Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Ágúst

28.08.2012 21:54

UMFG í umspil um laust sæti í 3 deild

Sigur í síðasta heimaleik

Við fengum Hvíta Riddarann í heimsókn í síðasta heimaleik sumarsins. Þetta var leikur sem að skipti nánast engu máli því að við vorum öruggir með þriðja sætið og Hvíti Riddarinn hafði að engu að keppa nema heiðrinum. Við byrjuðum leikinn að krafti og það voru ekki liðnar nema 5 mínútur þegar að Heimir var búinn að koma okkur í 1-0 eftir góðann undirbúning frá Golla. Aðeins 10 mínútum síðar átti Tryggvi hörkuskot sem að fór í botninn á einum leikmanna Hvíta og þaðan í markið en við eignum Tryggva það fyrst að dómarinn gerði það enda var boltinn á leiðinni inn allan daginn. Staðan því 2-0 eftir 15 mínútna leik.Eftir þetta fóru leikmenn Hvíta að sækja í sig veðrið og þeir minnkuðu muninn á 37 mínútu og staðan því 2-1 þegar að dómarinn flautaði til leikhlés.Í síðari hálfleik komu leikmenn Hvíta mun grimmari til leiks og náðu að jafna leikinn á 55 mínútu. En þá hrukkum við í gírinn og Heimir kom okkur aftur yfir með góðu marki. Eftir það var þetta aldrei spurning. Golli og Danni bættu svo sitt hvoru markinu við og leikurinn endaði 5-2 fyrir okkur.Nú er staðan í riðlunum klár og ljóst að við mætum feykisterku liðið Léttis næsta laugardag. Leikurinn verður spilaður á hlutlausum velli og verður það Skallagrímsvöllur í Borgarnesi. Leikurinn er semsagt þar kl 12:00 laugardaginn 1. september. Þetta verður hreinn úrslitaleikur um sæti í nýju þriðjudeildinni.

Fleiri myndir inni í myndaalbúminu.  
http://grundarfjordur.123.is/photoalbums/233274/
Skrifað af Tommi

28.08.2012 21:47

Úrslit í 4 flokk Íslandsmóts

Úrslitakeppni í 7 manna bolta fór fram á Ólafsvíkurvelli ( 4.flokkur)

27. ágúst 2012
Núna um helgina lauk úrslitakeppni hjá 4.flokki karla í 7 manna bolta á Ólafsvíkurvelli.
Það voru fjögur lið sem höfðu unnið sér sæti í úrslitum og voru sum hver komin langt að. Einherji frá Vopnafirði, Hamar frá Hveragerði, Skallagrímur frá Borgarnesi  og svo okkar strákar frá Snæfellsnesi.

Það var mikil spenna sem skein úr andlitum þessa hressu stráka þegar flautað var til leiks á laugardeginum. Strákarnir létu ekki smá kulda og rok á sig fá og sýndu oft á tíðum meistaratakta. Þegar leikjum dagsins var lokið á laugardeginum bauð foreldraráð strákanna af Snæfellsnesi upp á mat í mötuneyti skólans, og átu þessir kraft miklu strákar á sig gat. Því næst héldu hvert lið í sínar skólastofur og hvíldu sig fyrir átök morgundagsins.

Leikirnir á laugardeginum höfðu spilast þannig að Snæfellsnes og Skallagrímur háðu hreinan úrslitaleik um sigurinn á mótinu. Það fór svo að Snæfellsnes drengirnir sigruðu þann leik örugglega og stóðu uppi sem Íslandsmeistarar í 7 manna bolta í 4.flokki.

Það var svo Vigfús Örn Gíslason sem afhenti verðlaunin fyrir hönd KSÍ.

Framkoma og umgengi strákanna var til fyrirmyndar og má með sanni segja að þeir voru sínum félögum til sóma. 
Víkingur Ólafsvík

26.08.2012 08:07

Víkingur heldur 2 sæti

Töpuð stig eða unnið stig.

24. ágúst 2012 klukkan
1.deild
Leiknisvöllur
Föstudaginn 24.ágúst 2012

Leiknir R. - Vikingur Ó.   1-1   (0-1)

0-1 Arnar Sveinn Geirsson (11.mín)
1-1 Kristján Páll Jónsson (87.mín)

Mér finnst mjög erfitt að skrifa um þennan leik. Veit satt að segja ekki hvort þetta var góður leikur hjá okkur eða vondur. Aðstæðurnar á vellinum voru slæmar fyrir bæði lið, rigning og blautur völlur.

Fyrir leik var ég skíthræddur um það að við myndum lenda í erfiðleikum gegn Leikni. Í dag ákvað ég að skoða á heimasíðu KSÍ á hvaða dögum Leiknir væru grimmastir og þá kom í ljós að þeir hafa með leiknum í kvöld tekið 12 af 16 stigum sínum á föstudögum. Og við að spila við þá að föstudegi.

Leikurinn byrjaði vel fyrir okkur. Við unnum alla bolta og sóttum á þá. Það endaði með skrautlegu marki frá Arnari Sveini Geirssyni á 11.mín. Boltinn hafði viðkomu í stöng og fleiru og skrúfaðist rétt innfyrir línuna og færeysku dómararnir dæmdu boltann réttilega inni. 0-1 fyrir okkur og með öðru marki myndum við gjörsamlega ganga frá þeim. Annað markið væri of mikið fyrir Leikni að fá á sig eins og ástandið er á þeirra bæ. En okkur tókst bara ekki að setja annað mark, þrátt fyrir nokkra sóknartilburði. Einhvernveginn var það þannig að þegar menn voru komnir á auðan sjó að þá annaðhvort hægðu menn á sér til bíða eftir aðstoð og þá rann sóknin út í sandinn, í staðinn fyrir að sýna áræðni og ráðast á mark mótherjanna með skoti, hvort sem það yrði varið, færi framhjá eða yfir. Það skipti ekki máli því allar sóknarlotur eiga að enda með skoti á rammann.

Víkingur Ó spilaði sömu taktík og síðasta leik og voru grimmir í fyrri hálfleik, það grimmir að þeir voru á undan í flesta bolta og ég sá fyrir mér sigur í leiknum. Leiknir R. var í raun ekkert að gera í leiknum en hættulegustu sóknarlotur þeirra komu eftir langa bolta fram völlinn. Þeir áttu sennilega hættulegri færi en við sem þeir nýttu ekki. Guðmundur Steinn Hafsteinsson markahæsti leikmaður Víkings Ó í sumar spilaði ekki þennan leik vegna smávægilegra meiðsla og Torfi Karl Ólafsson var líka fjarri góðu gamni vegna veikinda og lá hann veikur í rúminu vestur í Ólafsvík. Hjá Leikni vantaði einnig einhverja leikmenn og man ég eftir Stefáni Jóhann Eggertssyni sem gerði markið í Ólafsvík fyrr í sumar.

Mikilll fjöldi áhorfenda var á leiknum og mikið af Ólsurum,  sem komu bæði að vestan og búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Gaman var að heyra hvatningarsöngvana í leiknum og eftir leik fögnuðu allir sem einn leikmönnum Víkings Ó fyrir leikinn með lófaklappi. Það eru alltaf að sjást ný og ný andlit í stuðningsmannahópnum í hverjum leik.

Víkingur Ó var að spila langtímum saman ágætis bolta og voru heilt yfir sterkara liðið í leiknum. En þar sem annað markið kom ekki lifðu leikmenn Leiknis í voninni og má segja að á lokamínútunum fram að jöfnunarmarkinu hafi þeir bitið hressilega frá sér. Við áttum að vera búnir að klára þennan leik snemma í leiknum. En það er erfitt að fóta sig á hálum vellinum og boltinn spýtist mikið og það á við bæði liðin.

Eins og fyrirsögnin hér fyrir ofan vísar til, að þá gæti þetta jafntefli eða þetta eina stig sem vannst í kvöld skilað okkur endanlega í Pepsídeildina. En aftur á móti geta þessi tvö stig sem töpuðust verið þau stig sem okkur vantar uppá í lokin.

Tekið af bloggi Helga K
http://helgik.bloggar.is/blogg/473731/Topud_stig_eda_unnid_stig

26.08.2012 08:03

Öruggt hjá UMFG geng Snæfell

Þrettán mörk

Við kíktum í Hólminn og mættum Snæfell á Stykkishólmsvelli. Eitthvað virðast dönsku dagarnir hafa setið í þeim því að þeir sáu aldrei til sólar í þessum leik. Leikurinn endaði 13-0 okkur í vil. Heimir Þór skoraði 6 mörk, Golli var með 4 mörk, Tryggvi 1 mark, Pedja 1 mark og Runni 1 mark. Kári vann Þrótt Vogum örugglega og það þýðir að sæti í úrslitakeppninni er nánast runnið okkur úr greipum. Ólíklegt þykir að Kári tapi fyrir Snæfell en þeim nægir eitt stig til að tryggja sig. Það verður því okkar hlutskipti að lenda í þriðja sætinu og erum við öruggir með það óháð öðrum úrslitum. Það þýðir að við munum spila við þriðja sætið í A riðli um laust sæti í þriðju deildinni og eins og staðan er í dag er líklegast að það verði gegn Berserkjum.
Fleiri myndir inni í myndaalbúminu.
http://grundarfjordur.123.is/photoalbums/233007/

22.08.2012 10:05

Ungmennafélag Staðarsveitar með göngu á Hólstind

Gönguferð á Hólstind
Ungmennafélag Staðarsveitar auglýsir hér með fjallgöngu á Hólstind sunnudaginn 2. september n.k (með fyrirvara um gott veður). Göngustjóri verður Svavar Þórðarson frá Ölkeldu. Lagt verður af stað kl. 10 frá háhitasvæði/borholu Ölkeldumanna (afleggjari frá Ölkeldurétt). Gert er ráð fyrir því að gangan taki um 6 klst. Leiðin er nokkuð krefjandi.


21.08.2012 14:34

Slæmt tap hjá Víking

Lang slakasti leikur okkar í háa herrans tíð.

17. ágúst 2012
1.deild
Valbjarnarvöllur
Fimmtudaginn 16.ágúst 2012 kl. 19.00


Þróttur R. - Víkingur Ó.   4-1 (0-0)

1-0 Halldór Arnar Hilmisson (49.mín)
2-0 Guðfinnur Þórir Ómarsson (61.mín)
2-1 Guðmundur Magnússon (68.mín, víti)
3-1 Halldór Arnar Hilmisson (69.mín)
4-1 Guðfinnur Þórir Ómarsson (82.mín)

Við erum ekki með gott lið ef við ætlum að spila leikina eins og við gerðum í seinni hálfleik gegn Þrótti. Fyrri hálfleikurinn var mun betri og jafnari en sá seinni hræðilegur. Ég velti því fyrir mér hvort leikmenn Víkings Ó hafi mætt í seinni hálfleikinn í hálfgerðu sjokki eftir að Emir Dokara samherji þeirra var fluttur á sjúkrahús eftir hryllilegan árekstur við einn sóknarmann Þróttar á lokamínútu fyrri hálfleiks og bara gátu ekki spilað meiri fótbolta þetta kvöld, en urðu að klára leikinn. A.m.k. sagði einn erlendu leikmannanna hjá okkur það að hann hefði orðið skelfingu lostinn og dauðhræddur við að sjá Emir liggja rotaðann og hálf lífvana á vellinum. Hann hélt að hann væri að deyja. Þetta var hrikaleg stund fyrir þá sem næstir voru. En sem betur fer rankaði Emir úr rotinu og var leiddur útaf vellinum beint upp í sjúkrabíl og menn biðu eftir að heyra hvernig honum reiddi af. Sem betur kom í ljós að hann var ekki mikið slasaður og þurfti að sauma fjögur spor í höfuð hans. Síðan smám saman náði hann sér og var orðinn nokkuð sprækur við brottförina vestur til Ólafsvíkur. Ég sendi honum batakveðjur.

En leikurinn byrjaði á rólegu nótunum. Bæði liðin þreifuðu á hinu og smám saman kom meiri hraði í leikinn. Hvorugt liðið skoraði mark í fyrri hálfleik. Þróttur var næst því þegar Einar varði aukaspyrnu alveg niðri í hægra horninu og Víkingur Ó komst næst því þegar Guðmundur Steinn skallaði boltann framhjá stönginni ódekkaður og einn og yfirgefinn nálægt markinu.

En síðan kom seinni hálfleikurinn sem tapaðist illa og gerði úrslit leiksins að verstu úrslitum okkar síðan við töpuðum illa 1-6 á heimavelli gegn Selfossi haustið 2009. Það eru tæp þrjú ár síðan við fengum svona slæm úrslit síðast. Það versta við þetta fannst mér að vera búinn að ná ákveðnum manni á völlinn að sjá Víking Ó spila og hann gafst upp og lét sig hverfa þegar 15 mínútur voru búnar af seinni hálfleiknum. Hann kom í hálfleik. Hann sagði "ég hef miklu meira við tímann að gera en að horfa uppá þetta". 

Það neikvæða við þetta er það að við erum búnir að vera í svo miklum sjens að koma okkur lengra frá hinum toppliðunum í deildinni og okkur hefur mistekist það. Ef við náum verri árangri en við viljum í sumar þá munum við blóta því í allan vetur. Við munum sjá eftir því að hafa ekki gert betur. Liðið okkar í dag getur skráð sig í sögubækurnar hjá Víking Ó. Ef þeim tekst að komast uppí Pepsídeildina sem ég tel alls ekki óraunhæft, þrátt fyrir þennan leik, verður leikmannanna okkar í dag, alltaf minnst með hlýhug og virðingu í framtíðinni. Það voru þeir sem komu liðinu upp í fyrsta sinn. Líkt og 1974 liðið sem kom okkur fyrst uppí 2.deildina (1.deildin í dag). Það vita allir stuðningsmenn Víkings Ó hverjir skipuðu það lið. 

Það jákvæða sem hægt er að taka útúr þessu er það að Þór Akureyri hirti toppsætið af okkur í kvöld og þar með minnkar pressan á okkur og þá verða þeir liðið sem allir vilja vinna! En það er enginn heimsendir. Staða okkar er ennþá virkilega góð og nú verðum við að fara að safna stigum í viðbót. Við erum búnir að vinna marga frækna sigra í sumar sem fögnuðum innilega. Við megum ekki gera lítið úr þeim sigrum með dapri frammistöðu það sem eftir er móts. Það er núna sem við eigum að gefa allt í og uppskera.

Nú legg ég til að við setjum upp 6 leikja mót og reynum að fá sem flest stig eða að setja upp ímyndaða bikarkeppni þar sem við reynum að komast í ímyndaðan úrslitaleik.

 

Í raun varð ég ekkert svekktur með þetta tap. Þróttur átti þennan sigur skilið og þeir spiluðu vel og notuðu mikið líkamsyfirburðina sína. Þegar við mætum svona sterku liði líkamlega er svarið að sleppa löngum boltum og spila boltanum með jörðinni og láta þá hlaupa. Þeir hafa fleiri kíló á skrokknum og þreytast þess vegna fyrr.
 
Þrír bestu leikmenn Víkings Ó í leiknum að mínu mati eru, Helgi Óttarr Hafsteinsson, Edin Beslija fyrir að fiska víti og Guðmundur Magnússon fyrir markið. Í raun var mjög erfitt að finna þrjá góða leikmenn í leiknum nema Helga Óttarr sem spilaði best.

Næsti leikur er á heimavelli gegn Haukum á þriðjudagskvöldið. Þá fær liðið stórkostlegt tækifæri til að sýna knattspyrnuhreyfingunni og okkur stuðningsmönnum Víkings Ó að tapið gegn Þrótti var slys.

En þessum leik gegn Þrótti skulum við gleyma sem allra fyrst. Látum eins og hann hafi aldrei verið spilaður og einbeitum okkur að næsta leik gegn Haukum.

21.08.2012 14:26

UMFG tapaði fyrir Vogum

Tap gegn Þrótti Vogum

Við steinlágum gegn Þrótti Vogum í kvöld. Leikurinn endaði 4-2 Þrótturum í vil. Þróttarar komust yfir á 13 mínútu en Linta jafnaði úr vítaspyrnu á 25 mínútu. Þróttarar komust svo í 2-1 strax í kjölfarið en Golli jafnaði aftur á 35 mínútu og var staðan því 2-2 þegar að dómarinn flautaði til hálfleiks.Í seinni hálfleik sáu Þróttararnir um markaskorunina því að þeir bættu við tveimur mörkum á 68 og 75 mínútum og áttum við engin svör við skipulögðum leik heimamanna.Ekki er öll von úti því að Kári tapaði sínum leik í kvöld þar sem að Víðir tryggði sig í úrslitakeppnina. Okkar von felst í að vinna báða leikina sem við eigum eftir og vona að Kári misstígi sig í öðrum hvorum leiknum sem þeir eiga eftir.

Það var Davíð Wium sem var á ferðinni með myndavélina og eru fleiri myndir í myndaalbúminu.http://grundarfjordur.123.is/photoalbums/232778/


En nú er það bara spurningin um að tryggja okkur þriðja sætið og þennan aukaleik um síðustu sætin í hinni nýju þriðju deild.

Við mætum Snæfell í Stykkishólmi á þriðjudaginn og tökum svo á móti Hvíta Riddaranum hér heima laugardaginn 25. ágúst.
Skrifað af Tommi

15.08.2012 09:37

Frjálsíþróttaæfing í Borganesi

SAM-VEST samæfing í frjálsum í Borgarnesi - fyrir 11 ára og eldri 

Föstudaginn 17. ágúst kl. 17.00 verður haldin þriðja og síðasta samæfing sumarsins, á Skallagrímsvelli í Borgarnesi. 
Athugið breytta dagsetningu frá dagskrá sem birt var í vor. 
Hér er um að ræða sameiginlega æfingu fyrir 11 ára (árgangur 2001) og eldri í frjálsum (öll félög á Vesturlandi og nágr.)
Skipt verður í hópa og farið í allar helstu greinarnar í frjálsum íþróttum. 

Endilega látið Kristínu Höllu vita sem fyrst hverjir hafa áhuga á að mæta (s. 899 3043 eða kristhall@centrum.is) - og hvort þið hafið far í Borgarnes. 

með kveðju,
frjálsíþróttaráð UMFG 
Kristín Halla - Björg - Jóhann R.

14.08.2012 22:00

Söguferð í Grundarfirði

Ferðafélag Snæfellsnes með söguferð í framsveit Grundarfjarðar

Staður: Skallabúðir við austanverðan Grundarfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi.
Mæting er þriðjudaginn 21. Ágúst kl: 19:00 við skriðu fyrir ofan Skallabúðir. Þaðan verður gengið til sjávar við Skallabúðir og áfram strandlengjan inn á Eyrarodda. Þar verður kaffistopp. Síðan verður gengið upp að Hallbjarnareyri og hringnum lokað við Skallabúðarskriðu. Gangan tekur um 2 til 3 klukkutíma og er létt ganga, tilvalin fyrir fjölskyldufólk. Fararstjóri er Vilberg Guðjónsson sem ólst upp á Skallabúðum og kann frá ýmsu að segja um örnefni, gömul býli og gamla búskaparhætti.

14.08.2012 21:57

Góður sigur á Kára

Við tókum á móti Kára í frábæru veðri í gær. Leiknum, sem átti að vera síðasta föstudag, var sem betur fer frestað því að veðrið hérna á föstudaginn var viðbjóður. Skiltin að fjúka og allt í skralli. 
En aðstæður til knattspyrnu voru frábærar í gær. Við byrjuðum leikinn nokkuð kæruleysislega því að Kára menn áttu DAUÐAfæri snemma leiks eftir klúður hjá okkur í vörninni. En sem betur fer fór það forgörðum hjá þeim. Þeir áttu svo skot í stöng fljótlega eftir það. Danijel kom okkur svo í 1-0 á 22 mínútu og þannig var staðan í hálfleik.Í seinni hálfleik bætti Petja fljótlega við öðru marki og staðan orðin 2-0 á 51 mínútu. Káramenn fengu svo mjög ódýra vítaspyrnu en Viktor gerði sér lítið fyrir og varði hana og staðan því ennþá vænleg fyrir okkur. Ingólfur átti nokkur góð færi og var virkilega óheppinn að komast ekki á blað. Á 86 mínútu slapp Golli svo í gegn en aftasti varnarmaðurinn tók hann niður og dómarinn dæmdi víti og rak varnarmanninn útaf. Petja tók vítið en markvörður Kára manni varði.

Einum fleiri náðum við að sigla þessu heim og leikurinn endaði 2-0. Við þennan sigur erum við aðeins 3 stigum frá Kára og 4 stigum frá Víði sem eru í fyrsta og öðru sætinu þegar það eru þrír leikir eftir.
Skrifað af Tommi

12.08.2012 11:03

Víkingur áfram efstir þrátt fyrir tap

Tap á heimavelli:(

12. ágúst 2012

 Það voru fínar aðstæður á Ólafsvíkurvelli þegar Víkingur Ólafsvík  fengu Þórsara frá Akureyri í heimsókn, sól og smá vindur.

 

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og voru bæði liðin frekar varkár í sínum aðgerðum. Leikurinn þróaðist á þann veg að Víkingarnir voru meira með boltann en Þórsararnir beittu hröðum skyndisóknum þegar þeir unnu boltann. Það fór svo að sóknar maður Þórsarar Chkwudi Cijindu náði að skora glæsilegt mark á 28 mín, með föstu skoti utan úr teig. Hann kom á ferðinni og smelltann í fjær hornið.
 

Það var eins og Víkingarnir væru slegnir út af laginu við þetta mark og náði Chkwudi að bæta við öðru marki á 33 mín, og stðan orðin 0-2 fyrir gestunum. Klaufagangur í vörn Víkings.

Staðan í hálfleik var 0-2 fyrir Þór. Það bætti talsvert í vindinn í seinni hálfleik.

Allt annað var að sjá til Víkinganna í seinni hálfleik og réðu þeir lögum og lofum á vellinum og voru talsvert grimmari í öllum sínum aðgerðum. Víkingarnir fengu fjölmörg færi og voru oft nálægt því að skora, en Þórsararnir voru vel skipulagðir og þéttir í sínum varnarleik.
 

Það fór svo að varamaðurinn Torfi Karl Ólafsson náði að koma boltanum yfir marklínuna fyrir Víkingana á 85 mín, þá fóru í hönd æsilegar lokamínútur þar sem Víkingarnir voru ansi nálægt því að jafna metin. En tíminn næði þeim ekki og fór það svo að Þórsara náðu að hirða öll þrjú stigin sem voru í boði. Segja má að framlag Chkwudi Chijindu hafi skilað Þórsurum þessum stigum í hús.

 

Víkingur Ólafsvík

11.08.2012 20:08

100 ára afmælishátíð UMF.Staðarsveitar

Í dag fögnuðu Staðsveitungar og nágrannar 100 ára afmæli UMF.Staðarsveitar á Lýsuhóli.
Dagskrá hófst kl. 13.00 með skrúðgöngu þátttakenda og að henni lokinni var haldi íþróttakeppni í hinum ýmsu íþróttum.

Að keppni lokinni var boðið upp á afmæliskaffi
Stjórn HSH óskar Staðsveitungum til hamingju með afmælið og hátíðina

Fleiri myndir eru hér http://hsh.is/photoalbums/232398/

Kristján Þórðarson göngustjóri

Smá rigningu trufla ekki göngufólk en stafa logn var á með íþróttakeppnin var

09.08.2012 12:34

Frjálsíþróttamót 10 ára og yngri

Sam-Vest frjálsíþróttamót

 

Þriðjudaginn 14. ágúst verður haldið Sam-Vest frjálsíþróttamót fyrir 10 ára og yngri. Að mótinu standa Héraðssamböndin á Vesturlandi og eru allir krakkar á þessum aldri á svæðinu velkomnir.

Þátttökugjöld eru 500 kr. á keppanda og þarf að gera gjaldið upp við sitt félag*.  HSH greiðir keppendagjald fyrir sína keppendur.


Mótið hefst kl. 18.00 á frjálsíþróttavellinum í Borgarnesi og þurfa skráningar að berast til Kristínar Höllu í netfangið. kristhall@centrum.is eða í síma 899 3043 í síðasta lagi á hádegi mánudaginn 13. Ágúst.

Keppnisgreinar og aldursflokkar eru eftirfarandi:

Hnokkar og hnátur,  9-10 ára: Boltakast, 60 m. hlaup, langstökk og 600 m. hlaup

Pollar og pæjur, 8 ára og yngri: boltakast, 60 m. hlaup, langstökk og 400 m. hlaup

 

08.08.2012 21:11

HSH keppendur skemmtu sér vel á ULM

HSH á unglingalandsmóti UMFÍ

 

Fimmtánda unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina. Yfir 2000 þátttakendur voru skráðir og hafa aldrei verið fleiri. Áætlað er að um 15 þúsund manns hafi notið helgarinnar í frábæru veðri. Keppendur á vegum HSH voru 57 talsins og kepptu í frjálsum íþróttum, körfubolta, fótbolta, golfi, hestaíþróttum, sundi, skák og starfsíþróttum, þ.e. í upplestri og stafsetningu. Auk þess urðu tvær ellefu ára stúlkur fyrstu keppendur HSH til að keppa í fimleikum á unglingalandsmóti (ULM) en þær kepptu í liði með stúlkum frá Selfossi. Í körfubolta og fótbolta voru einnig blönduð lið HSH og ýmissa annarra félaga og töluðu krakkarnir um hvað það væri gaman að spila svona með öðrum og gera eitthvað nýtt. Ekki var hægt að sjá á spilamennskunni að þessir krakkar æfðu ekki saman að staðaldri og skemmtilegt að fylgjast með þeim.  

Keppnisaðstaðan og aðstaða áhorfenda á Selfossi var með því allra besta sem gerist á landinu. Allar helstu keppnisgreinarnar fóru fram við glæsilegar aðstæður þar sem örstutt var á milli íþróttahúss, fótboltavalla og hins nýja og glæsilega frjálsíþróttavallar. Skipulag mótsins var gott og umgengni á svæðinu til fyrirmyndar.

Á landsmótum skapast skemmtileg stemning þar sem HSH-mannskapurinn var með tjaldbúðir sínar í nágrenni við Borgfirðinga, Skagamenn og Dalamenn. HSH, UMSB og UDN eiga sameiginlegt samkomutjald þar sem hægt er að koma saman, funda og hvetja mannskapinn. Mikill áhugi var hjá HSH-foreldrum að hefja strax skipulagningu næsta ULM og var skipuð undirbúningsnefnd foreldra af svæðinu. Nefndin vill leggja stjórn HSH lið við að skipuleggja og undirbúa enn öflugri þátttöku af hálfu HSH á ULM á Höfn í Hornafirði 2013. Stefnan er sett á 100 þátttakendur HSH úr öllum eða flestum keppnisgreinum sem þar verða í boði!

Það voru stoltir foreldrar og aðstandendur sem horfðu á ungmennin ganga undir merkjum HSH inná Selfossvöll við setningu mótsins á föstudagskvöldinu. Allir keppendur stóðu sig síðan mjög vel á mótinu og voru sér og HSH til sóma.

Von er svo á frekari upplýsingum um úrslit og árangur HSH-keppendanna, auk ljósmynda frá mótinu.

02.08.2012 16:48

Metþátttaka á ULM

Flestir skráðir til leiks í knattspyrnu

knattspyrna_a_unglingalandsmotiMetþátttaka verður á 15. Unglingalandsmóti UMFÍ sem fer fram á Selfossi um verslunarmannahelgina. Skráningu á mótið lauk sl. sunnudag, en þá höfðu tæplega 2.000 þátttakendur skráð sig til þátttöku. 53 keppendur eru skráðir hjá HSH. Þeir fá afhenta boli merkta HSH fyrir setningu mótsins

 
Fjölmennasta mótið hingað til var í Borgarnesi árið 2010, en þá tóku 1.748 keppendur þátt, en 1.247 tóku þátt í síðasta móti sem var haldið á Egilsstöðum. Líkt og undanfarin ár taka flestir þátt í knattspyrnukeppni mótsins, en þar eru 1.120 skráðir. Þá eru 621 skráðir í frjálsíþróttir og 612 í körfuknattleik. Aðrar greinar sem ná 100 keppendum eru fimleikar með 119 keppendur og 106 keppa í sundi.

 
Dagskráin er glæsileg í alla staði og þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Keppt verður í 14 íþróttagreinum á mótinu og hefst keppni í nokkrum greinum á föstudagsmorgun kl. 8:00. Keppni lýkur seinnipart sunnudags. Auk þess verður margs konar afþreying í boði alla daga mótsins. Kvöldvökur fara fram í risatjaldi þar sem fram koma nokkrir af þekktustu skemmtikröftum landsins.

 
Vegna mikillar þátttöku er ökumönnum sem koma frá eða í gegnum höfuðborgarsvæðið bent á að tilvalið er að fara Þrengslin og sleppa þá við hugsanlega umferðarteppu við Hveragerði og Ölfusárbrú.

 
Þess má geta að veðurspáin fyrir helgina er sérlega hagstæð fyrir Selfosssvæðið.

 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31