Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 September

30.09.2012 12:41

Snæfellsstúlkur Lengjubikarmeistarar.

Snæfell tryggði sér sinn fyrsta titil í meistaraflokki kvenna í kvöld þegar þær fóru til Keflavíkur og sigruðu heimasæturnar þar á bæ með 78 stigum gegn 72 í hörku leik þar sem úrslitin réðust aðeins á síðustu mínútu leiksins.  Það var "sú gamla" ef svo má segja, Alda Leif Jónsdóttir sem reið baggamuninn fyrir gestina en hún setti 19 stig og sýndi að hún er komin aftur í hörku form.

Leikurinn lofaði mjög góðu fyrir komandi tímabil í kvennaboltanum.  Þarna voru líkast til að etja kappi tvö af þeim 4-5 liðum sem munu koma til með að slást um þá titla sem í boða verða í vetur. Bæði lið þetta kvöldið voru að spila hraðann og skemmtilegan bolta. Tuðran gekk hratt á milli kvenna sem endaði svo í skemmtilegu galopnu sniðskoti á báðum endum vallarins.


Takturinn færðist milli liða nánast jafnt frá fyrri hálfleik og til þess síðari. Keflavíkurstúlkur voru að spila feikilega vel í fyrri hálfleik og pressuðu Snæfell stíft með góðum árangri. Í þeim síðari komu Snæfells stúlkur til leiks með blásið hárið eftir ræðu Ingaþórs og spiluðu töluvert grimmari vörn.  Það var einmitt svæðisvörn þeirra sem virtist þyrnir í augum heimastúlkna og á tíma vantaði kjark hjá þeim að taka af skarið. 


En það kom hinsvegar loksins og þegar um 2 mínútur voru til leiksloka var jafnt á öllum tölum og stefndi í rafmagnaðar loka mínútur. Snæfells stúlkur voru hinsvegar eins og sagt er þessa daganna "með´idda" á loka sprettinum því þær skoruðu 6 stig í röð og voru komnar í 70:76 þegar mínúta var til loka leiks.  Það var hreinlega of stór biti fyrir heimastúlkur og því voru það gestirnir sem sigruðu og fyrsti bikarinn í höfn.


Snæfells liðið á eftir að slást um titla í vetur ef meiðsli munu ekki hrjá liðið. Þær eru fáliðaðar að sögn Ingaþórs, en þarna eru ungar stúlkur innan um reynslu bolta og svo skemmir ekki að þær tefla fram sama erlenda leikmanni og í fyrra.


Keflavíkurliðið er gríðarleg vel mannað og það starf sem unnið hefur verið í yngriflokkum kvenna er svo sannarlega að skila sér.  Í byrjunarliði þeirra í kvöld voru t.a.m. þrjár sem enn eru sóttar á æfingu af mæðrum sínum (ekki komnar með bílpróf)  Þessar stúlkur fengu eldskýrn sína í fyrra í deildinni og nú er komið að því að þær axli stærra hlutverk og af þessum leik að dæma er ekki annað að sjá en að þær komi til með að gera það.


Hjá Snæfell var það sem fyrr segir Alda Leif Jónsdóttir sem átti hreint skínandi leik og var að hitta gríðarlega vel.  Augljóslega búin að leggja mikið á sig, sjálfstraustið í botni  og uppsker eftir því.


Hjá Keflavík var það líkast til efnilegasti leikmaður okkar í kvennaboltanum, Sara Rún Hinriksdóttir sem skoraði 22 stig og var stigahæst hjá Keflavík.


Tölfræði leiksins
 
 
mynd/texti: skuli@karfan.is

 


26.09.2012 11:34

Fyrirlestur um eineltismál

Æskulýðsvettvangurinn - stendur fyrir fræðsluerindum víðs vegar um land

aeskaÆskulýðsvettvangurinn, samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Bandalags íslenskra skáta og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, ætlar á komandi haustmánuðum að fara hringferð um landið með 90 mínútna fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála.


Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur, kemur til með að flytja fyrirlestur byggðan á ný út kominni bók sinni, EKKI MEIR, sem er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. 


Tilgangurinn með þessu fræðsluerindi er að vekja athygli á þessum málaflokki, opna betur augu starfsfólks og sjálfboðaliða fyrir því að vera vakandi og ávallt á verði gagnvart einelti og annarri óæskilegri hegðun. Erindin eru opin fyrir alla.


Á heimasíðu Æskulýðsvettvangsins, www.aeskulydsvettvangurinn.is, er hægt að nálgast upplýsingar um dagsetningar og staði.

Hér má sjá dagsetningar:


o  Vestmannaeyjar fimmtudagur 20. september kl. 17.00 - 18.30 í Hamarskóla.
o Ísafjörður fimmtudagur 4. október kl. 15.45 - 17.15
o Akureyri fimmtudagur 11. október kl. 16.30 - 18.00 í sal KFUM og KFUK Sunnuhlíð.
o Höfn mánudagur 22. október kl. 16.30 - 18.00 í Nýheimum, sal Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu.
o Egilsstaðir fimmtudagur 25. október kl. 17.00 - 18.30 í húsnæði Björgunarsveitarinnar Miðási 1.
o Grundarfjörður fimmtudaginn 1. nóvember 16.30-18.00. í húsnæði Fjölbrautarskóla Snæfellinga 
o Borgarnes fimmtudaginn 1. nóvember 19.30-21.00 í húsnæði Björgunarsveitarinnar
o Selfoss 8. nóvember Eineltisdagurinn kl. 20.00 hjá Fræðsluneti Suðurlands.
o Reykjavík 8. nóvember Eineltisdagurinn. Nánar auglýst síðar.


17.09.2012 23:10

Umsóknir í Íþróttasjóð

Umsóknir um styrki í Íþróttasjóð berist fyrir 1. október nk.
 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr Íþróttasjóði sem starfar samkvæmt íþróttalögum nr. 64/1998, sbr. reglugerð nr. 803/2008. Umsóknarfrestur er til 1. október 2012.

Veita má framlög til eftirfarandi verkefna á sviði íþrótta:

  • Sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana.
  • Útbreiðslu- og fræðsluverkefna.
  • Íþróttarannsókna.
  • Verkefna samkvæmt 13. gr. íþróttalaga.

 

Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi.

Eyðublöð má finna á https://minarsidur.stjr.is. Sækja þarf um aðgang að umsóknavef ráðuneytisins.

Umsækjendur skrá sig inn með kennitölu og lykilorði og velja mennta- og menningarmálaráðuneytið undir flipanum Umsóknir. Þar er umsóknareyðublað fyrir íþróttasjóð. Svæði merkt rauðri stjörnu verður að fylla út. Umsækjendur geta fylgst með afgreiðslu umsókna sinna með því að skrá sig inn á umsóknavefinn.

Nánari upplýsingar veitir Valgerður Þórunn Bjarnadóttir í síma 545 9500 eða tölvupósti.

17.09.2012 22:56

Hjólað í skólann

Hjólað í skólann

Í tengslum við Evrópska samgönguviku (16. til 22. september) eru nemendur og starfsmenn allra framhaldsskóla hvattir til að hjóla í skóla/vinnu á morgun, þriðjudaginn 18. september.

Skólar eru jafnframt hvattir til að senda inn mynd sem fangar vel stemningu dagsins. En dómnefnd (aðilar úr röðum ÍSÍ, Hjólafærni, Embættis landlæknis & Samgönguviku) mun svo velja skemmtilegustu myndina og veita viðkomandi framhaldsskóla 50.000 kr. sem verðlaunafé til að efla enn frekar hjólreiðamenningu skólans. Sendið myndina á netfangið hedinn@landlaeknir.is fyrir lok dags laugardaginn 22. september.

Skráning í Lífshlaupið fyrir framhaldsskólana stendur yfir. Smellið hér til þess að skrá skóla, nemendur og starfsmenn til leiks.

17.09.2012 22:44

Til hamingju Víkingur

Víkingur Ólafsvík tryggði sér í gær sæti í efstu deild á Íslandi þegar liðið vann glæsilega sigur á KA-mönnum frá Akureyri. Leikurinn fór rólega af stað og glöggt mátti sjá að mikið var undir hjá báðum liðum. Fyrrihálfleikur einkenndist af mikilli baráttu og lítið var um opin færi. Varnir liðanna voru vel á verði og tókst hvorugu liðinu að skora í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur fór af stað líkt og sá fyrri þar sem liðin skiptust á að sækja án þess þó að taka óþarfa áhættur. Það var því ekki fyrr en á 75. mínútu er fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Þar var að verki Edin Beslija með glæsilegri bakfallsspyrnu. Aðdragandinn að markinu var sá að varamennirnir Torfi Karl og Arnar Sveinn léku sín á milli á hægri kantinum sem endaði með góðri fyrirgjöf Arnars. Varnarmaður KA skallaði boltann beint um í loftið með þeim afleiðingum að Edin smellti knettinum með glæsibrag framhjá Sandor í markinu.

Við mark Edins virtist sem allar flóðgáttir hefðu opnast og þrjú mörk fylgdu í kjölfarið. Torfi Karl Ólafsson jók muninn í tvö mörk tíu mínútum síðar eftir glæsilegan undirbúning frá Arnari Svein. Arnar geystist upp kantinn í hraðri sókn og sendiboltann inn á markteig þar sem Torfi var mættur og átti í engum vandræðum með að leggja boltann í autt markið.


Tveimur mínútum síðar vann Helgi Óttarr boltann á miðjum vallarhelming okkar manna. Helgi braust upp völlinn á harða spretti, sendi inn fyrir á Eldar Masic sem rak knöttinn að teig KA-manna og lét vaða á markið. Knötturinn hafnaði í bláhorninu, óverjandi fyrir Sandor í markinu. Víkingar voru ekki hættir því í uppbótartíma rak Björn Pálsson smiðshöggið á glæsilegan sigur Víkings. Boltinn hrökk af varnarmönnum KA út fyrir teig þar sem Björn fékk nægan tíma til að hlaða í skotið sem var hnitmiðað í hornið nær.

Glæsilegur sigur Víkinga tryggði þeim sæti á meðal þeirra bestu árið 2013 og eru leikmenn ásamt þeim er standa að liðinu vel að því komnir. Á þar jafnt yfir þjálfara, stjórnarmenn og áhorfendur sem voru frábærir á Akureyri í gær.

                             

   


Tengt efni:
- Umfjöllun í Pepsi mörkunum (hefst 18:41) 
- Mörk leiksins á sporttv.is
- Myndaveisla fotbolta.net
- Umfjöllun 433.is
- Umfjöllun visi.is
- Umfjöllun mbl.is
- Myndir/Umfjöllun sport.is
- Íþróttafréttirnar á RÚV
- Íþróttafréttirnar á Stöð 2 
- Leiksskýrsla KSÍ 
- Ejub: Búið að vera gott sumar 
- Ótrúleg tilfinning 
- Umfjöllun SNB.is 
- Ejub: Lítill klúbbur með gott fólk
- Guðmundur Steinn: Pressan var á þeim 
- Hjólið undan rútunni hjá Ólafsvíkingum 

 

Víkingur Ólafsvík

17.09.2012 22:42

Körfuboltavertíðin byrjuð


Stúlkurnar unnu sinn fyrsta leik í Lengjubikar kvenna sem er spilaður núna rétt fyrir deildarkeppnina. Leikurin var gegn Fjölni í Grafarvogi og endaði 92-62 fyrir Snæfell. Snæfell byrjaði 10-0 og voru strax ákveðnar í að leggja grunn að sigri i upphafi leiks. Staðan í hálfleik var 51-30.

Stigaskor Snæfells: Hildur Björg 18. Kieraah Marlow 17/18 frák. Hildur Sig 14/8 stoðs. Rósa Kristín 12. Alda Leif 9. Helga Hjördís 7. Berglind Gunnars 7. Aníta Rún 3. Rebekka Rán 3. Silja Katrín 2. 

 

Næsti leikur er á miðvikudaginn 18. september kl 19:15 í Stykkishólmi gegn Val.

17.09.2012 22:38

Lokahóf UMFG

Lokahóf Knattspyrnudeildar UMFG fór fram á dögunum

Besti leikmaður Grundarfjarðar 2012 var valinn Viktor Örn Jóhannsson

Efnilegasti leikmaður Grundarfjarðar 2012 var valinn Hilmar Orri Jóhannsson

Markahæstur var Heimir Þór Ásgeirsson með 21 mark en rétt í hælunum á honum var Ingólfur Örn Kristjánsson með 20 mörk.Einnig var Viktor valinn leikmaður ársins af meðspilurum sínum. 

Sumarið 2012 var mjög fínt hjá okkur. Eftir hæga byrjun, þar sem við töpuðum fyrstu tveim leikjunum hrukkum við loks í gang og sigruðum næstu tvo leiki. Síðan mjötluðum við stigunum hægt og rólega inn og vorum alltaf í baráttunni um úrslitakeppnina. Með sigri á Kára hér heima í ágúst vorum við með pálmann í höndunum um að komast í úrslitakeppnina en fengum svo skell gegn Þrótti Vogum þar sem að þessi frægi pálmi var sleginn úr höndunum á okkur. Þar með þurftum við að treysta á hagstæð úrslit annara til að enda í öðru sæti. En hin liðin kláruðu sitt og því varð þriðja sætið okkar. 

Þá tók við hreinn úrslitaleikur um sæti í nýju þriðju deildinni og þar kláruðum við lið Léttis úr Breiðholti 6-1 eins og lesa má hér fyrir neðan..

Við þökkum velunnurum liðsins kærlega fyrir frábært sumar.
Skrifað af Tommi

10.09.2012 09:49

Hópferð á Akureyri

Vagn Ingólfsson, tók það verkefni að sér að skipuleggja rútuferð til Akureyrar fyrir stuðningsmenn Víkings. (Laugardaginn 15. sept).

Þeir sem hafa áhuga á að fara, vinsamlega hringið í Vagn og staðfestið. Fyrstir koma fyrstir fá. Nú þegar hafa 23 skráð sig. Það eru sæti fyrir 44. En það verður að vera full rúta til þess að dæmið borgi sig. Þetta mun kosta 4000 kr á manninn. Það verður einnig stoppað í Borgarnesi og náð í stuðningsmenn frá Reykjavíkursvæðinu. 

Ef þið ætlið með þá verðið þið að hringja í Vagn.867-7957.
Til þess að þetta gangi upp, þá þurfa allir að vera ákveðnir í að fara.
Víkingur Ólafsvík

10.09.2012 09:45

Er Víkingur að tryggja sig í úrvalsdeildina

20. umferð 1. deild karla lauk í dag með þremur leikjum. Aðeins tvær umferðir eru nú eftir af deildinni.

Víkingur Ólafsvík vann 1-0 sigur á ÍR. Þar með er ljóst að ÍR-ingar eru fallnir úr deildinni og munu leika í 2. deild á næsta tímabili.

Ólafsvíkingar eru komnir með annan fótinn upp í Pepsi-deildina en KA-menn eiga enn von um að fylgja Þórsurum upp. Í næstu umferð taka þeir á móti Víkingum og ef KA vinnur ekki þann leik fara Víkingar upp.Víkingur Ólafsvík 1 - 0 ÍR
1-0 Guðmundur Magnússon ('35)

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=133013#ixzz263hpP3EN

07.09.2012 23:05

UMFG leikur í 3 deild að ári

Við mættum liði Léttis í leik um laust sæti í þriðju deildinni í dag. Leikurinn var spilaður í Borgarnesi á hlutlausum velli.Við byrjuðum leikinn mun betur og Golli kom okkur í 2-0 eftir þrjátíu mínútur. Danni kom okkur í 3-0 áður en Léttismenn minnkuðu muninn. Golli fullkomnaði svo þrennuna og kom okkur í 4-1 áður en dómarinn flautaði til hálfleiks. Í síðari hálfleik reyndu Léttismenn að koma sér inn í leikinn en Hemmi hálfpartinn slökkti þær litlu vonir sem þeir höfðu með marki á 50 mínútu og staðan því 5-1. Heimir Þór kláraði svo dæmið á 90 mínútu og leiknum lauk með stórsigri okkar 6-1.Dabbi Wium var á vellinum með myndavélina og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Fleiri myndir í myndaalbúminu.
  • 1

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31