Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Nóvember

30.11.2012 22:42

Naumt tap gegn Keflavík

29. nóvember 2012
Mjótt á munum í Keflavík

Snæfell tapaði naumt 86-82 gegn Keflavík í Keflavík og eru nú í öðru sæti en með jafn mörg stig og Grindavík, Stjarnan og Þór Þ. Snæfellingar komust 9 stigum yfir eftir fyrsta hluta 14-23 en Keflavík sótti á og staðan var 41-45 fyrir Snæfell í hálfleik. Keflvíkingar tóku af skarið strax í seinni hálfleik og ekki í fyrsta sinn sem Snæfellsmenn fá þriðja hlutann í bakið. Staðan 67-60 fyrir Keflavík og Snæfell fóru að elta og náðu ekki að gera sér leik úr þessu í fjórða hluta og leikurinn endaði 86-82.

Jón Ólafur var á eldi og skoraði 31 stig fyrir Snæfell en Stephen McDowell setti niður 28 stg fyrir Keflavík.

 

Tölfræði leiksins.

 

Keflavík-Snæfell 86-82 (14-23, 27-22, 26-15, 19-22)

Keflavík: Stephen Mc Dowell 28/7 fráköst, Valur Orri Valsson 19, Darrel Keith Lewis 17/6 fráköst, Michael Craion 15/19 fráköst/4 varin skot, Magnús Þór Gunnarsson 5, Ragnar Gerald Albertsson 2, Snorri Hrafnkelsson 0/5 fráköst, Andri Daníelsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.

Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 31/9 fráköst, Asim McQueen 13/6 fráköst, Jay Threatt 12/8 fráköst/10 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 11, Sveinn Arnar Davíðsson 5, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 4/4 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 3, Ólafur Torfason 2/4 fráköst, Stefán Karel Torfason 1, Jóhann Kristófer Sævarsson 0, Óttar Sigurðsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0.

30.11.2012 22:40

Tæpt í Grindavík

29. nóvember 2012Snæfell slapp með sigur úr Röstinni í Domino´s deild kvenna í kvöld en Hólmarar lentu þar í kröppum dansi gegn Crystal Smith og félögum í Grindavík þegar liðin mættust í Domino´s deild kvenna.
 

Byrjunarlið Grindavíkur: Crystal Smith, Berglind Anna Magnúsdóttir, Helga Rut Hallgrímsdóttir, Harpa Rakel Hallgrímsdóttir og Petrúnella Skúladóttir
Byrjunarlið Snæfells: Kieraah Marlow, Hildur Björg Kjartansdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Alda Leif Jónsdóttir.
 

Grindavík átti í erfiðleikum í fyrsta leikhluta. En þær höfðu einungis skorað 3 stig þegar 2 og hálf mínúta voru eftir af fyrsta leikhlutanum. Crystal kom með þrist til viðbótar og Helga bætti við sniðskoti. Snæfell var á góðu róli og settu þær 17 stig í leikhlutanum. Því var staðan orðin 8-17 Snæfell í vil.
 

Grindavík virtust mættar til leiks í öðrum leikhluta og byrjuðu á því að pressa fullan völl. Þær komu sterkar til baka og náðu að jafna þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af leikhlutanum með þrist frá Crystal Smith. Grindavík komst 5 stigum yfir eftir það en leikurinn hélst jafn út leikhlutann og endaði hann 36-36. Grindavík vann leikhlutann með 9 stigum.
 

Í hálfleik var Crystal Smith komin með 21 stig fyrir Grindavík og fyrir Snæfell var Kieraah Marlow með 12 stig ásamt 7 fráköstum og Hildur Sigurðardóttir með 10 stig. 
 

Crystal Smith opnaði þriðja leikhluta eftir að Hildur Sigurðardóttir hafði brotið á henni í þriggja stiga skoti og setti hún öll þrjú vítin ofan í. Mikil spenna var í leikhlutanum og setti Ingibjörg Yrsa niður dramatískan þrist þegar 3 og hálf mínúta voru eftir og komust Grindavík þá í stöðuna 56-48. Staðan eftir leikhlutann var 61-56 Grindavík í vil. Grindavík hafði því unnið leikhlutann með 5 stigum.
 

Fjórði leikhluti var jafn framan af en þegar 6 mínútur voru eftir af leikhlutanum fékk þjálfari Grindavíkur Guðmundur Bragason tæknivillu. Alda steig á vítalínuna og hitti úr hvorugu vítaskotinu. Þarna var staðan orðin 72-67 Grindavík í vil. Dramatík leiksins hélt áfram og stuðningsmenn Grindavíkur voru ekki sáttir með dómgæsluna. Þegar 3 mínútur voru eftir misstu Grindavík Crystal Smith útaf með 5 villur og þá var ekki aftur snúið. Þær voru vængbrotnar án hennar. Snæfell kláruðu því leikinn og unnu með 7 stigum. Endatölur leiksins voru 76-83.
 

Crystal Smith átti stórleik fyrir Grindavík. Hún var með 37 stig (100% nýting á vítalínunni 7/7) 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Petrúnella hrökk í gang eftir fyrsta leikhluta og var hún með 17 stig í leiknum ásamt 7 fráköstum.
 

Fyrir Snæfell stóðu Hildur Sigurðardóttir og Kieraah Marlow upp úr. Hildur Sigurðardóttir var með 28 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Kieraah Marlow var með 22 stig, 14 fráköst ásamt því að hafa sótt 9 villur.
 

Tölfræði leiksins
 

Mynd úr safni karfan.is/ Hildur fór mikinn með Snæfell í kvöld
Umfjöllun/ Jenný Ósk Óskarsdóttir af Karfan.is

28.11.2012 20:37

Skemmtileg og vel heppnuð samæfing í frjálsum íþróttum

Þann 24. nóvember sl. hélt SAMVEST samstarfið sameiginlega æfingu í hinni glæsilegu frjálsíþróttaaðstöðu í Laugardalshöll.

Rúmlega 30 krakkar á aldrinum 10-15 ára og þrír þjálfarar af samstarfssvæðinu mættu á æfinguna sem var undirbúin af héraðssamböndunum sameiginlega, með aðstoð Jónasar og Þóreyjar Eddu hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Frá okkur í UMFG (HSH) voru mættir 7 krakkar. 

Krakkarnir nutu leiðsagnar þriggja gestaþjálfara sem komu til þeirra í Höllinni. Alberto Borges, sprett- og stökkþjálfari hjá ÍR, íþróttafræðingur og fyrrv. landsliðsþjálfari Kúbu í frjálsíþróttum, leiðbeindi krökkunum í spretthlaupi. Hann fór yfir hvernig maður stillir og notar startblokkir og hvernig eigi að bera sig að við hlaupin. Hann tók myndir af krökkunum að hlaupa og sýndi þeim eftir á, til að útskýra og leiðbeina þeim.

Einar Vilhjálmsson, spjótkastarinn góðkunni þjálfar í dag fremstu kastara landsins. Hann leiðbeindi krökkunum með grunnatriði spjótkastsins og útskýrði hvernig á að halda rétt á spjótinu og hvernig eigi að beita sér við að kasta því. Hann lagði áherslu á að í spjótinu byggðist mikið á því að hafa góðan takt, kunna að telja skrefin sín og samhæfa við kastið. Hann sagði t.d. að dans væri góð þjálfun fyrir spjótkastara og hvatti krakkana til að æfa dans!

Þorsteinn Ingvarsson er 23 ára sveitastrákur, langstökkvari úr HSÞ og landsliðsmaður í frjálsum íþróttum. Hann leiðbeindi krökkunum í langstökki og sagði þeim frá sínum æfingaferli. Þegar hann var krakki í sveit í Þingeyjarsýslu þurftu foreldrar hans að keyra hann á æfingar, það var um 40 mín. akstur og því talsvert fyrir því haft að komast á æfingar. Hann sagði krökkunum að galdurinn á bak við það að ná árangri væri að vera duglegur að æfa sig og að ýmsar æfingar gæti maður bara gert "í túninu heima". Hann kenndi þeim 3 stökkæfingar sem þau gætu gert sjálf til að þjálfa sig fyrir langstökk.

Hópnum var skipt upp í þrennt og fengu allir leiðsögn á þessum þremur "stöðvum". Undir lok æfingar fengu þau að velja á milli hástökksæfinga sem Unnur frá UMSB sá um og grunnatriða stangarstökks sem Kristín Halla frá UMFG/HSH sá um. Birgitta Maggý frá UMFK stjórnaði síðan teygjuæfingum í lokin og gestaþjálfararnir kvöddu hópinn með góðum hvatningarorðum.

Að lokinni æfingu borðuðu allir saman í húsnæði ÍSÍ og góðir gestir komu í heimsókn. Það var afreksíþróttafólkið Sveinbjörg Zophoníasdóttir, tvítug sjöþrautarkona frá Hornafirði, sem æfir nú með FH, og Einar Daði Lárusson 23 ára tugþrautarmaður úr ÍR. Þau ræddu við krakkana um frjálsar íþróttir, sögðu þeim frá sínum æfingum og íþróttaferli.

Síðan fór mannskapurinn í sund áður en haldið var heim á leið.

Samæfingin í Laugardalshöll er skýrt dæmi um það sem SAMVEST-hópurinn getur gert vegna samstarfsins - eitthvað sem ekkert eitt héraðssamband gæti hins vegar gert eitt og sér.


Öllum þátttakendum er þökkuð samveran - krakkarnir stóðu sig með miklum sóma og voru í alla staði til fyrirmyndar. 

Öllum sem að komu, héraðssamböndunum, Frjálsíþróttasambandinu, gestaþjálfurum og gestum er sömuleiðis þökkuð aðstoðin og þeirra framlag til að gera þetta að góðri og skemmtilegri æfingu :-)


Ljósmyndir frá æfingunni eru inn í myndaalbúm hér til hliðar

Skrifað af Björgu

28.11.2012 15:17

Brynjar Kristmunds í æfingahóp U-21

27. nóvember 2012
Brynjar Kristmundsson leikmaður Víkings Ólafsvik var í dag valinn í æfingahóp U-21 landsliðs Íslands í knattspyrnu sem mun æfa í Kórnum næstkomandi sunnudag. 

Brynjar mun þ.a.l. ekki vera með Víkingum sem keppa í futsal sama dag en þá mun seinni umferð hraðmótsins fara fram í Árbænum. Brynjar var heldur ekki með þegar leikið var í Ólafsvík fyrir rétt rúmum tveimur vikum af sömu sökum. 

Mótið hefst klukkan 15:00 og fyrsti leikur Víkings verður gegn Stál-Úlfi klukkan 15:35 í Fylkishöllinni.  

28.11.2012 14:53

Úrslitakeppni Lengjubikars

25. nóvember 2012
Tindastóll Lengjubikarmeistarar.

 

Það voru Snæfell og Tindastóll sem leiddu saman hesta sína í úrslitaleik Lengjubikars karla sem fram í fór í Stykkishólmi. Sannkallaður landsbyggðarslagur.

Byrjunarliðin.
Snæfell: Jón Ólafur, Asim McQueen. Sveinn Arnar, Hafþór Ingi, Jay Threatt.
Tindastóll: Drew Gibson, Helgi Freyr, George Valentine, Helgi Rafn, Ingvi Rafn.

Snæfell komst á fyrstu skrefunum í 7-2 eftir troðslu frá Asim en Tindastóll andaði í hálsmálið og voru skammt undan. Sveinn Arnar tók á sig villur fyrir Snæfell og var kominn með þrjár slíkar eftir fjögra mínútna leik. Hraðinn dempaðist eftir miðjann fyrsta hluta og leikurinn fór einhvert jafnvægi þar sem Snæfell leiddi naumt 20-18 eftir fyrsta leikhluta. Leikmenn voru að dreifa vel framlaginu innan beggja liða og allir tilbúnir í leik sem slíkann.

Tindastóll jafnaði 23-23 og engar blikur voru á lofti að annað liðið tæki af skarið þar sem varnarleikur beggja liða var með ágætum. Snæfell komst með tilþrifum í 30-23 eftir að Sigurður Þorvaldsson, sem var kominn í Snæfellsliðið að nýju, fleygði sér á eftir boltanum og bjargaði honum í hendur Jay sem smellti þremur og hann kominn með 10 stig en Þröstur Jóhannsson var kominn með 8 stig hjá Tindastóli og var að spila vel ásamt Gibson.

Jay skellti í 4. þristinn og var óstöðvandi þegar Snæfell komst hægt og bítandi 11 stigum yfir 42-31. Tindastóll náði að rífa sig upp og saxa á en George Valentine var að koma inn í þann hutann 44-40 og staðan var svo 45-44 fyrir Snæfell í hálfleik og heilmikill og skemmtilegur úrslitaleikur í gangi.

Jay Threatt var í góðum gír með 18 stig og Asim McQueen bætti við 10 hjá Snæfelli en hjá Tindastóli var Drew Gibson með 11 stig og George Valentine 10 stig.

 

 

Tindastólsmenn komu sannfærandi eftir hálfleiksræðu Bárðar og með áræðni komust þeir í forystu 48-55 á meðan ekkert gekk hjá Snæfelli, sérstaklega sóknarlega. Snæfell lagaði ekki eins mikið til hjá sér eftir leikhlé og áttu erfitt með að tæta upp muninn en Tindastóll vory tíu stigum yfir 54-64 þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja hluta og Snæfell fór í spjall. Ekki gekk það betur en svo að Valentine fékk "and1" körfur og Tindastóll náði til flestra bolta sem lausir voru og gengu á lagið með baráttu og komust í 59-72 eftir þriðja fjórðung.

Sveinn Arnar fór með hörku í Þröst Leó og uppskar óíþróttamannslega villu og var það hans fimmta. Tindastóll leidd 63-79 og áfram héldu Snæfellsmenn að elta og áttu í erfiðleikum með sterka Stólana. Þegar Nonni Mæju smellti Snæfelli betur í gang með þrist 70-79 svaraði Þröstur með einum slíkum, en Þröstur var að gæla við að vera maður leiksins hjá Tindastóli. 70-82 og Snæfell barðist við að saxa á þegar um fjórar mínútur voru eftir.

Tindastóll hélt haus og voru lausir við fát fum og leiddu 75-86 þegar mínúta var eftir og brekka fyrir Snæfell að reyna við sigurinn. Ellefu stig skildu liðin af þegar 30 sekúndur voru eftir 81-92. George Valentine kláraði leikinn á háloftatroðslu og Tindstóll sigraði 81-96 og eru Lengjbikarmeistarar 2012.

28.11.2012 11:11

Samstarf í frjálsum íþróttum

http://hsh.is/photoalbums/237668/


HSH er eitt af sjö héraðssamböndum sem hefja nú samvinnu um eflingu frjálsíþrótta á starfssvæðum sínum. Samböndin rituðu undir viljayfirlýsingu um sameiginlegt þróunarverkefni undir heitinu SAMVEST, þann 24. nóv. sl.

Samböndin eru Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH), Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB), Ungmennasamband Dalamanna og N-Breiðfirðinga (UDN), Ungmennafélagið Skipaskagi (USK) Akranesi, Héraðssambandið Hrafnaflóki (HHF) á sunnanverðum Vestfjörðum, Héraðssamband Strandamanna (HSS) og Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK).

Samstarfsaðilar þeirra og aðilar að viljayfirlýsingunni eru Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ).

Frjálsíþróttadeildir sambandanna héldu sameiginlegar æfingar og íþróttamót sl. sumar, en ákveðið var að stíga skrefið lengra og ganga nú til formlegs samstarfs. Fyrir árslok verður gengið frá samningi þar sem samstarfið verður útfært nánar. Samningurinn verður til 3ja ára, út árið 2015, og verður þá endurskoðaður.

Markmið samstarfsins er útbreiðsla og efling frjálsra íþrótta; að auka ástundun og gera frjálsíþróttir að aðlaðandi og ánægjulegum kosti fyrir börn og ungmenni á samstarfssvæðinu.

Skipulagðar verða sameiginlegar æfingar, íþróttamót og heimsóknir innan og utan svæðisins. Ætlunin er t.d. að fá utanaðkomandi þjálfara og gesti í heimsókn og leita víðtækari stuðnings við útbreiðslu, æfingar og keppnir.

Aðkoma UMFÍ og FRÍ felst t.d. í að aðstoða við útvegun þjálfara og skipulagningu æfinga og veita annan stuðningi sem fellur innan verksviðs félaganna.

Trú samningsaðilanna er að með samstarfi geti þeir gert meira en hver fyrir sig; boðið börnum og unglingum upp á betri þjónustu og aukið fjölbreytni íþróttastarfsins.

Viljayfirlýsingin var undirrituð í Laugardalshöll því þennan sama dag stóðu samböndin einmitt að samæfingu í glæsilegri frjálsíþróttaaðstöðu Laugardalshallar. Sagt er frá samæfingunni í annarri frétt hér á vefnum.Skrifað af Björgu

24.11.2012 21:09

Víkingur með fullt hús stiga eftir 1 hraðmót

9/9 mögulegum í Futsal-Hraðmótinu

19. nóvember 2012 klukkan 11:17
Víkingar fóru vel af stað í Íslandsmótinu í Futsal en fyrri umferð riðlakeppninnar var leikin í Ólafsvík um helgina. Mótið var með svokölluðu hraðmótasniði þar sem hvert lið í riðlinum lék þrjá leiki með stuttu millibili. Liðin sem voru skráð til leiks voru Stál-Úlfur, Fylkir, Grundarfjörður og Víkingur Ólafsvík. 

Það er skemmst frá því að segja að Víkingar unnu alla sína leiki. Fyrsti leikur mótsins var gegn Stál-Úlfi þar sem lokatölur urðu 5-1. Mörk Víkings gerðu Guðmundur Magnússon (2), Guðmundu Steinn Hafsteinsson, Damir Muminovic og Heimir Þór Ásgeirsson. Næsti leikur var gegn Grundarfirði þar sem Víkingur hafði betur 6-3. Mörk Víkings gerðu Eyþór Helgi Birgisson, Heimir Þór Ásgeirsson, Guðmundur Magnússon, Steinar Már Ragnarsson (2) og svo varð Vignir Stefánsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark. 

Síðasti leikur mótsins var gegn Fylkismönnum og úr varð nokkurskonar úrslitaleikur í mótinu því bæði lið höfðu unnið 2 leiki hvort. Víkingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og hefðu hæglega getað skorað 4 mörk í fyrri hálfleik. Víkingar fóru hins vegar tveggja marka forystu í leikhlé með mörkum frá Guðmundi Steini og Tomasz Luba. Fylkismenn sóttu í sig veðrið þegar líða tók á leikinn og náðu að minnka muninn í 2-1 og þar við sat. Guðmundur Magnússon hefði getað gulltryggt sigurinn undir lok leiksins en mistókst að vippa yfir Bjarna Þórð í marki Fylkis. Víkingar fara því með fullt hús stiga í seinni umferð riðlakeppninnar sem haldin verður í Fylkishöll 2. desember næstkomandi.

24.11.2012 21:06

Meistaraflokkur kvenna hjá Víking

Stofnfundur meistaraflokks kvenna undir merki Víkings

20. nóvember 2012 klukkan 15:06

Stofnfundur meistaraflokks kvenna á Snæfellsnesi var haldinn í íþróttahúsi Snæfellsbæjar í gær mánudaginn 19. nóvember. Alls mættu rúmlega 20 manns á fundinn, leikmenn, stjórn og áhugafólk um kvennaknattspyrnu á Snæfellsnesi. Stjórnina skipa Sveinn Þór Elinbergsson formaður, Kristinn Jónasson, Jónas Gestur Jónasson og Elínrós Jónsdóttir gjaldkeri.  Gunnar Örn Arnarson, framkvæmdarstjóri meistaraflokks karla VíkingsÓ, gegnir einnig því hlutverki í hinum nýstofnaða meistaraflokki kvenna.

Á fundinum var farið yfir grundvöll og markmið með stofnun meistaraflokks kvenna og þjálfari kynntur til sögunnar. Björn Sólmar Valgeirsson mun gegna stöðu þjálfara en hann þjálfar nú þegar lungað úr hópnum sem kemur til með að spila með liðinu. Stuttlega var farið yfir samningsmál auk þess sem málefnalegar umræður voru um hvað nafn liðið muni bera. Var það einróma álit fundarmeðlima að nota skyldi  nafn Víkings.

Um næstkomandi helgi taka stelpurnar þátt í futsal-móti sem haldið verður í Ólafsvík þar sem liðið etur kappi við Breiðablik, Val og Þrótt R.  Í kjölfarið verður gengið frá samningum við leikmenn auk þess sem æfingum verður fjölgað.

Við undirritun leikmannasamninga gefst kjörið tækifæri til myndatöku af hópnum.

Víkingur Ólafsvík

17.11.2012 16:57

Aðalfundur Vestarr

Aðalfundur golfklúbbsins Vestarr verður haldinn

28.nóv 2012 kl:18.00 í Sögumiðstöðinni.

Dagskrá aðalfundar.

1. Kosning fundarstjóra.

2. Kosning fundarritara.

3. Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári.

4. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.

5. Umræður og atkvæðagreiðslur um skýrslu stjórnar og ársreikninga.

6. Framkomnar tillögur og fjárhagsáætlun.

7. Kosning formanns

8  Kosning ritara / gjaldkera

9. Kosning og /eða tilnefning í aðrar nefndir, sbr. 8.grein.

10. Kosnir 2 endurskoðendur og einn til vara.

11. Önnur mál.

17.11.2012 13:11

Snæfell kjöldróg Fjölni

14. nóvember 2012Snæfell kjöldró botnlið Fjölnis í Domino´s deild kvenna í kvöld. Lokatölur 47-82 í Dalhúsum. Gestirnir úr Stykkishólmi tóku forystuna snemma í leik sem var aldrei spennandi. Hildur Sigurðardóttir fór fyrir Hólmurum með 19 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en hjá Fjölni var Brittney Jones með 18 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.


 
Snæfell gerði sjö fyrstu stigin í Dalhúsum áður en heimakonur komust á blað. Strax frá fyrstu mínútu var þetta áreynslulaust hjá gestunum á meðan Fjölniskonur virkuðu flatar og hugmyndasnauðar í sínum sóknaraðgerðum. Varnarleikur Fjölnis var ekki upp á marga fiska og Snæfell leiddi 13-25 að loknum fyrsta leikhluta en það var Brittney Jones sem klóraði þar smá í bakkann fyrir Fjölni með flautuþrist.


 
Áfram hélt andleysið hjá Fjölni í öðrum leikhluta og þó heimakonur reyndu fyrir sér í svæðisvörn hafði það lítið að segja gegn Hólmurum. Gular réðu á engan hátt við Kieraah Marlow sem fór upp að körfunni þegar hana lysti en hún var með 18 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar í kvöld. Staðan í leikhléi var 25-47 Snæfell í vil þar sem Marlow var með 14 stig og Hildur Björg 13. Hjá Fjölni var Brittney með 14 og Fanney Lind 5.


 
Snæfell opnaði síðari hálfleik 3-10 og engin batamerki að sjá á Fjölni svo ekki leið á löngu uns bæði lið fóru að gefa lítt reyndari leikmönnum færi á að spreyta sig. Staðan var 38-73 að loknum þriðja leikhluta þar sem Rósa Kristín Indriðadóttir lokaði leikhlutanum með þrist fyrir Snæfell.


 
Fjórði leikhluti var í raun bara bið eftir því að leiktíminn rynni út og undirritaður hálfpartinn gapti yfir andleysi Fjölnis því frammistaða gulra í kvöld bar þess ekki vott að liðið væri að berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni. Að sama skapi voru Snæfellingar beittir og þó, eins og marg oft hefur verið rætt, liðið sé með þunnan hóp þá er hann gríðarlega sterkur. Leikmenn eins og Marlow, Hildur Sig og Hildur Björg og Alda eru bakbeinið í hópnum og eru jafnvel enn hættulegri þegar leikmenn eins og Rósa Kristín taka sínar rispur.


Myndasafn úr leiknum
Tölfræði leiksins
 
Myndir og umfjöllun/ nonni@karfan.is 

14.11.2012 16:43

Sigur á Hamri í Lengjubikarnum

12. nóvember 2012Sóknarlega voru liðin lengi í gang og voru sprækari varnarlega en Snæfell fékk slatta af skotum, sérstaklega þessum sex þristum sem þeir nýttu ekki og staðan var lengi 8-2 eða eftir 6 mín leik þá komst Snæfell fljótt í 14-5. Frekar kuldaleg byrjun á leiknum í Hólminum í kvöld en Snæfell bætti aðeins í og staðan 19-8 eftir fyrsta hluta.


Halldór Gunnar smellti tveimur þristum fyrir Hamar til að kveikja vonir og halda mönnum við efnið enda ekki nema um 10 stig sem skildu liðin af 25-15 en Hamar varð að einbeita sér betur. Á móti voru Snæfellsmenn ekkert að gera neinar rósir og virtust meira eyða hraðanum og orkunni í lítið á köflum en leiddu leikinn þrátt fyrir að eiga 70% inni.


Snæfellingar héldu áfram að reyna við þrista þegar liðið var á annan hluta en 0/11 segir allt um nýtinguna en góðan tíma fengu þeir við skotin. Það var svo Ólafur Torfason sem kom þeim fyrsta ofaní 1 af 12 og Snæfell 40-28 yfir.


Staðan í hálfleik 44-28 fyrir Breiðafjarðardrengjum í Snæfelli sem áttu meira inni og þeirra stigahæstir Asim McQueen með 12 stig og Hafþór Gunnars með 10 stig. Hjá Hamri var Halldór Gunnar með 12 stig og þeirra heitastur en honum næstur var Jerry Lewis með 9 stig.


Snæfell beittu stífri pressu á Hamar og uppskáru gott forskot 61-38 og nýttu breiddina gegn Hamri meira en í fyrri hálfleik. Snæfell týndi fleiri stig á töfluna þó Hamarsmenn reyndu vel og var sem Snæfell nennti þessu meira í seinni hálfleik og voru yfir 79-46 eftir þriðja fjórðung en Hafþór Gunnarsson hafði farið hamförum í að stela boltum og skora sniðskotum.


Leikurinn gekk fram og til baka með gamanmálum og hnyttni en Hamarsmenn náðu að beita sér aðeins með Þorstein Má, Halldór og Örn fremsta í flokki en lykilmenn Snæfell fengu hvíldina og allir spámenn liðanna stóðu sig vel í leiknum sem er fyrir öllu. Snæfell vann sannfærandi sigur 97-75 og taka efsta sætið í B-riðli.


Snæfell: Hafþór Ingi Gunnarsson 24/4 frák/3 stoðs/5 stolnir. Stefán Karel Torfason 16/9 frák. Asim McQueen 13/8 frák. Jay Threatt 13/4 stoðs. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9/3 stoðs. Jón Ólafur 7/5 frák. Sveinn Arnar 6/3 frák/8 stoðs. Ólafur Torfason 5/5 frák. Tinni Guðmundsson 4. Magnús Ingi 0/3 frák. Óttar Sigurðsson 0. Kristófer Sævarsson 0.


Hamar: Örn Sigurðsson 18/12 frák. Þorsteinn Már Ragnarsson Halldór Gunnar 16. Jerry Lewis 9/7 frák. Hjalti Valur 6. Ragnar Nathanaelsson 5/10 frák. Eyþór Heimisson 2. Bjartmar Halldórsson 2. Bjarni Rúnar 0. Björgvin Snær 0. Mikael Rúnar 0.


Símon B. Hjaltalín. 

Mynd: Sumarliði Ásgeirsson

14.11.2012 16:41

Samstarf íþróttahéraða

Samstarf íþróttahéraða

herud_2012Nefnd, sem komið var á laggirnar, hefur undanfarin misseri skoðað hlutverk og starf íþróttahéraða. Nefndin hélt fund í þjónustumiðstöð UMFÍ  í dag og fékk kynningu um leið á starfsemi UMFÍ.  Á fundinum var ennfremur rætt um samstarf og framtíð íþróttahéraða í heild sinni. Nefndin var stofnuð í  framhaldi af útkomu íþróttastefnu Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

 

 

Nefndin er skipuð starfsmönnum íþróttabandalaga og héraðssambanda. Í nefndinni eru  Garðar Svansson HSH, Þóra Leifsdóttir ÍBA, Frímann Ferdinandsson, ÍBR, Jón Þór Þórðarson ÍA, og Hildur Bergsdóttir UÍA , Engilbert Olgeirsson HSK.

 

 

Nefndin hefur hitt fulltrúa íþróttahéraða á landsvísu og farið yfir þeirra störf og hlutverk. Jafnframt eru hlutverk landssamtaka íþróttahreyfingarinnar skoðuð með aðkomu íþróttahéraða í huga.

 

 

 


Mynd: Nefndin auk hluta af starfsmönnum UMFÍ. Frá vinstri er Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ,  Frímann Ferdinandsson, ÍBR,  Garðar Svansson, HSH,  Jón Þór Þórðarson, ÍA,  Hildur Bergsdóttir, UÍA,  Engilbert Olgeirsson, HSK,  Þóra Leifsdóttir, ÍBA,  og Sigurður Guðmundsson landsfulltrúi UMFÍ.

 

12.11.2012 11:39

Umsóknir í Danska lýðháskóla

Umsóknarfrestur um styrki á vorönn í danska lýðháskóla er til 1. desember

ollerupUmsóknarfrestur um styrki á komandi vorönn í dönsku lýðháskólana sem Ungmennafélag  Íslands er í samstarfi við er til 1. desember.

 


Íþróttalýðháskólar bjóða upp á skemmtilegt og spennandi nám fyrir ungt fólk á átjánda ári og eldri. Skólarnir leggja áherslur á mismunandi íþróttagreinar en flestir bjóða þeir upp á allt mögulegt. Námið er krefjandi og uppbyggjandi og hver dagur býður upp á ný ævintýri.

 


UMFÍ hefur gert samstarfssamning við 10 íþróttalýðháskóla í Danmörku. Skólarnir eru vítt og breitt um landið og leggja áherslur á mismunandi íþróttagreinar. Skólarnir sem hér um ræðir eru í Sønderborg, Ollerup, Gerlev, Viborg, Århus, Álaborg, Sydsjælland, Den Skandinaviske Designhøjskole í Randers, Musik og Teaterhøjskolen í Toftlund og Vejle Idrætshøjskole.

 


Allar nánari upplýsingar eru að finna inn á heimasíðu Ungmennafélags Íslands www.umfi.is. Sótt er um styrki rafrænt á slóðinni http://www.umfi.is/umfi09/form/ithrottalydhaskoladvol/

 

 

Mynd: Frá starfinu í danska íþróttalýðháskólanum í Ollerup.

 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31