Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2013 Nóvember

22.11.2013 15:59

Auðveldur sigur á Val

Heimasigur í íburðarlitlum leik.

Valsmenn mættu í Hólminn og tókust á við Snæfell í Dominos deild karla. Fyrir leikinn voru Snæfellingar í 7. sæti búnir að taka á sig rögg í síðustu tveimur leikjum. Valmenn hins vegar á botninum með einn sigur og verða væntanlega grimmari með leik.

 

Valsmenn voru ferskir í upphafi og sóttu vel á heimamenn sem þó héldu í við gestina og staðan 8-8. Snæfell pressaði eftir skoraðar körfur, stálu boltum og  uppskáru ágætis stig fyrir en ekki voru þeir sannfærandi varnarlega á móti og Valsmenn gátu spilað sinn leik óþvingað og haldið jöfnu 20-20 en bæði lið voru að spila hratt. Valsmenn voru ekki eins beittir undir lok fyrsta hluta á meðan Snæfellsmenn spyrntu frá og staðan 38-28 fyrir heimamenn í miklum sóknarleik.

 

Mikið hægðist á sóknum liðanna í öðrum fjórðung og þau töluvert frá sprettunum sem voru  í upphafi. Liðin höfðu skorað 7 stig hvort eftir um 6 mínútna leik. Chris Woods var maður gestanna kominn með 20 stig þegar staðan var 54-40 fyrir Snæfell og þróaðist í að verða sá sem sóknirnar fór í gegnum þó aðrir hafi byrjað vel eins og Rúnar Ingi, Gunnlaugur og Birgir. Annar hluti fór 21-15 og staðan í hálfleik því 59-43.

 

Í Snæfellsliðinu var Vance Cooksey kominn með 18 stig og þeir frændur Sigurður Þorvaldsson og Nonni Mæju 13 stig hvor. Valsmegin var áðurnefndur Chris Woods 22 stig og Birgir Björn næstur með 7 stig en fleiri þurftu að stíga upp Valsmegin.

 

Ekki var mikið uppi á teningnum í byrjun seinni hálfleik hvað varðar mikla tilburði og liðin skiptust á að skora en leikurinn afskaplega þungur og íburðarlítill beggja megin. Valsmenn voru lítið eitt á undan í fjórðungnum ef eitthvað var og söxuðu aðeins á en þurftu að sinna varnarleiknum töluvert til að stoppa Snæfellsmenn og ná þeim að stigum þegar staðan var 71-61. Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 78-64 og Snæfellsmenn héldu sér á floti í leiknum en ekkert meira. Valsmenn gerðu það líka og náðu engan vegin að finna spil sem kom þeim í betri stöðu.

 

Valsmenn komu með stemmingu inn í fjórða hlutan og hófu leik á hörkuvörn og tóku strax 9 stig og staðan breyttist fljótt í 78-73. Snæfellsmenn voru ráðalausir í sóknum sínum en sýndu eftir leikhlé smá bit og komu sér af stað 87-73 með Sigurð Þorvaldsson sjóðheitann en hann setti niður 7 stig í röð. Eftir þetta áhlaup Snæfells var ljóst að Valur kæmi ekki mikið til baka. Snæfelll lauk sínum þriðja sigurleik í röð 107-91.

 

Snæfell: Vance Cooksey 38/6 frák/7 stoðs. Jón Ólafur 22/ 5 frák. Sigurður Þorvaldsson 20/7 frák. Pálmi Freyr 9/6 stoðs. Sveinn Arnar 5/7 frák. Finnur Atli 5/6 frák. Stefán Karel 5. Kristján Pétur 3. Hafþór Ingi 0. Snjólfur 0. Þorbergur Helgi 0. Jóhann Kristófer 0.

 

Valur: Chris Woods 40/9 frák. Rúnar Ingi 17/5 stoðs. Gunnlaugur Elsuson 15/5 frák. Birgir Pétursson 9/10 frák. Ragnar Gylfason 3. Oddur Ólafsson 3/5 stoðs. Oddur Birnir 2. Benedikt Skúlason 2. Atli Barðason 0. Benedikt Blöndal 0. Kristinn Ólafsson 0. Bjarni Gunnarsson 0.

 

\

Símon B. Hjaltalín.

20.11.2013 23:51

Uppskeru hátíð hjá UMFG

20. nóvember. 2013 12:49

Uppskeruhátíð Umf. Grundarfjarðar

Ungmennafélag Grundarfjarðar hélt sína árlegu uppskeruhátíð í gær. Þá voru veittar viðurkenningar fyrir árangur síðasta vetrar og síðasta sumars. Eftir verðlaunaafhendinguna var svo boðið upp á happadrætti og flatbökuveislu. Loks var leikur Króatíu og Íslands sýndur beint á risatjaldi. Mikið fjör var því í Samkomuhúsi Grundarfjarðar en fjörið dvínaði þó þegar líða tók á leikinn.

20.11.2013 14:53

Íslandsmótið í futsal

Víkingar hófu titilvörn sína í Íslandsmótinu í Futsal um helgina þegar fyrri umferð B-riðils var leikinn í Ólafsvík um helgina. Í riðlinum eru auk Víkings, sameiginlegt lið Grundarfjarðar og Kára frá Akranesi, Snæfell, Skallagrímur og sameiginleg lið Kormáks frá Hvammstanga og Hvatar frá Blönduósi.

Futsal 2013 2014Í fyrsta leik dagsins báru okkar menn sigurorð af nágrönnum sínum í Grundarfirði/Kára 6-1 eftir að gestirnir höfðu komist yfir. Í næsta leik sigruðu Víkingar spræka Skallagrímsmenn þar sem strákarnir áttu í nokkrum vandræðum með að brjóta Borgnesinga á bak aftur. Í fjórða leik unnu Víkingar öruggan sigur á Snæfelli 4-0 og í þeim síðasta gjörsigruðu strákarnir ungt lið Kormáks/Hvatar 14-0.

Víkingar fóru því næsta auðveldlega í gegnum fyrri umferðina með fullt hús stiga en sameiginlegt lið Grundarfjarðar/Kára fylgir þeim fast á eftir með 9 stig í 2. sæti. Seinni umferð riðlakeppninnar fer fram á Akranesi þann 7. desember næstkomandi.

STAÐAN Í RIÐLINUM:

Futsal Staðan 20132014

ÚRSLIT EFTIR FYRRI UMFERÐ:

1. Víkingur Ó. - Grundarfjörður/Kári | 6-1

2.  Snæfell - Kormákur/Hvöt  | 1-3

3. Skallagrímur - Víkingur Ó. |  1-5

4. Grundarfjörður/Kári - Snæfell |  6-2

5. Kormákur/Hvöt - Skallagrímur |  1-0

6. Snæfell - Víkingur Ó. |  0-4

7. Grundarfjörður/Kári - Skallagrímur |  5-0

8. Víkingur Ó. - Kormákur/Hvöt | 14-0

9. Skallagrímur - Snæfell  | 1-2

10. Kormákur/Hvöt - Grundarfjörður/Kári  | 1-6

Mynd með frétt: Alfons Finnsson20.11.2013 14:51

Snæfellsstúlkur í góðum gír

Stelpurnar í stuði

Snæfellsstúlkum hefur gengið vel í deildinni og eru í öðru sæti á meðan Hamar er í því fimmta og er að fóta sig um miðja deild. Berglind Gunnarsdóttir er komin í lið Snæfells að nýju og hefur bati á hennar meiðslum verið framar vonum.

 

Leikurinn byrjaði rólega í stigaskori og meira í hlaupum fram og til baka og staðan ekki nema 3-5 fyrir Hamar eftir fyrstu fjórar minútur leiksins en bæði lið voru ekki beint í skotgírnum og reyndu að halda varnartibrigðum sínum til haga. Þegar Hamar hafði komist í 5-11 var það Rebekka Rán sem hélt Snæfelli inni í ansi slökum sóknarleik þeirra með þrist 8-11 en líkt var og lok væri á körfum Snæfells. Á meðan lék Íris Ásgeirs lausum hala og hafði sett 9 stig eftir fyrsta hluta og staðan 11-15 fyrir blómastúlkurnar úr Hveragerði.

 

Heimastúlkur náðu að seiglast áfram og jafna 18-18 eftir að hafa fengið fimm stig frá Helgu Hjördísi í beit og að berjast frekar um lausa bolta. Svæðisvörn Hamars var að virka á köflum en Snæfell lærðu fljótt á hana og náðu miklvægum fráköstum í sóknum sínum og komust yfir 25-23. Fanney Lind var að gera vel fyrir Hamar sem voru hungraðar í tvö stig í þessum leik komin með 12 stig og 9 fráköst um miðjan annan hluta. Chynna Brown dritaði hverju skotið eftir annað niður og hélt uppi skori Snæfells þegar þær komust í 31-23 með 11-0 kafla. Eva Margrét átti síðasta orðið undir lok fyrri hálfleiks tveimur þristum alveg sjóðheit og staðan 37-28 fyrir Snæfell.

 

Hjá Snæfelli var Chynna Brown komin með 17 stig og Eva Margrét 6 stig en Hildur Sigurðar ætlaði að hækka meðaltalið komin með 8 stoðsendingar. Hjá Hamri var áður nefnd Fanney Lind komin með 12 stig og 9 fráköst og næst henni var Íris Ásgeirsdóttir komin með 9 stig.

 

Hamarsstúlkur misstu alveg taktinn í upphafi þriðja hluta og Snæfell byrjuðu á fullu krafti. Snæfell hittu núna úr öllu á meðan Hamar misstu boltann illa, fengu óíþróttamannslega villu og vörnin var í molum. Staðan varð fljótt 47-28 fyrir Snæfell og voru fóru mikinn. Þrátt fyrir 23 stiga mun 60-37 voru Hamarsstúlkur að berjast og reyna að koma sér aftur inn í sinn leik og settu Fanney og Íris niður þriggja stig skot sín. Staðan eftir þriðja hluta 66-47 fyrir Snæfell. Di´Amber Johnson komst ekki mikið inn í leikinn fyrir Guðrúnu Gróu en stúlkan virtist haltra á köflum.

 

 Hamar virtist ætla að saxa á forskot Snæfells 68-53 en það var ekki meira en svo. Heimastúlkur voru einfaldlega komnar á annan stall og þustu í 80-55 sem sagði allt um hve sterkar þær voru í leiknum og höfðu yfirhöndina eftir að hafa komist inn í leikinn í öðrum hluta og tekið hann yfir. Berglind Gunnars kom inn á og sýndi strax ótrúlega flottar hreyfingar sem henni einni er lagið og henti niður tveimur stigum í sína fyrsta skoti og svo var stemmingin Snæfellsmegin þegar Silja Katrín kom inn á og skellti einum ísköldum þrist á lokaflautinu. Leikurinn endaði 88-58 fyrir Snæfell sem eru að gera fína hluti í deildinni þessa dagana og eru komnar upp að hlið Keflavíkur með jafnmörg stig.

 

Snæfell: Chynna Brown 24/7 frák/4 stoðs/8 stolnir. Eva Margrét 16/5 frák/4 stoðs. Guðrún Gróa 14/5 frák. Hildur Sigurðardóttir 10/8 frák/12 stoðs. Hugrún Eva 8/11 frák. Helga Hjördís 5/6 frák. Rebekka Rán 3/5 stoðs. Aníta Rún 3. Silja Katrín 3. Berglin Gunnarsdóttir 2. Edda Bára 0.

 

Hamar: Fanney Lind 18/12 frák. Íris Ásgeirsdóttir 17/3 frák. Di´Amber Johnson 15/4 frák/6 stoðs. Marín Laufey 6/12 frák. Dagný Lísa 2. Jóna Sigríður 0. Jenný Harðardóttir 0. Katrín Eik 0. Helga Vala 0. Kristrún Rut 0. Sóley Guðgeirsdóttir 0.

 

 

Sumarliði Ásgeirsson tók myndina, það eru fleiri myndir á facebook-síðunni hans. Endilega kíkjið á það.

Símon B. Hjaltalín.

20.11.2013 14:49

Ferðasjóður Íþróttafélag

Umsóknarsvæði Ferðasjóðs íþróttafélaga

20.11.2013

Umsóknarsvæði Ferðasjóðs íþróttafélaga er opið.  Frestur til að skila inn umsóknum vegna keppnisferða á árinu 2013 rennur út á miðnætti föstudaginn 10. janúar 2014. Öll íþrótta- og ungmennafélög innan vébanda ÍSÍ geta sent inn umsóknir í sjóðinn.  Hægt er að fara inn á umsóknarsvæðið með því að smella hér eða smella á tengilinn "Ferðasjóður íþróttafélaga" hér hægra megin á heimasíðu ÍSÍ undir listanum "Gagnlegt". 

Við stofnun umsóknar er send vefslóð á uppgefið netfang tengiliðar, sem nýtist sem lykill inn á viðkomandi umsókn þar til umsókn er send.  Umsækjendur eru hvattir til að vanda frágang umsókna til að auðvelda og einfalda úrvinnslu þeirra.  Listi yfir styrkhæf mót er að finna á umsóknarsvæðinu og þar er einnig að finna svör við algengum spurningum.

Vinsamlegast hafið samband við Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ í síma 514 4000 eða í gegnum netfangið halla@isi.is ef nánari upplýsinga er þörf eða ef þið hafið einhverjar ábendingar.

18.11.2013 11:28

Íþróttaiðkun jákvæð

Jákvæð áhrif íþróttaiðkunar á líðan ungmenna

11.11.2013

Frá árinu 1992 hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið stuðlað að því að gerðar hafa verið faglegar, samanburðarhæfar rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna hér á landi undir heitinu Ungt fólk.   Hefur Ísland verið í fararbroddi þróunar á rannsóknum af þessu tagi mörg undanfarin ár. Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru gerðar meðal nemenda í 5. til 10. bekk í öllum grunnskólum og í öllum árgöngum framhaldsskóla landsins með reglulegu millibili. Þær þykja einstæðar á heimsvísu m.a. sökum þess að þær ná til allra ungmenna í landinu sem mættir voru í skólann þá daga sem rannsóknin var lögð fyrir. 

Þann 7. nóvember sl. voru kynntar helstu niðurstöður rannsóknarinnar og þar kom m.a. fram að mikil aukning hefur orðið frá árinu 2007 á íþróttaiðkun (4x í viku eða oftar) og þá sérstaklega meðal stelpna.  Árið 2007 sögðust um 29% stelpna æfa eða keppa með íþróttafélagi 4x í viku eða oftar en nú, árið 2013, segja um 42% stelpna að þær æfi eða keppi þetta oft.   Einnig kom fram að nemendur sem æfa íþróttir með íþróttafélagi eru síður líklegir til að upplifa sig einmana (sl. sjö daga fyrir könnun).  Um 17% nemenda sem segjast aldrei æfa íþróttir sögðust stundum eða oft finna fyrir einmanaleika á meðan hlutfallið er 7% meðal nemenda sem æfa fjórum sinnum í viku eða oftar.

Heildarniðurstöður úr rannsókninni verða gefnar út á bók og birtar á vef ráðuneytisins og Rannsóknar og greiningar ehf.

Sjá nánar um niðurstöðurnar: Ungt fólk 2013

18.11.2013 09:22

Hátíðardagur framundan hjá hestamönnum

 

Snæfellingur 50 ára

2. desember 2013

 

Í tilefni af því að verður boðið í afmæliskaffi 
mánudaginn 2. desember kl. 20
Vegamótum, Eyja-og Miklaholtshreppi
 
Snæfellingur var stofnaður á Vegamótum 2 des. 1963
Fundarboðandi var Leifur Kr. Jóhannesson.
 
 
 Við munum  veita verðlaun til
knapa, ræktenda og heiðursfélaga.
 
 
Vonumst til að sjá ykkur sem flest.
Stjórnin

 

18.11.2013 09:12

Uppskeruhátíð UMFG

UPPSKERUHÁTÍÐ !!


Uppskeruhátíð UMFG fyrir árið sem er að líða verður haldin í Samkomuhúsinu þriðjudaginn 19. nóvember 2013 klukkan 18:00.

Sökum þessa þá falla fimleikaæfingar niður þennan dag.

Eftir að uppskeruhátíð lýkur munum við horfa á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tryggja sér farseðil til Brasilíu og fylla mallakút af flatbökum. 

Allir hvattir til að mæta í bláu.

Addi er að græjera stórt tjald í samkomuhúsið og við lofum góðri stemmingu á leiknum.

Uppskeruhátíðin byrjar klukkan 18:00
Landsleikurinn klukkan 19:15 

Allir velkomnir !!

15.11.2013 12:40

Snæfellsstúlkur sóttu 2 stig

13.11.2013 22:49 nonni@karfan.is
Baráttan skilaði Snæfell tveimur stigum í Vodafonehöllinni í kvöld þegar Hólmarar heimsóttu Valskonur að Hlíðarenda. Jaleesa Butler fékk lokatilraun til að knýja fram framlengingu fyrir Val en skotið geigaði og Snæfellskonur fögnuðu sigri eftir spennuslag, lokatölur 74-77. Snæfell var lengst af við stýrið og fór mikið púður hjá Val í að komast upp að hlið gestanna og þegar það hafðist stóðu gestirnir áhlaupið af sér.
 
 
Valur hefur nú tapað fjórum heimaleikjum í röð í Domino´s deild kvenna sem fyrir þennan hóp er langt í frá ásættanlegt. Að sama skapi eru Hólmarar með fjóra í röð á útivelli og í 2. sæti deildarinnar með 12 stig.
 
Byrjunarliðin í kvöld:
Valur: Þórunn Bjarnadóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Jaleesa Butler og Ragna Margrét Brynjarsdóttir.
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Chynna Unique Brown, Hugrún Eva Valdimarsdóttir og Eva Margrét Kristjánsdóttir.
 
Með Hildi Björgu í leyfi næstu þrjá leiki bjuggust flestir við að Valur myndi yfirgnæfa frákastabaráttuna í kvöld en þannig varð málum ekki háttað. Hólmarar voru fyrri til að finna neistann á slyddukvöldi sem þessu og leiddu 19-24 að loknum fyrsta leikhluta. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells var ekki sáttur þegar Chyanna Brown fékk sína þriðju villu undir lok fyrsta leikhluta en Brown var mikið að dekka Jaleesu Butler og þarna er töluverður hæðarmunur svo Butler sótti stíft á Brown. Eins og áður segir, Snæfell leiddi með 5 stiga mun þrátt fyrir að glutra boltanum æði oft frá sér og leiddu frákastabaráttuna 7-12 eftir þessar fyrstu 10 mínútur leiksins.
 
Rut Herner Konráðsdóttir bauð annan leikhluta velkominn með þriggja stiga körfu fyrir Val og minnkaði þannig muninn í 22-24. Megnið af sóknarleik Vals fór í gegnum Jaleesu Butler og fyrir vikið varð varnarvinnan aðeins auðveldari hjá gestunum, það kom þeim ekkert á óvart, Butler átti bara að fá boltann. Snæfell var alltaf skrefinu á undan og þennan leikhluta var það hlutskipti Valskvenna að grýta boltanum frá sér í tíma og ótíma.
 
Chyanna Brown lék mest allan leikhlutann þrátt fyrir að hafa fengið þrjár villur í þeim fyrsta, annan leikhluta lék hún villulaust og náði að baka Val umtalsverð vandræði. Hildur Sigurðardóttir var að gera allt vel nema kannski í þriggja stiga skotum þar sem aðeins 1 af 5 vildu niður fyrstu 20 mínúturnar en annað var hún með á tæru og Snæfell leiddi 31-38 í hálfleik þar sem Hildur var með 13 stig og 6 fráköst í liði Snæfells en Jaleesa Butler var með 14 stig og 4 fráköst hjá Val og merkilegt nokk, Hólmarar, þeir leiddu frákastabaráttuna 21-24, höfðinu minni svona að jafnaði en baráttuþrekið í botni.
 
Valskonur mættu með læti og hávaða inn í síðari hálfleikinn, stöku pressa sást skjóta upp kollinum og náðu heimakonur að minnka muninn í 39-42 en Snæfell átti alltaf svar. Illa gekk hjá Hlíðarendakonum að brjóta þennan svokallaða ís og með tímanum í þriðja leikhluta fór vörnina að leka. Arkitektinn Hildur Sigurðardóttir þefaði uppi glufurnar og Brown smeygði sér inn í þær og Snæfell náði upp 14 stiga forskoti, 49-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Til að nudda salti í sár Valskvenna þá skellti Ísfirðingurinn Eva Margrét Kristjánsdóttir niður flautuþrist fyrir Snæfell sem héldu vígreifar inn í fjórða og síðasta hluta.
 
Eitthvað hefur værukærðin tekið sér bólfestu í Snæfellsliðinu, að sama skapi hertu Valskonur róðurinn í vörninni og gestirnir gerðu aðeins 3 stig á fyrstu sjö mínútum fjórða leikhluta! Ragna Margrét Brynjarsdóttir minnkaði muninn í 64-66 með góðu stökkskoti í Snæfellsteignum en Brown kom Snæfell í 68-72 með stökkskoti á hinum enda vallarins þegar 48 sekúndur voru til leiksloka. Brown var svo aftur á ferðinni skömmu síðar og gerði út um leikinn þegar hún jók muninn í 68-74 þegar 23 sekúndur lifðu leiks. Þessi tími reyndist ekki nægilegur fyrir Valskonur til þess að bjarga málunum og Hólmarar fögnuðu sigri þrátt fyrir heiðarlega tilraun Valskvenna sem og sjö afar daprar mínútur af gestanna hálfu í fjórða leikhluta. Lokatölur 74-77 og það hefðu nú heldur betur orðið læti ef Butler hefði sett niður lokaþrist leiksins og galdrað fram framlengingu en stundum vill hann bara ekki detta.
 
Hugrún Eva Valdimarsdóttir steig vel upp hjá Snæfell í fjarveru Hildar Bjargar og lauk Hugrún leik með 14 stig og 9 fráköst en það voru Hildur Sigurðardóttir og Chyanna Brown sem leiddu Snæfellinga, Hildur að daðra við þrennu með 14 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar og Brown með 29 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Val var Jaleesa Butler með 27 stig og 12 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir bætti við 26 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. 
 
Tilþrif leiksins: Flautuþristur Evu Margrétar undir lok þriðja leikhluta, sá hlýtur að hafa sviðið í sárum Valskvenna.
 
 

15.11.2013 12:38

Snæfell vann ÍR

14.11.2013 21:38 nonni@karfan.is
Liðin í 8. og 9. sæti Domino's deildarinnar mættust í kvöld, þegar ÍR og Snæfellingar áttust við í Hertz Hellinum í Breiðholti. Hinn nýlenti Calvin Henry lék sinn fyrsta leik fyrir ÍR. Þeir bláklæddu höfðu sagt upp samningi sínum við Terry Leake Jr. Henry útskrifaðist úr Mercer háskólanum 2010 en þar var hann með 10.5 stig, 6.6 fráköst og 2.6 varin skot á lokaárinu. Áður en för hans var heitið til Íslands hafði hann meðal annars spilað í Þýskalandi og Ástralíu eins og sagði í umfjöllun Karfan.is í dag.
 
 
Heimamenn í ÍR voru greinilega að þreyfa fyrir sér með nýja manninn og byrjuðu ágætlega, en Jón Ólafur Jónsson og Vance Cooksey voru aktívir í bæði vörn og sókn fyrir Snæfell, sem komust í vænlega forystu um miðjan fyrsta leikhluta. Voru þeir félagar eldheitir í þristunum og trekk í trekk söng svoleiðis í netinu að netagerðarmenn Hampiðjunnar voru tilbúnir við útkallssímann. Jón setti svo einn eldknött niður rétt áður en flautan gall og sjálfsöryggið var á háflugi er hann kom Snæfelli í 15 stiga forskot.
 
 
Flugeldasýning gestanna hélt áfram í upphafi annars leikhluta og rufur 20 stiga munmúrinn eftir tæplega mínútna leik, en ÍR virtust þurfa að kalla út lásasmið því aðgengi að körfunni þeirra megin var harðlæst að því er virtist og um leið hafa samband við slökkvilið Reykjavíkur, þar sem andstæðingarnir voru við það að kveikja í Hellinum. Einnig hjálpaði pressuvörn Snæfells með að halda heimamönnum frá því að skora, en gestirnir gáfu ekkert eftir þó svo að forskotið stækkaði hratt. ÖLL skot Snæfells fóru niður að því er virtist, en um miðbik leikhlutans voru þeir með 73% skotnýtingu og 90% úr þristum. 9 þristar niður af 10 og átti Jón Ólafur 6 af þeim úr 6 tilraunum.
 
 
Inngjöf Snæfells hélt áfram, þrátt fyrir tilraun heimamanna til að komast inn í leikinn á ný. Títtnefndur Jón Ólafur setti niður enn einn þristinn og var í 100% þar til eftir tæplega 4 mínútna leik í þriðja leikhluta þegar hann missti marks. Snæfellingar tóku leikhlé upp úr miðjum leikhlutanum, en ÍR höfðu þá krafsað sig aðeins upp úr holunni sem þeir voru búnir að grafa sig í, með Snæfell skjótandi hverju fallbyssuskotinu á eftir öðru "on target". Forystan var komin úr 29 stigum í 19 á skömmum tíma og mátti sjá á Sveinbirni Cleassen að vonin var ekki úti hjá ÍR þó lítil væri.
 
 
Fjórði leikhlutinn var þó eins og í stefndi. Aðeins formsatriði. Forskot Snæfells jókst á ný og komst yfir 30 stigin undir lok leiks. Dómarar leiksins misstu loks tökin á annars andvana leiknum í leikhlutanum eftir að hafa dæmt svolítið út í loftið mest allan leikinn, á báða vegu en þó meira á kostnað ÍR-inga. Pirringurinn og svekkelsi yfir ójafnræði í dómum var svo að Sveinbjörn missti stjórn á skapi sínu og var vísað af velli. Ráðaleysi dómaranna og furðulegir dómar virtust ergja menn beggja liða en þó mest stuðningsmenn Breiðhyltinga.
 
 
Lokatölur 77-110 fyrir Snæfelli, þar sem þeir félagar Cooksey og Jón Ólafur voru með 30 stigin hvor og Jón með 8 af 9 þristum niður ásamt 9 fráköstum og 2 stolna bolta. Cooksey var þar að auki með 7 stoðsendingar.
 
 
Atkvæðamestur hjá ÍR var Sveinbjörn með 22 stig og 4 fráköst en nýi maðurinn, Calvin Henry, endaði með 18 stig og 7 fráköst. Matthías Orri Sigurðarson var einnig með 18 stig og 5 stoðsendingar.
  
 
Umfjöllun/ Arnar Freyr Böðvarsson

15.11.2013 12:34

Silfurmót ÍR

Metþátttaka í Silfurleikunum um helgina
Eitt fjölmennasta frjálsíþróttamót ársins verður í Laugardalshöll um helgina, en ÍR minnist silfurverðlauna Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum með glæsilegu barna- og unglingamóti ár hvert, en þetta er í 18 sinn sem þetta mót er haldið. Metþátttaka er í mótinu að þessu sinni, en 730 keppendur eru skráðir til leiks frá 29 félögum. Skráningar eru alls 2175. Þessi mikla þátttaka sýnir að frjálsíþróttir eru greinilega í sókn, en fyrra aðsóknarmet var 2012.

HSH á 8 keppendur á mótinu

Leikskrá mótsins er hér
 
Nánari upplýsingar um mótið:
 
1. Tímaseðill mótsins stendur að mestu eins og drög gera ráð fyrir en þó má búast við örlitlum breytingum. Nýr tímaseðill verður birtur á mótaforritinu og sendur út eigi síðar en kl. 18.00 í dag, föstudag.
 
2. Nafnakall verður viðhaft á sérstöku nafnakallssvæði sem staðsett verður í suðvesetur horni salarins (þar sem kastbúrið er) 
Í hlaupagreinum eru menn beðnir að merkja við þá sem ætla að hlaupa eigi síðar en klukkustund fyrir hlaup. Riðlar verða hengdir upp 20 mín. fyrir hlaup. Þessi tímamörk gilda þó ekki í fyrstu hlaupagrein dagsins þar sem húsið opnar ekki fyrr en kl. 8.00. 
 
Í tæknigreinum þurfa menn að vera búnir að láta merkja við sig 30 mín fyrir grein.
 
3. Mótaforritið á mjög erfitt með að anna svona fjölmennu móti. Það er opið núna og verður opið fram að móti en á meðan á mótinu stendur verður mótaforritið ekki aðgengilegt nema þeim sem eru að vinna í úrslitavinnslu. Það verður því miður ekki hægt að fylgjast með úrslitum á netinu. Við munum kappkosta að hengja úrslitin upp eins fljótt og frekast er unnt.
 
4. Meðfylgjandi er leikskrá mótsins eins og hún lítur út núna.
 
5. Upphitunarsvæði verður utan hringbrautar sunnan megin í húsinu. Þetta svæði er einungis ætlað keppendum og þjálfurum.

12.11.2013 01:13

Snæfell vann Grindavík

Frábær vörn og barátta skilaði tveimur stigum í kvöld!

Fyrir leik Snæfell og Grindavíkur, í Dominos deild karla, voru heimamenn í Snæfelli í 9. sæti einungis unnið 1 af 4 leikjum sínum á meðan íslandsmeistararnir hafa aðra sögu að segja með 3 sigra úr 4 leikjum í 4. sæti og hafa verið leitandi á erlenda leikmannamarkaðnum en með alíslenskt lið í þessum leik.

 

Grindavík komst í 4-12 strax í upphafi með Jóhann Ólafsson heitann og voru Snæfellingar að rúlla slökum sóknum og virtust hikandi gegn vörn Grindavíkur. Þorleifur var spila vel í fyrsta hluta og átti hvert skotið ofaní. Flæði Snæfellssóknar var lítið og hékk Vance Cooksey mikið á boltanum og Grindvíkingar sáu vel fyrirsjáanlegar sendingar og staðan 13-19. Snæfellingar, með þrist og vítum frá Siguðrði Þorvaldssyni og góðu sprett frá Vance jöfnuðu 19-19 undir lok hlutans og Sigurður bætti svo um betur með þremur til og staðan varð snarlega orðin 22-19 fyrir Snæfell.

 

Allt annað hljóð kom í heimamenn sem fóru að finna taktinn og berjast meira og leikurinn betra sjónvarpsefni fyrir vikið. Liðin skiptust á að skora og allt í járnum í öðrum hluta 32-29.  Grindavík fóru að ráða minna við sóknarleik Snæfells sem hirtu sóknarfráköst um hríð sem og varnarfráköstin einnig og voru 40-31 yfir. Staðan í hálfleik var 42-33 fyrir Snæfellinga sem tóku rispu.

 

Nonni Mæju hafði stigið upp í öðrum hluta og var kominn með 14 stig fyrir Snæfell en næstur honum vaar Sigurður Þorvalds sem kom þeim á sporið sem 12 stig og 9 fráköst. Snæfellingar voru að ná gríðalega mikilvægum fráköstum og voru með 32 gegn 21 Grindavíkur. Þorleifur Ólafsson var kominn með 12 stig og Sigurður Þorsteinsson 10 stig og 5 fráköst. Hittnin var góð hjá Grindavík í upphafi leiks en dalaði eftir sem leið á fyrri hálfleikinn.

 

Flugeldar já flugeldar í upphafi þriðja hluta þegar Kristján Pétur setti þrist og Sveinn Arnar kom í kjölfarið og Snæfell komust strax í 48-35. Sveinn Arnar smellti þá einum til eftir leikhlé gestanna 51-35. Grindvíkingar vildu sækja á en Snæfell héldu sér í um 15 stigum frá þeim og á kafla hirtu alla lausa bolta, fráköst og Grindavík máttu laga talsvert í að stíga út og halda boltanum en breiddin var ekki mikil í sóknarleiknum einnig og staðan 61-41. Grindavík áttu sprett í lok þriðja hluta og hertu varnarleikinn og staðan 63-48 fyrir lokafjórðunginn.

 

Grindvíkingar söxuðu hægt en örugglega og voru komnir nær um 10 stig 69-59 um miðjan fjórða hluta og baráttan en til staðar og þá helst hjá Ólafi Ólafs sem fór í alla bolta en Ómar Sævarsson var einnig drjúgur og Daníel Guðmundsson var að gera vel. Níu stigum munaði á liðunum þegar tvær mínútur voru eftir 74-65. Grindavík sóttu vel í fjórða hluta og staðan 76-70 þegar mínúta var eftir. Liðin fóru á línuna til skiptis undir lokin en Snæfellsmenn héldu naumri forystu þrátt fyrir mikin atgang frá Grindavík og sigruðu 88-80.

 

Snæfell: Sigurður Þorvaldsson 23/12 frák. Vance Cooksey 19/10 frák/8 stoðs. Jón Ólafur 17/5 frák/6 stoðs. Sveinn Arnar 10/4 frák. Stefán Karel 8/4 frák. Kristján Pétur 5/8 frák. Finnur Atli 4. Þorbergur Helgi 2. Hafþór Ingi 0. Pálmi Freyr 0. Snjólfur Björnsson 0. Kristófer Sævarsson 0.

 

Grindavík: Sigurður Þorsteinsson 21/11 frák. Þorleifur 16/5 frák/6 stoðs. Jóhann Ólafsson 16/5 frák. Ómar Sævarsson 11/9 frák. Ólafur Ólafsson 7/6 frák/4 stoðs. Daníel Guðni 6. Björn Steinar 2. Jón Axel 1. Hilmir Kristjánsson 0. Jens Valgeir 0. Hinrik Guðbjartsson 0. Ármann Vilbergsson 0.

 

Símon B Hjaltalín.

08.11.2013 14:25

Öruggt hjá Snæfellsstúlkum gegn Grindavík

06.11.2013 23:47 nonni@karfan.is
 
Snæfellsstúlkur lokuðu leiðunum í upphafi leiks þegar Grindavík kom í heimsókn í Domino´s deild kvenna og voru yfir 8-0 eftir fjögurra mínútna leik. Vörn Snæfells var sterk og Grindavík áttu erfitt með að ná góðum skotum. Gestirnir náðu að rétta við sinn sóknarleik og nálguðust Snæfell 12-10 með stórum skotum frá Ingibjörgu og Pálínu. Staðan var 23-14 eftir fyrsta hluta fyrir Snæfell sem áttu ágætan sprett undir lok hans.
 
 
 
Leikurinn varð allur þyngri í öðrum hluta og lítið skorað og meira puðað en Snæfell hélt sér aðeins frá Grindavík þegar takturinn var kominn í liðin 31-21 og voru aðallega að ná að keyra vel inn í sóknum sínum. Tögl og haldir eru orð sem notast mætti við um leik heimastúlkna í fyrri hálfleik en Chynna, Hildur BJörg, Hildur Sigurðar og Guðrún Gróa voru að spila frábærlega en Guðrún Gróa gerði það að verkum að leikstjórnendur Grindavíkur komu engu í verk. Helga Hjördís toppaði svo fyrri hálfleikinn með þrist á flautunni og Snæfell yfir 45-28.
 
 
Chynna Brown var komin með 19 stig, 6 fráköst og 3 stolna og næst var Hildur Björg með 8 stig og 5 fráköst. Lítið hafði gengið hjá Grindavík sem voru alls með 8/16 í tveggja stig skotum gegn 16/37 Snæfells og fengu ekki mörg tækifæri til að skjóta nema mörg þvinguð stór skot og voru 2/14 í þristum. Lauren Oosdyke og Ingibjörg Jakobs voru komnar með 7 stig hvor.
 
 
Snæfell hóf seinni hálfleikinn af krafti og hreinlega átu Grindavík með varnaleik sínum komust í 54-30 strax í upphafi og allt sem sett var upp Grindavíkur megin hreinlega gekk á afturfótunum og Lauren Oosdyke fékk tæknivillu þrátt fyrir að hafa klárað skot ofan í. Grindavík náði ekki að halda í Snæfell í þriðja hluta og freista þess að minnka muninn og áttu í töluverðu basli með leik sinn og drógust bara meira aftur úr. Snæfell hins vegar yfir 62-39 fyrir lokafjórðungin.
 
 
Fjórði hluti var jafnari og fleiri leikmenn komu af bekkjum beggja liða en lítið var að gert að Snæfell ætti þennan leik skuldlaust og var nánast flest í leik þeirra að smella og þá sérstaklega varnarlega. Í Grindavíkurliðinu býr mikið meira en þær sýndu í þessum leik en þær mættu ofjörlum sínum í dag og endaði leikurinn 85-55 fyrir Snæfell.
 
 
 
Snæfell: Chynna Brown 26/9 frák/ 4 stoðs. Hildur Sigurðardóttir 17/5 frák/7 stoðs. Hildir Björg 12/14 frák. Hugrún Eva 8/7 frák. Helga Hjördís 7/4 frák. Rebekka Rán 5. Guðrún Gróa 4/ 9 frák. Eva Margrét 4/4 frák. Aníta Rún 2. Edda Bára 0.
 
 
Grindavík: Lauren Oosdyke 16/10 frák. Pálína Gunnlaugsdóttir 12/7 frák. Ingibjörg Jakobsdóttir 11. María Ben 6/4 frák. Jeanne Sicat 3. Marín Rós 3. Helga Rut 2/4 frák. Jóhanna Rún 2. Hrund Skúladóttir 0. Alda Kristinsdóttir 0. Julia Sicat 0.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín

08.11.2013 13:57

Barátta geng einelti

Dagurinn í dag, 8. nóvember, er líkt og síðustu ár helgaður baráttunni gegn einelti.  Dagurinn er nú haldinn hátíðlegur í þriðja sinn en markmiðið með deginum er að vekja sérstaka athygli á málefninun og hversu alvarlegt einelti er.  Í ár er sjónum beint að skólasamfélaginu og þá sérstaklega framhaldsskólum. 

ÍSÍ hefur nýlega gefið út bækling um eineltismál sem ber yfirskriftina "Aðgerðaráætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun". Bæklingurinn er sérstaklega ætlaður íþróttahreyfingunni. Í bæklingnum má m.a. finna upplýsingar um fyrirbyggjandi aðgerðir, skilgreiningar og helstu birtingarmyndir eineltis.  Þar koma einnig fram hugmyndir að verklagsreglum íþróttafélags sem hægt er að grípa til ef einstaklingur verður fyrir einelti eða annarri óæskilegri hegðun.

ÍSÍ gaf einnig út veggspjald með slagorðinu "Ekki meir!" og vísar til þess að íþróttahreyfingin líður ekki einelti, sé það til staðar eða komi það upp er unnið að því að uppræta það.  Hægt er að nálgast bæklinginn og veggspjaldið á skrifstofu ÍSÍ.  Bæklinginn má einnig skoða með því að smella hér.

Stöndum öll saman gegn einelti!

01.11.2013 13:18

Björn Sólmar áfram með kvennalið Víkings

Stjórn meistaraflokks kvenna framlengdi á dögunum samninginn við þjálfara liðsins Björn Sólmar Valgeirsson. Björn hefur stýrt liðinu frá því það var sett á laggirnar haustið 2012 ásamt því að þjálfa yngriflokka félagsins með góðum árangri. Hann mun því stýra meistaraflokki kvennaliðs Víkings Ólafsvík út næsta keppnistímabil 2014.

Undir stjórn Björns á fyrsta tímabili liðsins enduðu stelpurnar á botni riðilsins með 6 stig. Liðið gerði 3 jafntefli, fyrst gegn ÍR-ingum, næst gegn Tindastóli og síðast gegn Álftanesi. Liðið sigraði BÍ/Bolungarvík á útivelli þann 16. Júní þar sem Freydís Bjarnadóttir skoraði eina mark leiksins.

Björn telur að liðið hafi öðlast mikilvæga reynslu í sumar og það sama megi segja um sig sjálfan:

"Það er óhætt að segja það - við fórum nánast öll inní síðast ár algjörlega reynslulaus, ég þar meðtalinn. Ég held að fólk gerir sér ekki grein fyrir hversu erfitt það er að hoppa út í djúpulaugina einn tveir og þrír. Að sama skapi lærði ég mjög mikið og stelpurnar öðluðust mikilvæga reynslu sem verður ekki tekin af þeim og þær munu byggja á."

Sveinn og BjörnSveinn Elinbergsson og Björn handsala samninginn á dögunum (Mynd: Gunnar Örn)

Hópurinn samanstendur af ungum og efnilegum stelpum sem voru að stíga sín fyrstu skref ásamt miklum reynsluboltum og á því telur Björn hægt að byggja upp og gera betur næsta sumar.

"Við erum náttúrlega með mjög ungan hóp en við fengum nokkrar gamlar til að hjálpa okkur á meðan þessar ungu væru að fá dýrmæta reynslu. Ég hef mikla trú á ungu stelpunum og ef þær eru tilbúnar að leggja á sig þá vinnu sem þarf til að ná lengra þá er sannarlega hægt að byggja upp og sjálfsögðu er stefnan alltaf sú að gera betur og betur."

Liðið lenti í miklum vandræðum með að manna stöðu markmanns í sumar þar sem meiðsli settu stórt strik í reikninginn. Hvernig standa markmannsmálin nú þegar undirbúningstímabilið er rétt að byrja?

"Við vorum virkilega óheppin með meiðsli á markmönnum og notuðum til að mynda 5 markmenn í 16 leikjum sem verður að teljast ótrúlegt. Þar af voru einungis þrír sem við getum í raun kallað markmenn því hinar tvær voru útispilarar. Það var svo sannarlega ekki til að hjálpa ungu liði sem var að spila í fyrsta sinni í alvöru deild en stelpurnar héldu alltaf áfram og fá þær mikið kredit fyrir að missa aldrei trúna á því sem við vorum að gera. Varðandi markmannsmálinn fyrir næsta tímabil þá erum við að vinna í þeim og stefnan er að vera búin að ganga frá því áður en vetrar og vormótin hefjast."

Víkingurol.is þakkar Birni fyrir spjallið og óskar honum velfarnaðar fyrir komandi átök.

  • 1

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31