Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Júní

26.06.2012 01:45

Enn tapar Snæfell

Snæfell heldur áfram að bíða afhroð í C-riðli en liðið steinlá 17-0 gegn Þrótti Vogum á laugardag. Þróttarar eru með átta stig í þriðja sæti riðilsins eftir sigurinn en Snæfellingar eru á botninum með markatöluna 0-69.

Þróttur Vogum 17 - 0 Snæfell

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=128639#ixzz1yrN5msgG

26.06.2012 01:39

Framkvæmdir hjá Skotfélaginu

Þá er búið að steypa fyrstu steypu sumarsins.  Steypubíllinn var mættur upp úr kl. 08:00 í morgun (föstudag) og byrjað var á því að steypa stéttina undir riffilborðin.
Þegar því var lokið voru rammarnir fyrir skiltin steyptir niður. Í rammana koma skilti með merki félagsins og texta, eins og áður hefur komið fram hér á síðu félagsins.
Þá var bara eftir að steypa niður undirstöðurnar fyrir riffilskotmörkin á 25m, 50m, og 75m.  Alls voru steyptir niður 6 sökklar, tveir á hverjum stað.  Í þá koma svo færanleg riffilskotmörk sem hægt verður að færa á milli staða með einu handtaki.


Þegar steypubíllinn var farinn tók við "fínísering" eins og maðurinn sagði.  Steypuvinnunni allri var svo lokið upp úr kl. 15:30.Steini var drjúgur í dag og héldu honum engin bönd eins og sést hér á myndinni fyrir neðan með fullar hjólbörurnar.  Hinir yngri áttu í fullu fangi með að hanga í honum.
Hér má sjá tvær skemmtilegar myndir.  Sú fyrr er líklega tekin árið 1989 en sú síðari á sama stað 23 árum síðar og er Steini enn að steypa niður riffilborð..........Jú, Tommi var fæddur þegar fyrri myndin var tekin.
 
  


Fleiri myndir verður hægt að sjá í myndaalbúminu hér á síðunni innan skamms, en það er einhver bilun í tölvukerfinu og ekki hægt að hlaða þeim inn eins og er.
Skrifað af JP

26.06.2012 01:38

Snæfellingar á LM hestamanna

Hestar í gæðingakeppni á Landsmóti

A-flokkur
Uggi frá Bergi, eigandi Jón Bjarni Þorvarðarson, knapi Viðar Ingólfsson
Atlas frá Lýsuhóli, eigandi Agnar Gestsson, knapi Lárus Ástmar Hannesson
 
B- flokkur
Glóð frá Kýrholti, eigandi Hrísdalshestar sf., knapi Siguroddur Pétursson
Spóla frá Brimilsvöllum, eigandi Gunnar Tryggvason, knapi Siguroddur Pétursson
 
Barnaflokkur
Sprettur frá Brimilsvöllum, eigandi Gunnar Tryggvason, knapi Fanney O. Gunnarsdóttir
 
Unglingaflokkur
Lyfting frá Kjarnholtum I, eigandi Siguroddur Pétursson, knapi Guðný Margrét Siguroddsdóttir  
Frosti frá Glæsibæ, eigandi Hrísdalshestar sf., knapi Borghildur Gunnarsdóttir
 
Ungmennaflokkur
Krummi frá Reykhólum,  eigandi Lárus Hannesson, knapi  Hrefna Rós Lárusdóttir

 

Skrifað af Siggu

26.06.2012 01:36

MÍ í frjálsum 11 til 14 ára

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum, utanhúss - fyrir 11 - 14 ára 

Á næstu helgi fer fram Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum utanhúss - fyrir 11-14 ára (árgangar 1998-2001) - eins og fram kom í fyrri frétt hér á vefnum. 

Mótið er haldið laugardaginn 30. júní og sunnudaginn 1. júlí á Laugardalsvelli í Reykjavík.
Keppt er í öllum helstu keppnisgreinum - en keppendur ráða sjálfir í hvaða greinum þeir keppa. 

Tímaseðill fyrir mótið er tilbúinn á vef Frjálsíþróttasambands Íslands. Þar má sjá hvernig einstakar keppnisgreinar raðast á aldursflokka þessa tvo daga. Smellið hér.

Kristín Halla þjálfari sér um skráningu og utanumhald um okkar keppendur á mótinu, eins og hægt er. Það þarf að láta hana vita fyrir kl. 22.00, þriðjudaginn 26. júní. Við keppum að sjálfsögðu undir merkjum HSH, sem greiðir keppnisgjald fyrir sína keppendur.

Keppendur þurfa að sjá sér fyrir fari til Reykjavíkur (og gistingu ef viðkomandi er með keppnisgreinar báða dagana).

Við hvetjum iðkendur og foreldra þeirra til að skoða þetta mót vel - það er skemmtileg reynsla og stemning að fá að keppa á sjálfum Laugardalsvellinum. Og munum: þetta er til að hafa gaman af!

Bestu kveðjur frá frjálsíþróttaráði UMFG,
Kristín Halla, Björg og Jói 
Skrifað af Björgu

26.06.2012 01:34

Tap geng Leikni

Víkingur Ó - Leiknir R.   0-1   (0-1)

0-1 Stefán Jóhann Eggertsson (44.mín)


Í kvöld léku Víkingur  og Leiknir R í 1.deildinni. Ég var skíthræddur við þennan leik. Víkingur  átti möguleika á að hirða efsta sætið af Fjölni og Leiknir var og er í bullandi fallbaráttu. Strax í byrjun leiks sást vel hvað Leiknir ætlaði sér, að liggja í vörn, enda stilltu þeir upp á löngum tímum í leiknum liðinu sínu í kerfinu 5-5-0. Gárungarnir kalla þetta Grísku leikaðferðina og þykir hún ekki áhorfendavæn heldur hreinlega leiðinleg. Að gera þetta á Ólafsvíkurvelli gegn Víking  er yfirleitt ávísun á tap. En einhverra hluta vegna heppnaðist þetta hjá þeim, því miður fyrir okkur en þeir væntanlega fagna langt fram á nótt. Það borgaði sig hjá þeim að liggja yfir leikjum Gríska liðsins á EM.

Ég fór ekki vestur á þennan leik enda finnst mér ekki gaman á leikjum sem Leiknir Ágústsson dæmir.  En aftur á móti horfði ég á leikinn á vefvarpi Víkings  þó sjónarhornið hafi ekki verið gott. En lýsingin hjá Hákoni Þorra var fín og minnti á lýsinguna í KR útvarpinu, þ.e.a.s. hlutdræg!! KRingar segja að hún eigi að vera hlutdræg.  

Eftir að Edin Beslija hafði þrumað boltanum í innanverða stöngina og út fékk maður að tilfinninguna að Víkingur myndi tvíeflast við stangarskotið og í raun gerðist það. En gegn gangi leiksins skoraði Leiknir í einni af sínum fáu sóknarlotum í leiknum. Stefán Jóhann Eggertsson (tengdasonur Brynjólfs Lárentsíussonar og mágur Jens Brynjólfssonar) skoraði eina mark leiksins með góðu skoti frá vítateigslínu. Þetta mark sló okkur útaf laginu enda gjörsamlega gegn gangi leiksins.

Fyrirgjafir okkar voru allt of margar í fangið á markverðinum. Við eigum að miða á vítapunktinn þegar við sendum boltana blint fyrir markið, annars að hitta á ákveðna menn.

Leiknir Ágústsson dæmdi leikinn. Hann dæmdi síðast hjá okkur á Selfossi í fyrra þegar hann skandelaði. Ég treysti mér ekki til að gefa dómaratríóinu einkunn þar sem ég sá störf þeirra ekki nógu vel. En skv. lýsingunni hefði dómarinn mátt taka betur á hægagangnum hjá Leikni í föstu leikaðferðum. Og eitt sem mér skilst að dómarinn hafi ekki lesið nógu vel í kennslubókinni er að bakhrindingar eru ólöglegar skv. reglugerðinni. Leiknir má bæta sig í því.

Ég ætla að reyna að velja þrjá bestu skv. vefmyndavélinni. En skv. henni fannst mér Alfreð Már Hjaltalín, Clark Keltie (fyrir utan eina hroðalega sendingu) og Tomasz Luba bestir. Það væri gaman að fá álit þeirra sem voru á vellinum hverjir voru að standa sig best.

En þetta tap er enginn heimsendir. Góðu liðin tapa líka leikjum og líka á heimavelli. Við erum búnir að vinna tvo útileiki hingað til og fyrst þessi leikur endaði svona verðum við að gjöra svo vel að vinna fljótlega annan útileik og kvitta þetta tap út.

Þetta er alþekkt í knattspyrnuheiminum að þegar eitthvað lið á möguleika á að ná einhverju ákveðnu markmiði eins og við í kvöld að tylla okkur á toppinn í deildinni að þá klikkar eitthvað. Ég man sérstaklega eftir því á þeim tíma þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Knattspyrnudeild Vals á sínum tíma að oft og iðulega áttum við sjens á að ná að koma okkur í eitthvað gott sæti eins og t.d. Evrópusæti þegar lítið var eftir af mótinu en þá klikkaði liðið og tapaði.

Þetta var 10.leikur Víkings  og Leiknis R á Ólafsvíkurvelli á ferlinum. Þetta var í fyrsta sinn sem Víkingur  tapar fyrir Leikni R. á heimavelli í KSÍ leik.

Næsti leikur er heimaleikur gegn BÍ/Bolungarvík og verður það erfiður leikur eins og allir leikirnir í deildinni. Leikurinn gegn BÍ/Bolungarvík verður á Ólafsvíkurvelli laugardaginn 30.júní kl. 14.00.


Helgi Kristjánsson

26.06.2012 01:32

Grundfirðingar sóttu stig í Garðinn

Grundfirðingar fóru í Garðinn föstudagskvöldið 22. júní og mættu þar ósigrðum Víðismönnum sem sátu á toppi á C-riðils.  Rjómablíða og bæjarhátíðin Sólseturshátíðin í Garði stóð yfir en Víðismenn munu einmitt koma í heimsókn til Grundarfjarðar þegar að bæjarhátíðin Á góðri stund verður haldin.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum, Víðismenn meira með boltann en náðu sjaldan að opna sterka vörn Grundfirðinga sem að Alexandar Linta stjórnaði af miklum myndarbrag.  Gestirnir áttu nokkrar álitlegar sóknir og úr einni slíkri skoraði fyrirliði liðsins, Ragnar Smári Guðmundsson, þegar að hann slapp innfyrir vörn heimamanna eftir 15 mínútna leik.  Heimamenn náðu að jafna undir lok fyrri hálfleiksins með skoti við vítateigslínu eftir ágæta sókn og staðan því 1:1 í hálfleik.  Víðismenn lögðu hinsvegar línuna á því sem koma skildi með tveimur ágætisfærum strax á upphafsmínutunum síðari hálfleiks.  Var það í raun saga það sem eftir lifði leiks, heimamenn sóttu af þónokkrum krafti en tókst ekki að bæta við marki á meðan Grundfirðingar fengu ekki mörg færi.  Viktor fékk dæmda á sig óbeina aukaspyrnu inn í vítateignum fyrir að handleika boltann of lengi á 70. mínútu en Víðismenn náðu ekki að nýta sér það.  Tíu mínutum síðar varði Viktor svo mjög vel frá Víðismönnum af stuttu færi.  Jafntefli niðurstaðan og gestirnir hljóta að vera sáttir með það miðað við þróun leiksins. Næsti leikur Grundarfjarðar verður á laugardaginn þegar að þeir heimsækja Vogana til að etja þar kappi við heimamenn í Þrótti.

Skrifað af Tommi

19.06.2012 10:44

Jafnt hjá UMFG og Hvíta riddaranum

UMFG mætti Hvíta Riddaranum í Grundarfirði í fínasta veðri í gærkveldi... Grundfirðingar voru meira með boltann og ég geng meira að segja svo langt að segja að við höfum verið betri aðilinn í c.a. 80 mínútur. En síðustu 10 mínúturnar vorum við stálheppnir að sleppa með stigið. Þeir fengu mjög góð færi til að klára leikinn en Viktor var maður leiksins og bjargaði stiginu fyrir okkur.


Næsti leikur UMFG er svo gegn toppliði Víðis í Garðinum næsta föstudag.

19.06.2012 09:18

Tímaseðill Vesturlandsmóts

Sam vest tímaseðill  frjálsíþróttamót.

Dagur 1.

Kl. 18.00      60 m hlaup stelpur 11 - 12 ára

Kl. 18.00      Hástökk strákar 13 - 14 ára

Kl. 18.00      Langstökk stelpur 15, 16 ára og eldri

Kl. 18.00      Kúluvarp strákar 15,16 ára og eldri

Kl.18.00       Spjótkast stelpur 13 - 14 ára

Kl. 18.10      60  m hlaup  strákar 11- 12 ára

Kl.18.20       Langstökk stelpur 11 - 12 ára

Kl. 18.20      Kúluvarp strákar 11 - 12 ára

Kl. 18.20      100 m hlaup strákar 13 - 14 ára

Kl.18.20       Hástökk stelpur 13 - 14 ára

Kl. 18.20      Spjóptkast stelpur 15, 16 ára og eldri

Kl. 18.30      100 m hlaup strákar 15,16 ára og eldri

Kl. 18.40      100 m hlaup stelpur 15,16 ára og eldri

Kl.18.40       Kúluvar stelpur 11 - 12 ára

Kl. 18.40      Hástökk strákar 11 -12 ára

Kl. 18.40      Spjótkast strákar 13 - 14 ára

Kl. 18.50      100 m hlaup stelpur 13 - 14 ára

Kl.19.00       Kúluvarp stelpur 15, 16 ára og eldri

Kl. 19.00      Spjótkast strákar 15, 16 ára og eldri

Kl. 19.00      Langstökk strákar 11 - 12 ára

Kl. 19.00 Hástökk  stelpur 11 - 12 ára 

Kl. 19.20 Langstökk strákar 15 - 16 

Kl. 19.20 800 m hlaup stelpur 13 - 14 ára

Kl. 19.30 800 m hlaup  strákar 13 - 14 ára 

Kl. 19.35 800 m hlaup strákar 15,16 ára og eldri 

Kl. 19.40 800 m hlaup stelpur 15.16 ára og eldri

Kl. 19.50 600 m hlaup  stelpur 11 - 12 ára

Kl. 20.00 600 m hlaup strákar 11 - 12 ára

 

Keppnisgreinar geta riðlast aðeins þar sem skráningar liggja ekki alveg á hreinu þegar tímaseðill er gerður. Reynt verður að fara eftir röð greina

17.06.2012 23:44

Víkingur lagði Hauka 0-2

Umfjöllun: Þægilegur sigur Ólafsvíkinga í Hafnarfirðinum
Úr leik liðana frá því í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Haukar 0 - 2 Víkingur Ó.
0-1 Björn Pálsson ('37)
0-2 Björn Pálsson ('66)

Það var búist við hörkuleik á Schenkervellinum að Ásvöllum í dag, er Haukar og Víkingur Ólafsvík mættust í 6.umferð 1.deildar karla. Það var nú heldur fámennt á vellinum, en þeir sem mættu fengu þó frábært veður og gátu sólað sig í Schenker-stúkunni, með smá vindkælingu.

Fyrsta færi leiksins kom eftir 20.mínútna leik og það var Ólafsvíkinga. Eftir herfileg mistök hjá Kristjáni Ómari í miðri vörn Hauka, fékk Guðmundur Steinn boltann í fæturnar á silfurfati, geystist upp völlinn, en Kristján Ómar truflaði hann við skotið, og skot Guðmundar því slappt og framhjá. Ejub Purisevic og hans menn í Víking voru allt annað en sáttir og vildu fá eitthvað fyrir sinn snúð þarna.

Fyrsta mark leiksins kom síðan á 37.mínútu, Björn Pálsson leikmaður Víkings fékk þá nægan tíma rétt fyrir utan vítateig Hauka, lagði boltann fyrir sig og lagði boltann í fjærhornið, virkilega snyrtilega gert hjá Birni.

Gestirnir frá Ólafsvík einu marki yfir í hálfleik. Færin voru ekki mörg í fyrri hálfleiknum og hafði Einar Hjörleifsson það nokkuð notalegt í markinu hjá Ólafsvík og sama má eiginlega segja um Daða Lárusson í markinu hjá Haukum.

Færin voru ekki mikið fleiri í seinni hálfleiknum en Ólafsvíkingar bættu hinsvegar við marki á 66.mínútu og þar var að verki í annað sinn, Björn Pálsson. Nú fékk hann boltann inn í teig, var aftur einn og óvaldaður og skoraði nokkuð auðveldlega.

Haukar náðu aldrei að ógna almennilega að marki gestanna og því sigldu Víkingar öruggum sigri heim. Með sigrinum eru Ólafsvíkingar komnir á topp 1.deildar um stund að minnsta kosti en þetta var hinsvegar fyrsti tapleikur Hauka í 1.deildinni í sumar.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=128256#ixzz1y65e9F4P

16.06.2012 01:24

Knattspyrnunámskeið Víkings


Smelltu á mynd til að sjá stærri

16.06.2012 01:20

Glæsilegur sigur hjá UMFG

Grundfirðingar tóku á móti Þrótti Vogum í kvöld. Þessi leikur átti upphaflega að fara fram 26. maí en var frestað vegna úrhellis rigningar. Það virtist hafa borgað sig því að indælis veður var í firðinum í kvöld. Við byrjuðum þennan leik ágætlega. Áttum nokkrar fyrirgjafir og skot sem rötuðu ekki í netið. Það var gegn gangi leiksins sem að Þróttarar ná einni skyndisókn á 17 mínútu og koma sér í 0-1. Eftir þetta var einhver skjálfti í okkur því að Þróttarar áttu 2 dauðafæri skömmu eftir fyrsta markið þeirra. Það var svo eftir góða sókn hjá okkur að Heimir Þór nær að koma boltanum í netið eftir fyrirgjöf frá hægri vængnum og jafnar 1-1. Þetta var á 35 mínútu og liðin skiptust á að sækja eftir þetta. Staðan var því jöfn í hálfleik.Í síðari hálfleik komum við grimmir til leiks og það voru einungis liðnar 2 mínútur af hálfleiknum þegar að Heimir Þór kemur okkur í 2-1 með laglegu marki. Við þetta hresstust Þróttararnir aðeins og á 55 mínútu ná þeir að jafna eftir góða sókn. En eftir þetta jöfnunarmark var eins og allur vindur væri úr gestunum. Heimir Kemur okkur í 3-2 á 61 mínútu með stórglæsilegu marki. Aðeins fimm mínútum síðar tók Petja glæsilega aukaspyrnu og skorar og kemur okkur í 4-2. Þróttarar reyndu að sækja en við náðum að verjast vel. Gríðarleg barátta í okkur í þessum leik. Það var svo á 90 mínútu að Heimir er togaður niður í vítateignum eftir hornspyrnu og dómarinn dæmir víti. Heimir fer á punktinn og fullkomnar fernuna og kemur okkur í 5-2. Þannig var lokastaðan í leiknum og við þennan sigur hífðum við okkur upp í 3 sætið í riðlinum með 6 stig.


Hilmar Orri Jóhannsson spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í dag en hann er einungis 14 og 361 daga gamall. Hann var í byrjunarliðinu og stóð sig með prýði.Frétt af vef UMFG

16.06.2012 01:15

Vesturlandsmót í frjálsum íþróttum

Dagana 19. - 20. júní 2012 blása Héraðssamböndin UDN, HSH, UMSB , HSS og HHF ásamt Ungmennafélaginu Skipaskaga og Ungmennafélagi Kjalnesinga til frjálsíþróttamóts.

Á mótið eru allir velkomnir sem áhuga hafa á aldrinum 11 ára (árgangur 2001) og eldri. Þátttökugjöld eru 500 kr. á keppanda, HSH greiðir fyrir sína keppendur.

Mótið hefst kl. 18.00 báða dagana á frjálsíþróttavellinum í Borgarnesi. Fyrri daginn er keppt í öllum greinum hjá 11 og 12 ára, en líklegt er að báða dagana verði keppnisgreinar fyrir 13 ára og eldri. Keppnisgreinar og tímaseðill verða birt fyrir helgina.

Skráningar þurfa að berast til Kristínar Höllu þjálfara í síma 899 3043 eða með tölvupósti á netfangið kristhall@centrum.is í síðasta lagi sunnudaginn 17. júní.

Við hvetjum iðkendur til að mæta - stefnt er að skemmtilegu móti - og við hvetjum foreldra til að fylgja börnum sínum á mótið. Einnig væri gott að fá vinnufúsar hendur til aðstoðar á mótinu sjálfu.

 

Með bestu kveðju,

12.06.2012 11:13

UMFG 6- 0 Snæfell

Grundfirðingar höfðu betur í nágrannaslag


Skessuhorn.is

Snæfell tók á móti nágrönnum sínum úr Grundarfirði í C-riðli þriðju deildar í gærkvöldi. Bæði þessi lið voru á botni C-riðils með ekkert stig en Grundfirðingar höfðu talsvert betri markatölu. Leikurinn þróaðist svo þannig að Grundfirðingar höfðu töluverða yfirburði í leiknum og komust verðskuldað í 1-0 á 22. mínútu. Þar var að verki Sindri Guðbrandur Sigurðsson sem náði að koma boltanum í netið. Aðeins sjö mínútum síðar varð einn Snæfellingurinn svo óheppinn að handleika knöttinn innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Úr henni skoraði Heimir Þór Ásgeirsson örugglega og kom Grundfirðingum í 2-0. Það var svo rétt undir lok fyrri hálfleiks að Anton Jónas Illugason fylgdi eftir góðu skoti Predrag Milosavljevic og skoraði fram hjá markmanni Snæfells og staðan því 3-0 í hálfleik Grundfirðingum í vil.

 

 

 

 

Í seinni hálfleik var sama uppi á teningnum en strax í upphafi hálfleiksins skoraði Sindri Kristjánsson laglegt mark eftir góðan undirbúning Heimis Þórs Ásgeirssonar og kom Grundfirðingum í 4-0. Gestirnir úr Grundarfirði bættu svo við tveimur mörkum á tveimur mínútum þegar að Sindri Kristjánsson skoraði annað mark sitt á 60. mínútu og Predrag Milosavljevic skoraði á 62. mínútu og komu gestunum í 6-0. Lengra komust Grundfirðingar ekki þrátt fyrir að fá þó nokkur færi í viðbót. Grundfirðingar náðu þarna fyrstu stigum sínum í sumar og eru komnir með þrjú stig eftir þrjá leiki. Snæfell situr því eitt á botninum án stiga. Grundfirðingar taka svo á móti Þrótti Vogum næsta föstudag og fá svo Hvíta Riddarann í heimsókn næsta mánudag. Snæfell á leik gegn Kára á Akranesi næsta mánudag í enn einum Vesturlandsslagnum í riðlinum. 


 

08.06.2012 00:39

Kvennahlaup ÍSÍ 16 júní 2012

Hreyfing til fyrirmyndar 16. júní á Snæfellsnesi

Fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ var haldið 30. júní árið 1990 í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Hlaupið var í Garðabæ og á 7 stöðum um landið. Á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Laugum í Þingeyjarsýslu, Grundarfirði, Stykkishólmi og í Skaftafellssýslu. Rúmlega 2.000 konur tóku þátt í Garðabæ og um 500 konur á landsbyggðinni. Nú taka árlega um 16.000 konur þátt á 90 stöðum hérlendis og 16 stöðum erlendis.

Slagorð kvennahlaupsins í ár er "Hreyfing til fyrirmyndar" . Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári. Á síðustu hundrað árum hefur íþróttahreyfingin á Íslandi verið leiðandi afl í íslensku samfélagi. ÍSÍ er í dag stærsta fjöldahreyfingin á landinu með tæplega 86 þúsund iðkendur. Af þeim eru 47.000 konur á öllum aldri sem stunda yfir 40 íþróttagreinar í 409 íþróttafélögum. Konur á öllum aldri eru hvattar til þess að hreyfa sig reglulega og vera hluti af íþróttahreyfingunni sem iðkendur, leiðtogar, sjálfboðaliðar eða foreldrar.

 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rauði kross Íslands og Sjóvá standa fyrir söfnun á brjóstahöldum og öðrum undirfötum í tengslum við Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ. Með átakinu vilja aðstandendur hvetja konur sem taka þátt í kvennahlaupinu að láta gott af sér leiða, en reynsla Rauða krossins er sú að fatnaður af þessu tagi skilar sér síður í hefðbundnum fatasöfnunum en annar fatnaður. Söfnunin mun standa út júní en hægt verður að koma með fatnaðinn á söfnunarstöðvar Rauða krossins og í Sorpu en einnig munu sjálfboðaliðar frá Rauðakrossinum taka við brjóstahöldunum við rásmörk Kvennahlaupsins um allt land á hlaupadaginn.
Hlaupið er á eftirtöldum stöðum

Ólafsvík   kl. 11:00 í Sjómannagarðinum og er skráning í hlaupið í Sundlaug Ólafsvíkur.

Grundarfirði  kl. 11:00 Við sundlaugin, skráning hjá Kristínu Höllu
Stykkishólmi  kl. 11:00 Við Íþróttamiðstöðina, skráning í Heimahorninu

08.06.2012 00:21

Fimleikar í Snæfellsbæ


Í vetur hafa verið stundaðir fimleikar í Íþróttahúsi Ólafsvíkur þar sem öll börn í Snæfellsbæ á aldrinum 6 - 12 ára áttu kost á að mæta til æfinga hjá þeim Söru Sigurðardóttur og Thelmu Rut Haukdal Magnúsdóttur. Mikill áhugi er fyrir hendi hjá stórum hópi barna til fimleikaiðkunar sem sést á því að um 70 börn æfðu í allan vetur. Þar sem fjöldinn var svo mikill varð að aldursskipta hópnum þannig að einn hópur var fyrir 6 - 7 ára, einn hópur fyrir 8 - 9 ára og einn hópur fyrir 10 - 12 ára.  Yngri hóparnir tveir mættu einu sinni í viku til æfinga, en elsti hópurinn tvisvar í viku. Haldnar voru tvær sýningar yfir veturinn, ein jólasýning og ein vorsýning, þar bauðst ættingjum og vinum kostur á að koma og sjá börnin gera listir sýnar og virkilega gaman var að sjá hve miklum framförum margir tóku á svo skömmum tíma - því er vonandi að fimleikastarfið haldi áfram svo iðkendurnir nái enn lengra. Meðfylgjandi mynd frá vorsýningunni tók  Brynja Mjöll Ólafsdóttir.
Frétt úr Jökli

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 4834
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 3352562
Samtals gestir: 256525
Tölur uppfærðar: 20.2.2018 15:00:05
Flettingar í dag: 4834
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 3352562
Samtals gestir: 256525
Tölur uppfærðar: 20.2.2018 15:00:05