Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2014 Mars

31.03.2014 09:21

Héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum innanhús

Árlegt héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum innanhúss var haldið í íþróttahúsinu Stykkishólmi laugardaginn 29. mars 2014.

Keppendur voru um 40 talsins; 28 úr Snæfelli, 11 frá UMFG og 1 úr Umf. Staðarsveitar. 

Aldursdreifing var þannig að í flokkum 8 ára og yngri og 9-10 ára voru 16 þátttakendur, stelpur og strákar. Það er frekar fátt miðað við fyrri ár, þar sem yngstu hóparnir hafa verið fjölmennastir. Í flokkum 11-12 ára og 13-14 ára voru 20 keppendur og síðan höfðum við 4 eldri keppendur; tvo 16 ára, einn 17 ára og einn tvítugan. Til fróðleiks má nefna að síðustu árin hefur HSH ekki oft átt keppendur á mótum, sem eru yfir 16 ára aldri. 

Allir flokkar kepptu í 35 m spretthlaupi, langstökki með atrennu og langstökki án atrennu. Níu ára og eldri kepptu auk þess í hástökki og hjá 11 ára og eldri bættist kúluvarp við.  

Mótið gekk mjög vel fyrir sig undir vaskri stjórn Guðnýjar Jakobsdóttur mótsstjóra og duglegra foreldra og fleiri sem sáu um mælingar, skráningu og að allt gengi vel fyrir sig. 

Allir 10 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun en veitt voru verðlaun fyrir efstu sæti í flokkum 11 ára og eldri. Í þeim flokkum eru því miður fáir í hverjum flokki, jafnvel svo að dugar ekki alltaf til að fylla verðlaunasætin, gull, silfur og brons. Þar eigum við verk að vinna, að auka þátttöku unglinga í frjálsum íþróttum. Við verðlaunaafhendinguna nutum við aðstoðar sonar Guðnýjar mótsstjóra, Brynjars Gauta Guðjónssonar, knattspyrnumanns úr Breiðuvík á Snæfellsnesi, sem kominn var á mótið að styðja yngri systur sína. Brynjar leikur nú með ÍBV og hefur verið í U21 landsliðinu. Hann var á yngri árum liðtækur frjálsíþróttamaður og á ennþá allnokkur héraðsmet sem ekki hafa verið slegin, t.d. í hástökki, langstökki, þrístökki, spjótkasti og kúluvarpi 13-14 ára pilta, innan- og utanhúss. Við trúum því að frjálsíþróttirnar á sínum tíma hafi hjálpað Brynjari að verða enn betri og fjölhæfari fótboltamaður. 
Eitt héraðsmet var sennilegast jafnað á mótinu. Stefán Karel Torfason, fæddur 1994, sem keppir undir merkjum Snæfells í körfubolta, tók sig til og sá mótsgestum fyrir æsispennandi hástökksseríu undir lokin. Reyndar gerðu fleiri keppendur það, því í hástökkinu magnast spennan alltaf eftir því sem stöngin hækkar. Stefán Karel stökk 1,90 m en felldi tilraunir við 1,95 m. Þegar þetta er skrifað er verið að skoða hvort hann sé löglegur keppandi undir merkjum HSH í frjálsum. Ef svo er, telst þetta jöfnun á héraðsmeti HSH í hástökki innanhúss í flokki pilta 20-22 ára. Eldri met eiga þeir Sæþór H. Þorbergsson Stykkishólmi, sem stökk 1,90 m í Reykjavík 1989, þá 18 ára gamall og Hilmar Sigurjónsson sem á sömu hæð, stokkið á Meistaramóti í Hafnarfirði árið 2004, en þá var Hilmar 16 ára. Ef Stefán telst ekki sjálfkrafa keppandi HSH í frjálsum, þá er hann skráður sem "gestur" á mótinu. Einungis þeir sem keppa undir merkjum HSH geta jafnað eða bætt héraðsmet sambandsins. 

HSH vill þakka þátttakendum á mótinu, aðstandendum þeirra og öðrum gestum fyrir komuna, mótsstjóra og öðrum sem lögðu hönd á plóginn er þakkað kærlega fyrir þeirra framlag.


Myndir frá mótinu eru birtar í myndaalbúmi hér inná vefnum.


Frjálsíþróttaráð HSH

 

 


Skrifað af Björgu

31.03.2014 09:17

Stúlkurnar í Snæfell með sigur í 1 leik


Frábær vörn gaf tóninn!

Chynna Brown var ekki með Snæfelli í þessum fyrsta leik í úrlsitaeinvíginu gegn Haukum og Hugrún Eva var einnig á tréverkinu. Allir virtust í góðu lagi hjá Haukum. Karlakór Reykjavíkur sem var í æfingarferð í Hólminum komu og tóku þjóðsönginn fyrir alla eftir leikmannakynningu og tileinkuðu það báðum liðum. Gríðalega flott hjá strákunum undir stjórn Hólmarans Friðriks Kristinssonar.

Fyrstu rúmmar tvær mínútur af leiknum var ekkert skorað og líkt og um nettann sviðskrekk liðanna um að ræða. Hildur Sigurðardóttir setti fyrstu stigin á töfluna og Snæfell voru 4-0 yfir þegar um fjórar mínútur voru búnar. Haukar hresstust við og komust yfir 6-7 en þá tóku Snæfellsstúlkur 9-0 stökk og komust í 15-7 og Haukar töpuðu boltanum 9 sinnum. Lele Hardy var ekki hitta úr sínum skotum og hafði ekki skorað í fyrsta hluta og staðan 17-12 fyrir Snæfell.

Haukastúlkur voru ekki að hitta vel og Snæfellsstúlkur spiluðu góða vörn og voru yfir 21-13. Heimastúlkur misstu taktinn og boltann oft um miðjan annan hluta og gestirnir sóttu gríðalega fljótt og sterkt á 21-22. Jafnt var á með liðunum 22-22 þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og hart barist. Guðrún Gróa var að setja frakka yfir Lele og reyndi hvað hún gat að hægja vel á henni. Staðan í hálfleik var 28-25 fyrir Snæfell og hjá þeim var Hildur Björg komin með 8 stig og Berglind Gunnarsdóttir 6 stig. Í Haukaliðinu var Gunnhildur Gunnarsdóttir komin með 9 stig og Lele Hardy 7 stig og 6 fráköst.

Seinni hálfleikur hófst með látum og staðan varð jöfn 30-30 og Lele fór að láta meira á sér kræla en hún var búin að skora öll 9 stig Hauka þegar þær komust yfir 33-34. Ekki mikið skorað kannski en heilmikið barist í þriðja fjórðung. Helga Hjördís sá til að Snæfelll leiddi 41-36 fyrir lokahlutann.

Hildur Sigurðardóttir smellti tveimur þristum niður í röð og kom Snæfelli í mikilvæga forystu 47-38 þó ekki mikil væri. Ekki mikil forysta þýðir það að ekki má slaka á taumnum en Haukastúlkur færðu sig nær 49-44 og eins og úrslitakeppnin gerir ráð fyrir, taugarnar spenntar, stál í stál og ekki mikið skorað. Hjartslátturinn sem fyrr á flökti í húsinu og Snæfell með Hildi Sig og Hildi Björgu komu Snæfelli í 56-47. Haukar voru óheppnar í skotum sínum sem vildu ekki niður og Snæfell náðu fráköstunum. Jóhanna Sveinsdóttir færði Hauka nær 56-50 þegar tæp mínúta var eftir en það var Helga Hjördís sem rak naglann í þetta fyrir Snæfellsstúlkur með þrist. 59-50 urðu lokatölur og Snæfell leiðir 1-0 fyrir annan leik liðanna að Ásvöllum á miðvikudaginn nk.

Snæfell: Hildur Björg Kjartansdóttir 15/6 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 14/6 fráköst/8 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 11/9 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 8/4 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 7/13 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 3/5 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 1.
Haukar: Lele Hardy 18/11 fráköst/6 stolnir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 11/6 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/7 fráköst, Lovísa Björt Henningsdóttir 5/4 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 5/7 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 2.

"Við lögðu alveg gríðalega mikla vinnu í þennan leik og ekki hægt að lýsa með orðum framlaginu sem við fengum hérna í dag. Við áttum hérna fínann leik án Chynna og töluðum um það við hana fyrir leikinn og hún er með okkur utanvallr og gefur okkur orkuna sína ásamt öðrum sem eru í henglum á bekknum en liðsvörnin okkar hér í dag var frábær, þó ég taki ekkert af Guðrúnu Gróu. Við ætlum að gera enn betur á Ásvöllum og eigum mikið svigrúm til að gera það. Þær [Haukar] tóku eitthvað af sóknarfráköstum sem við núlluðum reyndar út en við þurfum að laga slíkt til dæmis. Sóknarlega séð eru nokkrir hlutir sem þarf að kíkja á en ég er ánægður með hvernig við brugðust við svæðisvörninni þeirra." Sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir leikinn.

Bjarni Magnússon þjálfari Hauka veitti karfan.is einnig smá spjall.
"Það var ekkert sem kom mér á óvart við Snæfellsliðið, vel mannað af góðum leikmönnum og gott varnarlið. Við vorum ekki nógu tilbúnar í þetta sóknarlega og var alltof hægt hjá okkur. Tvær stoðsendingar í seinni hálfleik segir margt um okkar leik og það var auðvelt að dekka okkur án þess að taka nokkuð af þeirra hörkuvörn. Við fáum ekki nóg framlag frá skotmönnum okkar og hittum illa fyrir utan og náum ekkert að teygja vörn Snæfells til að fá að keyra inní teiginn þar sem þær voru þéttar."

31.03.2014 09:14

UMFG byrjar vel í Lengjubikarnum

KB-Grundarfjörður

Við mættum KB í fyrsta leik okkar í Lengjubikar KSÍ þetta árið. Það voru 13 leikmenn á skýrslu í Breiðholtinu þetta kvöld en leikurinn fór fram á Leiknisvellinum. Dómarinn var rétt búinn að flauta leikinn á þegar að við vorum lentir 1-0 undir. Við fengum á okkur aukaspyrnu við vinstra vítateigshornið þar sem að leikmaður KB átti flotta fyrirgjöf sem endaði í markinu. Eftir þetta spíttum við aðeins í og uppskárum mark á 11 mínútu þegar að Ragnar Smári jafnaði leikinn af harðfylgi eftir góða fyrirgjöf frá Heimi frænda sínum af hægri vængnum. Kiddi Hjartar kom okkur svo í 1-2 forystu þegar að hann slapp einn innfyrir vörnina á 39 mínútu og afgreiddi færið af yfirvegun eins og honum einum er lagið. Þannig var staðan í hálfleik.

Í síðari hálfleik jöfnuðu svo heimamenn í KB á 50 mínútu. En Aron Baldurs tók svo aftur forystuna fyrir okkur með frábærum skalla aðeins 5 mínútum síðar og staðan orðin 2-3 eftir fjöruga byrjun. Eftir þetta pressuðu heimamenn hvað þeir gátu til að freista þess að jafna metin en við vörðumst af krafti og fengum nokkur góð færi úr skyndisóknum. Vörnin náði að halda út leikinn og því var sigurinn staðreynd.

Liðið leit þokkalega út í þessum leik þó svo að formið sé ekki upp á marga fiska. Nú er bara að bæta í og mæta sprækir í næsta leik sem verður laugardaginn 5. apríl kl 16:00 á Leiknisvelli gegn Álftanesi.
Skrifað af UMFG

28.03.2014 14:16

Jón Ólafur lék kveðjuleik gegn KR


Jón Ólafur Jónsson reynir að komast að körfu KR-inga. stækka

Jón Ólafur Jónsson reynir að komast að körfu KR-inga. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Ólafur Jónsson, körfuknattleiksmaðurinn reyndi úr Stykkishólmi sem er betur þekktur sem Nonni Mæju, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Þetta staðfesti Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, við Morgunblaðið eftir að Hólmarar biðu lægri hlut fyrir KR í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitunum í gærkvöld og eru fallnir úr keppni.

Jón er 32 ára og hefur verið í stóru hlutverki hjá Snæfelli um árabil auk þess að spila um skeið með ÍA, Stjörnunni og KR. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Lesa blaðið hér
Ekki með áskrift?
Skoða áskriftarleiðir
Auglýsing

Clippers heldur þriðja sætinu

Chris Paul, til vinstri, skoraði 31 stig fyirr Clippers.
07:20 Los Angeles Clippers heldur þriðja sætinu í Vesturdeild NBA í körfubolta eftir góðan útisigur á Dallas Mavericks í nótt, 109:103. Meira »

Jón Ólafur lék kveðjuleik gegn KR

Jón Ólafur Jónsson reynir að komast að körfu KR-inga.
07:10 Jón Ólafur Jónsson, körfuknattleiksmaðurinn reyndi úr Stykkishólmi sem er betur þekktur sem Nonni Mæju, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Meira »

Er KR-liðið óstöðvandi?

Travis Cohn hjá Snæfelli fer framhjá KR-ingnum Pavel Ermolinskij.
07:03 Þriðji leikur KR og Snæfells fór fram í gærkveldi og er skemmst frá því að segja að KR-ingar unnu fullnaðarsigur í leiknum, 101:84, og þar með 3:0 í seríunni, sem varð því miður aldrei spennandi. Meira »

Ólafur: Varð að skjóta fyrir bróðurinn myndskeið

Myndskeið frá íþróttadeild
Í gær, 22:41 Ólafur Ólafsson var svo sannarlega í stuði í kvöld þegar hann setti niður 29 stig gegn Þórsurum í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. Grindavík vann Þór, 87:67, og er með 2:1 forystu í einvíginu. Meira »

KR of sterkt fyrir Snæfell

Demond Watt skorar fyrir KR gegn Snæfelli í leiknum í kvöld.
Í gær, 20:42 Þriðja leik KR og Snæfells í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik var að ljúka rétt í þessu í DHL-höllinni og skemmst frá því að segja að KR sigraði örugglega og þar með seríuna, 3:0. Meira »

Verða KR-ingar fyrstir í undanúrslitin?

Sveinn Arnar Davíðsson og Martin Hermannsson eigast hér við.
í gær Deildarmeistarar KR-inga geta tryggt sér sæti í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld en tveir leikir fara fram í úrslitakeppni deildarinnar í kvöld. Meira »

Grindvíkingar stungu af í lokin

Earnest Clinch Grindvíkingur sækir en Tómas Ingi Tómasson Þórsari verst.
Í gær, 20:43 Grindavík sigraði Þór úr Þorlákshöfn, 87:67, í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Grindavík í kvöld en þetta var þriðja viðureign liðanna. Staðan er nú 2:1, Grindvíkingum í hag. Meira »

Skarð fyrir skildi hjá Þór

Halldór Garðar Hermannsson t.v. og Ingvaldur Magni Hafsteinsson, KR-ingur.
í gær Skarð verður fyrir skildi í liði Þórs úr Þorlákshöfn í kvöld þegar það mætir Grindavík í þriðju viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik. Hinn efnilegi leikmaður Halldór Garðar Hermannsson getur ekki leikið með vegna meiðsla sem hann hlaut í annarri viðureign liðanna á síðasta sunnudag. Meira »

Naumt tap hjá meisturum

LeBron James.
í gær Stórleikur LeBrons James dugði meisturum Miami Heat ekki í hörkuleik við Indiana í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt en leikið var á heimavelli þeirra síðarnefndu, 84:83. Meira »
Auglýsing

Fjölnir í úrslitin gegn Hetti

Hjalti Vilhjálmsson og hans menn í Fjölni eru komnir í úrslit um laust sæti í ...
í fyrradag Fjölnir mætir Hetti í úrslitum umspilsins um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta. Fjölnir vann Breiðablik í kvöld í oddaleik í undanúrslitum umspilsins í jöfnum og afar spennandi leik sem lauk með fimm stiga sigri Fjölnis, 82:77. Vinna þurfti tvo leiki í undanúrslitunum til að komast í úrslitin og vann Fjölnir einvígið 2:1. Meira »

Durant nálgast með Jordans

Kevin Durant fór á kostum enn einn leikinn.
26.3. Kevin Durant átti enn einn stórleikinn með Oklahoma í NBA-deildinni í körfuknattleik í gærkvöldi. Hann skoraði 43 stig en þau dugðu hinsvegar skammt því liðið varð að játa sig sigrað í keppni við Dallas, 128:119, eftir framlengingu. Meira »

Dramatík á öllum sviðum

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, fagnar ásamt leikmönnum sínum að loknum sigri á Val í ...
26.3. Snæfell kom sér í úrslit gegn Haukum eftir sigur í oddaleik undanúrslita kvenna á Íslandsmótinu í körfubolta gegn Val 72:66 eftir hádramatískan leik í Stykkishólmi. Snæfellingar eru þar með komnir í úrslit Íslandsmóts kvenna í fyrsta sinn. Meira »

Ingi Þór: Veit ekki einu sinni hvort húsið er laust

Ingi Þór segir með hreinum ólíkindum að Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir skuli hafa spilað í kvöld.
25.3. "Þetta er bara með sætari sigrum sem ég hef unnið á mínum ferli og ég er hreinlega klökkur," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, eftir að liðið sló Val út í oddaleik í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik í kvöld. Meira »

Höttur í úrslit um sæti í efstu deild

Félagsmerki Hattar.
25.3. Höttur frá Egilsstöðum vann í kvöld nauman sigur á Þór Akureyri, 79:78 í háspennuleik í öðrum undanúrslitaleik liðanna í umspili fyrir laust sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta. Höttur vann fyrsta leikinn líka og þar með einvígið 2:0, en vinna þarf tvo leiki til að komast í úrslit. Meira »

Grátlegt tap í fyrsta leik hjá Sundsvall

Jakob Örn Sigurðarson freistaði þess að jafna metin í lokin.
25.3. Íslendingaliðið Sundsvall tapaði í æsispennandi leik við Uppsala í kvöld, 70:67, á heimavelli en þetta var fyrsti leikur liðanna í 8 liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik. Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram. Meira »

Snæfell í úrslit eftir spennuleik

Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells fagnar innilega með leikmönnum sínum í leikslok í kvöld.
25.3. Snæfell komst í kvöld í úrslit Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir sigur á Val í oddaleik liðanna í Stykkishólmi. Úrslitin urðu 72:66 fyrir Snæfell. Meira »

Dómarinn meiddist í Hólminum

Sigmundur Már Herbertsson dómari varð að fara meiddur af velli.
25.3. Gera þurfti hlé á oddaleik Snæfells og Vals í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta um miðjan fyrsta leikhluta þar sem Sigmundur Már Herbertsson dómari varð að fara meiddur af velli og því tafðist leikurinn í nokkrar mínútur. Meira »

Magnús kastaði sér niður með tilþrifum - myndband

Magnús féll í jörðina eftir að hafa verið í baráttu við Fannar við körfuna.
25.3. Magnús Þór Gunnarsson gerði sig sekan um leikaraskap í viðureign Stjörnunnar og Keflavíkur í Garðabænum í gærkvöld, í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar í körfuknattleik. Meira »
Auglýsing
Meira


L U J T Mörk Stig
1 KR 22 21 0 1 2065:1734 42
2 Keflavík 22 18 0 4 2051:1808 36
3 Grindavík 22 17 0 5 1995:1785 34
4 Njarðvík 22 14 0 8 2033:1809 28
5 Haukar 22 11 0 11 1813:1806 22
6 Þór Þ. 22 11 0 11 1983:2012 22
7 Stjarnan 22 10 0 12 1925:1872 20
8 Snæfell 22 9 0 13 1956:1961 18
9 ÍR 22 9 0 13 1890:2062 18
10 Skallagrímur 22 6 0 16 1807:2052 12
11 KFÍ 22 4 0 18 1748:2044 8
12 Valur 22 2 0 20 1820:2141 4
Birt með leyfi Íslenskrar Getspár

25.03.2014 13:27

Starfsíþróttaþing í Borgarnesi

Starfsíþróttaþing UMFÍ haldið í Borgarnesi

Starfsíþróttaþing 2014

Frá keppni í starfsíþróttum á Landsmót UMFÍ á Selfossi í fyrrasumar.

Starfsíþróttaráð UMFÍ boðar til 3. starfsíþróttaþings UMFÍ laugardaginn 29. mars nk. Þingið verður haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi, og hefst kl. 13:00. Fulltrúafjöldi sambandsaðila er eftirfarandi: UMSE, HSÞ, UMSS, HSS, UMSB, UMSK, UÍA, USK og UMFN tóku þátt í starfsíþróttum á síðasta landsmóti og hafa því tvo fulltrúa. Það gerði HSK líka en hélt að auki héraðsmót í starfsíþróttum og á því rétt á þremur fulltrúum.

Aðrir eiga rétt á einum fulltrúa. (Upplýsingar um fleiri héraðsmót hafa ekki borist.) Hafi t.d. UFA eða Fjölnir átt keppendur á síðasta landsmóti undir merkjum íþróttabandalaga sinna, gildir ákvæðið um 2. fulltrúa einnig um þau.

21.03.2014 13:50

Þing HSH frestað til 3 apríl


76. Héraðsþing HSH

 

verður haldið fimmtudaginn 3 apríl. 2014 kl. 18:00

á Hótel Hellissandi, HellissandiAf óviðráðanlegum orsökum varð að fresta þingi HSH í gær 20.mars.


12.03.2014 14:56

Ingi besti þjálfarinn og 2x Hildur í Úrvalsliðinu

Verðlaunahafar dagsins.
Verðlaunahafar dagsins. VÍSIR/DANÍEL
Á blaðamannafundi KKÍ dag var tilkynnt úrvalslið Dominos-deildar kvenna fyrir síðari hluta tímabilsins.

Það kom fáum á óvart að Lele Hardy, leikmaður Hauka, skildi vera valinn besti leikmaður síðari hluta mótsins en hún hefur reyndar farið á kostum í allan vetur.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari deildarmeistara Snæfells, var valinn besti þjálfarinn og Íris Ásgeirsdóttir Hamri var valinn dugnaðarforkurinn.

Úrvalslið síðari hluta Dominos-deildar kvenna:

Hildur Sigurðardóttir, Snæfell
Lele Hardy, Haukar
Sigrún Ámundadóttir, KR
Bryndís Guðmundsdóttir, Keflavík
Hildur Björg Kjartansdóttir, Snæfell

12.03.2014 11:11

Deildarkeppni lokið og úrslitakeppnin framundan


Frábærri deildarkeppni lokið! Úrslitin taka við!
Frábærri deildarkeppni lokið! Úrslitin taka við!

Til að byrja með þá endilega lesið grein Berglindar Gunnarsdóttur, verðugt umhugsunarefni og umræða. Maður verður jú að spyrja sig, er ekki alveg sama hvaða körfubolti er spilaður, karla eða kvenna og mikilvægið jafn mikilvægt? Þetta er jú allt körfubolti og við elskum hann öll sama hvort það er men-power eða girl-power. Hyllum okkar fólk í hvívetna sama af hvaða aldri og kyni, þá er þetta svo mikið skemmtilegra.

Deildarmeistarar Snæfells fengu Keflavík í heimsókn, sem voru án Bryndísar Guðmundsdóttur, í síðasta leik Dominosdeildar kvenna og stóðu heimastúlkur undir nafni og sigruðu sinn sextánda leik í röð 72-60 og kláruðu deildina með 50 stig.

Leikurinn var bitlaus á köflum og tilþrifalítill með þó ágætis sprettum beggja liða. Snæfellsstúlkurnar komust í upphafi í 10-4 og virkuðu ansi liprar og voru fastar fyrir í vörninni en í fráköstum höfðu þær yfirburði í fyrsta hluta 17 gegn 3 frá Keflavík. Snæfell var yfir 17-16 eftir fyrsta hluta en hittu afleitlega úr opnum skotum þrátt og Keflavík sótti á þær undir lokin.

Frákastabaráttan var bara djók, 36 fráköst Snæfells gegn 12 Keflavíkur í hálfleik, miðað við hve illa Snæfell nýttu sér yfirburðina og voru að drattast þetta í sóknum sínum og morgunljóst að pýridoxinhýdróklóríð nýttist í fráköstum en ekki sókn hjá þeim. Þær héldu þó forystu nokkuð örugglega en staðan var 27-22 í hátt í þrjár mínútur, seinni hluta annars fjórðungs og mikið um hlaup beggja liða fram og til baka með tilheyrandi vöfflum og veltu. Keflavík braut þá ísinn 27-24 en Snæfell gaf þá í og voru yfir í hálfleik 33-26.

Hildur Björg var afgerandi á vellinum af þokkalegri heild Snæfells með 11 stig og 11 fráköst í hálfleik. Bríet Sif var komin með 6 stig fyrir Keflavík.

Snæfellsstúlkur höfðu tögl og haldir tilþrifalaust yfir þriðja hluta og komu sér þægilega í bílstjórasætið eftir þriðja hluta 56-45.

Leikurinn var orðinn nokkuð ráðin þegar Alda Leif smellti sínum öðrum þrist og staðan orðin 62-45. Kelfavík ógnaði aldrei eftir það en áttu góða spretti og sem dæmi má nefna Emelíu Ósk sem skoraði körfu eftir gegnumbrot og fékk villu að auki. Hún hitti ekki úr vítinu en tók frákastið og skoraði. Já fjögur stig steinláu þar hjá dömunni og hugsanlega tilþrif leiksins. Ekki þarf að fjölyrða frekar um leikinn sem fór 72-60 fyrir Snæfell og fólk farið að bíða eftir úrslitakeppninni sem hefst á laugardaginn 15. Mars.

KL 15:00

Snæfell - Valur

Stykkishólmur

KL 16:00

Haukar - Keflavík

Schenkerhöllin

Snæfell: Hildur Björg Kjartansdóttir 20/12 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 15/5 fráköst, Chynna Unique Brown 10/9 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 8, Eva Margrét Kristjánsdóttir 8/6 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 6/9 fráköst/11 stoðsendingar, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 3, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2/6 fráköst/ 4 stolnir, Rebakka Rán 0, Aníta Rún 0, Edda Bára 0.

Keflavík: Diamber Johnson 12, Bríet Sif Hinriksdóttir 9, Sandra Lind Þrastardóttir 8/5 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 7, Telma Lind Ásgeirsdóttir 7/6 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 7, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4, Katrín Fríða Jóhannsdóttir 2, Thelma Dís Ágústsdóttir 2, Írena Sól Jónsdóttir 2. Lovísa Falsdóttir 0.

Góða skemmtun í úrslitakeppninni.

Tölfræði leiksins

Símon B. Hjaltalín

- See more at: http://snaefell.is/?p=3471#sthash.mz2LQyZD.dpuf

12.03.2014 11:01

Í tilefni Alþjóða baráttudags kvenna


Í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þann 8. mars síðastliðinn, fannst mér ekki annað hægt en að vekja athygli á misrétti kvenna og karla í körfuboltaheiminum á Íslandi í dag. Til eru endalaus dæmi. Ég ætla einungis að nefna örfá en ég veit varla hvar ég á að byrja.
 
Þegar ég var 17 ára var ekkert A-landslið kvenna starfandi. Ekki heldur þegar ég var 18 ára. Eftir síðasta leik minn á mínu síðasta Norðurlandamóti yngri landsliða þurfti ég að spyrja mig að því hvert ég stefndi. Ég sá ekki næsta skref. Ég þurfti að leita eftir fyrirmyndunum mínum á meðan besti vinur minn horfði á fyrirmyndirnar sínar í A-landsliði karla með stjörnur í augunum, því það var þangað sem hann stefndi.
 
Þann 15. janúar 2011 fór ég á fyrirlestur fyrir öll yngri stúlknalandslið í Ásgarði. Þar voru mjög áhugaverðir fyrirlestrar varðandi afreksstarf. Á þessum fundi varpaði ég fram spurningu varðandi U-20 ára landslið karla sem senda átti á Evrópumót um sumarið, og af hverju það væri ekkert U-20 ára landslið stúlkna. Svarið sem ég fékk var það að einhvers staðar þyrfti að byrja. Árið 2013 var svo U-22 ára landslið karla kallað saman, en aldrei heyrðist neitt af stúlknalandsliðum í þessum aldursflokkum, hvorki U-20 ára né U-22 ára.
 
Stjörnuleikir karla og kvenna hafa alltaf verið skemmtilegir viðburðir í íslenskum körfubolta. Þetta voru leikir sem sýndir voru í beinni útsendingu á laugardögum og fullkomið tilefni fyrir popp, kók og körfuboltagláp. Stjörnuleikur kvenna var lagður niður í tvö ár, 2011 og 2012. Í janúar 2013 var hins vegar svakaleg endurkoma á stjörnuleik kvenna. Leikurinn var auglýstur og haldinn á miðvikudegi í Keflavík(!) á meðan karlaleikurinn var haldinn á laugardegi í Ásgarði. Þetta hlaut að vera eitthvað grín. Þvílík vanvirðing við íslenska kvennakörfu.
 
Umfjöllun um körfubolta almennt hefur ekki verið upp á marga fiska síðastliðin ár í sjónvarpi, og hvað þá umfjöllun um kvennakörfubolta. Það er ekki langt síðan RÚV fór að segja frá úrslitum í körfuboltaleikjum kvöldsins í fréttunum og ennþá í dag er það ekki alltaf gert.
 
Íslenski boltinn hóf göngu sína á RÚV árið 2011 þar sem fjallað var aðallega um handbolta, körfuboltinn fékk smá part og körfubolti kvenna fékk nokkrar mínútur. 8. október 2013 var mikill gleðidagur fyrir áhugafólk um íslenskan (karla)körfubolta því þá var gerður samstarfssamningur á milli KKÍ og Stöðvar 2 Sport um að sýna frá íslenskum körfuknattleik í sjónvarpi. Stöðin hafði greinilega engan áhuga á að sýna leiki í beinni útsendingu í Dominos deild kvenna en 10 leikir voru á dagskrá í beinni útsendingu frá Dominos deild karla!
 
Fyrir utan misrétti í dómaramálum kvenna og karla í körfubolta sem er mjög greinilegt, misrétti í landsliðsmálum og í umfjöllun um kvennakörfubolta í sjónvarpi er umgjörð kvennaleikja það sem mér finnst allra sorglegast. Oftar en ekki líður mér eins og ég sé komin á minniboltamót en ekki að spila leik í efstu deild kvenna. Ég veit að taka átti m.a. á þessum þáttum eftir síðasta leiktímabil, þ.e. að hafa umgjörðina eins á kvennaleikjum og karlaleikjum liða. Því miður sé ég enga breytingu þar á.
 
Það er einungis á heimaleikjum í Stykkishólmi sem mér finnst eitthvað vera í gangi. Snæfellingar eru að gera virkilega góða hluti að mínu mati í jafnréttismálum í körfunni enda er árið 2014 komið í Hólminn.
 
Á hverjum einasta leik bæði hjá konum og körlum, í deildinni sem og í úrslitakeppninni er kynning á öllum leikmönnum beggja liða, ásamt dómurum. Þar er leikskrá þar sem nöfn leikmanna koma fram og þar er einnig dagskrá yfir næstu leiki. Þar er tónlist og stemmning. Og þar er alveg sama hvort þú sért með typpi eða píku.
 
Ég skora á þig að líta á þitt eigið íþróttafélag með gagnrýnum augum. Ég skora á þig að sýna í verki að þú viljir það sama fyrir dóttur þína og son þinn í íslenskum körfubolta. Hafðu áhrif og breyttu einhverju í kringum þig. Ég veit innst inni að 2014 er ekki bara komið í Stykkishólm.
 
Áfram stelpur,
og áfram körfubolti.
 
Berglind Gunnarsdóttir

09.03.2014 17:13

76 Héraðsþing HSH 20 mars


                                                                       76. Héraðsþing HSH

 

verður haldið fimmtudaginn 20. Mars 2014 kl. 18:00

í Klifi Ólafsvík

 Dagskrá:

 1.     Þingsetning

2.     Tilnefning þingforseta, varaþingforseta og tveggja þingritara

3.     Skipun kjörbréfanefndar

4.     Skýrsla stjórnar

5.     Lagðir fram endurskoðaðir reikningar

6.     Umræður um skýrslu stjórnar og reikningar lagðir fram til

        Samþykktar

7.     Kosning nefnda þingsins:

                        a) Fjárhagsnefnd

                        b) Íþróttanefnd

                        c) Allsherjar- og laganefnd.

8.      Ávörp gesta

9.      Fjárhagsáætlun lögð fram

10.    Framkomnar tillögur lagðar fram og vísað til nefnda

11.    Nefndarstörf

12.    Nefndarálit, umræður og atkvæðagreiðslur

13.    Kosningar

                        a) Formaður HSH

                        b) Aðrir í stjórn og varastjórn

                        c) Tveir skoðunarmenn og tveir til vara

                        d) Ráð og nefndir skv. gildandi samþykktum og reglum

                        e) Uppstillingarnefnd, 3 af formönnum aðildarfélaga HSH

                            sem starfa fram að næsta héraðsþingi

                        f) Kosning á Íþróttaþing ÍSÍ

14.    Önnur mál

Þingslit.09.03.2014 15:44

Mikilvægur sigur á KFÍ
Flottur sigur í kvöld!

Strákarnir okkar tóku stórt skref í átt að úrslitakeppninni í kvöld með sigri á KFÍ.
Tölfræði tölvan endurræsti sig í miðjum leik þannig stattið er ekki rétt en lokaskorið er hins vegar rétt. Við setjum inn rétt statt á morgun.

Það var mikið í húfi í Hólminum í kvöld þegar KFÍ mættu í heimsókn í Dominosdeild karla. Gestirnir mættu ekki nema níu til leiks og eru að heyja baráttu um veru sína í úrvalsdeild og heimamenn í Snæfelli með augastað á 8. sætinu hið minnsta og fá að spreyta sig í úrslitakeppninni.

Fyrri hálfleikur var jafnari en sá síðari. Staðan eftir fyrsta hluta ver 23-19 en KFÍ menn hittu illa þrátt fyrir fín færi og Snæfell bættu í vörnina eftir slaka fyrstu mínutuna á þeim vettvangi. Nonni Mæju reið á vaðið og setti kraft í sóknirnar eftir að þeir fóru að stoppa vel í vörninni og Travis Cohn fylgdi vel með og uppskáru að komast úr 6-6 í 13-6. KFí voru ekki alveg til í að fara í kör og náðu að halda velli með Josh Brown fremstann. Staðan eftir fyrsta hluta var 23-19. Turtildúfurnar Nonni og Travis höfðu skorað 20 af 23 stigum Snæfells og Joshua Brown kominn með 10 stig fyrir Ísfirðinga en átti heldur betur eftir að sína á sér sparihliðarnar í leiknum.

Gæðin voru ekki að þvælast fyrir leikmönnum beggja liða þegar líða fór á fyrri hálfleik og slakar sóknir, harka og mikið um leyfðar ýtingar og snertingar voru einkennandi. Þá varð leikurinn einfaldalega leiðinlegur um tíma. Snæfell hafði þó komið sér í bílstjórasætið og tíu stigum yfir 32-22 um miðjan annan hluta. Gestirnir héldu sér í vagninn 11 stigum undir í hálfleik 41-30 en voru að gefa eftir smám saman.

Joshua Brown var í stuði, skoraði af áfergju og setti flest stig á töflu KFÍ í seinni háfleik ásamt Mirko Stefáni en aðrir leikmenn voru svona inn og út eða hreinlega ekki með heilt yfir. Josh átti eina stoðsendingu í leiknum og tók 41 skot af 73 hjá liðinu í leiknum, skoraði 42 stig og með 1 af 10 í þristum. Þetta hjálpaði gestunum ekkert á meðan
Snæfellingar spiluðu hörkuvörn með Svein Arnar í formi, tóku góð stopp og hraðar sóknir. Travis setti punktinn yfir góðan sprett Snæfells með troðslu, voru þeir komnir í 16 stiga forskot 59-43. Staðan var 71- 53 eftir þriðja fjórðung og KFÍ máttu þakka Nonna Mæju fyrir tvö stig þegar hann blakaði boltanum ofan í þegar henn reyndi við frákast.

Snæfellingar héldu bara áfram að bæta á forskotið og voru komnir í 30 stiga forystu 94-64 og ætluðu sér geinilega að klára leikinn af alvöru þrátt fyrir kæruleysi í einstaka tilvikum. Stefán Karel tróð með tilþrifum en fékk dæmt á sig skref en svaraði því með að troða bara aftur og yngri kynslóðin sýndu að þeir eru hörkutöffarar sem spiluðu góða vörn og stálu boltum sem gaf Snæfelli 30 stiga sigur 106-76. Eins getið var í upphafi eru baráttan um fall og sæti í úrslitakeppninni gríðalega hörð þessa síðustu leiki.

Hjá Snæfelli var framlagsdreifingin töluvert meiri sem skóp þennan sigur en mikið vantaði upp á framlag fleirri leikmanna hjá KFÍ til að eitthvað ætti að gerast í leiknum þegar á hann seig, þeir eiga þó enn von að vera áfram í deildinni og verða að vinna báða leikina sem eftir eru á meðan Skallagrímur þarf að tapa báðum sínum þar sem þeir hafa tvö stig innbyrðis í plús á Ísfirðinga ef liðin verða jöfn að stigum.

Tölfræðin mun væntanlega breytast aðeins á morgun.
Snæfell: Travis Cohn III 30/6 frák/8 stoðs. Nonni Mæju 18/9 frák. Stefán Karel 14/6 frák. Sigurður Þorvaldsson 11/6 frák. Sveinn Arnar 8. Pálmi Freyr 7. Finnur Atli 7. Kristján Pétur 4. Þorbergur Helgi 0. Viktor Marínó 0.

KFÍ: Joshua Brown 42/9 frák. Mirko Stefán 15/8 frák. Guðmundur Jóhann 5. Jóhann Jakob 5. Óskar Kristjánsson 3. Valur Sigurðsson 2. Ágúst Angantýsson 2/4 frák. Jón Hrafn 2. Hraunar Karl 0.

Símon B. Hjaltalín.

09.03.2014 15:32

Firmakeppni og Herrakvöld Víkings

Það var mikið um dýrðir um liðna helgi þegar Firmakeppni Víkings var leikin í íþróttahúsi Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Um kvöldið var svo hið árlega Herrakvöld haldið á Hótel Ólafsvík í 11 skiptið.

IMG_1407

Í firmakeppninni fór lið Ragnars og Ásgeirs með sigur af hólmi eftir æsispennandi úrslitaleik gegn Fiskmarkaði Íslands sem endaði 3-1 fyrir Grundarana. Í leiknum um þriðja sætið sigruðu landkrabbarnir í Deloitte skipverja Guðmundar Jenssonar með fjórum mörkum gegn einu.  Hér fyrir neðan má svo sjá lokastöðu mótsins og úrslitin í riðlakeppninni.

Firmakeppni úrslit - Riðlar

7. sæti | Steinunn SH - Bylgjan (1-2)

5. sæti | Saxhamar - Blómsturvellir (1-5)

3. sæti | Deloitte - Guðmundur SH -717 (4-1)

1. sæti | Ragnar & Ásgeir - Fiskmarkaður Íslands (3-1)

Lokastaða:

1. Ragnar og Ásgeir

2. FMÍ

3. Deloitte

4. Guðmundur Jensson

5. Blómsturvellir

6. Saxhamar

7.  Bylgjan

8.  Steinunn

Herrakvöld Víkings var svo haldið í 11 skiptið með pomp og prakt þar sem Jóhannes Kristjánsson sá um veislustjórn og fórst það verk vel af hendi. Sigfús Almarsson sá um að reiða fram glæsilegt fiskihlaðborð ásamt aðstoðarmönnum sínum og þótti það takast einkar vel. Jónas Gestur Jónasson formaður Víkings hélt tölu og þá fór ræðumaður kvöldsins Bárður H. Tryggvason á kostum með skemmtilegum sögum og skrítlum.

Dregið var í leikmannahappadrætti Víkings og í ljósi þess að allir miðar seldust voru 1000 miðar í pottinum þegar drátturinn fór fram. Það kom í hönd leikmannana Brynjar Kristmundssonar og Eyþórs Helga Birgissonar að draga vinningsnúmerin 27 og ljóst að heppnir þátttakendur munu gleðjast þegar þeir sjá númerin sín á skjánum. Sjá vinningsnúmer hér.

Að endingu fór hið árlega uppboð fram við góðar undirtektir viðstaddra þar sem fjöldinn allur af treyjum, málverkum og myndum voru boðin upp. Það er við hæfi að þakka öllum þeim fjölmörgu einstaklingum sem lögðu hönd á plóg við framkvæmd Herrakvöldsins sem var líkt og undanfarin ár félaginu og þeim sem að því standa til mikils sóma.

09.03.2014 13:04

Góður árangur hjá blakkonum í Grundarfirði

05. mars. 2014 11:01

Grundfirskar blakkonur í fyrstu deild

Kvennalið meistaraflokks Grundarfjarðar í blaki tryggðu sér um helgina sæti í 1. deild að ári. Þær lentu í 2. sæti í annarri deild og fá því keppnisrétt í næstu deild fyrir ofan. Í vetur tóku þær þátt í 2. deildinni þar sem keppnisfyrirkomulagið er öðruvísi en í 1. deildinni. Þá er ekki keppt heima og að heiman heldur eru nokkur helgarmót yfir veturinn. Það verður þó væntanlega breyting á því næsta vetur og aftur verður spilað blak í íþróttahúsinu í Grundarfirði. Á meðfylgjandi liðsmynd eru hvorki fleiri né færri en þrennar mæðgur í einu og sama liðinu. Það má því segja að blakið í Grundarfirði sé mikið fjölskyldusport.

09.03.2014 11:38

Starfsíþróttaþing UMFÍ


Til sambandsaðila UMFÍ

 

Starfsíþróttaþing UMFÍ 2014 verður haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi laugardaginn 29. mars kl. 14:00.

Starfsíþróttaþing er haldið annað hvort ár og á dagskrá eru hefðbundin málefni eins og skýrsla um starfið, reikningar og kosningar í starfsíþróttaráð. Einnig eru reglugerðir í starfsíþróttum endurskoðaðar á þinginu.

Í lögum starfsíþróttaráðs segir svo:

 

5. grein

Á starfsíþróttaþingi eiga sæti minnst einn fulltrúi frá hverjum sambandsaðila UMFÍ sem hér segir:

1 fulltrúi á hvern sambandsaðila UMFÍ.

1 fulltrúi ef sambandsaðili heldur héraðsmót í starfsíþróttum (milli þinga).

1 fulltrúi ef sambandsaðili tók þátt í starfsíþróttum á síðasta landsmóti.

 

Með von um að sjá sem flesta á starfsíþróttaþingi í Borgarnesi,

Halldóra Gunnarsdóttir

formaður starfsíþróttaráðs UMFÍ

s. 892-8202

hgun@simnet.is
  • 1

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362367
Samtals gestir: 256785
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:31:31