Snæfell grátlega nærri að tryggja sér framlengingu en mikið stuð þegar þessi lið mætasta.

 

 

 

Tölfræði leiksins


16.01.2012 14:14

Vorannarfjarnám ÍSÍ í þjálfaramenntun!


Vorannarfjarnám 1. stigs þjálfaramenntunar ÍSÍ mun hefjast mánudaginn 6. febrúar nk. og tekur það átta vikur.  Um er að ræða samtals 60 kennslustunda nám eða sem samsvarar öllu 1. stiginu,1a, 1b og 1c.  Námið er almennur hluti þjálfaramenntunar ÍSÍ og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  Skráning er á namskeid@isi.is eða í síma 514-4000 og þarf henni að vera lokið fyrir fimmtudaginn 2. febrúar. Með skráningu þarf að fylgja fullt nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer.  Rétt til þátttöku hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.  

Þetta nám er metið sem ÍÞF 1024 í framhaldsskólum.

Allar nánari uppl. um fjarnámið og aðra þjálfaramenntun ÍSÍ gefur sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs í síma 460-1467 eða á vidar@isi.is   

Með bestu kveðju,

Viðar Sigurjónsson
Sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ.

16.01.2012 14:11

Reiðnámskeið

Reiðnámskeið í Söðulsholti

4 pláss laus á reiðnámskeiðið með Sölva!!!!

Reiðnámskeið helgina 28-29 Jan. Kennari verður Sölvi Sigurðsson, en hann hefur m,a stundað reiðkennslu við Háskólann á Hólum.

Kennt verður í einkatímum 20 mín tvisvar á dag og mælt er með að fólk fylgist með hinum meðan á kennslu stendur. Helgin kostar 18.000 á mann og innfalið er geymsla fyrir hrossið, kaffi og kökur en viljum biðja fólk um að taka með sér nesti í hádegismat, einnig er hægt að fá nýta eldunaraðstöðuna sem er til staðar. Skráning og nánari upplýsingar í 8995625 eða sodulsholt@sodulsholt.is

Með kveðju

 

Dóri og Iðunn.
Söðulsholt

16.01.2012 11:34

Keppnisknapinn

Námskeið

Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands býður upp á fimm helga námskeið fyrir keppendur í íþrótta- og gæðingamótum. Fjórar markvissar kennsluhelgar auk fimmtu helgarinnar þar sem undirbúin er sýning og tekið þátt í formlegu móti.


Námskeiðið Keppnisknapinn er hugsað fyrir þá sem vilja auka færni sína og reynslu í algengustu keppnisgreinum íslenska hestsins.  Farið verður í þjálfun keppnishestsins, hvernig hann er sem best undirbúinn fyrir hinar ýmsu keppnisgreinar og hvernig sýningar eru útfærðar á árangursríkan hátt. Skilgreindar verða sterkar og veikar hliðar hvers hests og knapa auk þess sem líkamlegt ástand hestsins verður skoðað allt námskeiðið. Kennslan er einstaklingsmiðuð, en lögð áhersla á að nemar fylgist með hver öðrum. Í gegnum allt ferlið verður hugað að markmiðum og þjálfunarstigi hestsins.


Yfirumsjón og aðalkennari er afrekskeppnisknapinn og reiðkennarinn Sigurður Sigurðarson. Auk þess koma að kennslunni Lárus Ástmar Hannesson, formaður Gæðingadómarafélagsins og Gunnar Reynisson, sérfræðingur við LbhÍ.


Vakin skal athygli á því að ekki er nauðsynlegt að vera með þjálfaðan keppnishest á námskeiðinu en hesturinn þarf  að vera mikið taminn og gangtegundir nokkuð hreinar.  Námskeiðið verður keyrt samhliða námskeiði fyrir hestadómara og nokkuð verður um sameiginleigar kennslu- og æfingastundir þessara tveggja námskeiðshópa (með fyrirvara um breytingar).


Staður og stund: Hestamiðstöð LbhÍ á Miðfossum, 3.-4. febrúar, 17.-18. febrúar, 16.-17. mars, 30.-31. mars og 27.-28. apríl. Tími frá 15:00-22:00 föstudaga, 9:00-18:30 laugardaga. Síðasta helgin verður styttir (86 kennslustundir).


Verð: 123.000.-  (Kennsla, gögn, veitingar, bás og fóður)


Hægt er að leita eftir gistingu á Hvanneyri með sameiginlegri eldhúsaðstöðu gisting@lbhi.is(Lárus)


Skráning: endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000 fram komi nafn, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.


Staðfestingargjald: Staðfesta þarf skráningu með því að millifæra 18.000 kr (óafturkræft) á reikninginn 0354-26-4237, kt. 411204-3590. Senda kvittun á endurmenntun@lbhi.is


Skráningarendurmenntun@lbhi.is (fram komi nafn, kennitala, heimili, sími og nafn námskeiðs) eða hafa samband í síma: 433 5000

16.01.2012 11:32

Hestadómarinn

Gæðingadómarafélag LH og Íþróttadómarafélag LH, í samstarfi við Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands, bjóða upp á námskeiðið Hestadómarinn.

Nám þetta er fyrst og fremst hugsað fyrir starfandi íþrótta- og gæðingadómara og fólk sem hyggst gerast dómarar en getur einnig nýst víðum hópi áhugasamra hestamanna. Námskeiðið er tilvalið fyrir starfandi dómara til að dýpka þekkingu sína á hestinum og eflast í sínum störfum. Þeir sem hafa hug á að ná sér í dómararéttindi seinna meir fá þarna góðan grunn. Ræktendur fá innsýn í hvað og hvernig hestar eru metnir og einnig er gott að öðlast þekkingu á dómstörfum til að geta metið sína eigin hesta eða aðstoðað keppnisknapa. Þannig á þetta námskeið á að nýtast breytum hópi fólks.

Námskeiðið er röð af fjórum helgarnámskeiðum. Námið er sambland af staðarnámi og fjarnámi - nemendur fá verkefni til að vinna á milli helga. Rauði þráðurinn í gegnum allt námskeiðið verður þjálfun í dómum hverrar gangtegundar. Mikilvæg atriði verða samhliða tekin fyrir með fyrirlestrum og sýnikennslum, þau eru meðal annars:

 

  • Saga keppnisgreina og saga reiðmennskunnar
  • Dómkvarðar sem hafðir eru að leiðarljósi við dóma á hrossum í íþrótta- og gæðingakeppni.
  • Gangtegundir íslenska hestsins - fagurfræði gangtegundanna
  • Hugtakanotkun við mat á hrossum
  • Þjálfunarfræði og hreyfingafræði
  • Bygging hesta og tengsl við virkni í reið - líkamsbeiting hestsins
  • Atferlisfræði
  • Áseta og stjórnun
  • Taumsamband, höfuðburður og reising - Beislabúnaður og notkun hans

 

Kennarar koma frá fræðslunefndum Íþrótta- og Gæðingadómarafélaganna auk þess sem Mette Mannseth, reiðkennari og knapi, Benedikt Líndal tamningameistari, Gunnar Reynisson, kennari við LbhÍ og Lárus Ástmar Hannesson, gæðingadómari munu koma að kennslunni.  

 

Námskeiðið verður keyrt samhliða námskeiði fyrir keppnisknapa og nokkuð verður um sameiginleigar kennslu- og æfingastundir þessara tveggja námskeiðshópa (með fyrirvara um breytingar).

 

Staður og stund: Hestamiðstöð LbhÍ á Miðfossum, 3.-4. febrúar, 17.-18. febrúar, 16.-18. mars, 30.-31. mars og 28. apríl. Tími frá 15:00-20:00 föstudaga, 9:00-18:30 laugardaga og einn sunnudag frá 10:00-15:00 (72 kennslustundir). Valfrjáls æfingdagur verður í tengslum við mót 28. apríl.

 

Verð: 86.000.-  (Kennsla, gögn, veitingar)

 Hægt er að leita eftir gistingu á Hvanneyri með sameiginlegri eldhúsaðstöðu gisting@lbhi.is(Lárus)

 

Skráning: endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000 fram komi nafn, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.

 

Staðfestingargjald: Staðfesta þarf skráningu með því að millifæra 20.000 kr (óafturkræft) á reikninginn 0354-26-4237, kt. 411204-3590. Senda kvittun á endurmenntun@lbhi.is

 

Skráningarendurmenntun@lbhi.is (fram komi nafn, kennitala, heimili, sími og nafn námskeiðs) eða hafa samband í síma: 433 5000


Upplýsingar um námið veitir Lárus Ástmar Hannesson s: 898 0548 -larusha@simnet.is


16.01.2012 10:25

Snæfell í 8-liða úrslit í unglingaflokki kvenna

Snæfell í 8-liða úrslit í unglingaflokki kvenna
15 01 2012

Snæfell í 8-liða úrslit í unglingaflokki kvenna

Grindavíkurstúlkur léku í Hólminum í 16 liða úrslitum í bikarkeppni unglingaflokks kvenna síðasta föstudag og voru heimastúlkur búnar að endurheimta Berglindi Gunnarsdóttur úr meiðslum fyrir leikinn. Heimastúlkur byrjuðu leikinn af krafti og leiddu 17-0 áður en fyrsta stigið kom hjá Grindavíkurstúlkum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 25-10. 
Annar leikhluti var í járnum þrátt fyrir að Snæfell hafði náð 38-17 forystu og liðin skoruðu 15 stig hvort og staðan í hálfleik 40-25. Heimastúlkur fengu frítt framlag frá öllum í fyrri hálfleik og nýttu sér það inn í þriðja leikhlutann sem þær unnu 25-18 og leiddu 65-43. Sigurinn var aldrei í hættu en Rannveig hjá Grindavík sýndi fína spretti í fjórða leikhluta en öflugar Snæfellsstúlkur ætluðu sér áfram í bikarkeppninni og sigruðu 75-57.
 
 
Stigaskor leikmanna Snæfells: Hildur Björg Kjartansdóttir 23 stig, Sara Mjöll Magnúsdóttir 14, Ellen Alfa Högnadóttir 13, Björg Guðrún Einarsdóttir 12, Berglind Gunnarsdóttir 11 og Rebekka Rán Karlsdóttir 2. Aníta Rún Sæþórsdóttir og Silja Katrín Davíðsdóttir léku en náðu ekki að skora.
 
 
Stigaskor Grindavíkurstúlkna: Rannveig Bjarnadóttir 17 stig, Jeanne Lois Sicat 10, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 9, Jóhanna Styrmisdóttir 8, Mary Jean Sicat 6, Katrín Rúnarsdóttir 4 og Ingibjörg Sigurðardóttir 3. Julia Lane Sicat náði ekki að skora.
 
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson
  

16.01.2012 10:24

Nonni Mæju 3 stigameistari

Stjörnuleikur KKÍ - samantekt
14 01 2012 | 18:40

Stjörnuleikur KKÍ - samantekt

Stjörnuleikur KKÍ fór fram í Dalhúsum í dag þar sem margt var um manninn og mikið að sjá.  Keppt var um titil troðslumeistara, þriggajstigaskyttu og hvort landsbyggðin eða höfuðborgarsvæðið hefði úr meiri hæfileikum að moða.  

Það fór þannig að Jón Ólafur Jónsson, einnig þekktur sem Nonni Mæju, vann þriggjastiga keppnina.  Nonni fékk 13 stig eða einu stigi meira en liðsfélagi sinn, Pálmi Sigurgeirsson sem var í öðru sæti.  

Quincy Hankins-Cole vann troðslukeppnina eftir einvígi við heimamanninn Nathan Walkup.  Hankins-Cole var vel að titlinum kominn og lét ekki þar við standa heldur sýndi oftar en ekki stórkostlegar troðslur í stjörnuleiknum sjálfum. 

 

Stjörnuleikurinn var einkennileg útgáfa af íþróttinni sem við elskum eins og venja ber.  Engum datt í hug að spila vörn fyrr en undir lok leiksins og fengu áhorfendur því að sjá skemmtileg tilþrif í bland við hlaup fram og til baka.  Darren Govens, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn virtist finna sig virkilega vel með troðslumeistaranum Hankins-Cole en þeir félagar áttu líklega 4-5 bestu tilþrif leiksins saman.  Hvort sem þeir hentu boltanum í spjaldið eða gólfið áður en hinn tróð þá tókst þeim alltaf að gera það mikilfenglegri máta en troðslan á undan.  Ólafur Ólafsson áttu nokkrar skemmtilegar tilraunir í leiknum þó þær hefðu ekki allar gengið að óskum, hann tók sig því til og skipti sér útaf tvisvar í leiknum til þess að safna kröfum í næstu tilraun.  Það skilaði honum einu af tilþrifum leiksins þegar hann blockaði þriggja stiga skot Robert Jarvis aðeins sentimetrum frá hringnum.  Góðir dómarar leiksins litu sem betur fer framhjá hefðbundnum reglum leiksins og fjörið hélt áfram.  

 

Mikilvægasti leikmaður stjörnuleiksins var Nathan Walkup en hann skoraði 20 stig í leiknum og átti mjög góðan leik í annars mjög jöfnu liði Höfuðborgarsvæðisins  Hayward Fain, leikmaður Hauka var hins vegar stigahæstur í liðinu með 22 stig.  Í liði Landsbyggðarinnar var Darren Govens lang stigahæstur með 41 stig en næstur var Quincy Hankins-Cole með 18 stig og líklega öll úr glæsilegum troðslum.  

 

Mynd:  www.kki.is

16.01.2012 10:22

Quincy Gatoradeleikmaður 10. umferðar

Quincy Gatoradeleikmaður 10. umferðar hjá Karfan.is

 

 

Karfan.is velur Gatoradeleikmann hverrar umferðar og fer það ekki endilega eftir hæsta framlagi umferðarinnar en auðvitað er horft til þess. Tilþrif og allskonar óvæntir þættir koma einnig við sögu en pennar, ljósmyndarar og aðstandendur Karfan.is greiða atkvæði og skiptast á skoðunum varðandi þá sem tilnefndir eru í hverri umferð.

 

09.01.2012 11:33

2 sæti í futsal staðreynd, aftur

Futsal: ÍBV - Víkingur  5-0

08. janúar 2012 klukkan 20:23
Futsal
Úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.

Víkingur  - ÍBV    0-5  (0-2)


Í dag átti Vikingur  helmingsmöguleika á að krækja sér í Íslandsmeistaratitil. Möguleikarnir fólust í því að leggja Pepsídeildarlið ÍBV að velli. Það tókst ekki í þetta sinn og er þetta annað árið í röð sem við spilum til úrslita í Futsal og bíðum lægri hlut. Þetta er svekkjandi og þá sértaklega í fyrra þegar við vorum betri aðilinn.  dag vorum við slakari aðilinn. Við náðum okkur ekki á strik og það var eiginlega ekki fyrr en við vorum orðnir 0-5 undir að maður fór þekkja liðið sitt. Þá spiluðu Víkingarnir eins og ég vildi að þeir gerðu allan leik. En þessi leikur er búinn og næsta verkefni er útiboltinn. Ejub sagði mér að hann stefndi að því að spila allt að fjóra æfingaleiki fram að fyrsta leik gegn KR í Lengjubikanum þann 18.febrúar n.k. Einnig sagði hann mér það að aðalvandræði liðsins væru það að hvergi væri hægt að æfa nema í íþróttahúsinu vegna mikilla snjóa. Og þó snjórinn væri ekki vantaði samt æfingaaðstöðu yfir vetrarmánuðina. Það vantar knattspyrnuhús á Snæfellsnesið.
En snúum okkur að leiknum. Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti og fljótlega sást að þeir lögðu aðaláhersluna á þétta vörn og þeir vörðust aftarlega. Albert Sævarsson stóð í markinu hjá þeim og var þrælsterkur en tókst honum að halda hreinu. Einhvernveginn fannst manni vera taugaspenna í Víkingsliðinu en leikmenn ÍBV spiluðu afslappaðra. Víkingsliðið hefur alltaf spilað betur en í dag og hugsanlega er skýringin sú að það var heill Íslandsmeistaratitill í húfi. Titill sem kannski Eyjamenn fannst ekki mikill titill en við þráðum. 

Fyrsta mark leiksins kom eftir aukaspyrnu sem þaut í gegnum allt og í netið. Annað markið var slysalegt svo ekki sé mikið sagt. Þá atvikaðist það að Einar markvörður fékk boltann útá velli og sendi boltann að marki en Albert markvörður greip hann og sparkaði honum rakleiðis beint í markið hinumegin. Skelfilegt að horfa á þetta marki. En Víkingunum gekk illa að brjóta vörn ÍBV á bak aftur og það var ekki fyrr en á lokasekúndum fyrri hálfleiks að Víkingur fékk víti á 11 metrunum (þau víti eru dæmd þegar annað liðið brýtur af sér í sjötta skiptið í sama hálfleik). Eldar Masic fór á punktinn og þrumaði boltanum öfugu megin við stöngina og framhjá. Staðan því í hálfleik 2-0 fyrir ÍBV. Í fyrri hálfleik fékk Tryggvi Guðmundsson ÍBV tvö gul spjöld og þar með rautt og spilaði hann því ekki nema 14 mínútur í þessum leik. Það dugði okkur ekki til að skora þó við værum einum fleiri í 2 mínútur.

Seinni hálfleikur byrjaði skelfilega fyrir okkur því á fyrstu 3 mínútunum fengum við á okkur tvö mörk og skyndilega var staðan orðin 4-0 fyrir ÍBV. Fyrra mark þeirra gerði Þórarinn Ingi Valdimarsson með þrumuskoti útvið stöng og seinna markið var slysalegt. Þá breytti laus bolti um stefnu og lullaði undir Einar og rétt innfyrir línuna. Fimmta mark ÍBV kom um stuttu seinna eftir vel útfærða skyndisókn. Staðan orðin 5-0 og þá loksins small Víkings  liðið í gang og átti restina af leiknum án þess að ná að skora framhjá Alberti markverði ÍBV sem átti stórleik.

Víkingur varð fyrir áfalli fljótlega í leiknum þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson meiddist og gat ekki spilað meira. Hinum megin átti okkar fyrrum samherji Brynjar Gauti Guðjónsson stórleik. Hann ásamt Alberti voru bestu menn vallarins.

Bloggsíðan helgik.bloggar.is óskar ÍBV til hamingju með þennan sigur og þá sérstaklega þeim Magga Gylfa og Brynjari Gauta okkar fyrrum samherjum.

Reyni að setja myndir af liðinu og fleiru inná Facebook seinna í kvöld.

Þessir skipuðu lið Víkings . Einar Hjörleifsson, Jón Haukur Hilmarsson, Edin Besljia, Eldar Masic, Tómasz Luba, Ragnar Smári Guðmundsson, Alfreð Már Hjaltalín, Heimir Þór Ásgeirsson, Kristinn Magnús Pétursson, Fannar Hilmarsson, Dominik Bajda, Guðmundur Magnússon og Guðmundur Steinn Hafsteinsson.

Helgi Kristjánsson

09.01.2012 11:31

Víkingur í úrslit futsal

Futsal: Víkingur - Leiknir R. 4 - 3

07. janúar 2012 klukkan 18:07
Á morgun getur Víkingur  orðið Íslandsmeistari í fyrsta sinn í innanhúsfótbolta, því í dag steig liðið stórt skref í þá átt með því að leggja lið Leiknis R að velli með fjórum mörkum gegn þremur í undanúrslitunum.

Víkingur  sem stillti upp mjög sterku liði þar sem þeir Edin Beslija og Eldar Masic voru mættir til leiks byrjaði þennan leik af krafti og náði frumkvæðinu fljótlega. Byrjunarliðið var Einar Hjörleifsson, Tomasz Luba, Edin Beslija, Guðmundur Magnússon og Guðmundur Steinn Hafsteinsson.  Samt var leikurinn mjög jafn en Víkingur  var að fá flest færin. En áhorfendur þurftu að bíða dágóðan tíma eftir fyrsta markinu og það kom í seinni hluta fyrri hálfleiks þegar Tomasz Luba skoraði 1-0 fyrir okkur af miklu harðfylgi. Það liðu ekki mjög margar mínútur þar til Eldar Masic jók forystuna í 2-0. Þannig var staðan í leikhléi. Fljótlega í seinni hálfleik lét Ejub hann Dominik Bajda inná og það var hann sem bætti þriðja markinu við eftir að Einar Hjörleifsson sendi stórkostlega sendingu til hans þar sem sendingin minnti á golfhögg með miklum bakspuna. Boltinn fór nefnilega fram fyrir Dominik og kom siðan til baka með miklum bakspuna og eftirleikurinn var auðveldur fyrir hann sem þrumaði boltanum efst í vinstra hornið og staðan orðin 3-0. Á þessum tímapunkti var maður farinn að eyja úrslitaleikinn en leikir eru ekki búnir fyrr en dómarinn flautar af og það sannaðist í þetta skipti. Leiknismenn náðu nefnilega að skora gott mark og strax í næstu sókn gerðu þeir annað og skyndilega var Leiknisliðið komið í gang og til alls líklegir. En Dominik var ekki á því að láta þá jafna því hann gerði sér lítið fyrir og þegar hann fékk boltann fyrir miðju marki rétt utan teigs lét hann vaða á markið og boltinn steinlá inni, efst í hægra horninu og staðan orðin 4-2 fyrir okkur. En þetta var ekki búið. Leiknir R fékk aukaspyrnu útá kanti sem undir eðlilegum kringumstæðum ætti að vera hættulítil en ekki í þetta sinn, því einn þeirra gerir sér lítið fyrir og þrumar boltanum í netið við nærstöng. Einhvernveginn fannst mér það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta mark og staðan orðinn 4-3 og allt undir. Alveg undir lok leiksins verður Guðmundi Steini það á að brjóta af sér og Leiknir R fær víti af 11 metrunum. Spyrnan er tekin og hafnar í þverslánni. Annað vítið sem Leiknir misnotaði í leiknum. Hitt kom í fyrri hálfleik í stöðunni 2-0 og fór "kílómeter" framhjá.

Þessi sigur okkar er virkilega ánægjulegur. Annað árið í röð sem við spilum til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Í fyrra tapaðist úrslitaleikurinn frekar ósanngjarnt fyrir Fjölni 2-3. Nú er lag og með sigri tryggir liðið sér þátttökurétt í Evrópukeppninni í Futsal næsta sumar. Í fyrsta sinn í sögu Vikings sem Evrópusæti ynnist.

Með ÍBV spilar okkar fyrrum leikmaður Brynjar Gauti Guðjónsson og þjálfari þeirra er Ólafsvíkingurinn Magnús Gylfason og þar með er hægt að segja að á morgun verða að minnsta kosti tveir Ólsarar (eða einn Ólsari og einn úr Breiðuvíkurhrepp)  Íslandsmeistarar .

Leikurinn á morgun hefst kl. 14.00 í Laugardalshöllinni og er frítt inn. Mætum öll, bæði til að hittast og hvetja liðið til sigurs. ÁFRAM VÍKINGUR

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31