Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2013 Maí

30.05.2013 08:56

Jökulmílan


Grundarfjordur_smallCentury Ride - Aldarskeið

Jökulmílan er lengsti einstaklingsmiðaði hjólreiðaviðburður sem er skipulagður árlega á Íslandi.  Hringurinn meðfram strandlengju Snæfellsness, vestur fyrir Jökul og til baka um Vatnaleið er 160,9 km langur, eða nákvæmlega 100 mílur. Jökulmíluna er því með sönnu hægt að kalla "Aldarskeið" eða á ensku "Century Ride" sem er vinsæl tegund hjólreiðaviðburða vestanhafs.  Við skipuleggjendur Jökulmílunnar, viljum höfða til breiðs hóps hjólreiðamanna eins og gjarnan er með slíka viðburði.  Við skorum á þig að reyna "Míluna" á þínum eigin forsendum óháð því hvað aðrir kynnu að hjóla hana hægt eða hratt.

Jökulmílan hefst og endar í Grundarfirði og er hringurinn um hið ægifagra Snæfellsnes hjólaður rangsælis.  Fyrir þá sem vilja í fyrstu prófa styttri vegalengd verður jafnframt boðið uppá Hálfa Jökulmílu, sem er um 74 km og hefst á Búðum og endar í Grundarfirði.

Ræsing frá Grundarfirði 15. júní 2013

* Forræsing kl. 9:00 fyrir náttúruunnendur á fjalla- og götuhjólum

* Hópræsing kl. 11:00 fyrir keppnisflokk á götuhjólum

* Tímaþraut kl. 11:10 fyrir þátttakendur á þríþrautar- og tímatökuhjólum

Hvíldar- og drykkjarstöðvar á leiðinni

Skipulagðar drykkjarstöðvar á vegum mótshaldara eru við Lambhagatjarnir (eftir 49 km), Búðir (eftir 87 km) og á Vegamótum (eftir 124 km). Þar verður boðið uppá orkudrykki og meðlæti sem auðvelda mun þátttakendum að klára hringinn. Handhægar salernisaðstöður á leiðinni eru við Hellissand og á Vegamótum. Örlítill krókur er niður að þjónustumiðstöð við Arnarstapa. Er það annars ekki notaleg tilhugsun fyrir þá sem eru ekki að flýta sér um of, að stoppa á Arnarstapa og fá sér kaffisopa?

Tímamörk og fyrir þá sem ekki ná að klára

Samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á Aldarskeiðum (sjá wiki síðu)  þá er endamarki lokað 12 tímum eftir ræsingu.  Mótshaldarar munu því taka á móti þátttakendum allt fram til kl. 21:00 við endamarkið í Grundarfirði.  Öllum þátttakendum Jökulmílunnar og Hálfrar Jökulmílu er gert að hafa með sér farsíma til að hafa uppá mótshöldurum komi eitthvað óvænt uppá og er þess valdandi að viðkomandi nái ekki endamarki.

Verðlaun

* 1. sæti í keppnisflokki karla- og kvenna á götuhjólum: 50.000 kr.

* 2. sæti í keppnisflokki karla- og kvenna á götuhjólum: 20.000 kr.

* 3. sæti í keppnisflokki karla- og kvenna á götuhjólum: 10.000 kr.

* Viðurkenningaskjal með staðfestum tíma mótshaldara

* KJÖTSÚPA  

http://hjolamenn.is/images/stories/jokulmilan/header/Logo.png

http://hjolamenn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=120&Itemid=43

29.05.2013 13:09

Heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins


Hið árlega Heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins verður fimmtudaginn 30. maí 2013. Ræst verður kl. 19:00 frá Íþróttahúsinu í Stykkishólmi. Upphitun hefst kl. 18:40. 

Nánari upplýsingar eru að finna hér

 

27.05.2013 11:17

Fyrsta stigið í hús

Fyrsta stig Víkinga komið í hús


27. maí 2013

Víkingar Ólafsvík náðu í sitt fyrsta stig í Pepsídeildinni í gær þegar Eyjamenn sóttu þá heim á Ólafsvíkurvöll. Leikurinn fór fram við fremur erfiðar aðstæður, vindurinn gerði leikmönnum erfitt fyrir í sóknaraðgerðum og vart sást marktækifæri í leiknum, enda lauk honum með markalausu jafntefli, því fyrsta í deildinni í sumar. Liðin voru engu að síður að sýna gott spil og ágætis fótbolta á köflum. Víkingar börðust vel og í heild var þetta besti leikur liðsins í sumar. Einar Hjörleifsson gamli fyrirliði Víkingsliðsins og markvörðurinn var í liðinu annan leikinn í röð. Hann stóð sig vel eins og Víkingsliðið í heild. Einar sagði eftir leikinn margt jákvætt í leik liðsins og stigið fínan stökkpall til að byggja á í næstu leikjum.

 

 

 

 

Víkingar eru með eitt stig eftir fyrstu fimm umferðirnar og þar fyrir ofan er Fylkir með 2 stig og ÍA 3. Nú verður hlé á keppni í Pepsídeild vegna leikja í Bikarkeppni og landsleikja. Í næstu umferð mæta Víkingar Breiðabliki og fer sá leikur fram á Kópavogsvelli mánudaginn 10. júní.

27.05.2013 10:28

Körfuboltafólk á Smáþjóðaleika

Hildur, Hildur og Nonni á Smáþjóðaleikana


Þjálfarar A-landsliðanna hafa valið þá 12 leikmenn sem munu leika fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í ár sem hefjast í 26. maí næstkomandi og fara fram í Lúxemborg.
 
 
Þeir leikmenn sem skipa landslið karla og kvenna eru eftirfarandi:
 
Landslið kvenna:
Pálína Gunnlaugsdóttir · Keflavík
Sara Rún Hinriksdóttir · Keflavík
Ingunn Embla Kristínardóttir · Keflavík
Bryndís Guðmundsdóttir · Keflavík
Hildur Sigurðardóttir · Snæfell
Hildur Björg Kjartansdóttir · Snæfell
Kristrún Sigurjónsdóttir · Valur
Hallveig Jónsdóttir · Valur
Petrúnella Skúladóttir · Grindavík
Gunnhildur Gunnarsdóttir · Haukar
Helena Sverrisdóttir · Good Angels Kosice, Slóveníu
María Ben Erlingsdóttir · Saint Gratien, Frakklandi
 
Sverrir Þór Sverrisson - Þjálfari
Anna María Sveinsdóttir - Aðstoðarþjálfari
 
Landslið karla:
Hörður Axel Vilhjálmsson · MBC, Þýskalandi     
Finnur Magnússon · KR
Brynjar Þór Björnsson · KR
Ægir Þór Steinarsson · Newberry  
Axel Kárason · Værlöse
Jóhann Árni Ólafsson · Grindavík          
Ragnar Nathanaelsson · Hamar
Elvar Már Friðriksson · Njarðvík
Justin Shouse · Stjarnan
Martin Hermannsson · KR 
Magnús Þór Gunnarsson · Keflavík
Jón Ólafur Jónsson · Snæfell
 
Pétur Már Sigurðsson - Þjálfari
Arnar Guðjónsson - Aðstoðarþjálfari

 

Frétt tekin af Karfan.is 

Mynd/ nonni@karfan.is - Hildur Björg Kjartansdóttir verður með A-landsliði kvenna á Smáþjóðaleikunum.

 

27.05.2013 10:24

Naumt tap hjá UMFG

Tap í dramatískum leik

Við mættum Fjarðabyggð í öðrum heimaleik okkar í röð. Eftir góðan sigur gegn Huginn um síðustu helgi var komið að verðugum andstæðing en Fjarðabyggð var spáð efsta sætinu í deildinni fyrir mótið. 


Leikurinn byrjaði með látum en strax á fyrstu mínútu komst Vincent einn í gegn og gaf fyrir á Golla sem var í dauðafæri en á einhvernóskiljanlegan hátt misnotaði hann það færi. Við byrjuðum með vindi og fengum fleiri færi til að skora en inn vildi boltinn ekki. Einnig gerðum við tilkall til að fá vítaspyrnu þegar að Vincent var að því er virðist klipptur niður inní teig en dómarinn sá ekki ástæðu til að flauta á það. Fjarðabyggð vann sig hægt og rólega inn í leikinn og fengu einnig sín færi en Viktor var vel á verði. Leikurinn var opinn og skemmtilegur og allt í járnum þangað til á 45 mínútu að Fjarðabyggð nær forystunni rétt fyrir leikhlé. Þá var smá misskilningur í vörninni sem varð til þess að einn leikmaður gestanna komst í ákjósanlegt færi og smurði boltann út við stöng, óverjandi fyrir Viktor í markinu. Staðan í leikhlé var því 0-1 gestunum í vil.


Í síðari hálfleik spiluðum við á móti vindi. Linta kom inná fyrir Kára sem var kominn með gult spjald á bakið. Erfiðlega gekk að skapa sér færi en Fjarðabyggð var svosem ekkert að gera neinar rósir. Það var svo á 68 mínútu að við fáum aukaspyrnu rétt fyrir utan teig hægra megin. Christian stillir boltanum upp og gefur góðan bolta fyrir sem dettur svo fyrir Aron sem smellir honum í netið og jafnar 1-1. 


20 mínútur eftir og nægur tími til stefnu. á 79 mínútu verðum við svo fyrir áfalli þegar að Tryggvi fær beint rautt spjald fyrir ofsafengna framkomu í garð andstæðings. Frekar súrt þar sem að þessi sami andstæðingur hafði sparkað aftan í hann þegar að boltinn var ekki í leik. Einum færri átti róðurinn svo eftir að þyngjast. 


Svo varð raunin og sókn Fjarðabyggðar þyngdist smátt og smátt. Það var svo á 86 mínútu að þeir sleppa í gegn og sóknarmaður þeirra er felldur innan teigs og vítaspyrna dæmd. Útlitið svart en Viktor gerði sér lítið fyrir og varði vítið og hélt von okkar um stig áfram á lofti.


Þegar þarna var komið við sögu var farið að draga verulega af okkar mönnum og mikið bil farið að myndast á milli varnar og sóknar. Þetta nýttu gestirnir sér og náðu að setja sigurmark í uppbótartíma og fóru því með öll stigin austur. Hrikalega svekkjandi miðað við allt sem á undan var gengið.


En svona er boltinn. Nú eru tæpar 2 vikur í næsta leik en þann 7. júní næstkomandi förum við í ferðalag þar sem að við spilum  2 leiki á sömu helginni. Við eigum leik við Magna á Grenivík 7. eða 8. júní og svo eigum við leik við Leikni Fáskrúðsfirði þann 9. júní. Tveir hrikalega erfirði leiki en Leiknir hefur byrjað mótið af miklum krafti og eru með fullt hús stiga.

Fleiri myndir eru inni í myndaalbúminu.


Skrifað af Tommi

22.05.2013 11:21

Tap fyrir norðan

Víkingar töpuðu fyrir norðan


Þrátt fyrir að vera öllu sterkara liðið á Þórsvellinum á Akureyri í gær tókst Víkingum ekki að ná stigi úr leiknum og urðu að sætta sig við 1:0 tap. Víkingar eru því stigalausir eftir fyrstu fjórar umferðirnar í Pepsídeildinni og á botnum ásamt hinu Vesturlandsliðinu, ÍA, sem fær tækifæri til að breyta stöðunni í kvöld þegar Framarar koma í heimsókn á Akranesvöll. Leikurinn á Þórsvellinum einkenndist af baráttu milli teiganna á illa grónum vellinum eftir vetrarríkið fyrir norðan. Færi voru fá og fyrri hálfleikur leið án þess að til tíðinda drægi. Þórsarar komust svo yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Kom markið eftir mikinn atgang í teignum.

 

 

 

 

"Við vorum ekki nógu grimmir upp við markið og því fór sem fór," sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson framherji Víkinga eftir leikinn og Ejup Purisevic þjálfari Víkings sagði að liðið hefði verðskuldað meira úr þessu leik. Leikur liðsins hefði verið ágætur og vörnin aðeins bilað í hálfa mínútu og það reynst dýrkeypt. Víkinga bíður næst það verkefni í Pepsídeildinni að mæta ÍBV í Eyjum nk. sunnudag.

 

22.05.2013 11:20

Framkvæmdir hjá Skotgrund

Framkvæmdafréttir

Mikið er um að vera hjá Skotgrund þessa dagana hvað framkvæmdir varðar.  Búið er að kaupa lyklabox til að setja utan á félagshúsnæðið, staura og girðingaefni, málningu o.fl.  Birgir og Steini Gun fengu  gefins stóran vatnstank sem þeir eru að smíða vagn undir, en hann á að sjá okkur fyrir vatni í félagshúsnæðið þar sem ekkert vatn er á svæðinu.

 

Búið er að hafa samband við skiltagerð um að búa til skilti fyrir okkur á svæðið, en þau eru í hönnun.  Einnig er verið að skera út stafi félagsins og er ætlunin að setja upp nafn félagsins utan á félagshúsnæðið.  Gummi er búinn að yfirfara ljósavélina, rafvirki hefur verið fenginn til að yfirfara kastvélarnar og strákarnir í Ólafsvík eru að hanna nýja riffilbatta.

 

Í dag fékk félagið gefins dekk frá KB bílaverkstæði og er ætlunin að steypa girðingastaurana fasta í dekkin, því ekki er hægt að reka niður staura á æfingasvæðinu.  Dekkin verða svo grafin niður undir yfirborðið.  Almenna umhverfisþjónustan ehf. ætlar að steypa fyrir okkur staurana í dekkin og er reiknað með því að það verði gert á morgun.  Það ætti því að vera hægt að fara að mála og girða mjög fljótlega.

 

Hægt verður að fylgjast með framgangi framkvæmda hér á heimasíðunni.

 

Staurarnir og dekkin tilbúin fyrir steypu.
Skrifað af JP

22.05.2013 11:13

5 fl. Snæfellsness Faxaflóameistarar

Í hálfleik í leik Víkings og Keflavíkur í Pepsídeildinni á fimmtudaginn síðasta voru leikmenn Snæfellsness í 5. flokki kvenna afhentir verðlaunapeningar fyrir sigur í Faxaflóamótinu, liðið fór taplaust í gegnum mótið. Unnu stúlkurnar Hauka, ÍBV, Gróttu, Keflavík, Breiðablik og Álftanes í flokki A liða. Að sögn Jónasar Gests Jónassonar formanns knattspyrnudeildar Víkings stunda um 20 stúlkur æfingar í þessum flokki og segir Jónas að framtíðin sé svo sannarlega björt i kvennaboltanum á Snæfellsnesi. Þjálfarar eru þau Björn Sólmar Valgeirsson og Ása Dögg Aðalsteinsdóttir.


21.05.2013 08:53

Góð byrjun hjá Grundfirðingum

Sigur í fyrsta leik

Við byrjuðum íslandsmótið á því að taka á móti liði Hugins frá Seyðisfirði í nýju þriðju deildinni. Upphaflega átti þessi leikur að fara fram laugardaginn 18. maí en vegna óveðurs var honum frestað um sólarhring.Sunnudaginn 19. maí var ennþá bálhvasst og leiknum var því frestað um 2 klukkustundir. Dómarinn flautaði svo leikinn á klukkan 19:30 en þá var komið hið ágætasta veður til knattspyrnuiðkunar. Leikurinn var í góðu jafnvægi þar sem að bæði lið skiptust á að sækja og skapa sér færi. Huginn náði svo að skora á 27 mínútu þegar að Marko Nikolic náði að koma boltanum í netið eftir klafs í teig okkar. Eftir þetta sóttum við í okkur veðrið og hófum stórsókn. Golli komst í dauðafæri þegar að hann slapp einn innfyrir vörn Hugins en Atli Gunnar Guðmundsson markvörður þeirra sá við honum. Það var svo á 45 mínútu að Dalibor komst í gott færi sem að hann kláraði vel og jafnaði metin í 1-1. Huginn tók miðju og í því flautaði dómarinn til leikhlés.Huginn byrjaði svo síðari hálfleikinn af miklum krafti og uppskar vítaspyrnu þegar að einum Huginsmanni var brugðið innan vítateigs á 52 mínútu. Friðjón Gunnlaugsson steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi fram hjá Viktori sem að kom engum vörnum við. Gestirnir komnir í vænlega stöðu og drógu sig aðeins tilbaka og beittu skyndisóknum. Sóknin hjá okkur þyngdist smátt og smátt og á 73 mínútu jafnaði Ingólfur Golli metin þegar að hann slapp aftur einn innfyrir og í það skiptið kláraði hann færið af mikilli yfirvegun. Staðan orðin 2-2 og skammt eftir af leiknum. Aðeins fimm mínútum síðar var Golli aftur á ferðinni þegar að hann fékk góða sendingu innfyrir vörn gestanna. Hann gerði engin mistök þegar að hann skoraði fram hjá Atla í markinu og kom okkur í  3-2. Við þéttum vörnina eftir þetta mark og náðum að halda út og innbyrða fyrsta sigur sumarsins. 3 stig staðreynd en okkur var spáð neðsta sæti deildarinnar fyrir mót eins og frægt er orðið. 


Skrifað af Tommi

13.05.2013 19:43

Góð heimsókn

Kári Steinn og Sveinbjörg í Grundarfirði

Föstudaginn 10. maí sl. fengum við hjá frjálsíþróttadeild UMFG góða gesti. Það voru þau Kári Steinn Karlsson langhlaupari úr Breiðabliki og Ólympíufari og Sveinbjörg Zophoníasdóttir 21 árs sjöþrautarkona frá Hornafirði, sem nú æfir með FH.

Markmiðið með heimsókn þeirra var að fræða, hvetja og leiðbeina krökkunum - en æfingarnar voru opnar fyrir alla krakka á Snæfellsnesi.


Grunnskólaheimsókn

Fyrir hádegi hittu þau yngri og eldri nemendur í Grunnskóla Grundarfjarðar og ræddu við þau um íþróttir, holla hreyfingu, mataræði og fleira. Þau sögðu að það væri mjög gott fyrir krakka á grunnskólaaldri að æfa fleiri íþróttagreinar en eina og að frjálsarnar væru kjörin íþrótt fyrir þá sem vilja t.d. verða góðir í fótbolta, blaki eða öðrum greinum. Kári Steinn æfði áður fótbolta og körfubolta, með frjálsum, en sneri sér síðar eingöngu að hlaupunum.Að eiga drauma og setja sér markmið

Sveinbjörg sagði að þegar hún var barn og unglingur hefði hún stefnt að því að komast í úrvals- og afrekshóp Frjálsíþróttasambands Íslands. Þau sögðu bæði að það væri mikilvægt að setja sér markmið og vinna markvisst að því að ná markmiðunum. Kári Steinn sagði að hann hefði sett sér ýmis markmið í íþróttunum og oftast væri hann bara að keppa við sjálfan sig og bæta hlaupatímann sinn.


Ólympíuleikar, útiæfingar og aðstaða

Kári Steinn sagði frá þátttöku sinni í Ólympíuleikunum 2012 og hvernig það hefði verið að hlaupa maraþon í London, með fjölda þátttakenda og sjónvarpsmyndavélar nánast við hvert fótmál. Hann sagðist hlaupa úti og færi nánast í hvaða veðri sem er. Hann viðurkenndi að það væri einstaka sinnum erfitt að koma sér af stað, en að það borgaði sig alltaf til baka með góðri líðan, að æfingu lokinni. Sveinbjörg tók í sama streng og sagði að íslenska veðrið herti mann bara. T.d. væri gott að vera vanur rigningunni og að geta keppt á stórmótum þó að hellirigndi. Hún sagði líka að aðstaðan skipti ekki öllu máli, hún hefði æft í heimabænum sínum Hornafirði á malarvelli, áður en tartan kom á hlaupabrautir og íþróttahúsið hefði verið svipað stórt og okkar. Aðalmálið væri að vera duglegur og ákveðinn í að gera sitt besta.


Spurt og svarað

Krakkarnir voru óhrædd við að spyrja ýmissa spurninga, ekki síst þau yngstu. Spurt var hvort þau æfðu líka í jóla- og páskafríium, hvert metið hans Kára væri í maraþoni og hvert heimsmetið væri. Rætt var af hverju Afríkubúarnir eru svona sterkir í langhlaupum, ekki síst Kenýabúar. Þau sögðu að það hefði verið rannsakað og væri bæði vegna þess úr hvaða aðstæðum fólkið kæmi, hvernig mataræði þeirra væri og einnig væri líkamleg bygging Afríkubúanna að mörgu leyti hlaupavænni en t.d. Vesturlandabúa. Margir bestu langhlauparanna hefðu hlaupið mikið sem börn og byggju hátt yfir sjávarmáli, þar sem súrefnið væri minna og fólk ynni betur úr súrefninu úr andrúmsloftinu. Eldri krakkarnir spurðu hvort íþróttamennirnir hefðu tíma fyrir vini og félagslíf. Kári svaraði því þannig til að mjög mikilvægt væri fyrir íþróttamenn að hafa jafnvægi í lífi sínu, það þyrfti líka að passa uppá að sinna vinum og fjölskyldu. Þá gengi líka betur í íþróttunum.  


Hversu mörg skópör?

Kári og Sveinbjörg sögðu það mjög mikilvægt að nota góða skó í íþróttunum til að koma í veg fyrir meiðsli og þreytu. Ein af  spurningunum sem þau fengu var líka hversu mörg skópör þau notuðu á ári.

Kári sagðist hlaupa um 200 km á viku og að hann væri því mjög fljótur að eyða upp skónum. Hann þyrfti að eiga mismunandi pör vegna ólíkra æfinga, t.d. fyrir útihlaup og inni. Hann sagðist fara með ca. 15 hlaupaskópör á ári - og að notuðu skórnir enduðu yfirleitt hjá Rauða krossinum.

Sveinbjörg æfir sjöþraut, sem er í raun 7 mismunandi íþróttagreinar. Hún þyrfti að eiga sérstaka skó fyrir hverja grein, fyrir kúluvarp, langstökk, spretthlaup, o.s.frv. og að hvert par dygði í ca. eitt ár. Það er því verulegur kostnaður bara að kaupa sér góða skó til að nota á æfingum og mótum.


Leiðbeint á frjálsíþróttaæfingum

Eftir hádegi leiðbeindu þau Kári Steinn og Sveinbjörg krökkunum á frjálsíþróttaæfingum allra aldurshópa. Þau gáfu góð ráð með hlaupatækni og ræddu við krakkana um æfingar, mót, hugarfar og fleira.Sveinbjörg og Kári Steinn eru frábærir íþróttamenn og góðar fyrirmyndir. Ekki varð betur séð en að krakkarnir hafi verið mjög ánægðir með heimsókn þeirra, sem var bæði fróðleg og skemmtileg fyrir okkur, börn, kennara og þjálfara.


Fiskur og broddmjólk

Í lok heimsóknarinnar voru Sveinbjörg og Kári Steinn leyst út með gjöfum. Afreksíþróttafólk þarf alvöru mat og þess vegna var þeim færður þorskur í boði G.Run. í Grundarfirði, rækja frá FISK Seafood Grundarfirði og broddur frá Guðrúnu Lilju og Bjarna, bændum á Eiði við Kolgrafarfjörð.

Broddurinn er mjólk úr nýborinni kú og inniheldur mörg lífsnauðsynleg efni sem hjálpa afkvæminu að þroskast og verjast sjúkdómum. Broddmjólkin er hituð í vatnsbaði, þá þá ystir hún og verður stíf, svona svipað og búðingur. Broddmjólkin er afar próteinrík og meinholl - ekki síst fyrir íþróttamenn!


Við heimafólkið þökkum Frjálsíþróttasambandi Íslands og Þóreyju Eddu verkefnisstjóra kærlega fyrir aðstoðina við undirbúning heimsóknarinnar. 
Við þökkum Sveinbjörgu og Kára Steini kærlega fyrir komuna og óskum þeim alls hins besta á vettvangi æfinga og keppna! 

Heimsókn þeirra var á vegum frjálsíþróttadeildar UMFG í samvinnu við stjórn UMFG, HSH og Grunnskóla Grundarfjarðar.


Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi hér á síðunni.


Hér má líka sjá frétt af heimsókn Ásdísar Hjálmsdóttur spjótkastara og Óðins Björns Þorsteinssonar kúluvarpara frá því í maí í fyrra.


 

Skrifað af Björgu

13.05.2013 13:49

Aðalfundur Skotgrund

Aðalfundur - Fundargerð

Aðalfundur Skotgrundar fór fram síðastliðinn miðvikudag í húsnæði félagsins í Hrafneklsstaðabotni þar sem boðið var upp á léttar veitingar.  Mætingin var mjög góð og sáust nokkur ný andlit á fundinum,

 

Mynd frá aðalfundinum.

 

Byrjað var á því að fara yfir skýrslu stjórnarinnar frá liðnu starfsári, en skýrslu stjórnarinnar má sjá hér.  Ársreikningi félagsins voru gerð skil, en fram kom að félagið er skuldlaust sem stendur og gengur reksturinn nokkuð vel.  Aðal innkoma félagsins er félagsgjöld, sem greidd eru af félagsmönnum og ræðst uppbygging félagsins aðallega á því hversu vel þau skili sér, því öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á svæðinu. Ákveðið var að árgjald félagsins yrði óbreytt, en það eru litlar 5.000 kr. á ári og hefur það verið óbreytt síðastliðin 16 ár. 

 

Því næst fór fram kosning stjórnar, en allir starfandi stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa og var stjórnin endurkjörin til eins árs.  Stjórn Skotgrundar er þannig skipuð:

 

Jón Pétur Pétursson - Formaður

Gústav Alex Gústavsson - Ritari

Tómast Freyr Kristjánsson - Gjaldkeri

Guðmundur Pálsson - Meðstjórnandi

Guðni Már Þorsteinsson - Meðstjórnandi

Þorsteinn Björgvinsson - Meðstjórnandi

 

Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum var á dagskrá "önnur mál" en þar var m.a. rætt um framtíðaráform félagsins, öryggismál, aðgengi að svæðinu, umgengni og æfingasvæðið í heildsinni.  Sett var upp framkvæmdaáætlun fyrir sumarið og fundarmenn skiptu með sér verkum.  Verkefnunum var forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra, en ekki vantar hugmyndirnar.  Félagið er stórhuga hvað framkvæmdir varðar, en ljóst er að uppbyggingin mun taka nokkur ár.  Markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta æfingastöðu til skotæfinga með öryggi allra í fyrirrúmi. 

 

Unnsteinn Guðmundsson og Jón Ingi P. Hjaltalín

 

Að fundinum loknum var setið lengi á spjalli.  Einhverjir tóku hringi á leirdúfuvellinum á meðan að aðrir stilltu sér upp á riffilsvæðinu.  Heilt á litið þá var fundurinn mjög vel heppnaður og stemmningin góð, en frekari umræðuefni fundarins og ákvarðanatökur má sjá hér fyrir neðan. 

http://skotgrund.123.is/blog/

13.05.2013 12:52

Tap gegn Stjörnunni 3-2

Sigurviljann vantaði hjá Víkingum í Garðabænum


13. maí 2013

Víkingar eru enn án stiga í Pepsídeildinni eftir 3:2 tap á móti Stjörnunni í Garðabænum í gær. Víkingar virtust ekki tilbúnir í leikinn og voru slakir í fyrri hálfleiknum þegar Stjörnumenn náðu tvívegis að skora. Næsti leikur Víkings verður á heimavelli næsta fimmtudagskvöld, þegar Keflvíkingar koma í heimsókn. Þeir eru einnig án stiga í deildinni. Víkingar gáfu heimamönnum í Stjörnunni fullmikið frjálsræði í fyrri hálfleiknum á "teppinu" í Garðabænum. Það kostaði að heimamenn skoruðu tvívegis, Halldór Orri Björnsson á 11. mínútu og Jóhann Laxdal skömmu síðar eða á þeirri 14. Ejub hélt skammarræðu yfir sínum mönnum í hálfleik og Víkingar komu ákveðnir til seinni hálfleiks. Björn Pálsson náði strax að minnka muninn á 49. mínútu.

 

 

 

 

Víkingar börðust áfram og voru allt eins líklegir til að jafna metin, en þess í stað skoraði bakvörðurinn Jóhann Laxdal aftur fyrir Stjörnuna á 72. mínútu. Þótti það mark í ódýrari kantinum. Víkingar náðu að skora undir lok leiksins, Damir Muniwic, en það var full seint. Silfurskeiðin fagnaði í lokin fremur öruggum sigri sinna manna.

 

Ejub Purisevic þjálfari Víkings sagði eftir leikinn að von væri á þremur nýjum leikmönnum í vikunni, einum varnarmanni og tveimur sóknarmönnum. Ekki verður þó að telja líklegt að þeir verði komnir í hópinn hjá Víkingum fyrir leikinn gegn Keflvíkingum á fimmtudagskvöldið, enda á lið Víkings eins og það er nú skipað að geta halað inn stig, þótt nokkuð virtist skorta á sjálfstraustið í Garðabænum.

 

08.05.2013 11:57

Áheitahlaupið gekk vel


Áheitahlaup Snæfellsnessamstarfsins

fór fram sunnudaginn 5. maí. Í hlaupinu tóku þátt börn sem æfa fótbolta á

Snæfellsnesi. Í vikunni áður höfðu börnin gengið í hús og fyrirtæki í Stykkishólmi,

Grundarfirði og Snæfellsbæ, í söfnun áheita, gekk vel að safna og var vel tekið á móti

börnunum. Á sunnudeginum hófu svo börnin í Stykkishólmi hlaupið klukkan 8:00 um

morguninn  og hlupu frá Íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi að afleggjaranum að Bjarnarhöfn

þar sem börnin úr Grundarfirði tóku við og hlupu að afleggjaranum að Kvíabryggju.

Þar tóku  börnin úr Snæfellsbæ við um hádegisbil  og hlupu að Vegagerðarhúsinu í Ólafsvík en

þar bættust börnin úr Grundarfirði og Stykkishólmi  aftur í hópinn.

Hópurinn, um það bil 100 börn, hljóp svo fylktu liði inn í Ólafsvík að Fiskiðjunni Bylgju

þar sem boðið var upp á pylsuveislu og svala. Börnin fjölmenntu svo að sjálfsögðu á

leik Víkings og Fram í Pepsídeildinni sem fram fór á Ólafsvíkurvelli sama dag.

Auglýsing 5. maí 2013


07.05.2013 11:22

Vesturlandsmót í Boccia

Skagamenn og Grundfirðingar í efstu sætum Vesturlandsmóts í boccia


7. maí 2013

Vesturlandsmótið í boccia var haldið í Íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi síðastliðinn laugardag. Mótið var í umsjón íþróttanefndar Félags eldri borgara á Akranesi og nágrennis, FEBAN, og tókst framkvæmd öll ágætlega. Aðstaða öll er góð á Akranesi til mótahalds af þessu tagi, svo sem aðbúnaður keppenda og sala veitinga. Alls áttu átta félög rétt til þátttöku en keppendur frá fimm félögum með alls fimmtán lið mættu til leiks. Keppni var jöfn og skemmtileg og sáust mörg góð tilþrif þegar kappsamir leikmenn reyndu að kasta rauða eða bláa boltanum sem næst þeim hvíta. Undirbúningur, framkvæmd og stjórn mótsins var í höndum Ingimundar Ingimundarsonar og Flemming Jessen, en Ingimar Magnússon formaður FEBAN setti mótið, afhenti verðlaun og var þulur.

 

 

 

 

Helstu úrslit urðu þau að lið heimamanna var í tveimur efstu sætunum. Sigurliðið var skipað þeim Ingu Helgadóttur, Þórhalli Björnssyni og Tómasi Sigurþórssyni. Silfurverðlaun hluta lið sem nefndist Akranes 2, skipað þeim Sveini Þórðarsyni, Þorvaldi Valgarðssyni og Fróða Einarssyni. Grundfirðingar áttu svo liðið sem hafnaði í þriðja sæti. Það var skipað þeim Jónínu Kristjánsdóttur, Kristínu Árnadóttur og Ólöfu Pétursdóttur.

 

Ljósm. Þórhallur Teitsson.


 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31