Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Desember

30.12.2012 02:37

Gamlársskokk og ganga í Grundarfirði

Það er tilvalið að kveðja gamla árið með hollri hreyfingu í góðum félagsskap. Þess vegna er efnt til Gamlárshlaups eða göngu 31. desember n.k.

Hver og einn getur farið þá leið og vegalengd sem hann vill - og á þeim hraða sem hver og einn kýs. Þetta er hugsað fyrir alla aldurshópa.

Mæting er kl. 11.15 við Safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju,
en lagt verður af stað kl. 11.30.

Samkaup-Úrval Grundarfirði býður uppá hressingu í lokin, á staðnum.

Þátttakendur eru hvattir til að mæta í skrautlegum búningum
til að lífga upp á þennan síðasta dag ársins!

Með Gamlárskveðju!
Skokkhópur Grundarfjarðar


  • Mynd


27.12.2012 10:33

Bridgehátíð í Borgarnesi

Bridgehátíð Vesturlands verður spiluð á þrettándanum


27. desember 2012

Bridgehátíð Vesturlands verður helgina 5.-6. janúar á Hótel Borgarnesi eins og venjan er. Á laugardeginum verður spiluð sveitakeppni, sjö umferðir með átta spila leikjum eftir Monrad kerfi.  Keppnisgjald er 3.500 kr. á mann. Á sunnudeginum verður tvímenningur, ellefu umferðir með fjögur spil á milli para, einnig eftir Monrad fyrirkomulagi.  Keppnisgjald er 3.500 kr. á mann. Keppnisstjóri verður Vigfús Pálsson. Skráning á bridgehátíðina er hjá Ingimundi Jónssyni í síma 861-5171 eða á: zetorinn@visir.is

 

18.12.2012 11:10

Nú vann Snæfell

Snæfell áfram eftir sterkari vörn í lokin.

Snæfell áfram eftir sterkari vörn í lokin.

Taka tvö í Stykkishólmi á milli Snæfells og Þórs en núna í Poweradebikarnum og sannkallaður stórleikur í 16 liða í úrslitunum.

Byrjunarliðin.
Snæfell: Jón Ólafur, Asim McQueen, Pálmi Freyr, Hafþór Ingi, Jay Threatt.
Þór Þ: Ben Curtis Smith, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson, Grétar Ingi, David Bernard Jackson.

Liðin byrjuðu bæði á betri fætinum í dag og var jafnræði með þeim í upphafi og voru þau jöfn um miðjan fyrsta hluta 9-9 og svo 11-11. Allir voru samtaka í liðunum og virtust engir einn eða tveir draga sín lið áfram. Engin meiriháttar hraði var í sóknum liðanna og varnarleikur beggja einbeittur. Þórsarar voru einbeittari þegar líða tók á fyrsta fjórðung og kom Guðmundur þeim í 18-26 með góðum þrist. Jay Threatt var þó ákveðinn og náði aðeins að kroppa Snæfell nær en staðan eftir fyrsta hluta 25-30 fyrir Þór.

David Jackson sveiflaði olboganum með stæl og Nonni Mæju fékk stærðar skurð á enni og þurfti að fara alblóðugur til aðhlynnigar en kom aftur eftir tjasl. Ótrúlegt að ekki hafi verið flautað á þetta. Þórsarar leiddu með 3-5 stigum í öðrum hluta  þar til Snæfell jafnaði 42-42 og komst yfir 44-42. Þar var sterkur leikur Asim McQueen, Jay Threatt og Ólafs Torfa sem skópu þann kafla en hjá Þór voru Grétar Ingi, David Jackson og Ben Smith að halda þeim við efnið og innkoma Darrel Flake á var góð. Gott skor í hálfleik 50-50.

Asim McQueen var kominn með 16 stig og 7 fráköst fyrir Snæfell og var gríðalega drjúgur í teignum og Jay Threatt var kominn með 11 stig. Ben C. Smith var kominn með 13 stig fyrir Þór en þeir Darrel Flake og Grétar Ingi voru komnir með 9 stig hvor.

Liðin voru aftur að keyra á jöfnum leik og að segja til um hvort liðið tæki af skarið var frekar mikil bjartsýni. Staðan 58-56 fyrir Snæfell um miðjan þriðja hluta og liðin að spila hörkuvörn. Eitthvað var grafna lambið úr Brokey að standa með Sveini Arnari frá því kvöldið áður og smellti hann niður tveimur mikilvægum þristum sem kom Snæfelli svo í 70-64 en Þórsarar létu Snæfell ekki rífa sig og langt frá sér og staðan því 72-68 eftir þriðja hluta.

Þórsrar þyngdust í sóknum sínum og voru að detta niður um gír þegar Snæfell komst í 82-74 og virtust halda varnarleiknum vel vakandi. Pálmi Freyr setti þrjú fyrir 85-76 og var spila glymrandi vörn. Benjamin Smith og David Jackson virtust með mestu lífmarki hjá Þór en vantaði fleiri með. 88-83 var staðan fyrir Snæfell þegar mínúta var eftir af leiknum og spennustigið að hækka. Það voru Þórsarar sem slökuðu á þessum leik líkt og Snæfell gerðu í deildarleiknum fyrir nokkrum dögum sem gaf heimamönnum forskotið og töggurnar í klára leikinn 91-83. Snæfell er þá áfram í 8 liða úrslit Poweradebikars karla.

Snæfell: Jay Threatt 27/4 frák/10 stoðs. Asim McQueen 21/12 frák. Jón Ólafur 11. Ólafur Torfason 9/3 frák. Sveinn Arnar 9. Pálmi Freyr 7/5 frák. Hafþór Ingi 7. Stefán Karel 0. Sigurður Þorvaldsson 0. Tinni Guðmundsson 0. Kristófer Sævarsson 0. Óttar Sigurðsson 0.

Þór: David B Jackson 23/4 frák. Benjamin C Smith 22/4 frák/6 stoðs. Darrel Flake 16/8 frák. Grétar Ingi 9/3 frák. Guðmundur Jónsson 5/6 stoðs. Darri Hilmarsson 5/6 frák /4 stoðs. Baldur Þór 3. Davíð Arnar 0. Emil Karel 0. Halldór Garðar 0.

Gleðilega hátíð og allir hressir á nýju ári.
Símon B. Hjaltalín

15.12.2012 15:50

Ferðasjóður Íþróttafélaga

Ferðasjóður íþróttafélaga

Umsóknarsvæði Ferðasjóðs íþróttafélaga hefur verið opnað.  Frestur til að skila inn umsóknum vegna keppnisferða á árinu 2012 rennur út á miðnætti mánudaginn 7. janúar 2013.

Ferðasjóður íþróttafélaga hefur fengið árlegt framlag á Fjárlögum Alþingis, allt frá árinu 2007, til úthlutunar til íþrótta- og ungmennafélaga í landinu vegna keppnisferða innanlands.  Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands var falin umsjón á útreikningi og úthlutunum úr sjóðnum. 

Styrkjum er úthlutað eftirá, í febrúar hvers árs, vegna keppnisferða ársins á undan.

Öll íþrótta- og ungmennafélög innan vébanda ÍSÍ geta sótt um styrk úr sjóðnum. 

Smelltu hér til að fara á rafrænt umsóknarsvæði Ferðasjóðs íþróttafélaga

15.12.2012 15:26

Víkingur Ólafsvík fékk heiðursverðlaun Tinds árið 2012

Heiðursverðlaun Tinds 2012Víkingur Ólafsvík hlotnaðist sá mikli heiður í dag að fá heiðursverðlaun Tinds bókaútgáfu fyrir að hafa náð athyglisverðum árangri í knattspyrnu árið 2012. Verðlaunin voru veitt í tilefni af útgáfu bókarinnar íslensk knattspyrna 2012 en þetta er í 32. árið í röð sem árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út.

Er þetta í fimmta skipti sem heiðursverðlaunin eru veitt en Katrín Jónsdóttir tók fyrst við þeim árið 2008 fyrir hönd íslenska kvennalandsliðsins. Það voru þeir Ejub Purisevic og Gunnar Örn Arnarson sem veittu verðlaununum viðtöku úr höndum Víðis Sigurðssonar höfundar bókarinnar nú síðdegis.

En eins og allir þekkja þá náðu ÓlafsVíkingar þeim glæsilega árangri að vinna sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögunni. Ólafsvík er einn af minnstu bæjum frá upphafi til að eignast lið í efstu deild og þar hefur átt sér stað mikið ævintýri í fótboltanum á undanförnum árum. Þetta byrjaði allt fyrir 10 árum þegar Ejub Purisevic fór vestur og tók við liði sem var við botninn á neðstu deild. Ejub er ennþá fyrir vestan og núna er hann kominn með Ólafsvíkurliðið í hóp þeirra bestu á landinu. Að baki hans hefur starfað geysilega öflugur og samstilltur hópur manna sem nú uppskera laun erfiðisins  og fá að spreyta sig á því að taka á móti öllum stærstu liðum landsins á Ólafsvíkurvelli næsta sumar. Víkingarnir eru vel að þessum verðlaunum komnir. Sagði Víðir áður en hann afhenti Ejub og Gunnari verðlaunin í dag.

Að launum fékk félagið glæsilegan bikar og tvö eintök af bókinni íslensk knattspyrna 2012 sem staðsett verða á skrifstofu Víkings frá og með morgundeginum.

15.12.2012 15:20

Tap gegn toppliði Þórs.

Toppslagur í Stykkishólmi þar sem Þór frá Þorlákshöfn kom í heimsókn og hafa þeir aldrei farið með sigur úr Hólminum í deildarleik. Átti það eftir að breytast í kvöld? Það var hin stóra spurning sem menn spurðu sig að,s en liðin með 14 stig hvort fyrir leikinn, Þórsarar í efsta sætinu og Snæfell í þriðja.

Byrjunarliðin.
Snæfell: Jón Ólafur, Asim McQueen, Pálmi Freyr, Hafþór Ingi, Jay Threatt.
Þór Þ: Ben Smith, David Jackson, Grétar Ingi, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson.

Það var þriggja stiga veisla í upphafi þar sem Grétar Ingi setti tvo fyrir Þór sem kom þeim nær eftir að Snæfell komst í 6-0 en Nonni Mæju svaraði með einum til 9-6 og Pálma Frey langaði líka en fékk einungis tvö stig 11-6. Snæfell voru harðir varnarlega en Þórsarar skildu menn meira eftir fría. Grétar hélt sínum mönnum við efnið með þristum og setti sinn þriðja þegar staðan varð 17-13. Darrel Flake kom Þór yfir 19-20. Lítið flautað og gott flæði í leiknum þar sem prúðmennskan var til staðar í fyrsta hluta þar sem Snæfell leiddi naumt 23-22.

Eftir að Óli Torfa hafði sett sitt mark á leikinn hjá Snæfelli leiddu þeir 35-27 en Asim McQueen var sterkur í teignum. David Jackson var drjúgur í Þórsliðinu og voru þeir einnig komnir langt á framlagi Grétars. Vörn Þórsara styrktist og náðu þeir Snæfelli 36-35 og leikurinn varð hraðari fyrir vikið. 38-41 varð staðan eftir svakaflottann þrist frá Baldri Þór en Darri Hilmars hafði jafnað 38-38 með einum slíkum langt utan af landi. Liðin skiptust á skori en Darri sótti einn í kistuna og smellti honum fyrir þremur í netið 44-46. Staðan í hálfleik var 44-48 fyrir Þór en títtnefndur Darri hafði farið hamförum síðustu mínúturnar.

Hjá Snæfelli voru Asim McQueen og Jay Threatt komnir með 11 stig hver og Nonni Mæju 9 stig. Hjá Þór var Grétar Ingi með 11 stig og David Jackson 10 stig en Darri Hilmar var kominn með 8 stig.

Þórsarar komust með látum úr 57-58 í 57-63 forskot. Með þristum frá Hafþóri og Pálma komust Snæfell til baka 66-67 og virtust laga til í varnarleiknum hjá sér en svo var ekki þegar Þórsarar áttu svo næsta kafla 10-0 þar sem Darri Hilmars og Benjamin Smith smelltu sínum hvoru þristum en Darrel Flake átti augnablik leiksins þegar hann á lokasekúndum þriðja hluta smellti miðjuskoti niður og braut Jay Threatt á honum, staðan varð 66-77 fyrir Þór fyrir síðasta fjórðunginn.

Þór voru þarna búnir að skora 13 af 20 þriggja stiga skotum með 65% nýtingu. Þór voru yfir 70-83 þegar Snæfell tók leikhlé og ræddi málin. Nonni Mæju og Siggi Þorvalds settu niður stóru skotin til að reyna að saxa á en munurinn hélst um 9-10 stig 78-87. Mikil barátta var undir lokin og þegar rétt rúm mínúta var eftir var staðan 85-91. Nonni Mæju fór þá útaf með 5 villur. Snæfell náði með pressu stöðunni niður í 89-93 og svo 92-95 þegar 7 sekúndur voru eftir. Snæfell braut með 3 sekúndur eftir og Guðmundur Jónsson setti bæði niður og Þórsarar fóru með tvö stig úr Hólminum í fyrsta sinn 92-97 og halda toppsætinu yfir hátíðarnar.

Snæfell: Asim McQueen 22/15 frák. Jay Threatt 20/4 frák/8 stoðs. Jón Ólafur 19/7 frák. Pálmi Freyr 10. Sigurður Ágúst 7. Hafþór Ingi 6. Ólafur Torfason 6/5 frák. Stefán Karel 2. Tinni Guðmunds 0. Óttar 0. Kristófer 0.

Þór Þ: Benjamin C Smith 23/7 stoðs. David Jackson 22//9 frák. Grétar Ingi 14/4 frák. Guðmundur Jónsson 12/3 frák/3 stoðs. Darri Hilmarsson 12/3 frák/3 stoðs.  Darrel Flake 7/6 frák. Baldur Þór 7. Davíð Arnar 0. Emil Karel 0. Halldór Garðar 0.

Símon B. Hjaltalín.

 


15.12.2012 15:19

Sigur á KR

Snæfell sigraði KR og halda öðru sætinu

Annað sætið tryggt yfir hátíðarnar.

 

Sigur í kvöld fyrir KR þýddi það að þær kæmust í annað sætið og hrifsuðu það af Snæfelli sem færi í það þriðja. Sigur hjá Snæfelli þýddi fjögra stiga forskot á KR. Fyrsti leikur liðanna í Dhl höllinni fór 93-67 fyrir KR.

 

Byrjunarliðin.

Snæfell: Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sig, Helga Hjördís, Alda Leif.

KR: Guðrún Gróa, Björg Guðrún, Patechia Hartman, Sigrún Sjöfn, Hafrún Hálfdánardóttir.

 

Snæfell byrjaði sterkt komust fljótt í 14-4 og KR var á hælunum varnarlega. Eftir að Finnur tók leikhlé þá fór margt að lagast og jafnvægi komst á leik KR og þær sóttu vel á. Snæfelli gekk þó illa að koma stórum skotum niður þrátt fyrir tilraunir og staðan varð 16-14 fyrir Snæfell. Það voru Snæfellsstúlkur sem leiddu naumt út úr fyrsta hluta 18-16 en varnarhjól KR voru farin að snúast nokkuð vel og splæstu þær í pressu líka.

 

Pressan gekk vel hjá KR sem komust strax yfir í öðrum hluta 18-22 og ekkert féll Snæfelli í vil fyrr en Alda Leif átti þrist fyrir 21-22. KR stúlkur voru sestar í bílstjórasætið en Snæfell héldu sig nærri 23-26. Helga Hjördís jafnaði 28-28 með þrist og varnarleikur Snæfells var aðeins að lagast þegar Hildur Björg setti annan til og kom Snæfelli yfir 31-30. Það var þó fínn varnarleikur og minna sannfærandi sóknarleikur, ekki slæmur þó, sem einkenndi bæði lið undir lok fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 37-33 fyrir Snæfell.

 

Kieraah Marlow var komin með 14 stig og Helga Hjördís 8 stig fyrir Snæfell. Í liði KR var Patechia Hartman með 14 stig og Sigrún Sjöfn með 6 stig.

 

Leikurinn var stál í stál þegar staðan var 41-40 fyrir Snæfell og ekki mikið skorað á sjö mínútum í þriðja hluta og lítil tilþrif. KR komst yfir 41-43 og hrikalega hressandi leikur í gangi. Þegar Alda Leif fær að skjóta frítt þá smellur það 100% sem kom Snæfelli aftur yfir 46-44. Snæfell átti lokamínútur þriðja hluta og leiddu 50-46.

 

Snæfell leiddi 65-56 og voru að komast aðeins frá KR með stórskotum frá Helgu Hjördísi og Ellen Ölfu á meðan KR stúlkur voru að ströggla lítið eitt og voru með Hrafnhildi, Guðrúnu Gróu og Hafrúnu í 4 villum hver. Alda Leif kom Snæfelli í 68-58 með stórum þrist í nauðskoti á lokasekúndu sóknarklukku þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Alda Leif smellti síðustu stigunum niður í góðum þrist 72-61 og Snæfell náði fjögra stiga forskoti á KR og halda öðru sætinu fram yfir áramót í það minnsta.

 

Snæfell: Kieraah Marlow 18/ 8 frák. Helga Hjördís 18/7 frák. Alda Leif 15/11 frák/6 stoðs. Ellen Alfa 9. Hildur Björg 7/13 frák. Hildur Sig 5/6 frák/10 stoðs. Rósa Kristín 0/3 frák. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0. Aníta Rún 0.

 

KR: Patechia Hartman 25/11 frák/6 stoðs. Sigrún Sjöfn 11/9 frák. Guðrún Gróa 10/7 frák. Rannveig Ólfasdóttir 5. Björg Guðrún 4. Hrafnhildur Sif 2/4 frák. Hafrún Hálfdánardóttir 2. Anna María 2. Kristbjörg 0. Helga Hrund 0.

 

Tölfræði leiksins

 

Símon B Hjaltalín.

10.12.2012 11:58

Íþróttamaður Grundarfjarðar 2012

Tilkynnt var um val á íþróttamanni Grundarfjarðar 2012 á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei sunnudaginn 2. desember. Bergur Einar Dagbjartsson hlaut titilinn fyrir frábæran árangur í blaki. Auk farandbikars hlaut hann að launum verðlaunagrip til eignar.

 

 

Bergur Einar er í unglingalandsliði U17 aðeins 15 ára gamall. Hann þykir prúður og agaður leikmaður. Bergur Einar fór til Finnlands með U17 á haustdögum og stóð sig vel. Hann spilar með meistaraflokki karla UMFG ásamt því að stunda æfingar og spila með 2. og 3. flokki drengja í HK. Hann hefur einnig aðstoðað við þjálfun yngri flokka UMFG og sýnt því mikinn áhuga. Hann þykir mikil fyrirmynd bæði innan vallar sem utan.

 

10.12.2012 11:46

Kostir og gallar getuskiptingar

 

Hádegisfundur

Kostir og gallar getuskiptingar í íþróttum

 

Fimmtudaginn 13. desember verður hádegisfundur í E-sal íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal og hefst hann kl.12:10. Þar munu Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við Íþrótta,- tómstunda- og þroskaþjálfadeild HÍ og knattspyrnuþjálfari og Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ og þjálfari A-landsliðs kvenna ræða um kosti og galla getuskiptingar í íþróttum. Miklar umræður hafa skapast um þetta málefni á undanförnum vikum og eru skoðanir mjög skiptar. Fyrirkomulag fundarins mun verða þannig að hvort um sig verður með 15 mínútna framsögu en svo mun fundargestum gefið tækifæri til að spyrja úr sal. Skráning fer fram á skraning@isi.is en þátttaka er ókeypis og öllum heimil.

Fundurinn verður sendur út á netinu, nánar auglýst síðar.

 

Kveðja

Ragnhildur Skúladóttir

Sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs


10.12.2012 11:40

Góður árangur á Ísafirði

Blak

Frábær árangur hjá krökkunum í blaki.

Blak krakkarnir í 4.fl fóru til Ísafjarðar 23.-25.nóv til þess að taka þátt í öðrum hluta Íslandsmótsins.

Það voru 6 krakkar sem fóru og stóðu sig hreint frábærlega unnu allar sínar hrynur, nema eina, sem gilda til Íslandsmótsins. Þau eru því efst á mótinu. Þau kepptu síðan við efri riðil stáka á minna móti sem haldið var samhliða Íslandsmótinu og höfnuðu þar í 3.sæti.  Þriðji og síðasti hluti íslandsmótsins verður haldin á Akureyri í apríl.  Krakkarnir þakka UMFG kærlega fyrir stuðninginn! Fararstjórar og þjálfari þakka krökkunum fyrir frábæra helgi.Skrifað af UMFG

10.12.2012 11:39

Naumur sigur í Narðvík

10. desember 2012
Snæfell slapp með sigur í LjónagryfjunniSnæfell slapp með sigur í Ljónagryfjunni


Njarðvíkingar gerðu heiðarlega tilraun til þess að stela sigrinum af Snæfell þegar liðin mættust í Domino´s deild kvenna í dag en Hólmarar stóðust áhlaupið og rétt sluppu með sigur úr Ljónagryfjunni. Lokatölur 68-70 þar sem Lele Hardy brenndi af sniðskoti sem hefði jafnað leikinn og sent hann í framlengingu.
Eftir sigurinn í dag er Snæfell í 2. sæti deildarinnar með 20 stig en Njarðvík í sjöunda og næstneðsta sæti með 6 stig.
 

Hólmarar leiddu 25-31 í hálfleik og voru áfram við stýrið í þriðja leikhluta þar sem Hildur Björg Kjartansdóttir fór oft ansi illa með Njarðvíkurvörnina. Heimakonur bitu þó hressilega frá sér á lokasprettinum og hefðu hæglega getað stolið sigrinum en slæm nýting í teignum og á vítalínunni á ögurstundu urðu þeim einfaldlega að falli í dag!
 

Hildur Björg Kjartansdóttir gerði 28 stig í dag og tók 6 fráköst í liði Snæfells. Næst henni kom Kieraah Marlow með 12 stig, 7 stoðsendingar og 4 fráköst. Lele Hardy var atkvæðamest í Njarðvíkurliðinu með 36 stig og 21 frákast! Enn ein tröllatvennan hjá þessum spilandi þjálfara Njarðvíkurliðsins en nýting hennar í teignum í dag var afleit, 6 af 23 teigskotum rötuðu rétta leið og ekki var þriggja stiga nýtingin betri, 3 af 14.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn úr leiknum
 

nonni@karfan.is

10.12.2012 11:37

Snæfells sigur gegn Skallagrím

7. desember 2012
Sigur í nágrannaslag

Vesturlandsskjálftinn fyrri var háður í Domino´s deildinni í kvöld í Stykkishólmi en það þarf ekki að nefna að þar mættust Snæfell og Skallagrímur en geri það samt. "Haffi komdu heim" sungu Borgnesingar og voru eiturhressir í stúkunni og vel mætt úr Fjósinu í Fjárhúsið.
 

Byrjunarliðin.
Snæfell: Jón Ólafur, Pálmi Freyr, Asim McQueen, Jay Threatt, Hafþór Ingi.
Skallgrímur: Carlos Medlock, Haminn Quaintance, Sigmar Egilsson, Davíð Ásgeirsson, Trausti Eiríksson.


 


 

Snæfell byrjuðu á að leiða leikinn 7-2 en ef það hefði ekki verið fyrir Carlos Medlock þá hefðu Skallagrímsmenn setið eftir og hann hélt þeim við efnið en Davíð Ásgeirs kom Skallagrím yfir 13-14. Snæfellingar hittu afar illa í sóknum sínum þrátt fyrir mjög góð færi og á móti ætluðu Skallagrímsmenn að selja sig dýrt og berjast vel. Staðan eftir fyrsta hluta 20-20 og hörkuleikur í boði.
 
 

Snæfellingar komu hressari í annan leikhluta og komust yfir 28-20 og splæstu í þétta vörn þar sem Skallgrímur kom ekki stigi niður í 3 mínútur. Það rigndi langskotum frá Nonna Mæju, Sigurði Þorvalds og Pálma Frey sem komu Snæfelli í 39-23. Haminn kveikti aðeins í Skallagrím með stolnum bolta og troðslu og staðan 41-30 fyrir Snæfell. Skallagrímur náðu að jafnavægisstilla sin leik og fóru aðeins á flot en voru þó að elta og staðan í hálfleik var 53-39 fyrir Snæfell.
 
 

Hjá Snæfelli voru stigahæstir Nonni með 14 stig og Pálmi Freyr 12 stig. Hjá Skallagrím var Carlos Medlock kominn með 13 stig og Haminn Quaintance 9 stig.

  

Snæfell hafði yfirhöndina í leiknum með 20 stigum 66-46 og voru Pálmi Freyr og Nonni Mæju á eldi. Þriðji leikhluti hófst líkt og annar að Snæfell hélt tempóinu og létu ekki slá sig útaf laginu þó Skallagrímsmenn reyndu vel en þá réðu þeir ekkert við Pálma Frey. Eftir smá hrindingar á milli Medlock og Sveins Arnars uppskáru þeir báðir óíþróttamannslega villu og Sveinn fór útaf með sína fimmtu villu en Davíð Ágeirsson hafði farið rétt áður á tréverkið hjá Skallagrím með fimm. Staðan 77-52 fyrir Snæfell fyrir fjórða fjórðung.
 
 

Frákastalega átti Snæfell hátt í helmingi fleiri og voru að taka sín varnarfráköst sérstaklega. Snæfellingar voru komnir 27 stigum yfir um miðjan fjórða hluta 88-61 og réðu yfir leiknum sem fór úr að vera skjálfti í smá hristing. Haminn var að safna vörðum skotum í safnið og gekk ágætlega. Snæfell sigraði auðveldlega 98-81 en Skallagrímsmenn söxuðu á undir lokin en það munar eitthvað um Pál Axel sem var ekki með Skallagrími í kvöld. 

Snæfell: Pálmi Freyr 25/4 frák/3 stoðs. Jón Ólafur 21/6 frák/5 stoðs. Jay Threatt 18/10 frák/9 stoðs. Asim McQueen 14/13 frák. Sigurður Þorvaldsson 14. Stefán Torfason 4. Ólafur Torfason 2/7 frák. Sveinn Arnar 0. Hafþór Ingi 0/4 stoðs. Magnús Ingi 0. Kristinn Einar 0. Kristófer 0.
 
 

Skallgrímur: Carlos Medlock 28/5 frák/3 stoð. Haminn Quaintance 18/9 frák/5 stoð. Sigmar Egilsson 9/4 frák. Davíð Ásgeirsson 8. Orri Jónsson 6. Birgir Sverrisson 4. Davíð
Guðmundsson 3. Andrés Kristjánsson 3. Trausti Eiríksson 2. Hjalti 0. Atli 0. Elfar 0.

 

Símon B Hjaltalín

Myndir: Eyþór Benediktson

 

02.12.2012 23:33

Keflavíkurstúlkur of sterkar

Keflavík hirti stigin úr Hólminum

Settum nokkur stór skot í seinni hálfleik

01.12.2012 20:36 nonni@karfan.is
Toppslagur í Stykkishólmi en fyrir leikinn áttu Snæfellsstúlkur ekki möguleika að skáka Keflavík úr efsta sæti en þar eru þær með 22 stig en Snæfell í öðru sæti með 18 stig.
 
Snæfellsstúlkur voru sprækari á fyrstu skrefunum og Keflavík batt ekki vörnina sem best saman. Snæfell komst í 15-6 en Keflavík náði að spjalla sig saman og vera ákveðnari í aðgerðum sínum og löguðu stöðuna 15-10. Keflavík pressaði en það bar ekki tilætlaðann árangur og Snæfell leiddi 21-12 eftir fyrsta hluta en Snæfell voru að ná flestum lausum boltum.
 
Keflavík komst nær strax í öðrum hluta og voru að hitna 21-17 með þremur frá Jessica Ann en Snæfellsstúlkur stilltu miðið og Alda Leif svaraði með einum þegar þær leiddu 26-20. Pálína lagaði stöðuna 28-25 og Keflavík komst svo yfir 30-31 með öðrum þrist frá Pálínu á meðan Snæfell missti niður sóknarleik sinn með slakri nýtingu og töpuðum boltum. Alda Leif var ekki á því hleypa þessu upp og svaraði með þrist 33-31 og var að stíga upp í leik Snæfells. Staðan í hálfleik var 37-36 fyrir Snæfell eftir jafnar lokamínútur í fyrri hálfleik.
 
 
Í liði Snæfells var Alda Leif komin með 11 stig og Kieraah Marlow með 10 stig. Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugs eldspræk með 13 stig og Birna Valgarðsdóttir var einnig á skotskónum með 13 stig.
 
 
Liðin héldu áfram að skiptast á forystu í þriðja hluta en undir hann miðjann tóku Keflavíkur stúlkur af skarið og með góðri vörn og flottum skotum komust þær í 44-51 þar sem Jessica Ann setti niður hvert stórskotið af fætur öðru og þær komust í forystuna 46-57. Munurinn var 10 stig eftir þriðja hluta 47-57.
 
 
Snæfell komu sterkar í byrjun fjórða hluta og minnkuðu strax í fjögur stig 53-57. Munurinn var 5 stig um miðjan hlutann 60-65 fyrir Keflavík og Snæfell náði niður í tvö stig 63-65. Kieraah Marlow minnkaði munin í 70-72 þegar 30 sek voru eftir með tveimur stigum og víti. Snæfell náði boltanum þegar 13 sekúndur voru eftir og brunuðu í sókn þar sem skot geigaði og brotið var á Söru Rún sem setti tvö víti niður 70-74 þegar 3 sekúndur voru eftir og Snæfell náði ekki að nýta sér það og Keflavík sigraði sinn tólfta leik í deildinni.
 
 
Snæfell: Kieraah Marlow 21/14 frák/4 stoðs. Hildur Björg 14/9 frák. Alda Leif 14/8 frák. Hildur Sigurðardóttir 11/5 frák/6 stoðs. Helga Hjördís 8/10 frák. Ellen Alfa 2. Rósa Kristín 0. Silja 0. Rebekka 0.
 

Keflavík: Jessica Ann Jenkins 21. Pálína Gunnlaugsdóttir 20/10 frák/5 stoðs. Birna Valgarðsdóttir 20/9 frák. Ingunn Embla 5/6 frák/4 stoðs. Sara Rún 4/7 frák. Bryndís Guðmundsdóttir 4/4 frák. María Ben 0. Katrín 0. Telma 0. Sandra Lind 0. Aníta 0. Bríet Sif 0.
 
 
"Við byrjuðum illa og þær voru að jarða okkur í byrjun, áttum í tómu basli með að skora og vörnin okkar lek og þær náðu öllum fráköstum. Við náðum svo að laga vörnina vel og sóknin kom þar með þar sem við settum nokkur stór skot í seinni hálfleik sérstkalega og þá fór þetta að koma hjá okkur" sagði Sigurður Ingimundarson eftir tólfta sigurleik Keflavíkurstúlkna í 12 umferðum og eru þær þar með komnaar með 24 stig 6 stigum á undan Snæfelli.
 
 
Ingi Þór var brattur þrátt fyrir fyrsta tap kvennaliðs Snæfells á heimavelli í vetur. "Mér fannst við gera margt gott til þess að reyna að vinna leikinn. Þriggja stiga kaflinn þeirra í þriðja leikhluta þar sem þær komast 11 stigum yfir er stór þegar skorið er ekki hærra en þetta. Ég var ánægður með að við náðum að koma til baka og gefa okkur séns í að vinna leikinn eða ná framlengingu og getum tekið margt gott úr leiknum. Það er langt í land ennþá og mótið er ekki hálfnað og við erum brattar þrátt fyrir tapið"
 
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
  • 1

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362323
Samtals gestir: 256783
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:00:51
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362323
Samtals gestir: 256783
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:00:51