Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2013 Mars

29.03.2013 09:24

Víkingur og N1

N1 verður aðalstyrktaraðili Víkings ásamt því að styðja Snæfellsnessamstarfið

Betraverð fyrir víkinga v1Víkingur og Snæfellsnessamstarfið skrifuðu á dögunum undir þriggja ára samning við olíufélagið N1 sem jafnframt verður aðalstyrktaraðili félagsins. Merki N1mun vera framan á maga keppnistreyju meistaraflokks karla og kvenna  og á stuttbuxum yngri flokka Snæfellsnessamstarfsins. Víkingur mun að fremsta megni halda merki N1 á lofti þar sem um er að ræða samstarfssamning milli félagsins, stuðningsmanna og yngriflokka Snæfellsnessamtarfsins. (Hægt er að smella á myndina til vinstri til að sjá tilboð fyrir stuðningsmenn)

Með því að fá sér N1 kort undir hópanúmeri Víkings og Snæfellsnessamstarfsins fá stuðningsmenn 5 krónu afslátt auk tveggja punkta og fjölda annarra fríðinda. Ofan á þessi frábæru kjör styrkir N1 grasrótarhreyfinguna  með því að greiða Snæfellsnessamstarfinu 500 kr. fyrir hvert nýtt N1 kort eða lykil sem fer í notkun. Ennfremur greiðir N1 samstarfinu 1 krónur á hvern líter eldsneytis sem greitt er með kortum eða lyklum félagsmanna.

Hægt er að nálgast skráningarspjöld á þjónustustöðvum N1 á Snæfellsnesi (Hellissandi, Ólafsvík, Grundarfirði, Vegamótum og hjá Dekk og Smur Stykkishólmi) auk þess sem iðkendur Snæfellsnessamstarfsins munu labba í hús og bjóða íbúum á Snæfellsnesi þessi frábæru kjör eftir páska. Einnig er hægt að sækja um kort með því að smella hér, eina sem umsækjendur þurfa mun er að setja inn hópanúmer félagsins, 575.

29.03.2013 09:21

Íslandsmeistarar í Futsal

2. flokkur karla Íslandsmeistari í futsal

2. flokkur Íslmeistari í futsal2. flokkur Snæfellsnessamstarfsins varð í dag Íslandsmeistari innanhúss í futsal þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sigraði báða leiki sína í úrslitum.

Í fyrri leik dagsins bar liðið sigurorð af Valsmönnum 2-1 þar sem Alfreð Már Hjaltalín og Óttar Ásbjörnsson skoruðu mörk Snæfellsness.

Í síðari leik dagsins fóru strákarnir á kostum í góðum fjögurra marka sigri á Gróttumönnum 5-1 og því ljóst að strákarnir myndu landa titlinum með fullu húsi stiga.

Glæsilegur árangur hjá strákunum. Til hamingju

2. flokkur Íslmeistari í futsal II

Efri röð frá vinstri: Suad Begic (þjálfari), Gunnar Bjarki Baldvinsson, Kristófer Reyes, Kristinn Magnús Pétursson, Ármann Valby, Ragnar Olsen. Neðri röð frá vinstri: Kristján Kristófersson, Óttar Ásbjörnsson, Alfreð Már Hjaltalín (fyrirliði), Vignir Snær Stefánsson og Sindri Guðbrandur Sigurðsson.

29.03.2013 08:05

Snæfell í undanúrslit

Angan af reynslu við lokasprettinn í Hólminum

Snæfell mætir Stjörnunni í undanúrslitum

28.03.2013 21:33 nonni@karfan.is
Snæfell tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla með 84-82 sigri á Njarðvíkingum í oddaleik 8-liða úrslitanna. Risavaxið sóknarfrákast og karfa frá Ryan Amoroso þegar 4,5 sekúndur lifðu leiks gerðu útslagið eftir hnífjafnan og æsispennandi leik. Jay Threatt fór fyrir Hólmurum með 21 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en Nigel Moore var með 25 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar hjá Njarðvíkingum.
 
Njarðvíkingar sitja því eftir og eru komnir í sumarfrí, kveðja deildina í svipuðum sporum og í fyrra eða í 8-liða úrslitum en Snæfell er komið skrefinu lengra en á síðustu leiktíð þar sem þeir féllu út í 8-liða úrslitum en þramma nú inn í undanúrslitin og mæta þar Stjörnunni. Snæfell mun hafa heimaleikjaréttinn í seríunni gegn Garðbæingum.
 
Marcus Van gerði fystu stig leiksins eftir sóknarfrákast en Jón Ólafur Jónsson var fljótur að svara fyrir heimamenn strax í næstu sókn. Sigurður Á. Þorvaldsson ,,loggaði" svo inn fyrsta þristinn í leiknum þegar hann kom Snæfell í 5-4. Ekki leið svo á löngu uns Amoroso kom með annan þrist og heimamenn duttu í 10-4. Jón Ólafur bætti við þriðja þristinum og Snæfell komst í 13-6 og heimamenn voru ekki hættir því Pálmi Freyr mætti með þann fjórða og staðan 16-8 þegar Einar Árni bað um leikhlé eftir fimm mínútna leik.
 
Njarðvíkingar komu beittari út úr leikhléi og minnkuðu muninn í 18-12 og héldu Snæfell í aðeins tveimur stigum í heilar þrjár mínútur. Elvar Már fékk sína aðra villu í Njarðvíkurliðinu og inn í hans stað kom Óli Ragnar sem hafði farið mikinn í leik liðanna í Ljónagryfjunni. Heimamenn í Hólminum leiddu svo með sex stigum að loknum fyrstu tíu mínútunum, staðan 21-15.
 
Á milli fyrsta og annars leikhluta var ungur maður að nafni Ólafur Björn Eyjólfsson sem setti niður Domino´s skotið og fékk fyrir vikið ársbyrgðir af flatbökum. Til lukku Ólafur Björn.
 
Njarðvíkingar gerðu fjögur fyrstu stig annars leikhluta og Ingi Þór kallaði þá sína menn í leikhlé og staðan 21-19. Sveinn Arnar gerði fyrstu stig Snæfell í öðrum leikhluta og jók muninn í 24-19 með þrist og þannig leiddu heimamenn lungann úr leikhlutanum, naumlega og grænir aldrei langt undan.
 
Elvar Már átti erfitt uppdráttar fyrstu 15 mínútur leiksins í Njarðvíkurliðinu en hýrnaði yfir leikstjórnandanum öfluga þegar hann setti þrist og minnkaði muninn í 28-24 og hans fyrstu stig í leiknum komin í hús sem og fyrsti Njarðvíkurþristurinn en á sama tíma höfðu heimamenn gert fimm slíka. Ekki laust við stress í herbúðum Njarðvíkinga sem á þessum tíma fyrir þrist Elvars voru 1-5 í vítum og 0-6 í þristum. Alltaf náðu heimamenn að slíta sig nokkrum stigum frá eftir Njarðvíkurrispur og Jay Threatt var beittur undir lok fyrri hálfleiks. Grænir gestirnir áttu lokaorðin í fyrri hálfleik þegar Nigel Moore keyrði upp að körfunni og minnkaði muninn í 39-35 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Jón Ólafur Jónsson var stigahæstur í liði Snæfellinga með 11 stig og 2 stoðsendingar í hálfleik og Elvar Már Friðriksson var stigahæstur Njarðvíkinga með 8 stig og Marcus Van með 6 og 11 fráköst.
 
Njarðvíkingar byrjuðu vel og minnkuðu muninn í 39-37 og fengu síðan ruðning dæmdan á Jay Threatt. Heimamenn voru þó ekki lengi að slíta sig aftur frá og Sigurður Þorvaldsson breytti stöðunni í 42-37 með þrist gegn klunnalegri vörn gestanna á upphafsmínútum síðari hálfleiks.
 
Hólmarar héldu vel um stýrið uns þrjár mínútur lifðu eftir af þriðja leikhluta en þá hrukku þeir Ólafur Helgi og Ágúst Orrason í gang og skoruðu saman átta stig á örskömmu tíma fyrir gestina og grænir komust í 50-52 og leiddu í fyrsta sinn síðan í stöðunni 0-2.
 
Nigel Moore kom svo með fjögur sterk Njarðvíkurstig á lokasprettinum og gestirnir leiddu 56-58 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en Threatt minnkaði muninn fyrir heimamenn með sterku gegnumbroti um leið og leikhlutinn rann út.
 
Moore var enn sjóðheitur í liði Njarðvíking í upphafi fjórða og skoraði átta stig í röð fyrir gestina sem komust í 59-66. Heimamenn ætluðu ekki að láta stinga sig af, Amoroso splæsti í tröllatroðslu og Sigurður Þorvaldsson kom með þrist og staðan 64-66. Ekki leið á löngu uns heimamenn náðu forystunni á ný en það gerði Amoroso með stökkskoti við endanlínuna og staðan 70-68 þegar sex mínútur voru til leiksloka og Njarðvíkingar tóku leikhlé.
 
Heimamenn í Hólminum voru komnir á bragðið, lokaspretturinn var þeirra með angan af reynslu. Pálmi Freyr sendi niður einn stóran og kom heimamönnum í 78-74, teigskotin fóru að detta hjá Amoroso en Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 82-79 með þriggja stiga körfu frá Ólafi Helga en nær komust þeir ekki. Síðasta mínútan eða svo var ansi mistæk á báða bóga en þegar um hálf mínúta lifði leiks hélt Snæfell í sókn, skotið reið af og Amoroso náði sóknarfrákastinu og skoraði af harðfylgi og breytti stöðunni í 84-79 þegar 4,5 sekúndur liðfu leiks og björninn unninn. Njarðvík skoraði þrist um leið og leiktíminn rann út og lokatölur 84-82.
 
 
Byrjunarliðin:
Snæfell: Jay Threatt, Pálmi F. Sigurgeirsson, Jón Ólafur Jónsson, Sigurður Á. Þorvaldsson og Ryan Amoroso.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Nigel Moore, Maciej Baginski, Ólafur Helgi Jónsson og Marcus Van.
 
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson, Jón Guðmundsson og Davíð Kr. Hreiðarsson.
 
Mynd og umfjöllun/ nonni@karfan.is  

28.03.2013 11:39

Æfingaferð í frjálsum íþróttum 6 apríl

Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF boða nú til annarrar samæfingar í Laugardalshöll fyrir iðkendur sína

Við höfum fengið tíma í frjálsíþróttaaðstöðunni í Laugardalshöll, laugardaginn 6. apríl nk. og stefnum að sameiginlegri æfingaferð með frjálsíþróttafólkið okkar.

Eftirfarandi er ákveðið um ferðina:

  • Fyrir þátttakendur 10 ára (árgangur 2003) og eldri
  • Þjálfarar á starfssvæðinu munu sjá um þjálfun, en okkur til aðstoðar verða gestaþjálfarar frá stærri félögum á höfuðborgarsvæðinu - nánar kynntir síðar
  • Æfðar verða flestar greinar, s.s. spretthlaup, langstökk, hástökk og kastgreinar.
  • Dagskrá: Æfing frá kl. 13-16, sameiginleg máltíð og svo sundferð eftir því sem áhugi er fyrir
  • Líklegt er að farið verði sameiginlega í rútu/bíl.
  •  Kostnaður verður líklega ca. 2-3 þúsund krónur á þátttakanda.
Kæru iðkendur og foreldrar!

Síðasta æfing tókst mjög vel. Þessi æfingaferð er mikilvægt skref í samstarfi sem getur skilað okkur umtalsverðum ávinningi og skemmtilegri reynslu.

Mikilvægt er að vita sem allra fyrst hverjir hafa áhuga og komast.

Skráningar þurfa að berast til  - í síðasta lagi miðvikudaginn 3. apríl nk.

Hægt er að skrá sig hjá eftirfarandi aðilum

Kristínar Höllu Grundarfirði, í síma 899 3043 eða með tölvupósti á netfangið kh270673@gmail.com

Elín Rögnu Þórðardóttir, Stykkishólmi í síma 864-3849

og Ragnhildi Sigurðardóttir, Staðarsveit, í síma 848-2339
Með frjálsíþróttakveðju,

SAMVEST samstarfið

27. mars 2013Skrifað af Björgu

26.03.2013 14:15

Oddaleikur á fimmtudag


Njarðvík skellti Snæfell í Ljónagryfjunni í kvöld, 105-90, og tryggði sér oddaleik í Stykkishólmi á Skírdag. Heimamenn voru við stýrið frá upphafi til enda þó Hólmarar hafi vissulega átt sínar rispur. Nigel Moore fór fyrir Njarðvíkingum með 30 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar. Hólmarar voru fremur flatir í sínum aðgerðum í kvöld og lykilmenn nokkrir voru snemma komnir í villuvandræði.

Heimamenn í Njarðvík byrjuðu betur og komust í 9-2 strax eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Jón Ólafur Jónsson fékk á þessum tíma tvær villur og inn í hans stað kom Sveinn Arnar Davíðsson í Snæfellsliðinu. Pálmi Freyr.....


Meira...

25.03.2013 01:02

Víkingur í 8 liða úrslit

Sæti í 8 liða úrslitunum í höfn.

24. mars 2013 klukkan 22:32

Lengjubikar
Egilshöll
Sunnudaginn 24.mars 2013

Fjölnir - Víkingur Ó  0-1  (0-0)

Víking Ó verður dæmdur 3-0 sigur eftir að Fjölnir notaði tvo ólöglega leikmenn í leiknum.

0-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (48.mín)


Víkingur Ó braut enn og aftur blað í sögu sinni í dag þegar liðið tryggði sér í fyrsta sinn sæti í 8 liða úrslitum A-deildar Lengjubikarsins. Þetta er frábær árangur hjá liðinu okkar. Eins og staðan er í dag gætu andstæðingar okkar í 8 liða úrslitunum verið annað hvort ÍA eða Stjarnan, en óvænt úrslit í einhverjum leikjum sem eftir eru geta breytt þessu. En við eigum samt eftir að spila tvo leiki í riðlinum til viðbótar og er stutt í þá. Fyrri leikurinn verður spilaður á gervigrasvelli Leiknis uppí Breiðholti á miðvikudaginn kemur gegn Íslandsmeisturum FH. Seinni leikurinn verður síðan gegn ÍBV á sama velli sunnudaginn 1.apríl kl. 16.00. (Annar í páskum).

Í dag spiluðu leikmenn Víkings Ó þokkalega og samt nógu vel til að ná undirtökunum í leiknum. Í bæði lið vantaði lykilmenn. Hjá okkur vantaði þrjá meidda leikmenn, þá Guðmund Magnússon, Eyþór Helga Birgisson og Damir Muminovic. Þeir ættu allir að vera klárir í næsta leik gegn FH.

Í dag skoraði Guðmundur Steinn Hafsteinsson sitt 30 mark fyrir Víking Ó í 57 leikjum.

Það sem ég er ánægðastur með hjá Víkings Ó liðinu er það hve liðið er í góðu formi. Þeir eru tilbúnir fyrir Pepsídeildina að mínu mati, hvað varðar formið. Þjálfaragengið (Ejub, Dzevad og Bega) eru búnir að undirbúa liðið þvílíkt vel að ég er orðinn bjartsýnn á að liðið muni gera góða hluti í sumar.

Í dag mætti mikill fjöldi áhorfenda á leikinn. Það má alveg segja að það hafi verið uppselt í öll sæti. Það var gaman að sjá marga Ólsara og nærsveitunga á leiknum í dag. Ég ætlaði að nafngreina alla þá sem ég sá á vellinum en þeir voru bara of margir til að ég nenni að skrifa öll nöfnin.

Í dag valdi ég þessa þrjá sem þrjá bestu leikmenn okkar, Emir Dokara, Farid Zato og Kaspars Ikstens markvörður. Emir var stórkostlegur í dag í stöðu vinstri bakvarðar, Farid Zato lék eins og hershöfðingi á miðjunni og Kaspars Ikstens var öryggið uppmálað í markinu og varði allt það sem þurfti að verja enda hélt liðið hreinu í dag.

Ég mætti með blaðið mitt og pennann minn.

Byrjunarliðið í dag: Kaspars Ikstens, Björn Pálsson, Tomasz Luba, Emir Dokara, Brynjar Kristmundsson, Eldar Masic, Farid Zato, Steinar Már Ragnarsson, Jernej Leskovar, Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Fannar Hilmarsson. Varamenn: Einar Hjörleifsson, Dominik Bajda, Kristinn M. Pétursson, Alfreð Már Hjaltalín og Ólafur Hlynur Illugason.

2.mín. Guðmundur Steinn Hafsteinsson spilar sig í gott skotfæri frá vítateigslínu og á skot á markið sem markvörðurinn ver.
3.mín. Fannar Hilmarsson með skot hátt yfir markið.
5.mín. Leikmaður Fjölnis reynir skot á markið úr vítateignum og yfir markið.
8.mín. Dauðafæri hjá Fjölni. Guðmundur Karl Guðmundsson leikmaður Fjölnis fær boltann frír inní teig vinstra megin og skýtur framhjá stönginni hægra megin. Þarna vorum við heppnir.
12.mín. Jernej Leskovar með skot hátt yfir markið.
13.mín. Fannar Hilmarsson með skot sem fór rétt framhjá.
15.mín. Steinar Már Ragnarsson með fast skot beint í fangið á markverðinum frá vítateig.
17.mín  Leikmaður Fjölnis með hörkuskot á markið sem Kaspars Ikstens ver með tilþrifum í horn.
18.mín. Leikmaður Fjölnis skallar lausan bolta framhjá eftir hornið.
19.mín. Mikil hætta skapaðist við mark Víkings Ó þegar boltinn rennur framhjá hverjum sóknarmanni Fjölnis fyrir framan markið og í útspark.
24.mín. Jernej Leskovar í flottu færi eftir sendingu Brynjars Kristmundssonar. Hann skaut í skrefinu og framhjá markinu. Óheppni.

Hálfleikur.

48.mín. MARK. 0-1. Eldar Masic fær boltann í dauðafæri en Þórður Ingason í marki Fjölnis ver frá honum. Eldar nær boltanum aftur og rennir honum fyrir markið á Guðmund Stein sem gat ekki annað en rennt honum í opið markið.
54.mín. Eldar Masic með óvænt fast skot á markið sem Þórður markvörður ver með tilþrifum í horn.
58.mín. Fannar Hilmarsson í dauðafæri á markteig og skýtur yfir.
60.mín. Björn Pálsson með þrumufleyg á markið sem Þórður Ingason markvörður ver enn og aftur með tilþrifum.
61.mín. Stangarskot hjá Fjölni. Leikmaður sem er í skoðun hjá þeim kemst í dauðafæri við fjærstöng og skýtur í stöngina og í hliðarnetið.
62.mín. Fannar Hilmarsson kemst í gegn hægra megin og skýtur í hliðarnetið.
63.mín. RAUTT SPJALD. Brotið er á Guðmundi Steini sem er að komast einn í gegn og varnarmaður Fjölnis fær rautt spjald fyrir vikið.
64.mín. Eftir að Brynjar Kristmundsson hafði þrumað boltanum í varnarvegg Fjölnis úr aukaspyrnu berst boltinn út til Farid Zato sem þrumar á markið og Þórður Ingason ver skotið með tilþrifum í horn. 
65.mín. Guðmundur Steinn Hafsteinsson fær boltann á markteig og einn varnarmanna Fjölnis nær að bjarga á síðustu stundu.
66.mín. Steinar Már Ragnarsson skýtur á óskiljanlegan hátt framhjá á markteig fyrir miðju marki.
73.mín. Einstefna Víkings Ó er í gangi þessar mínútur enda einum fleiri.
74.mín. Farid Zato skallar hornspyrnu yfir.
80.mín. Jernej Leskovar skýtur yfir markið úr teignum.
80.mín. Alfreð Már Hjaltalín og Ólafur Hlynur Illugason koma inná fyrir Brynjar Kristmundsson og Fannar Hilmarsson.
82.mín. Frábært skyndiupphlaup Víkings Ó sem endar með því að Farid Zato kemst einn gegn Þórði markverði. Þórður sér við honum og ver skotið.
83.mín. Ólafur Hlynur Illugason með skot beint á markvörðinn.
85.mín. Kristinn M. Pétursson kemur inná fyrir Björn Pálsson.
90.mín. Fjölnir nálægt því að jafna. Þeir fá tvö fín færi á lokamínútunni og Kaspars Ikstens ver í tvígang frá þeim.

Leik lokið.

Næsti leikur er gegn Íslandsmeisturum FH á gervigrasvelli Leiknis í Breiðholti miðvikudaginn 27.mars kl. 19.00.

Mætum sem getum.

Helgi Kristjánsson

23.03.2013 00:23

Naumur sigur hjá Snæfell

22. mars 2013
Eins stigs sigur í fyrsta leikNjarðvíkingar byrjuðu af krafti með Elvar Friðriksson í fararbroddi og í stöðunni 2-10 var Elvar búinn að skora öll stig Njarðvíkur. Snæfell voru kaldir og Njarðvík yfirspilaði á miklum hraða og ljóst að þeir voru ekki komnir í skemmtiskokk í Skerjafirðinum. Snæfell lagaði sinn leik allverulega og hófu sína skothríð og komust yfir 16-10 með Jón Ólaf, Sigurð Þorvaldsson og Ryan Amoroso í stuði og gerðu þetta að leik. Marcus Van átti eina skrímslatroðslu og reyndi að keyra sitt lið í gang, var drjúgur í fraköstum og búinn að bæta við 6 stigum fyrir Njarðvík. Staðan var 22-16 eftir fyrsta hluta.

Menn voru ekkert gríðalega mikið á skotskónum í öðrum hluta en fór að glæðast undir lokin og staðan var lengi vel 25-23 fyrir Snæfell. Skriður komust á sóknarleik liðanna og leiddi Snæfell áfram naumt 36-32. Framan af voru einungis tveir leikmenn Njarðvíkur að skora, þeir Marcus og Elvar en Ólafur Helgi og Hjörtur Hrafn bættust í hópinn um síðir og ljóst að fleiri yrðu að stíga upp. Snæfell leiddi í hálfleik 41-36.

 

 

Í hálfleik voru stigahæstir hjá Snæfelli Jay Threatt 12 stig, Jón Ólafur 9 stig og Ryan Amoroso 9 stig og 7 fráköst. Í liði Njarðvíkur bar Elvar Friðriksson höfuð og herðar yfir aðra með 22 stig og næstur honum var Marcus Van 8 stig og 12 fráköst. Ólafur, Hjörtur og Nigel voru komnir með 2 stig hver.

Marcus Van byrjaði af krafti og hamraði eina troðslu, reif niður frákast og skoraði yfir Snæfell í annari sókn Njarðvíkur og staðan því strax jöfn 41-41. Liðin léku stál í stál og Njarðvík komst yfir 52-54 með þristum frá Elvari Má og Ágústi Orrasyni. Jón Ólafur kom Snæfelli yfir með þremur 57-56 og var það staðan eftir þriðja hlutann.

Ótrúlega gaman að sjá bakverði beggja liða Jay Threatt og Elvar Má eigast við en þar fór allt sem góður körfubolti getur sýnt okkur í þessum flottu leikmönnum sem héldu sínum liðum algjörlega við efnið allan leikinn. Njarðvík komst yfir 68-62 en Snæfell með þristum frá Ryan og Jóni náðu að jafna 68-68 þegar 4:30 voru eftir. Ágúst Orrason átti þá magnaðann þrist á skotklukkuflautu og Ólafur Helgi bætti öðrum við og staðan 68-74 og hittnin ógurleg á þessum kafla.

Þvílíkur leikur sem boðið var upp á í Hólminum og Njarðvík leiddi 76-78 þegar 1:35 voru eftir sem breyttist fljótt í 79-78 fyrir Snæfell þegar Jay Threatt fór á vítalínuna með þrjú skot og Snæfell hafði skorað sjö síðustu stig leiksins. 20 sekúndur voru eftir og Njarðvík var í sókn og fengu svo innkast þegar 4 sekúndur voru eftir en náðu ekki að nýta sér það og Snæfell sigraði 79-78 og leiða 1-0 í einvíginu. Það er því ljóst að hörkuleikur verður í boði á mánudaginn næsta í leik tvö í Njarðvík og að bæði lið ætla sér betri leik.

 

 

Snæfell: Ryan Amoroso 27/10 frák. Jay Threatt 22/4 frák/9 stoðs. Jón Ólafur Jónsson 17/4 frák. Pálmi Freyr 6. Sigurður Þorvaldsson 5. Ólafur Torfason 2. Stefán Karel 0. Sveinn Arnar 0. Hafþór Ingi 0. Tinni Guðmundsson 0. Óttar Sigurðsson 0. J.Kristófer Sævarsson 0.

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 35/7frák/6 stoðs. Marcus Van 17/24 frák. Ólafur Helgi 11. Ágúst Orrason 6. Nigel Moore 5/5 frák. Hjörtur Hrafn 2. Friðrik Stefánsson 2. Óli Ragnar 0. Kristján Rúnar 0. Oddur Birnir 0. Maciej S Baginski 0. Brynjar Þór 0.

 

Símon Hjaltalín

Myndir: Eyþór Benediktsson

 

12.03.2013 09:34

Héraðsmót HSH í frjálsum

Héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum

 

Það var líf og fjör í íþróttahúsinu í Stykkishólmi laugardaginn 9. mars sl., þegar árlegt héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum innanhúss var haldið þar. Mótið hófst kl. 13 eftir að þátttakendur höfðu hitað upp og teygt á.

Keppendur voru tæplega 58 talsins, 38 frá Snæfelli og 20 frá UMFG. Aldursdreifing var þannig að í flokki 8 ára og yngri voru 19 þátttakendur, stelpur og strákar, í flokki 9-10 ára voru 24 keppendur, í flokki 11-12 ára voru 9 keppendur og í flokki 13-14 ára og 15-16 ára voru 3 keppendur í hvorum flokki.

Allir flokkar kepptu í 35 m spretthlaupi, langstökki með atrennu og langstökki án atrennu. Níu ára og eldri kepptu auk þess í hástökki og hjá 11 ára og eldri bættist kúluvarp við. 

Í frjálsunum er það þannig að strákar og stelpur keppa í sitt hvorum flokknum. Keppni innanhúss er skráð sérstaklega og árangur þar ekki borinn saman við árangur í keppni utanhúss, sem er sér flokkur í afrekaskrá Frjálsíþróttsambands Íslands.

Mótið gekk vel fyrir sig og það það var gaman að fylgjast með krökkunum. Leikgleðin var ríkjandi, þau yngstu pössuðu vel uppá að fylgja röðinni sinni, telja hve oft þau væru búin að stökkva og leggja árangurinn á minnið. Þau sem voru að mæta í annað sinn á héraðsmót höfðu greinilega lært mikið og þroskast síðan í fyrra og áttu í engum vandræðum með greinarnar.

Allir 10 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun en veitt voru verðlaun fyrir efstu sæti í flokkum 11 ára og eldri. Í þeim flokkum eru því miður fáir í hverjum flokki, jafnvel svo að dugar ekki til að fylla verðlaunasætin, gull, silfur og brons. Það er til umhugsunar fyrir okkur Snæfellinga af hverju svo er og hvort hægt sé að auka þátttöku unglinga í frjálsum íþróttum, bæði æfingum og keppnum.

Eitt héraðsmet var sett á mótinu. Björg Hermannsdóttir, UMFG stökk 4,59 m í langstökki með atrennu og bætti þar með héraðsmet HSH í langstökki innanhúss í flokki stúlkna 11-12 ára. Eldra met átti Heiðdís Lind Gunnarsdóttir, 4,51m en það var sett fyrir nákvæmlega 16 árum, þann 9. mars 1997.

Þess má einnig geta að í  október sl. bætti Björg aldursflokkamet  HSH í langstökki innanhúss 11 ára stúlkna þegar hún stökk 4,26 m, en eldra met var 3ja ára gamalt og var 4,00 m.

HSH vill þakka keppendum fyrir þátttökuna, aðstandendum þeirra og öðrum gestum fyrir komuna, mótsstjóra Maríu Valdimarsdóttur og foreldrum sem tóku þátt í að mæla og skrá úrslit á mótinu er sömuleiðis þakkað fyrir þeirra góða framlag.

 

Frjálsíþróttaráð HSH

10.03.2013 09:54

Tap geng Grindavíkurstúlkum

08.03.2013 22:12 nonni@karfan.is
Grindvíkingar gerðu góða ferð í Stykkishólm í kvöld er þær lögðu Snæfell 73-76. Crystal Smith gerði 36 stig og tók 13 fráköst í liði Grindavíkur en hjá Snæfell var Kieraah Marlow með 21 stig og 5 fráköst.
 
Byrjunarliðin:
Snæfell: Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sigurðard. Berglind Gunnarsd. Alda Leif.
Grindavík: Crystal Smith, Ingibjörg Yrsa, Helga Rut, Harpa Rakel, Petrúnella Skúladóttir.
 
Snæfell hafði góða yfirönd strax í upphafi og komust í 7-0 og svo 16-8 ef við stökkvum þangað. Grindavík tók leikhlé og löguðu sinn leik en alla grimmd vantaði. Snæfell fannst leikurinn of þægilegur í upphafi í slakaði heldur betur á og Grindavík jafnaði 18-18 með góðum leik. Staðan eftir fyrsta hluta 20-18 fyrir Snæfell sem þurftu að skoða leik sinn.
 
Grindavík voru komnar á sporið og stálu boltum, jöfnuðu 22-22 og komust yfir 22-24. Crystal Smith var drjúg í að stjórna sínu liði og Grindavík spilaði góðan varnaleik. Kieraah Marlow og Hildur Sig voru að fara fyrir Snæfelli í skori en nokkuð vantaði upp á vörnina þegar Grindavík sótti á og Snæfellsstúlkur heldur ragar og fastar í fæturnar sóknarleiknum. Rósa kom sterk af bekknum og smellti góðum þrist sem kom Snæfelli í 31-26 og allt annað Snæfellslið mætti eftir skraf og ráðagerðir. Snæfell stillti upp í algjöran vegg í vörninni með flottu svæði og komust í 39-30 og leiddu í hálfleik 39-33.
 
Stigahæstar í Snæfelli í hálfleik voru Kieraah Marlow með 15 stig og Hildur Sigurðardóttir með 8 stig. Crystal Smith var stigahæst Grindavíkur með 11 stig og 8 fráköst.
 
Snæfell var 10 stigum yfir 48-38 og Grindavík tóku góðann kafla þar sem þær söxuðu niður í 48-45 og virtust vera að spýta í líkt og í fyrri hálfleik. Grindavík komust aftur yfir 53-48 og áttu þar af leiðandi 15-0 áhlaup og Snæfell úti að aka og misstu boltan oft á klaufalegan hátt og spiluðu engan veginn sinn leik. Mikil spenna var hlaupin í leikinn þegar staðan var 56-56 og hart barist. Það voru hins vegar Grindvíkingar sem leiddu 57-60 fyrir fjórða fjórðunginn.
 
Snæfell hélt áfram að kasta frá sér tækifærum og Grindavík leiddi 57-65 og svo komnar í 10 stiga mun 59-69 þegar 5:36 voru eftir. Snæfell kom þá til baka og saxaði á 67-69 en Hildur Björg Kjartansdóttir reif niður fráköst og fór sex sinnum í röð á vítalínuna og setti flest niður og með 2:36 á klukkunni var hún búin að jafna á vítalínunni 69-69 og svo strax 71-69 og kórónaði frábæra baráttu og 12-0 kafla Snæfells.
 
Crystal var ekki hætt hjá Grindavík var í algjörum sérflokki og hleypti spennu af stað með þrist 71-74 þegar einungis tæp mínúta var eftir. Grindavík náði svo boltanum aftur og náðu að éta upp tímann en Snæfell náði boltanum þegar 15 sekúndur voru eftir og náðu þriggja stiga skoti sem geigaði og Petrúnella kom Grindavík í 71-76 á vítalínunni. Með 3.6 sekúnudur eftir reyndu Snæfell við körfu og settu tvö en allt kom fyrir ekki og Grindavík náði hörku baráttusigri á of mörgum köflum bitlausu Snæfellsliði 73-76.
 
Snæfell: Kieraah marlow 21/5 frák. Hildur Björg 19/6 frák. Hildur Sigurðardóttir 15/6 frák/8 stoðs/3 stolnir. Helga Hjördís 7/8 frák.Berglind Gunnarsdóttir 6/4 frák. Rósa Kristín 5/6 frák. Alda Leif 0/7 frák/4 stolnir. Sara Sædal 0. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0. Aníta Rún 0. Brynhildur Inga 0.
 
Grindavík: Crystal Smith 36/13 frák/5 stoðs/4 stolnir. Helga Rut 8/5 frák. Jóhanna Rut 7/4 frák. Jeanne L. F. Sicat 4. Harpa Rakel 4. Eyrún Ösp 2. Ingibjörg Yrsa 2. Hulda Sif 0. Julia L. F. Sicat 0. Katrín Ösp 0.
 
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín  

08.03.2013 13:27

Tímaseðill innanhúsmóts HSH

Frjálsíþróttamót HSH innanhús

Haldið í íþróttahúsinu Stykkishólmi

Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum, hvetja og aðstoða við framkvæmd mótsins

13:00 spretthlaup 8 ára og yngri

13:15 spretthlaup 9-10 ára  og langstökk með atr 8 ára og yngri

13:30 spretthlaup 11-12 ára,

13:45 langstökk með atr. 9-10 ára, langstökk án atr. 8 ára og yngri

14:15 verðlaunaafhending 8 ára og yngri, spretthlaup 11-12 ára

14:00 spretthlaup 13-14 og eldri, langstökk með atr. 11-12 ára,langstökk án atr 9-10 ára,

14:15 langstökk ánatr 11-12 ára, hástökk 13 ára og eldri

14:45 hástökk 9-10 ára, , langstökk og þrístökk án atr 13 ára og eldri

15:15 Verðlaunaafhending 9-10 ára, verðlaunaafhending 11-12 ára langstökk með og án atr. Spretthlaup 13 ára og eldri

15:30 kúluvarp 11-12 ára, langstökk með atr. 13 ára og eldri

15:45 verðlaunaafhending 13 ára og eldri langstökk og þrístökk

16:00 kúluvarp 13 ára og eldri, hástökk 11-12 ára

16:00 Verðlaunaafhending

16:30 mótslit

08.03.2013 10:10

Mikilvægur sigur á Skallagrím

07.03.2013 23:43 nonni@karfan.is
Það er ávalt mikið í húfi þegar Skallagrímur og Snæfell mætast í úrvalsdeildinni í körfubolta.  Ekki eru einungis 2 stig í boði, heldur einnig er stoltið og montrétturinn í húfi.  Leikurinn í kvöld var þar engin undantekning. Taugar leikmanna.dómara og áhorfenda voru þandar frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og litlu mátti muna að upp úr syði. Stemmingin í stúkunni var mögnuð hvar stuðningsmannaklúbbur fjósamanna riðu húsum og höfðu hátt.
 
Eftir fremur jafna byrjun tóku heimann frumkvæðið og leiddu 13-8 eftir um 6 mínútna leik.  Bæði lið lögðu hjarta og sál í leikinn og oft var það kappið sem bar fegurðina ofurliði. Hólmarar áttu í talsverðum vandræðum sóknarlega og eftir gott áhlaup heimamanna og þrist frá Páli Axel í lok 1.leikhluta leiddu þeir 22-15 að loknum fyrstu 10 mínútunum. Borgnesingar hófu 2.leikhluta einnig af miklum móð og eftir frábæra vörn og góða hittni var staðan allt í einu orðin 29-15 og skömmu síðar eftir tvo þrista frá Palla neðan úr Hyrnu var staðan 35-20.  Þá fóru nú Snæfellingar aðeins að hressast.  Vörnin small saman hjá þeim og skotin fóru að detta.  Staðan í hálfleik 39-34
 
Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks.  Mönnum var orðið ansi heitt í hamsi inni á vellinum og slakir dómarar leiksins við það að missa tökin á leiknum.  það var skemmtileg stund þegar  Snæfellingurinn í liði Skallagríms Egill Egilsson kom inná um miðjan 3.leikhluta.  En hann hefur ekkert leikið með liðinu síðan í október sökum meiðsla.  Eftir gríðarlega baráttu og þrátt fyrir magnaða vörn Orra á Nonna Mæju náði Nonni fram hefndum er hann jafnaði 58-58.  þegar leikhlutanum lauk var jafnt 60-60 og Hólmarar virtust komnir á bragðið.  Mikið fum og fát var á leikmönnum beggja liða í upphafi 4.leikhluta.  Ekki var ástandið á dómurunum skárra, þeir vissu vart sitt rjúkandi ráð á köflum. Leikurinn var við það að leysast uppí vitleysu, en Snæfellingar héldu leikskipulagi sínu og þegar 2.30 mínútur voru eftir höfðu þeir náð 5 stiga forystu.  Í stöðunni 78-82 þegar 51 sekúnda var eftir gerðist afar umdeilt atvik. Dæmt var villa á Nonna Mæju og Skallagrímur fékk 2 víti. Medlock fór á vítalínuna og hitti úr fyrra skotinu. Þá hins vegar flautaði dómarinn og eftir mikla reikistefnu og stíf fundarhöld dómaranna dæmdu þeir vítin af Medlock og Snæfell fékk boltann.  Villan á Nonna stóð hinsvegar óhögguð.  Vildi dómaratríóið meina að rangur maður hafi farið á vítalínuna.  Hver það var sem átti að taka vítin skal ósagt látið.  Snæfellingar héldu kúlinu til loka og lönduðu sigri 78-85
 
Snæfell var lengi í gang í leiknum og átti í svitlum vandræðum með vörn heimamanna framan af.  Þeir hittu illa framan af.  En Ingi Þór þjálfari Snæfells hélt ró sinni, vissi hvers megnugir sínir menn væru og eins og góðra liða er siður ná þau að hanga í andstæðingunum og sigla svo fram úr þegar mest á reynir.  Ryan Amoroso var magnaður í kvöld með 27 stig og 90% nýtingu auk þess tók hann 15 fráköst.  Nonni Mæju var lengi í gang en var ansi drjúgur á lokakaflanum og skoraði þegar mest á reyndi, alls 17 stig
Skallagrímur átti afbragðsleik í fyrri hálfleik en heldur dró af þeim í þeim síðari.  Segja má að hæðarskortur hafi verið þeim dýr í kvöld. Án eiginlegs miðherja gekk þeim illa að ráða við téðan Amoroso. Venju samkvæmt var Carlos stigahæstur Skalla með 31 stig. Palli gerð 21 stig þar af 17 í fyrri hálfleik
 
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson

07.03.2013 13:29

Ný dagsetning á Felixnámskeiði

Felixnámskeið

Felix, félagakerfi íþróttafélaga

     

HSH og ÍSÍ halda námskeið í meðferð Felix, félagakerfi íþróttafélaga.

Námskeiðið sem átti að vera í kvöld 7 mars hefur verið frestað.

Námskeiðið verður haldi í Framhaldsskóla Snæfellinga, Grundarfirði miðvikudaginn 13 mars og

hefst kl. 18.00 og er ca. 2 ½ klst.

Aðildarfélög HSH eru hvött til að senda 2 til 3 aðila frá hverju félagi á námskeiðið

Hafa þarf meðferðis eigin tölvu, ásamt gögnum um viðkomandi íþróttafélag.

Félagatal, iðkendatal og ársreikninga.

Boðið er upp á veitingar á meðan námskeiði  stendur.

Súpa og brauð

Kaffi. 


 Skráning hjá Garðari á skrifstofu HSH í síma 6621709

eða hsh@hsh.is

07.03.2013 13:28

Aðalfundur UMF.Snæfells


Aðalfundur UMF.Snæfells

Verður haldinn, mánudaginn 11.mars kl 20:00 í íþróttamiðstöðinni. 

 

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf

Önnur mál        

Allir velkomnir      

 

Aðalstjórn Snæfells.

 

 

05.03.2013 22:09

HSH mót í frjálsum

Héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum - Stykkishólmi 9. mars nk.

Héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum innanhúss verður haldið í íþróttahúsinu Stykkishólmi laugardaginn 9. mars 2013.

Mótið hefst kl. 13.00 stundvíslega.  Foreldrar eru hvattir til að fylgja börnum sínum, taka þátt í framkvæmd mótsins og hvetja keppendur.

Keppt er í eftirfarandi flokkum:

8 ára og yngri

·         Langstökk

·         Langstökk án atrennu

·         35 m hlaup

9 til 10 ára

·         Langstökk

·         Langstökk án atrennu

·         35 m hlaup

·         Hástökk

Í flokkunum 11 til 12 ára, 13-14 ára, 15-16 ára og 17 ára og eldri

·         Langstökk

·         Langstökk án atrennu

·         35 m hlaup

·         Hástökk

·         Kúluvarp


Skráning er hjá Kristínu Höllu, Grundarfirði, í síma 899-3043 

Elín Rögnu, Stykkishólmi, í síma 864-3849

og á hsh@hsh.is

 

Skráningu lýkur miðvikudaginn 6. mars kl. 20.00.

Við skráningu skal skrá fullt nafn ásamt kennitölu. 


HSH

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31