Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2013 Október

31.10.2013 14:37

Afmælismót Skotgrund

Afmælismót Skotgrundar 2013

Afmælismót Skotgrundar fór fram í kvöld á æfingasvæði félagsins í Kolgrafafirði.  Mætingin var góð og fengu keppendur frábært veður til útiveru.  Keppt var í þremur riðlum og fóru leikar þannig að Unnsteinn Guðmundsson hreppti sigurinn, Einar Hjörleifsson tók annað sætið og Eymar Eyjólfsson það þriðja.

Einar Hjörleifsson (2. sæti) - Unnsteinn Guðmundsson (1. sæti) - Eymar Eyjólfsson (3. sæti)

Myndina tók Tómas Freyr Kristjánsson

 

Þetta var í annað sinn sem þetta mót er haldið, en ætlunin er að gera þetta að árlegum viðburði.  Um leið var þetta líka ágætis upphitun fyrir komandi rjúpnaveiðitímabil, en fyrsti dagur tímabilsins er á morgun föstudag.

 

Hægt er að skoða myndir frá mótinu í myndaalbúminu efst á síðunni.

 

 

 

Skrifað af JP

31.10.2013 14:19

Sigur og tap gegn Haukum30.10.2013 19:54 nonni@karfan.is
Fyrri leik kvöldsins í tvíhöfðanum í Hafnarfirði er lokið. Snæfellskonur sóttu tvö dýr stig í greipar Hauka rétt í þessu en þriðja leikinn í röð var boðið upp á spennuslag í Schenkerhöllinni. Snæfell hefur þar með jafnað Keflavík á toppi deildarinnar
 
 
Í Hafnarfirði fengu Haukakonur síðustu 16 sekúndur leiksins til þess að stela sigrinum en lokaskot Lele Hardy vildi ekki niður og Snæfell fagnaði sigri. Tröllatvenna er fasti hjá Lele Hardy og í kvöld var hún með 27 stig, 23 fráköst og 7 stoðsendingar en hjá Snæfell var Chyanna Brown atkvæðamest með 19 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar.


31.10.2013 00:02 nonni@karfan.is
Það var ágætlega mætt í Schenker-höllina í kvöld þar sem Haukar fengu Snæfellinga í heimsókn í öðru veldi. Kvenfólkið reið á vaðið kl. 18:00 þar sem gestirnir mörðu sigur að lokum. Það var því á herðum karlmannanna að jafna um gestina og eftir tvo flotta sigra Haukamanna í þremur leikjum mátti allt eins búast við því enda höfðu Hólmarar ekki byrjað mótið sannfærandi, aðeins með einn sigur, og það nauman, gegn Sköllum.
 
 
Haukamenn byrjuðu ansi rólega og gestirnir komust í 2-7. Sóknarleikur beggja liða var ekki til fyrirmyndar en heimamenn hresstust mjög er á leið og leiddu 21-17 eftir fyrsta fjórðung.
Annar leikhluti einkenndist af gríðarlegri baráttu sem skilaði samt sem áður engum stigum á töfluna! Vörnin hjá Haukum var loft- og vatnsþétt og Hólmarar litu út fyrir að hafa enga hugmynd um hver tilgangur sóknarleiks væri. Haukar skoruðu reyndar ekki neitt heldur fyrstu 3 mínúturnar eða svo en það var einfaldlega vegna þess að þeir hittu ekki úr annars fínum skotfærum sem þeir bjuggu sér til. Þegar liðin höfðu mjakað örfáum stigum á töfluna ákvað klukkan í húsinu að fara í verkfall í dulitla stund, sem er afar bagalegt og stöðvaði flæði leiksins. Við því máttu Hólmarar alls ekki enda flæðið í leik þeirra svo gott sem ekkert fyrir! Watson og Haukur sýndu lipra takta og héldu heimamönnum í nokkurra stiga forystu en einstaklingsframtak gestanna, einna helst Nonna Mæju, kom í veg fyrir að Haukarnir stingu af. Emil Barja endaði hálfleikinn með því að vaða fram allan völlinn á tæpum 3 sekúndum og setja buzzer-þrist, staðan 42-35 í hálfleik.
 
Þrátt fyrir býsna lélegan leik gestanna tókst þeim að halda í við heimamenn í þriðja leikhluta og má segja að leikurinn hafi verið í nokkuð góðu jafnvægi og liðið skiptust á körfum. Haukar þó alltaf með nokkurra stiga kodda og Emil og Watson áberandi í liði heimamanna. Kristján Pétur kom með ágæta mola fyrir gestina en annars var það einkum Nonni Mæju sem hélt gestunum inn í leiknum. Staðan eftir þriðja leikhluta 64-59 Haukum í vil.
 
Ekki skánaði leikur Snæfellinga í fjórða leikhluta. Vance Cooksey hafði ekki spilað vel í leiknum og var mest í því að tapa boltanum og hlaupa sig í vandræði. Hann tapaði þremur boltum (stattið er ekki sammála af einhverjum ástæðum) á skömmum tíma og Haukar virtust loksins ætla að klára dæmið og komu sér í 11 stiga forskot, 75-64 og fjórar mínútur eftir. En Haukamenn virðast ætla að leggja það í vana sinn að bjóða upp á svolitla spennu á sínum heimavelli, hægðu á leiknum og virtust ekki vilja skora neitt meira. Snæfellingar pressuðu og náðu að naga niður forskotið í 79-77 þegar 40 sekúndur lifðu leiks. Emil Barja tók svo rándýrt sóknarfrákast þegar um 20 sekúndur voru eftir og Snæfellingar urðu að brjóta. Pálmi fékk tækifæri á að jafna með þriggja stiga skoti í blálokin sem geigaði og Emil endaði leikinn með tveimur vítum, góður sigur heimamanna 82-77 í höfn.
 
Haukar halda áfram að gleðja áhangendur sína, og aðra, með flottri spilamennsku. Terrence Watson er algerlega frábær leikmaður, endaði með 31 stig, 13 fráköst og mjög góða nýtingu. Emil Barja virðist ætla að veita Ermolinskij smá samkeppni og lauk leik með 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar! Haukur átti einnig fínan leik.
 
Nonni Mæju var helst með lífsmarki hjá gestunum með 25 stig og 9 fráköst en tók þó svolítið skrautleg skot á köflum. Vance Cooksey kom þar á eftir með 13 stig, 7 fráköst sem og stoðsendingar. Nýtingin hins vegar slök og framlag hans ekki ásættanlegt.
 

31.10.2013 09:36

Frjálsíþróttaæfing Laugardalshöll

SamVest-samæfing og mót í Laugardalshöll 2. nóvember 2013


Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF boða til samæfingar fyrir iðkendur sína.

Æfingin fer fram í Laugardalshöllinni, Reykjavík, laugard. 2. nóvember 2013 frá kl. 9.00 - 11.30.

Eftirfarandi er ákveðið með æfinguna:

·         Hún er fyrir iðkendur 10 ára (árgangur 2003) og eldri

·         Áhersla er á eftirtaldar greinar: Stangarstökk, spjótkast, millivegalengdahlaup, spretthlaup og boðhlaup, langstökk og hástökk (Ath. að þessar áherslur geta breyst eftir því hvaða gestaþjálfara tekst að fá, en breytingar verða auglýstar á facebook síðu hópsins)

·         Þeir þjálfarar sem staðfestir hafa verið eru: Hlynur C Guðmundsson, umsjón og stökk, Einar Vilhjálmsson í spjótkastinu og Þórey Edda Elísdóttir í stangarstökki, Marta Ernstsdóttir, hlaup, millivegalengdir.

·         Hressing/nesti á æfingunni í boði SamVest

·         Æfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu

·         Eftir æfinguna býður Frjálsíþróttadeild Ármanns hópnum að taka þátt í félagsmóti hjá þeim í Laugardalshöllinni

·         Stefnt er að því að borða saman eftir daginn, einhverstaðar nálægt en sú máltíð er á kostnað þátttakenda

·         Við höfum fengið vilyrði fyrir gistingu í Ármannsheimilinu á föstudeginum (í göngufæri frá Laugardalshöll) en það tekur um 30 manns. Þeir sem vilja gista þar hafi samband við Hrönn í netfangið hronn@vesturland.is  

Kæru iðkendur og foreldrar!

Endilega fjölmennum - gaman saman, í frjálsum!

 

Gott væri að vita hverjir hafa áhuga og komast, t.d. með því að láta vita um mætingu inná Facebook síðu SamVest-samstarfsins, sem allir SamVest-liðar geta fengið aðgang að.

 

Með frjálsíþróttakveðju,

Framkvæmdaráð SamVest hópsins

31.10.2013 09:30

Glæsilegt ungt knattspyrnufólk

Uppskeruhátíð Snæfellsnessamstarfsins í fótbolta fór fram laugardaginn 28. september í Íþróttahúsi Snæfellsbæjar. Veittar voru viðurkenningar fyrir góðan árangur. Allir iðkendur í 6. 7. og 8. flokk fengu gefins bol frá Landsbankanum sem er aðalstyrktaraðili samstarfsins og einnig verðlaunapeninga sem viðurkenningu.

Í 5. flokk karla a-lið fengu viðurkenningar Kristinn Jökull Kristinsson fyrir mestu framfarir og Anel Crnac var valin leikmaður ársins. Í 5. flokk karla b-liða fékk Sindri Snær Matthíasson viðurkenningu fyrir mestu framfarir og leikmaður árnsins var valin Anton Ingi Kjartansson.

Hjá stúlkunum í 5. flokk a-liða var valin leikmaður ársins Fehima Líf Purisevic og viðurkenningu fyrir mestu framfarir Halla Sóley Jónasdóttir. Það var svo Elva Björk Jónsdóttir sem fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarir hjá b-liðinu og Tanja Lilja Jónsdóttir sem leikmaður ársins.

Þá var komið að 4. flokk karla en þar fékk Bjartur Bjarmi Barkarson viðurkenningu fyrir mestu framfarir en titilinn leikmaður ársins hlaut Sumarliði Kristmundsson en hann var einnig markahæstur í sínum flokki með 11 mörk.

Hjá stúlkunum í 4. flokk fékk Elísabet Páley Vignisdóttir viðurkenningu fyrir mestu framfarir, leikmaður ársins var Svana Björk Steinarsdóttir og markahæst Alma Jenný Arnarsdóttir með 6 mörk. Í 4. flokk var einnig var 7 manna lið og þar sýndi mestu framfarir Álfheiður Ólafsdóttir og leikmaður ársins var Rebekka Guðjónsdóttir.

Að lokum voru afhentar viðurkenningar hjá 3. flokk karla sem spilaði 7. manna bolta í sumar og gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari. Þar var leikmaður ársins Andri Már Magnason og mestu framfarir sýndi Leó Örn Þrastarson.

Ekki voru veittar viðurkenningar hjá 2. flokk karla að öðru leyti en að Tomasz Weyer fékk viðurkenningu fyrir að vera markahæstur með 5 mörk og verður þeirra uppskeruhátíð haldin síðar.Um verðlaunaafhendinguna sá stjórn samstarfsins ásamt leikmönnum úr Pepsídeildarliði Víkings Ólafsvíkur.

Að afhendingu lokinni fengu iðkendur og aðrir gestir grillaða pylsu, íþróttasvala og ís í boði Samstarfsins.

IMG_3191

23.10.2013 13:22

Snæfell 75 ára

Til hamingju með 75 ára afmælið

Snæfell var stofnað 23 október 1938 og því 75 ára í dag.22.10.2013 10:38

Snæfell 76-59 Njarðvík

Snæfell réði ferðinni frá fyrstu mínútu

 Snæfellsstúlkur tóku á móti Njarðvík í Dominos deildinni í dag og byrjuðu leikinn 6-0 og voru að gera Njarðvíkurstúlkum óleik með stífrivörn vörn. Njarðvík gekk illa í varnaleiknum og sprengdi Snæfell hraðann upp í sínum sóknarleik og þær grænklæddu réðu illa við slíkt, Snæfell voru þá komnar í 20-4 með 14-0 kafla og leikhlé dugði ekki til að laga leik Njarðvíkur til nokkurs hlutar. Staðan eftir fyrtsa hluta var 25-12 fyrir heimastúlkur.

 Snæfell byrjaði annan hluta afritað og límt frá þeim fyrri 6-0, 31-12. Nokkuð ljóst í hvað stefndi í leiknum þar sem yfirburðir Snæfells voru algerir á vellinum komnar í 37-14. Vel sást að Hildur Björg er mætt aftur og eignaði sér teiginn og mikill styrkur í  leik Snæfells að fá hana tilbaka en það var svo sem alveg sama hver kom inn á hjá Snæfelli allar gerðu sitt með sóma. Stigaskor beggja liða dreifðist þokkalega á leikmennog staðan í hálfleik 49-25.

Hjá Snæfelli var Chynna Brown komin með 13 stig, 5 fráköst og Hildur Björg 12 stig. Guðrún Gróa var með enn einn varnarsigurinn og var komin með 8 stig og Eva Margrét 7 stig.

Hjá Njarðvík var Jasmine Beverly komin með 8 stig og Aníta Carter 5 stig en mikið vantaði upp á varnaleikinn og baráttu alls liðsins til að gera sér eitthvað í leiknum.

 Það var annað að sjá Njarðvíkurliðið byrja í seinni hálfleik og voru þær einbeittari í sínum aðgerðum inni á vellinum bæði í vörn og sókn. Snæfellsstúlkur þurftu að halda sama dampi til að sigla þann sjó sem þær voru búnar að halda út á þar sem áræðni Njarðvíkur var allt annað í leiknum. Því var þó þannig fyrirkomið í leiknum að erfitt var fyrir Njarðvík að elta uppi þann mun sem hafði myndast og staðan 61-37 fyrir Snæfell. Njarðvík sýndi þó að þær geta barist en það þarf að byrja á fyrstu mínútu leiksins. Heldur fór að halla undan leik þeirra grænklæddu undir lok þriðja fjórðungs og staðan 67-37 fyrir Snæfell.

 Fjórði hlut var eiginlega til þess að spila hann út og klára leikinn en yfirburðir Snæfells í leiknum komu snemma í ljós og ekkert sem kom í veg fyrir stórann sigur í dag í Stykkishólmi og endaði leikurinn 76-59 þar sem stigakor dreifðist vel á leikmenn Snæfells en 5 leikmenn skoruðu yfir 10 stig og næsti leikmaður var með 8 stig þar á eftir. Í liði Njaðrvíkur dreifðist skorið en Jasmine Beverly skoraði 30 stig en næst á eftir var með 6 stig.

Snæfell: Chynna Brown 19/9 frák/9 stoðs/ 4 stolnir. Guðrún Gróa 15/6 frák/4 stolnir boltar. Hildur Björg 12/8 frák. Hildur Sigurðardóttir 11/ 8frák/ 9 stoðs. Eva Margrét 11/6 frák. Hugrún Eva 8. Helga Hjördís 0/4 frák. Rebekka Rán 0. Silja Katrín 0. Aníta Rún 0. Brynhildur Inga 0. Edda Bára 0.

 Njarðvík: Jasmine Beverly 30/ 14 frák. Salbjörg Sævarsdóttir 6/4 frák. Aníta Carter 5/5 frák. Sara Dögg 4. Erna Hákonardóttir 3. Svava Ósk 3. Andrea Björt 2/4 frák. Ásdís Vala 2. Guðbjörg Ósk 2. Guðlaug Björt 2. Elísabet Sigurðardóttir 9. Heiða Valdimarsdórttir 0.

 Símon B. Hjaltalín.  Mynd - Eyþór Ben

 

19.10.2013 17:08

Katrín Eva í úrvalshóp FRÍ

Nýr úrvalshópur 2013-2014

Nýr úrvalshópur 2013-2014
Kominn er nýr listi yfir úrvalshóp unglinga 15-22 ára. (14 ára fá rétt á að komast inn í þennan hóp núna í haust).
Hópurinn samanstendur af 47 stelpum og 44 strákum. Þau koma víða af landinu eða úr 14 félögum. Hlutverk þessa hóps er að hittast fyrir utan hina almenna frjálsíþróttakeppni, fá fræðslu, kynnast fyrrum stjörnum og kynnast hvort öðru á öðrum grundvelli. Hópurinn er valinn í ár eftir nýjum lágmörkum og er hægt að nálgast þau  á síðu FRÍ undir unglingalandsliðsmálum.

Katrín Eva Hafsteinsdóttir HSH  (Snæfell) er í þessum hópi, óskum við henni til hamingju.

http://fri.is/sida/urvalshopur

19.10.2013 16:58

Víkingar með bestu stuðningsmennina í fótboltanum

Stuðningsmenn Víkings Ólafsvík voru valdir stuðningsmenn ársins af valnefnd Knattspyrnusambands Íslands og Ölgerðarinnar. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem stuðningsmenn Víkings fá viðurkenningu en þeir voru einnig valdir hlutskarpastir hjá sérfræðingunum á Stöð 2 sport.

KSÍ, félög

Mynd: KSI.IS - Geir Þorsteinsson, Andri Þór Guðmundsson, Stefán Elinbergsson, Viðar Ingi Pétursson, Lárus Einarsson & Guðmundur Þorgrímsson

Það voru þeir Stefán Elinbergsson, Viðar Ingi Pétursson, Lárus Einarsson og Guðmundur Þorgrímsson sem veittu viðurkenningunni viðtöku í höfuðstöðvum KSÍ. Stuðningsmenn fengu að launum heilt bretti af Pepsi sem mun án efa koma að góðum notum í náinni framtíð.

Stuðningsmenn Víkings eru vel af þessari viðurkenningu komnir enda búnir að vera frábærir frá því í byrjun árs. Stjórn mfl. Víkings óskar stuðningsmönnum hjartanlega til hamingju og þakkar þeim veittan stuðning í sumar.

19.10.2013 16:56

Snæfellsstúlkur fá Njarðvík í heimsókn á sunnudag

Snæfell - Njarðvík!

 

Mætum og hvetjum stelpurnar til sigur! Stuðningur ykkar skiptir okkur miklu máli.

 

Áfram Snæfell

19.10.2013 16:47

Snæfell hafði betur í Vesturlandsslagnum

Sigur í Borgarnesi

Snæfell slapp með tvö stig út úr Fjósinu á fimmtudag þegar Hólmarar lögðu Skallagrím 86-89 eftir spennandi lokasprett. Hafþór Ingi Gunnarsson, af færibandinu í Borgarnesi, gerði út um leikinn á vítalínunni þegar skammt var til leiksloka. Vance Dion Cooksey vakti athygli fyrir frammistöðu sína í kvöld en hann er nýkominn til landsins og gerði 30 stig fyrir Snæfell í leiknum. Hjá Skallagrím var Mychal Green með 24 stig.

 

"Nei nei, það er bara gaman að spila í Borgarnesi," sagði Hafþór Ingi Gunnarsson í samtali við Karfan.is eftir leik aðspurður hvort það væri tregablandið að leika á uppeldisvellinum. Hafþór kláraði Skallagrím á línunni með tveimur vítum sem rötuðu rétta leið. "Ég hef áður tekið einhver vítaskot þarna og það var bara gaman að vera í þeirri stöðu að taka þessi skot," sagði Hafþór sem fannst Snæfell með tök á leiknum framan af.

 

"Við byrjuðum sterkt og höfðum góð tök á leiknum en Skallarnir komu til baka, fóru að hitta og fengu framlög frá fleiri leikmönnum en mér fannst þó að við hefðum átt að leiða með meiri mun í hálfleik. Við þurfum svo að bæta þriðja leikhlutann hjá okkur sem byrjaði þó ágætlega í kvöld en við gáfum eftir og svo varð fjórði leikhluti bara járn í járn," sagði Hafþór en Snæfell hafði það af að landa tveimur stigum og ekki síst fyrir tilstilli nýja mannsins, Vance Dion Cooksey, sem gerði 30 stig í sínum fyrsta leik með Snæfell og það nýkominn til landsins!

 

"Hann er ekkert almennilega kominn inn í hlutina hjá okkur, hann átti flottan leik og mér líst vel á hann, þetta er töffari," sagði Hafþór og viðurkenndi að þessi fyrstu stig tímabilsins hjá Snæfell væru léttir. "Já þetta er léttir, miðað við hvernig við lékum gegn Þór Þorlákshöfn þá fengum við smá blauta tusku í andlitið, þetta er einhver einbeitingarskortur sem við þurfm að laga," sagið Hafþór en í næsta leik verður svakalegur slagur í Stykkishólmi þegar sjóðheitir KR-ingar koma í heimsókn en röndóttir hafa skellt Grindavík og ÍR í fyrstu tveimur umferðunum.

 

"Já það eru meistaraefnin í næsta leik, það verður mjög gaman, það er áskorun að spila gegn þeim og við mættum þeim í Lengjubikarnum og þar fannst mér KR komið lengra en við. Fann það svona í leikjunum gegn þeim en nú verðum við bara að bæta okkur með hverjum leik enda langt í hann svo við rífum í járnin og tökum vel á því."

 

Tekið af www.karfan.is
og myndin er tekin úr myndasafni leiksins frá Ómari Erni Ragnarssyni

14.10.2013 11:54

Góður sigur hjá Snæfellsstúlkum

Snæfell lagði Val í Stykkishólmi

Snæfell lagði Val. Myndin er úr leik liðanna á síðasta tímabili. stækka

Snæfell lagði Val. Myndin er úr leik liðanna á síðasta tímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Snæfell og Valur mættust í Stykkishólmi og fóru heimastúlkur með sigur af hólmi, 72:60.

Snæfell náði forskoti strax í upphafi og létu það aldrei af hendi. Í hálfleik munaði tíu stigum á liðunum, 42:22, en þegar yfir lauk munaði tólf stigum á liðunum.

Hjá Snæfelli var Chynna Unique Brown atkvæðamest en hún skoraði 26 stig og tók 15 fráköst. Hjá Val var Jaleesa Butler stigahæst, hún skoraði 20 stig og tók átta fráköst.

Snæfell - Valur 72:60
 
Stykkishólmur, Úrvalsdeild kvenna, 13. október 2013.
Gangur leiksins:: 4:6, 9:8, 19:12, 22:15, 27:19, 30:23, 35:30, 42:32, 42:38, 44:40, 48:45, 56:48, 59:50, 64:54, 70:58, 72:60.
Snæfell: Chynna Unique Brown 26/15 fráköst/5 stolnir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9/7 fráköst/5 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 8/10 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 8/8 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 7/5 fráköst/7 stoðsendingar, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 7/4 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 5/4 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 2.
Fráköst: 30 í vörn, 23 í sókn.
Valur: Jaleesa Butler 20/8 fráköst/4 varin skot, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 10/6 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 10/5 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 9/6 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 6, Hallveig Jónsdóttir 2, Rut Konráðsdóttir 2, María Björnsdóttir 1.
Fráköst: 25 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Jón Guðmundsson, Isak Ernir Kristinsson.

12.10.2013 10:31

Tap hjá Snæfell gegn Þór

Tap í fyrsta heimaleik vetrarins!

Fyrsti leikur Snæfells og Þórs frá Þorlákshöfn orðinn að veruleika í Domino´s deild karla þetta tímabilið. Snæfell sendu Jamarco Warren ekki heim nýverið, heldur héldu honum innan norðvesturkjördæmis og fengu Skagamenna styrk í sitt lið.

 

Liðin voru jöfn á báðum endum vallarins og hittu ekkert sérlega vel í fyrstu og voru að finna tempóið í leiknum. Tómas Tómasson setti smá tón með þremur 6-9 fyrir Þór en Jón Ólafur og Finnur Atli jöfnuðu í 11-11. Menn fóru að setjann undir lok fyrsta hluta og voru þar Finnur, Jón og Sigurður í farabroddi fyrir Snæfell en Mike Cook var í leiðtogahlutverki hjá Þórsurum og Baldur var sprækur. Staðan 24-19 fyrir heimamenn eftir fyrsta fjórðung sem lögðu vel í vörnina undir lok hlutans. Mike Cokk hélt uppi skori Þórsara kominn með 18 stig af 29 gegn 34 stigum frá Snæfelli.

 

Menn voru að láta ákvarðanir dómara fara aðeins í sig á beggja megin og hafðist tæknivilla á Sveinn Arnar út úr einum slíkum og svo önnur á Inga Þór og máttu Snæfellingar halda áfram að einbeita sér að þeim ágæta leik sem þeir höfðu sýnt framan af. Þórsarar náðu með harðfylgi að jafna 38-38 í meðstreyminu, nýttu það vel.

 

Um leið og Snæfellingar settu fókusinn á leikinn uppskáru þeir 8-0 áhlaup og komust í 46-38 en staðan í hálfleik var 46-40 fyrir Snæfell. Hjá Snæfelli var Jón Ólafur kominn með 15 stig og Sigurður Þorvaldsson 9 stig. Í liði Þórs var Mike Cook kominn með 24 stig og ef hann var ekki í sóknarhug þá var lítið í gangi þeim megin, næstur var Nemjana Sovic með 6 stig.

Jón Ólafur byrjaði seinni hálfleik á þremur en Tómas svaraði strax. Þórsarar jöfnuðu 53-53 með góðum þrist frá Sovic og voru fleiri að svara kallinu í sókninni. Snæfellsmenn voru þvingaðir frá körfunni í sóknum sínum og þéttari vörn Þórsara var að skila góðum leik þegar Snæfell lentu tvígang í að renna út á sóknarklukku og Þór höfðu yfirhöndina 59-68 eftir þriðja fjórðung. Ragnar Nathanaelsson var að bæta verulega í kominn með 15 stig og 12 fráköst og snéri leiknum við og Nemjana Sovic hafði einnig hleypt sóknargyðjunum lausum.

Snæfellingar börðust við að ná tökum á sóknum sínum og tókst með prýði og mikill kraftur fór í að elta 66-79 og róðurinn þyngdist eftir því sem leið á fjórða hluta. Þórsarar höfðu einfaldlega tekið allt annan pól í leikinn og voru allt annað lið í seinni hálfleik og það stuðaði Snæfellinga. Þórsarar héldu velli og pressa Snæfellinga var ekki að taka nein stopp sem gat gefið þeim von þegar um 2 mínútur voru eftir og púðrið á þrotum. Þórsarar tóku sín fyrstu stig í deildinni eftir sigur í Hólminum 81-92.

 

Snæfell: Jón Ólafur 28/10 frák. Sigurður Þorvaldsson 12/6 frák. Hafþór Gunnarsson 11. Finnur Atli 8. Sveinn Arnar 7/4 frák. Stefán Karel 6. Kristján Pétur 5/6 frák. Pálmi Freyr 3. Þorbergur Helgi 1. Kristófer Sævarsson 0. Óttar Sigurðsson 0. Snjólfur Björnsson 0.

 

Þór: Mike Cook 38. Nemjana Sovic 18/5 frák. Ragnar Nathanaelsson 17/14 frák. Tómas Heiðar 9. Baldur Ragnarsson 6/6 stoðsendingar. Emil Karel 2. Þorsteinn Már 2. Jón Jökull 0. Vilhjálmur Atli 0. Halldór Grétar 0. Davíð Arnar 0. Sveinn Hafsteinn 0. Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson og Jakob Árni Ísleifsson. Alls ekki slakir en mættu smyrja sig nokkuð fyrir framhaldið.

 

Símon B. Hjaltalín.

Myndir - Sumarliði Ásgeirsson

11.10.2013 14:33

Farsæl öldrun

Ráðstefnu um velferð eldri einstaklinga í íslensku samfélagi


Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir ráðstefnu um velferð eldri einstaklinga í íslensku samfélagi í samstarfi við Háskóla Íslands. 

Ráðstefnan, Farsæl öldrun, verður haldin í hátíðarsal Háskóla Íslands fimmtudaginn 17. október. Meðal fyrirlesara verða Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Heilbrigðisvísindasvið HÍ, Hermann Sigtryggsson, formaður nefndar um íþróttir 60+ á vegum íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir við LSH, Janus Guðlaugsson, lektor við Menntavísindasvið HÍ, Svanhildur Þengilsdóttir, yfirmaður þjónustudeildar aldraðra í Kópavogi, Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ, Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent við Félagsvísindasvið HÍ, Gylfi Magnússon, dósent við Félagsvísindasvið HÍ og Lárus Blöndal, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Þátttaka er án endurgjalds. Skráning á skraning@isi fyrir miðvikudaginn 16. október. Nánari dagskrá má finna hér.

11.10.2013 14:32

48. Sambandsþing UMFÍ

Selfoss - forskráning48. sambandsþing Ungmennafélags Íslands verður haldið í Stykkishólmi 12. - 13. október nk. Þingið hefst með setningu kl. 10:00 á laugardagsmorgni. Sambandsaðilar UMFÍ eiga samtals rétt á að senda 143 fulltrúa til þings.

HSH er með 5 fulltrúa á þinginu.

 

 
 
 
 
 
 
 

11.10.2013 10:44

Frjálsíþróttaæfing 19 okt á Akranesi

SamVest-samæfing í frjálsum, Akranesi 19. okt.

SamVest-samæfing á Akranesi 19. október 2013
Kynning til iðkenda og foreldra

Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF boða til samæfingar fyrir iðkendur sína. 

Æfingin fer fram í Akraneshöllinni, Jaðarsbökkum, laugardaginn 19. október nk. kl. 11.00 - 14.00.

Eftirfarandi er ákveðið með æfinguna:

 • Hún er fyrir iðkendur 10 ára (árgangur 2003) og eldri
 • Áhersla er á eftirtaldar greinar: grindahlaup, hástökk/þrístökk, kringlukast og kúluvarp. Sumt greinar sem margir eiga eftir að prófa - enda munu þjálfararnir aðstoða okkar fólk við að stíga fyrstu skrefin. 
 • Þjálfarar á starfssvæðinu okkar sjá um þjálfun, en okkur til aðstoðar verða gestaþjálfarar:
  • Eggert Bogason, kastþjálfari úr FH
  • Einar Þór Einarsson þjálfari úr FH, sem leiðbeinir í grindahlaupi 
  • Hlynur Guðmundsson, yfirþjálfari hjá Aftureldingu, sem sér um stökkæfingar
 • Æfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu
 • Hressing á eftir - og sund fyrir þá sem það vilja!

Kæru iðkendur og foreldrar!

Endilega fjölmennum - gaman saman, í frjálsum!

Gott væri að vita hverjir mætra, t.d. með því að láta vita inná Facebook síðu SamVest-samstarfsins sem allir SamVest-liðar geta fengið aðgang að. 

Með frjálsíþróttakveðju,

SAMVEST-samstarfið

Október 2013Skrifað af Björgu

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31