Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Febrúar

28.02.2012 15:27

Góður árangur hjá stelpunum í futsal

Stelpurnar okkar í Futsal


 Laugardaginn 18. febrúar fór fram úrslitakeppni í 3. flokki kvenna í Futsal á Hvolsvelli. Þáttökuliðin voru Snæfellsnes, Breiðablik, Valur, Tindastóll, ÍBV og Fylkir. Stelpurnar okkar töpuðu fyrsta leiknum við Breiðablik en gerðu svo jafntefli við Val. Þessi úrslit þýddu það að Snæfellsnes komst í undanúrslit á hagstæðari markatölu en Valur. Í undanúrslitum var leikið við ÍBV og tapaðist sá leikur. ÍBV komst því í úrslitaleikinn en tapaði gegn Breiðablik. Snæfellsnes spilaði því um þriðja sætið þar sem Snæfellsnes vann Tindastól 5-0. Sannanlega glæsilegur árangur hjá stelpunum. Fylkir vann svo Val í leik um 5. sætið. Þjálfari Snæfellsnesstúlknanna er Björn Sólmar Valgeirsson.

28.02.2012 15:26

Sundmót í Ólafsvík

Vinamót í sundi


 Föstudaginn 10. febrúar var haldið vinamót í sundlauginni í Ólafsvík. Þar kepptu saman sundiðkendur Snæfellsbæjar og Stykkishólms. Keppendur voru á aldrinum 7 - 13 ára og kepptu í bringu-, bak-, skrið- og fjórsundi. Mótið gekk vel fyrir sig og að móti loknu fengu allir keppendur þátttöku viðurkenningu og veitingar. Styrktaraðilar mótsins voru: Landsbankinn hf., Söluskálinn ÓK, Valafell ehf. og Þín verslun Kassinn og eru þeim sendar kærar þakkir fyrir stuðninginn.

26.02.2012 23:33

Til hamingju stúlkur


Eftir stórleik gegn Val sigraði Snæfell 58-61 þar sem Berglind Gunnarsdóttir var valin leikmaður leiksins.

Glæsilegur árangur hjá stúlkunum og óskum við þeim innilega til hamingju með bikarinn.

 

Umfjöllun hérna af karfan.is

24.02.2012 15:20

Tap gegn Stjörnunni

Snæfell missti niður fína forystu

 

Stjörnumenn byrjuðu á fyrstu fimm stigum leiksins þar með töldum góðum þrist frá Marvin en Sveinn Arnar tók þá næstu fimm fyrir Snæfell og staðan 5-5 í upphafi. Þaðan stökk Snæfell af stað og komst í 17-8 þar sem Quincy sýndi tvær troðslur aðra eftir stolinn bolta og eina með "alley-oop". Stjörnumenn virkuðu einbeittir fyrst mínúturnar en sóknarleikur hökti nokkuð fljótlega og var lítið flæði þar sem Snæfellsmenn tóku svo fráköstinn og stálu boltum.Marquis stoppaði Justin mjög vel og Sveinn Arnar var einkar harður í vörninni. Þegar Stjarnan nálgaðist 19-14 tók Snæfell sig til og komst í 29-14 með þristum frá Ólafi og Marquis og eina troðslu frá Quincy og var það staðan eftir fyrsta hluta og ótrúlega linir Stjörnumenn mættir í Hólminn en Keith Cothran var þeirra hressastur.

 Snæfell hafði tekið 15-0 í 32-14 og gott forskot strax í upphafi annars hluta . Stjörnumenn fóru að síga nær með betri vörn og Snæfellsmenn voru óskipulagðir í sóknum sínum. Stjarnan komst nær 39-26 og virtust ætla að taka góð áhlaup. Snæfell hélt þó sjó en tæknivillur á Renato hjá Stjörnunni og Nonna Mæju hjá Snæfelli vegna mótmæla litu dagsins ljós. Ekki komust Stjörnumenn að gera sér mat úr áhlaupunum þrátt fyrir tilraunir og Snæfell hélt forystunni í hálfleik 49-36.Í hálfleik voru þeir frændur Quincy og Marquis með 13 stig hvor og Sveinn Arnar 8 stig hjá Snæfelli. Hjá Stjörnunni var Keith Cothran með 12 stig. Justin og Renato voru með 8 stig hvor. Marvin Valdimarsson var farin útaf meiddur eftir samstuð í fyrri hálfleik en virtist ekki alvarlegt þó hann kæmi ekki meira inn á.

 

 


Snæfell mátti hafa sig alla við í uppahafi seinni hálfleiks en Stjarnan sótti á með þrist frá Fannari Frey 52-43 og Snæfellsmenn voru við svæðið vörninni. Nonni Mæju lagaði stöðuna með þremur til svars 55-43. Jovan Zdravevski kom þá sterkur inn með þrist og víti í kaupbæti. Renato og Keith bættu við fjórum og Stjörnumenn höfðu unnið sig uppí þriggja stiga mun 55-52 þar sem þeir voru að stela boltum og spila feikna góða vörn.Líkt og taflið hefði algjörlega snúist við og Stjarnan vann þriðja hluta 20-12. Snæfell misstu ekki hausinn og héldu forystunni 61-56 fyrir fjórða fjórðung en leikurinn var orðinn jafnari og skemmtilegur.Þegar tveimur stigum munaði á liðnum 61-59 í upphafi fjórða hluta fékk Pálmi Freyr að líta tæknivillu fyrir mótmæli og Justin jafnaði á línunni 61-61 og Stjarnan fékk boltann sem færði Jovan hann í hendur og þristurinn steinlá 61-64. Quincy fékk svo sína 5. villu í tæknivillurformi en lítið virtist svigrúmið hjá dómurum leiksins en Snæfell voru farnir að einbeita sér minna að leiknum og meira að pirra sig á því að Stjarnan fengu að berja sig áfram án refsinga.

 Stjörnumenn komust yfir 64-70 og munaði heldur betur um Jovan Zdravevski sem minnti á sig og er gríðalega miklvægur hlekkur í Stjörnukeðjunni. Nonni fékk sína fimmtu villu um miðjann leikhlutann og Stjarnan yfir 68-71 og Sveinn Arnar fór sömu leið stuttu seinna. Stjörnumenn nýttu sér að Snæfell veiktist við þetta og komust í 68-75 sem Snæfell vann reyndar upp 75-77 með hörku vörn og fjórum stigum frá Ólafi Torfasyni.Ólafur átti svo stolinn bolta þegar um mínúta var eftir en Snæfell nýtti ekki sóknir sínar og Óli þurfti að brjóta með 13 sekúndur eftir og fékk sína fimmtu villu. Keith setti niður tvö víti og staðan 75-79. Jovan setti svo lokastigið af vítalíunni fyrir Stjörnuna sem sigruðu 75-80, náðu að snúa leiknum sér í hag og ná mikilvægum sigri.

 

Tölfræði leiksinsSnæfell:
Ólafur Torfason 15/7 frák. Sveinn Arnar Davíðsson 13/5 frák. Quincy Cole 13/5 frák/5 stoðs/4 stolnir. Marquis Hall 13/5 frák. Jón Ólafur Jónsson 8/4 frák. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 7/8 frák/4 stoðs. Hafþór Ingi Gunnarsson 6. Þorbergur Helgi Sæþórsson 0. Óskar Hjartarson 0. Magnús Hjálmarsson 0. Snjólfur Björnsson 0.


Stjarnan:
Keith Cothran 19/6 frák. Justin Shouse 18/6 frák/7 stoðs. Renato Lindmets 13/11 frák/5 stoðs. Jovan Zdravevski 12. Fannar Freyr Helgason 8. Guðjón Lárusson 6/5 frák. Marvin Valdimarsson 3. Dagur Kár Jónsson 1. Magnús Bjarki Guðmundsson 0. Sigurbjörn Ottó Björnsson 0.    Punktar:

    Quincy Hankins Cole og Marquis Hall hjá Snæfelli skoruðu ekki stig í seinni hálfleik.
    Fjórir leikmenn Snæfells fóru útaf með fimm villur í fjórða hluta.
    Þrjár tæknivillur fór á Snæfell fyrir mótmæli en ein á Stjörnuna í leiknum.
    Stjarnan átti 17% nýtingu í þristum 3 af 18 en Snæfell 32% 10 af 31.
    Jovan Zdravevski átti tvo af þristunum þremur á einkar mikilvægum kafla.
    Snæfell heldur 6. sætinu en Stjarnan fer úr 4. í 2. sætið eftir leikinn.
    Dómarar voru Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson

Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.
Myndir: Þorsteinn Eyþórsson.

 

23.02.2012 07:29

Háspennuleikur í hólminum

100.000 volt í Hólminum: Snæfell pressar á úrslitakeppnissætið.Snæfell komust í 24 stig í deildinni eftir 77-75 sigur á Haukum í æsispennandi leik í Hólminum og eru nú jafnar KR og Haukum sem raðast í þriðja, fjórða og fimmta sætið í Iceland express deild kvenna. Þessi þrjú lið eru í mikilli baráttu um fjórða sætið og hafa Snæfellsstúlkur sótt fast að.Alda Leif opnaði reikninginn í leiknum með þriggja stig körfu og Snæfell komst í 5-2 en Haukar jöfnuðu 5-5. Leikurinn var jafn í fyrsta hluta og liðin skiptust á að skora en í stöðunni 13-12 fyrir Snæfell tóku Haukar góðar sóknir og komust fljótt í 13-18 og svo 15-22.  Íris Sverrisdóttir hélt uppi sóknarleik Hauka það sem af var ásamt Jence Ann Rhoads en Haukar leiddu 18-25 eftir fyrsta leikhluta.Snæfellsstúlkur létu ekki brjóta sig á bak aftur heldu héldu í Hauka sem voru þó skrefinu framar í öðrum hluta eða leiddu mest um 5 stig 22-27 en þá tók við rúmmur tveggja mínútna kafli í skot sem klikkuðu og varnarfráköst á víxl hjá báðum liðum. Það endaði með því að Kieraah Marlow smellti tveimur vítum niður og Björg Guðrún skellti þrist og Snæfell jafnaði 27-27.


Mikið spennandi og jafn leikur í boði á fjölunum í Stykkishólmi en eftir tæknivillu á Kieraah Marlow sem braut á Hope Elam komust Haukastúlkur yfir undir lok fyrru hálfleiks og staðan naum 35-38 fyrir Hauka.

 

 


Í hálfleik voru hjá Snæfelli Kieraah með 9 stig, Jordan 8 stig og Alda Leif 7 stig. Hjá Haukum var Íris Sverrisdóttir búin að vera gríðalega drjúg ogvar komin með 16 stig og næst henni var Jence Ann Rhoads með 8 stig og Hope Elam 6 stig.Í þriðja hluta skiptist þetta í tvennt. Haukar héldu áfram að slíta sig frá Snæfelli sem virtust áttavilltar og ragar í sóknum sínum, vörnin gegnlek, Ingi Þór uppskar tæknivillu og Haukar komust í 10 stiga mun 39-49 og virtust allhressara liðið á vellinum og ekki skánaði útlitið þegar Hildur Sigurðardóttir lá meidd eftir á ökkla og var ekki meira með eftir miðjan þriðja hluta, þegar Ingi Þór bar hana í fangi sér að bekknum, en hún komst ekki á stigablaðið í leiknum.


Snæfell lagaði varnarleikinn og með góðri svæðisvörn lokuðu þær á Hauka sem klikkuðu á langskotum og sendu leikmenn Snæfells oft á vítalínuna sem skilaði gríðalega góðum stigum í hús fyrir þær. Jordan og Hildur Björg rifu niður öll laus fráköst og gáfu í.Hope Elam fékk tæknivillu fyrir að fagna ákaft að dæmt var á Hildi Björgu sem braut á Írisi Sverrisdóttur í þriggja stiga skoti. Íris setti tvö niður og Alda setti bæði niður vegna tæknivillunnar. Dýrt fagn þar fyrir Hauka þar sem staðan varð 56-57 og Snæfell náði að brúa gjánna sem hafði myndast en Jordan Murphree kom sjóðheit með stemminguna undir lok þriðja hluta og setti þrjú stig sem kom Snæfelli yfir 59-57 og kláraði tvö víti niður sem skilaði Snæfelli forystu 61-59 fyrir lokafjórðunginn.Hátt í tvær fyrstu mínúturnar fóru mest í að Snæfell dritaði á körfuna með engum árangri en hirtu fráköstin þó á meðan og Haukastúlkur horfðu á. Leikurinn fór þá að rúlla og 100.000 volt voru í salnum þar sem liðin voru að skiptast á að jafna og taka tveggja stiga forystu og algjörlega óþarft að virkja strauma Breiðafjarðar þegar svona leikir eru til staðar.

 Bæði lið reyndu nokkrar utan þriggja stiga línu með slökum árangri en þegar jafnt var 72-72 setti Kieraah niður tvö víti og staðan 74-72 sem Jence Rhoads jafnaði 74-74 en Kieraah kom Snæfelli í 76-74 áður en hún fór útaf með fimm villur og 20 sekúndur eftir en þetta var einungis þriðja liðsvilla Snæfells og ekki komin skotréttur.


María Lind hitti úr öðru víti sínu fyrir 76-75 og Björg Guðrún brunaði upp völlinn þar sem Guðrún Ámundardóttir braut óíþróttamannslegri villu og Björg setti annað vítið niður sem reyndist síðasta stig leiksins og Snæfell sigraði 77-75 en lokaskot Hauka frá Jence Ann Rhoads geigaði og þakið rifnaði af húsinu, svo einfalt er það.

 

Tölfræði leiksins


Snæfell:
Kieraah Marlow 26/8 frák. Jordan Murphree 21/10 frák/4 stoð/4 bolta náð. Alda Leif Jónsdóttir 11. Hildur Björg Kjartansdóttir 8/11 frák. Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5. Björg Guðrún Einarsdóttir 4. Ellen Alfa Högnadóttir 2. Hildur Sigurðardóttir 0. Berglind Gunnarsdóttir 0. Sara Mjöll Magnúsdóttir 0.


Haukar:
Íris Sverrisdóttir 24/6 frák. Hope Elam 16/9 frák/4 stoðs/3 boltum náð. Jence Ann Rhoads 16/8 stoðs. Guðrún Ósk Ámundardóttir 6. Margrét Rósa Hálfdánardóttir 6. María Lind Sigurðardóttir 3. Kristín Fjóla Reynisdótti 2. Auður Íris Ólafsdóttir 2. Sara Pálmadóttir 0. Ína Salóme Sturludóttir 0.  • Punktar:


    Snæfell var með lakari skotnýtingu eða 39% gegn 42% Hauka
    Það voru vítaskotin sem Snæfell nýtti vel en þær voru oft sendar á línuna og voru með 86% nýtingu 25 af 29 niður
    Haukar voru með 7 af 9 niður í vítum 78%
    3 tæknivillur og 1 óíþróttamannsleg villa komu upp í leiknum þar sem taugarnar voru þandar í mikilvægum leik fyrir bæði lið
    Dómarar voru þeir Halldór Geir Jensson og Kristinn ÓskarssonUmfjöllun: Símon B. Hjaltalín

Myndir: Þorsteinn Eyþórsson

 

21.02.2012 20:49

Stjórn LH í heimsókn á Snæfellsnesi

Fundur í HrísdalFundur með hestamönnum á Vesturlandi

Það var líf og fjör á fundi stjórnar Landssambands hestamannafélaga í hesthúsinu í Hrísdal á Snæfellsnesi á laugardaginn 11. febrúar.  Stjórn LH hafði verið á tveggja daga stjórnarfundi á Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi, þar sem unnið var í ýmsum málefnum samtakanna og venju samkvæmt var síðan fundað með hestamönnum á svæðinu í tengslum við stjórnarfundinn. Haraldur Þórarinsson formaður LH hélt framsögu og fór yfir þau mál sem helst brenna á hestamönnum í dag, auk þess að segja frá áherslum stjórnarinnar í störfum sínum á árinu.  Í framhaldi sköpuðust fjörugar umræður um reiðvegamál, en Vestlendingar telja sig hafa farið halloka í úthlutun reiðvegafjár undanfarin ár.  Einnig var rætt um, keppnismál, fasteignagjöld af hesthúsum og fleira. 


Í máli Haraldar kom fram að stjórn telur það mikið réttlætismál að hesthús verði í A-flokki við álagningu fasteignagjalda, hvar sem þau standa á landinu.  Ef hestaíþrótt eigi að njóta sannmælis í þéttbýlinu og haldi áfram að blómstra á landsvísu, verði að tryggja að auknir skattar verði ekki lagðir á hestamenn.  Hefur stjórn LH unnið markvisst að málinu og fól efnahags- og skattanefnd Alþingis innanríkisráðuneytinu að vinna frumvarp til breytinga á lögunum.


Haraldur gerði grein fyrir því að stjórnin hefði fallist á tillögu samgöngunefndar LH um breytingar á úthlutun reiðvegafjár.  Breytingin felur í sér að tiltekin fjárhæð verður tekin til hliðar af óskiptu reiðvegafé og notuð til úthlutunar til fjölfarinna ferðamannastaða og reiðleiða, svo sem í leiðina um Löngufjörur og sambærilegar leiðir.  Er þessi breyting til komin vegna athugasemda formanns Snæfellings til stjórnar LH og reiðveganefndar um hversu óréttlátt sé að minni félög á landsbyggðinni verji lunganu af sinni úthlutun til reiðvega í að halda við reiðleiðum fyrir ferðamenn, bæði íslenska og útlenda.


Einnig gerði Haraldur að umtalsefni þann gífurlega kostnað sem fellur á hestamannafélög á landsbyggðinni vegna ferðakostnaðar dómara.  Eru til skoðunar leiðir til að bregðast við þessu og hefur stjórn LH skipað starfshóp sem á að koma með hugmyndir að lausn vandans, t.d. með stofnun jöfnunarsjóðs sem greitt yrði í af öllum skráningum og sjóðurinn notaður til að greiða dómurum vegna ferðalaga í stað þess fyrirkomulags sem nú tíðkast.


Að lokum gerði Haraldur velferðarmál að umtalsefni og sagði frá nýskipaðri velferðarnefnd LH og helstu hagsmunaaðila í hestamennsku, en henni er ætlað að vinna út frá þeim rannsóknum og niðurstöðum sem til eru og lúta að velferð íslenska hestsins, bæði í keppni, almennri notkun og við hestahald.  Er ætlunin að svara þeirri gagnrýni sem upp hefur komið bæði innanlands og utan um velferð hesta á faglegan, uppbyggilegan og málefnalegan hátt.


Eftir framsöguna og svör stjórnarmanna úr sal tóku menn upp léttara hjal, gerðu sér  veitingar að góðu og skoðuðu efnileg ung hross og folöld í hesthúsi Gunnars Sturlusonar í Hrísdal.


21.02.2012 20:47

Titilvörn framundan hjá SnæfellsstúlkumSnæfell komst í úrslit í bikarkeppni unglingaflokks kvenna og geta því varið titilinn frá því í fyrra. Stúlkurnar sigruðu Hauka 60-46 í undanúrslitaleik í Stykkishólmi og spila allar nema ein sinn annan bikarúrslitaleik á viku, en þær spila einnig með meistaraflokki sem lék til úrslita um síðustu helgi.Snæfell var yfir eftir fyrsta leikhluta 15-11 en Haukar höfðu gefið í og jafnað 9-9 eftir fína byrjun Snæfells.

 


 

Annar leikhluti var klárlega banabiti fyrir Haukastúlkur sem skoruðu einungis þrjú stig gegn átján stigum Snæfells en Aníta Rún smellti fimm stigum í röð fyrir Snæfell sem fóru fljótt úr 17-14 í 33-14 og skoruðu 16-0 yfir mestann hluta annars fjórðungs og sú var staðan í hálfleik. Hildur Björg var að spila flottann leik í vörninni og tók nánast flest fráköst sem i boði voru.Í Snæfelli voru allar sjö að skila framlagi en stigahæstar voru Ellen Alfa 9. Hildur Björg 8 og 8 fráköst. Björg Guðrún 7.
Hjá Haukum voru þær Lovísa og Margrét búnar að skora 7 stig hvor og ljóst að liðið þyrfti að finna sig betur saman.

 


 

Eftir fimm mínútur af þriðja hluta voru liðin búin að skora lítið eða 3-4 fyrir Hauka og staðan 36-18 en í stöðunni 41-23 var um mínúta eftir og fór þá Haukavélin í gang og kraftur liðsins kom í ljós. Þær skoruðu 9-0 síðustu mínútuna og ætluðu ekki að gefa leikinn svo auðveldlega eftir þar sem þær Sólrún, Lovísa, Auður og Margrét tóku góðar sóknir og 9 stiga munur var fyrir lokafjórðunginn 41-32 fyrir Snæfell sem tapaði leikhlutanum 8-18.

 


 

Ellen Alfa setti í fimmta gírinn og skoraði 13 stig í fjórða hluta ásamt því að stela 4 boltum og var Haukunum gríðalega erfið í vörninni. Ellen smellti þrist straxí upphafi og Berglind Gunnars fylgdi henni með öðrum til áður en Ellen setti svo annan og staðan fljótt orðin 52-36 fyrir Snæfell. Haukar áttu þó fínann 9-0 sprett til að svara sterkri byrjun Snæfells í leikhlutanum úr 57-38 í 58-46.Klukkan tifaði þó á meðan eins og gengur og áhlaup sem slíkt kom of seint til að þær gætu gert leik úr þessu og Ellen bætti við tveimur stigum eftir stolinn bolta og Snæfell sigraði 60-46 og spila í úrslitum gegn Val.

 


 

Úrslitaleikurinn verður laugardaginn 25. febrúar kl 16:00 í Vodafonehöllinni þar sem bikarúrslit yngri flokka verða um helgina.

 


 

Snæfell:
Ellen Alfa 25/7 frák/5 stolnir. Hildur Björg 11/19 frák/6 stoðs. Björg Guðrún 7/6 frák/5 stoðs. Sara Mjöll 5/10 frák. Berglind Gunnarsd 5/3 frák. Aníta Rún 5/3 frák. Rebekka Rán 2.Haukar:
Margrét 15/4 frák/5 stoðs. Lovísa 11/12 frák. Sólrún 10/6 frák. Auður 8/4 frák/5 stolnir. Inga Dís 2/3 frák. Ína, Hafdís, Guðrún, Andrea, Kristjana og Eydís skoruðu ekki.Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín

Myndir: Þorsteinn Eyþórsson

 


20.02.2012 15:32

2 sætið staðreynd í bikarnum

Silfrið í okkar hlut og stúlkurnar á spjöld bikarsögu kvenna.

 

Snæfellsstúlkur fengu silfur eftir að hafa beðið lægri hlut í bikarúrslitaleik kvenna 84-77 gegn Njarðvík. Stúlkurnar mega vera stoltar af sínum árangri því ekki hefur kvennalið Snæfells farið áður í úrslitaleikinn í Höllinni og því komnar í nýjar hæðir á spjöldum bikarsögunnar.

 

Ekki verður farið nánar í leikinn hérna en set tengla hér fyrir neðan á umfjöllun frá karfan.is. Ljóst var þó að naumt var það undir lokin þar sem Snæfell gafst aldrei upp og gerðu þetta að alvöru bikarleik.

Þá ber að þakka glæsilegann stuðning og hvatningu okkar stuðningsfólks sem mætti og sýndi alvörutakta á áhorfendapöllunum, ómetanlegt. Þakkir einnig til allra styrktaraðila sem gáfu kraft í okkar starf í kringum þennan mikla viðburð hjá okkur.

 

Umfjöllun af karfan.is

Tölfræði leiksins af vef KKÍ

Myndasafn af karfan.is nr 1

Myndasafn af karfan.is nr 2

Myndasafn af karfan.is nr 3

Viðtöl á KarfanTv

 


 

-sbh-

Myndir: Þorsteinn Eyþórsson

17.02.2012 06:49

Fimmti sigur í röð

Snæfell sigraði í Njarðvík

 

Stelpurnar í unglingaflokki unnu sinn fimmta leik í röð í kvöld þegar þær heimsóttu Njarðvík í Ljónagryfjuna, lokatölur 64-73.  Hildur Björg Kjartansdóttir var stigahæst með 27 stig.


Berglind Gunnarsdóttir var í búning en var ekki leikfær, Björg Guðrún sem meiddist á hné var "teipuð" og var tilbúin að spila.  Stelpurnar voru átta mættar og ætluðu sér sigur til að eiga möguleikan á að komast í úrslitakeppnina, en fjögur efstu liðin leika í kross í lok tímabils.  Fyrir leikinn voru Njarðvík númer fjögur með tíu stig en Snæfell í fimmta sæti með átta stig.

 

Byrjunin var góð hjá Snæfell sem komust í 0-6 og 3-16, en Njarðvík hikstuðu gegn svæðisvörninni.  Hildur Björg stýrði liði Snæfells og leiddu Snæfell 13-20 í lok fyrsta leikhluta.  Njarðvík jöfnuðu leikinn 20-20 og komust yfir 23-22.  Mestri forystu náðu Njarðvík 30-26 en góður varnarleikur snéri taflinu við og magnaður kafli frá Hildi Björgu komu Snæfell í 32-35 áður en tvö víti fóru niður hjá heimastúlkum og staðan í hálfleik 34-35.  Rebekka Rán og Silja Katrín komu innaf bekknum en Silja snéri sig á ökkla og kom því lítið við sögu í leiknum.

 

Í þriðja leikhluta komu þrjár þriggja stiga körfur frá Björg Guðrúnu og Snæfell leiddu 40-49. Svæðisvörnin gaf eftir nokkur opin skot sem Njarðvík nýttu sér og var staðan í lok þriðja leikhluta 48-51.  Sara Mjöll og Ellen Alfa stigu uppí fjórða leikhluta og varnarleikurinn þéttist,  staðan 53-59 þegar þristur frá Njarðvík kom stöðunni í 56-59.  Hildur Björg náði þá sóknarfrákasti og jók muninn í 56-61. Björg Guðrún smellti svo stórum þrist og Sara Mjöll skoraði eftir flott samspil, staðan 58-66.  Ellen Alfa skoraði stórar körfur og innsiglaði sigurinn 64-73.

 

Stelpurnar stóðu sig mjög vel og náðu mjög góðum sigri, þær stóðust álagið og léku jafnan og góðan leik. 

 

Stigaskor Snæfells: Hildur Björg Kjartansdóttir 27, Björg Guðrún Einarsdóttir 18, Sara Mjöll Magnúsdóttir 15, Ellen Alfa Högnadóttir 11, Aníta Rún Sæþórsdóttir 2.  Rebekka Rán Karlsdóttir og Silja Katrín Davíðsdóttir léku en skoruðu ekki.

 

Stigaskor Njarðvíkur: Eyrún Líf Sigurðardóttir 15 stig, Ína María Einarsdóttir 8, Ásdís Freysdóttir, Sara Margeirsdóttir, Guðlaug Júlíusdóttir og Erna Hákonardóttir skoruðu allar 6, Aníta Carter og Andrea Ólafsdóttir 4, Marín Magnúsdóttir 3. Eygló Alexander og Guðbjörg Einars skoruðu ekki.

 

Næsti leikur hjá Snæfellsstúlkum er gegn Haukum í undanúrslitum bikarkeppni KKÍ, mánudaginn 20. Febrúar klukkan 20:00 í íþróttahúsinu í Stykkishólmi.

17.02.2012 06:36

Blakhelgi í Grundarfirði

Um síðustu helgi var mikið um að vera hjá blakkrökkum í Grundarfirði. Krakkar frá Aftureldingu komu í heimsókn til að spila  blak á laugardag og sunnudag. Krakkarnir sem komu voru 31 ásamt foreldrum og þjálfara.

Grundfirsku krakkarnir voru 22 á aldrinum 10-16 ára og var mikið um að vera í íþróttahúsinu. Í grundfirska liðinu er einnig einn leikmaður úr Ólafsvík sem kemur hér einu sinni í viku á æfingu sem er alveg frábært.

Stjórnandi æfingabúðanna var þjálfari Grundarfjarðar, Sebastien Bougeatre og setti hann upp keppni svo allir fengu að spila. Mikil stemming var í íþróttahúsinu og viljum við þakka þeim fjölmörgu sem komu og hvöttu krakkana. Krakkarnir spiluðu á laugardaginn frá 14:30 til 18:30 en þá var haldið í Kaffi 59 og snæddar ljúffengar pizzur. Síðan lá leiðin í Björgunarsveitarhúsið til Erlings og Egils til að fá að prufa klifurvegginn og fór þjálfarinn frá Aftureldingu, Miglena upp vegginn og sem spiderman niður. Viljum við þakka þeim kærlega fyrir  þeirra framlag. Eftir klifur var farið upp í grunnskóla og horft á söngvakeppni sjónvarpsins þar sem krakkarnir gistu ásamt nokkrum krökkum frá UMFG. Viljum við sérstaklega þakka Heimi Þór fyrir hans framlag um helgina en hann tók vaktina í skólanum svo að krakkarnir frá UMFG gætu gist.

Á sunnudaginn var spila meira blak og eigum við í Grundarfirði mjög frambærilega blakara á landsmælikvarða. Við viljum þakka öllum blökurum í Grundarfirði og Aftureldingu fyrir frábæra helgi. Einnig þökkum við fyrir afnot af grunnskólanum og íþróttahúsinu.  

 

Takk fyrir skemmtilega helgi

Anna María, Rúna og Unnur


Skrifað af Blakráð UMFG

17.02.2012 06:33

Samæfing í Frjálsum íþróttum

SAMÆFING HSH

 

Frjálsíþróttadeild UMFG bíður öllum iðkendum HSH  í frjálsum íþróttum 11 ára og eldri á samæfingu í Grundarfirði.

Æfingin hefst kl 12:30 laugardagin 18. febrúar og stendur í 1 ½ tíma í íþróttahúsinu.

Umsjónamaður er Kristín H. Haraldsd.

S:899 3043.


15.02.2012 14:31

Pæjur úr Snæfell á Póstmóti Breiðabliks

Pæjur úr 2-4 bekk sem tóku þátt í Póstmóti

Á sunnudeginunm29. Janúar voru nokkrar pæjur úr 2-4 bekk sem tóku þátt í Póstmóti Breiðabliks sem haldið var í Smáranum. Það voru Dagný Inga, Vaka, Viktoría, Heiðrún Edda og Sigrún Birta.

 

Stelpurnar spiluðu 3 leiki, þær spiluðu fyrst við Njarðvík, svo Hrunamenn og í lokin við Stjörnuna, og stóðu sig allar alveg svakalega vel! Þær voru rosalega ákveðnar og þorðu allar að taka af skarið, svo vantaði heldur ekki upp á brosið og gleðina hjá þeim =) Á mótinu fengu allir þátttakendur Buff og Medaliu  og voru mínar stelpur mjög sáttar með það!

 

Björg Guðrún Einarsdóttir

15.02.2012 14:29

Herrakvöld Víkings 25 febrúarVið hvetjum alla til að mæta... frábær dagskrá
Skrifað af Tommi

15.02.2012 14:28

UMFG í c riðli 3 deildar

C Riðill

Þá er búið að draga í riðla fyrir Íslandsmótið í sumar. Við drógumst í C-riðil eins og áður og lítur hann svona út:

FFR - Spila á Framvellinum og eru væntanlega tengdir Fram
Grundarfjörður - okkar menn
Hvíti Riddarinn - Lið sem er nátengt Aftureldingu og spila sína leiki á Tungubökkum
Kári - Frá Akranesi og höfum við mætt þeim þónokkuð oft.
Léttir - Lið sem er nátengt ÍR og spilar sína leiki á gervigrasinu hjá þeim.
Skallagrímur - Frá Borgarnesi að sjálfsögðu
Víðir - Frá Garðinum.
Þróttur V - þar sem að V stendur fyrir Voga

Svo er einnig búið að draga í bikarnum og við fengum útileik gegn ÍH sem verður spilaður þann 6. maí næstkomandi.

Fyrsta verkefnið okkar í Íslandsmótinu er að heimsækja Víði í Garði þann 20. maí. Fyrsti heimaleikur okkar verður svo á móti Hvíta Riddaranum þann 26. maí.Game on.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362323
Samtals gestir: 256783
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:00:51
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362323
Samtals gestir: 256783
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:00:51