Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2014 Júní

23.06.2014 12:40

Alþjóða Ólympíudagurinn

ÍSÍ heldur upp á Alþjóðlega Ólympíudaginn í vikunni 22.-29. júní 2014

23.06.2014

Á hverju ári er haldið upp á Alþjóðlega Ólympíudaginn þann 23. júní út um allan heim. Þessi viðburður er í tilefni af því að 23. júní árið 1894 var Alþjóða Ólympíunefndin stofnuð og nútíma Ólympíuleikarnir urðu til. ÍSÍ skipuleggur daginn í samstarfi við íþróttahreyfinguna, en hér á landi hefur dagurinn verið haldinn hátíðlegur undanfarin ár. Markmiðið með deginum er að hvetja fólk til að koma saman, hreyfa sig og hafa gaman, en dagurinn er í raun ætlaður öllum óháð íþróttalegri getu. Meginþema í tengslum við daginn eru þrjú: Hreyfa, læra og uppgötva. Þess vegna er kjörið að bjóða upp á ýmiss konar íþróttir og þrautir, en ekki einungis íþróttir sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Ólympíudagurinn er einnig kjörinn vettvangur til að kynna gildi Ólympíuhreyfingarinnar sem eru; vinátta, virðing og ávallt að gera sitt besta.

Þeir sem taka þátt í Ólympíudeginum stendur ýmislegt til boða, til dæmis að fá lánaðan afmælisfána ÍSÍ með Ólympíuhringjunum og geta flaggað í tilefni dagsins, viðurkenningarskjöl fyrir sína þátttakendur, Ólympíukyndil frá Ólympíuleikunum í London 2012 til þess að hlaupa með og skoða og fá heimsókn frá íslensku íþróttafólki úr fremstu röð. Það sem er spennandi að gera á Ólympíudeginum í ár og á næsta ári er að tengja hann við Smáþjóðarleikana sem haldnir verða á Íslandi 1.- 6. júní 2015. Íslendingar eiga frábært íþróttafólk sem stefnir hátt á leikunum. Hér er gott tækifæri til að kynna afreksíþróttafólk og afreksíþróttir fyrir ungu fólki.

ÍSÍ hvetur sérsambönd, íþróttafélög og frístunda- og tómstundanámskeið til þess að taka þátt, allt frá því að vera með einn dag sem Ólympíudag eða heila viku sem Ólympíuviku. Upplýsingar og fræðsluefni er að finna hér á heimasíðunni undir "Ólympíudagurinn".

Frekari upplýsingar veita:

Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri ÍSÍ: alvar@isi.is

Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ: ragnhildur@isi.isMyndir með frétt

23.06.2014 12:36

2 töp hjá Víkingsstúlkum

Það er stutt á milli leikja hjá stelpunum í meistaraflokki Víkings en þær spiluðu á sunnudaginn sinn þriðja leik á 8 dögum þegar þær mættu Grindvíkingum á Ólafsvíkurvelli.

Grindarvíkurstúlkur voru sterkari og unnu 2- 0

Á miðvikudaginn máttu þær þola 3-0 tap gegn sterku liði Fjölnis í kaflaskiptum leik. Fjölnisstúlkur leiddu með tveimur mörkum eftir dapran fyrri hálfleik af hálfu Víkingsliðsins. Stelpurnar komu hins vegar ákveðnari til leiks í þeim síðari og voru óheppnar að minnka ekki muninn þegar markvörður Fjölnis varði aukaspyrnu Eydísar Aspar Haraldsdóttur glæsilega. Stelpurnar lögðu mikið púður í að reyna minnka muninn sem kom í bakið á þeim þegar heimamenn gulltryggðu sigurinn á 67. mínútu eftir vel útfærða skyndisókn.

23.06.2014 11:33

Víkingur með sigur á Tindastól

23. júní. 2014
Mossi tryggði Víkingi Ó öll stigin - Vesturlandsliðin jöfn og efst í deildinni

Antonio Jose Espinosa Mossi, leikmaður Víkings í Ólafsvík, skoraði eina mark sinna manna gegn Tindastóli í sigri þeirra á Ólafsvíkurvelli á laugardaginn. Víkingsmenn hafa verið á góðu skriði í fyrstu deildinni en sömu sögu er ekki að segja af Skagfirðingunum í Tindastóli sem töpuðu síðasta leik 5-0. Leikurinn á laugardaginn var þó töluvert jafnari en búist var við fyrir leik. Bæði lið sýndu mikinn karakter í fyrri hálfleik en ekkert mark var þó skorað. Eina mark leiksins kom í seinni hálfleik þegar Mossi skoraði úr vítaspyrnu á 75. mínútu og nægði það heimaliðinu til sigurs.

Víkingur Ó. komst með sigrinum í efsta sæti fyrstu deildarinnar en situr nú í öðru sæti eftir að Skagamenn unnu Leikni í gær. Einungis markamunur skilur Vesturlandsliðin að því bæði eru með 15 stig. 

Næsti leikur Víkings Ó. er gegn Leikni R. á laugardaginn kl. 14 á Leiknisvellinum í Breiðholtinu.

18.06.2014 13:48

Samæfing hjá Samvest á morgun

SamVest samæfing í Borgarnesi 19. júní 2014
Kynning til iðkenda og foreldra
Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF boða til samæfingar fyrir iðkendur sína.
Æfingin fer fram á íþróttavellinum Borgarnesi, fimmtudaginn 19. júní 2014 kl. 18.00.
Eftirfarandi er ákveðið með æfinguna:
? Hún er fyrir iðkendur 10 ára (árgangur 2004) og eldri
? Æfðar verða flestar greinar, en annars er það í höndum þjálfara - meira um það inná FB-síðu SamVest-samstarfsins.
? Þjálfarar á starfssvæðinu munu sjá um þjálfun - og mögulega gestaþjálfari (í vinnslu).
? Æfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Kæru iðkendur og foreldrar!
Endilega fjölmennum - gaman saman, í frjálsum!
Gott væri að vita hverjir hafa áhuga og komast, t.d. með því að láta vita um mætingu inná Facebook síðu SamVest-samstarfsins, sem allir SamVest-liðar geta fengið aðgang að.
Með frjálsíþróttakveðju,
SAMVEST-samstarfið
Júní 2014
PS. Við stefnum að heimsóknum gestaþjálfara til hvers sambands í sumar. Gunnar Páll hlaupaþjálfari hjá ÍR og Hlynur yfirþjálfari hjá Aftureldingu eru að stilla tíma sína saman og að líkindum verður fyrsta/fyrstu heimsóknir fyrrihluta júlímánaðar. Meiri fréttir af því um leið og við fáum meldingu frá þeim.

15.06.2014 15:58

Hildur Björg og Hildur Sigurðar saman í landsliðinu

Búið er að velja endanlegan 12 leikmanna landsliðshóp kvenna sem mun keppa í Evrópukeppni smáþjóða  í Austurríki seinnipart júlímánaðar.  Tveir leikmenn koma úr hópi Íslandsmeistara Snæfells, þær Hildur Sigurðardóttir sem er jafnframt leikreyndasti leikmaður landsliðsins með 73 landsleiki og Hildur Björg Kjartansdóttir sem er að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu komin með 3 landsleiki.  Áður en að Evrópukeppninni kemur mun landsliðið leika tvo æfingaleiki við Dani og mun annar þeirra leikja fara fram hér í Stykkishólmi fimmtudaginn 10.júlí.  Það er því til einhvers að hlakka fyrir körfuboltaáhugafólk og væntanlega mun Hildur Björg leika þar sinn síðasta leik á heimavellinum einhvern tíma því hún mun svo halda til Bandaríkjanna til náms nú í haust.  Það má geta þess líka að þær nöfnurnar eru ekki einu Hómararnir í landsliðinu því Gunnhildur Gunnarsdóttir var einnig valin í landsliðshópinn og ekki amalegur árangur það hjá Snæfelli að eiga þrjá leikmenn sem koma úr uppeldisstarfi félagsins í tólf manna landsliðshópi. Reyndar var ein í viðbót úr Snæfelli í 16 manna landsliðshópnum því þar var Helga Hjördís Björgvinsdóttir einnig en hún komst ekki í lokahópinn.

Landsliðið er skipað eftirtöldum leikmönnum:  (félagslið og fjöldi landsleikja, leikstaða og hæð fyrir aftan)

Bryndís Guðmundsdóttir · Keflavík · 23 · Framherji 178 cm
Gunnhildur Gunnarsdóttir · Haukar · 7 · Bakvörður 174 cm
Helena Sverrisdóttir · DVTK Miskolc · 45 · Bakvörður 184 cm
Hildur Björg Kjartansdóttir · Snæfell · 3 · Framherji 184 cm
Hildur Sigurðardóttir · Snæfell · 73 · Bakvörður 170 cm
Kristrún Sigurjónsdóttir · Valur · 28 · Framherji 176 cm
Margrét Rósa Hálfdánardóttir · Haukar · Nýliði · Bakvörður 177 cm
María Ben Erlingsdóttir · Grindavík · 37 · Miðherji 184 cm
Marín Laufey Davíðsdóttir · Hamar · Nýliði · Miðherji 180 cm
Pálína Gunnlaugsdóttir · Grindavík · 22 · Bakvörður 167 cm
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · Valur · 17 · Miðherji 186 cm
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · KR · 24 · Framherji 178 cm

Nánar má sjá um landsliðið á vef KKÍ.

15.06.2014 14:19

Sigur og tap hjá Víking

Í gær sunnudaginn 14 júní fóru Víkingsmenn í Kórinn Kópavogi og mættu þar HK mönnum
4 - 2 tap staðreynd.


HK 4 - 2 Víkingur Ó
1-0 Viktor Unnar Illugason ('33)
2-0 Guðmundur Atli Steinþórsson ('45, víti)
2-1 Antonio Jose Espinosa Mossi ('48)
2-2 Eyþór Helgi Birgisson ('51)
3-2 Atli Valsson ('59)
4-2 Guðmundur Atli Steinþórsson ('66)
Rautt spjald: Tomasz Luba, Víkingur Ó ('63)

Sigur á Þrótti R.

Annan í hvítasunnu tóku Víkingur Ólafsvík  á móti Þrótti Reykjavík í blíðskaparveðri á Ólafsvíkurvelli í 5. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Um var að ræða nokkuð sérstakan leik þar sem heimamenn sem voru að leika sinn fyrsta leik á Ólafsvíkurvelli þetta sumarið sökum þess hve illa völlurinn kom undan vetri eftir mikið svellkal.

Fyrir leikinn höfðu bæði lið nælt sér í 9 stig og því ljóst að þau ætluðu sér stigin þrjú sem voru í boði. Þróttarar biðu ósigur gegn Skagamönnum í umferðinni á undan á meðan Víkingar gerðu góða ferð til Grindavíkur. Leikurinn fór rólega af stað og var mikið jafnræði með liðinum í fyrri hálfleik. Það kom þó ekki í veg fyrir að báðum liðum tókst að skora eitt mark hvor.

Þegar rúmlega stundarfjórðungur var liðinn komust heimamenn yfir með marki frá Alejandro Abarca Lópes. Samuel Hernandez tók innkast á miðjum vallarhelming Þróttara á samlanda sinn Antonio Mossi sem sendi hnitmiðaða sendingu á Alejandro sem skallaði knöttinn framhjá Trausta í marki Þróttar.

Gestirnir létu markið ekki slá sig út af laginu því fjórum mínútum síðar hafði Ingólfur Sigurðsson jafnað metin. Víkingar misstu knöttinn á eigin vallarhelming og í kjölfarið barst boltinn inn í teig til Alexanders Veigars Þórarinssonar sem sendi boltann á Ingólf sem náði skot að marki. Af varnarmanni fór knötturinn framhjá Arnari Darra í marki Víkings sem kom engum vörnum við og staðan 1-1. Þannig var staðan þegar Erlendur Eiríksson ágætur dómari leiksins flautaði til leikhlés.

Seinni hálfleikur var öllu fjörlegri en sá fyrri þó liðunum hafi ekki tekist að skapa sér afgerandi marktækifæri. Heimamenn sóttu í sig veðrið þegar á leið og náðu góðri pressu á köflum á meðan gestirnir freistuðu þess að verja stigið og beita skyndisóknum.

Pressa heimamanna bar árangur á 83. mínútu þegar Alfreð Már Hjaltalín skoraði sigurmark leiksins eftir snarpa sókn Víkings. Í aðdragandanum myndaðist mikið klafs í teig gestanna eftir fyrirgjöf og boltinn barst til Steinars Más Ragnarssonar sem framlengdi knöttinn á Alfreð sem kom honum framhjá Trausta í markinu. Þróttarar gáfust þó ekki upp og voru ekki langt frá því að jafna metin í uppbótartíma eftir að hafa tekið snögga aukaspyrnu. Úr varð ágætis færi en skot Þróttara fór af Emir Dokara og rétt framhjá stönginni á marki Víkings.

Víkingar tryggðu sér þrjú dýrmæt stig í toppbaráttu deildarinnar og fara með sigrinum í 2. sæti með 12 stig. Þróttarar fylgja fast á eftir og eru sæti neðar með 9 stig.

Alfreð vs Þróttur 2014


11.06.2014 14:03

Fréttir úr kvennaboltanum

Sárgrætilegt tap gegn BÍ/Bolungarvík

Meistaraflokkur kvenna lék á mánudag gegn BÍ/Bolungarvík á Skeiðisvelli í 3. umferð 1. deildar kvenna. Stelpurnar máttu þola 1-0 tap í leik þar sem mikið jafnræði var með liðunum. Tvö mörk voru dæmd af Víkingsstelpum auk þess þær gerðu tilkall til augljósrar vítaspyrnu en ekkert var dæmt.

Að loknum þremur umferðum eru stelpurnar í 5. sæti riðilsins með 4 stig. Um næstu helgi taka stelpurnar á móti Keflvíkingum á Ólafsvíkurvelli en gestirnir sitja á botninum með 1 stig.

Síðastliðið föstudagskvöld duttu stelpurnar út úr bikarnum eftir 0-3 ósigur gegn Íslandsmeisturum Stjörnunar. Stelpurnar geta samt sem áður borið höfuð hátt þar sem þær gáfu ríkjandi Íslandsmeisturum hörku leik.

Vík Ól vs Stjarnan

Mynd: Þröstur Albertsson

09.06.2014 12:37

Opinn fyrirlestur í íþróttasálfræði

Miðvikudaginn 11. júní kl.12:00-13:30 mun Dr. Robert S. Weinberg prófessor í íþróttasálfræði flytja fyrirlestur í Lögbergi stofu 101 í Háskóla Íslands.

 

Fyrirlesturinn ber heitið Hvað er andlegur styrkur og hvernig er hægt að auka hann? (Mental Toughness: What is it and how can it be built?).

Weinberg er einn virtasti vísindamaður heims á sviði íþróttasálfræði og eftirsóttur fyrirlesari á alþjóða-vettvangi. Hann hefur unnið með fjölda íþróttafólks í fremstu röð, m.a. fyrir bandaríska Ólympíusambandið.

 

Þeir sem þjálfa íþróttafólk, sinna stjórnunarstörfum sem miða að bættum árangri, íþróttafólk og sálfræðingar eru sérstaklega hvattir til að mæta.

 

Fyrirlesturinn er opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.

09.06.2014 11:23

Íslandsmót í haglabyssukeppni

Fyrsta Íslandsmótið í Norrænu trappi

Fyrsta Íslandsmótið í Norrænu trappi verður haldið á Iðavöllum í Hafnarfirði dagana 21. og 22. júní.  Félagsmenn SÍH geta skráð sig hjá SÍH en aðrir skrá sig hjá eigin félagi sem sendir skráninguna áfram til STÍ og SÍH.  Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com

 
Skrifað af JP

09.06.2014 11:22

Framkvæmdir hjá Skotgrund

06.06.2014

Vinnudagur

Byrjað var á því að smíða ramma fyrir skilti með umgengnisreglum á riffilsvæðinu og svo var slegið upp fyrir steypu.  Til stendur að steypa niður nýja riffilbatta á 300m og 400m ásamt staurum til að afmarka riffilbrautina.  Er það liður í því að reyna að tryggja öryggi á svæðinu enn frekar.

 

Einnig var byrjað á skammbyssubrautinni, en þar á að steypa niður sökkul fyrir trönur sem skotskífur verða hengdar á.  Trönurnar verða færanlegar úr timbri, en þær eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir lögregluembættið sem kemur reglulega til að stunda skotæfingar á skotæfingasvæði Skotgrundar.  Gott samstarf er á milli lögregluembættissins og Skotgrundar, og því viljum við bæta æfingaaðstöðuna enn frekar.

 

Vonandi verður hægt að steypa fljótlega eftir helgina og stefnum við á að steypa nýjan sökkul undir markið í leiðinni, en við ætlum að endurnýja turninn og markið alveg frá grunni.

 
 

 

 

Skrifað af JP

09.06.2014 11:20

Sjómannadagsmót Skotgrundar

Sjómannadagsmótið

Sjómannadagsmót Skotgrundar fór fram fimmtudaginn 29 maí á skotæfingasvæði félagsins.  Þetta er í annað skipti sem þetta mót er haldið og eru skipuleggjendur mótsins hæstánægðir með hvað mætingin var góð.  Mótið var þannig sett upp að keppt var um bestan árangur einstaklinga ásamt því að sjómenn lögðu sín stig saman gegn stigum landsliðsins.  Landsliðið sigraði að þessu sinni og er staðan því jöfn í einvíginu, en sjómenn unnu á síðasta ári.  

 

Einstaklingskeppnin var mjög spennandi en Unnsteinn Guðmundsson hafnaði í fyrsta sæti og tók Karl Jóhann Jóhannsson annað sætið.  Gunnar Ásgeirsson og Eymar Eyjólfsson voru svo jafnir í þriðja sæti, en þar sem Gunnar fékk fleiri stig fyrir "dobblin" fékk hann bronsið.  Þess má þó geta að Eymar var að skjóta með pumpu og er árangur hans undraverður ef það sé tekið til greina.

 

Heilt á litið þá var þetta vel heppnað mót og hin mesta skemmtun.  Að móti loknu var svo slegið á létta strengi og brugðið á leik.  Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í mótinu eða komu að því á annan hátt fyrir skemmtilega kvöldstund.

 

Búið er að setja inn myndir frá mótinu og er hægt að sjá þær hér.

 

 
 
Skrifað af JP

07.06.2014 12:05

Víkingur með sigur i Grindavík

Víkingur frá Ólafsvík mætti liði Grindavíkur og vann sannkallaðan 0-1 baráttusigur suður með sjó í gær. Heimamenn í Grindavík byrjuðu leikinn af krafti og fengu nokkur góð færi. Snæfellingar hrukku þó í gang um miðjan fyrri hálfleik og settu meiri kraft í sóknarleik sinn. Það var svo á 38. mínútu þegar fyrsta og eina mark leiksins leit dagsins ljós. Eyþór Helgi Birgisson náði þá boltanum eftir misheppnaða sendingu varnarmanna Grindavíkur og skoraði. Lítið var um góð færi í seinni hálfleik en Ólsarar börðust eins og ljón um alla bolta. Mark Eyþórs reyndist því eina markið og Víkingur fór heim í Ólafsvík með öll þrjú stigin.

 

Næsti leikur Víkings Ó. er mánudaginn 9. júní (annar í Hvítasunnu) gegn Þrótti R. á Ólafsvíkurvelli og hefst sá leikur klukkan 16:00.

05.06.2014 00:40

Glæsilegur sigur hjá Víkingsstúlkum

Kvennalið meistaraflokks Víkings átti hörkuleik gegn Hömrum á Hellissandsvelli á

fimmtudagskvöld í síðustu viku. Stelpurnar létu rigninguna ekki á sig fá og

börðust vel. Fyrsta markið kom þó ekki fyrr en á 55. Mínútu þegar Freydís Bjarnadóttir

skoraði fyrir Víking. Zaneta Wyne bætti svo við marki á 87. mínútu. Það var svo María

Rún Eyþórsdóttir sem skoraði þriðja markið á 93. mínútu. 3 - 0 sigur staðreynd og er þetta

stærsti sigur kvennaliðs Víkings hingað til og gaman verður að fylgjast með stelpunum í sumar.

Næsti leikur stelpnanna í Víking verður föstudagskvöldið 6. júní

en þá mæta þær Stjörnunni í Borgunarbikarnum, er það heimaleikur og hvetjum við

alla til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar.02.06.2014 10:39

50+ Skráning til 16 júní

Skráning á Landsmót UMFÍ 50+ stendur til 16. júní

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Frá Húsavík þar sem 4. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið.

,,Allur undirbúningur fyrir mótið gengur samkvæmt áætlun og við tökum vel á móti þátttakendum í þeim fjölmörgu keppnisgreinum sem í boði eru í mótinu. Skráningar hafa farið ágætlega af stað en hægt verður að skrá sig til 16. júní. Við hvetjum því fólk sem ætlar að taka þátt í mótinu að skrá sig sem allra fyrst," sagði Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri 4. Landsmóts UMFÍ 50+ sem verður haldið á Húsavík dagana 20.-22. júní á Húsavík.

Tímaseðlar í sundi og frjálsum íþróttum liggja nú þegar fyrir. Keppt verður m.a. í þríþraut á mótinu og er um hópþríþraut að ræða og geta þrír einstaklingar keppt saman í þrautinni. Þessi keppni er opin öllum aldursflokkum og ennfremur einnig í Fjallahlaupinu.

02.06.2014 10:38

Einhvað við allra hæfi á Húsavík

Allir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi

Húsavík 2014

Séð yfir íþróttasvæðið á Húsavík.

4. Landsmót UMFÍ 50+ fer fram á Húsavík dagana 20.-22. júní nk. Undirbúningur fyrir mótið er búinn að standa lengi yfir en aðstæður allar til mótshaldsins eru til fyrirmyndar.

,,Það var mikill metnaður af okkar hálfu að fá þetta mót en héraðssambandið stendur á tímamótum á þessu ári þegar það heldur upp á 100 ára afmæli," sagði Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ. Jóhanna sagði héraðssambandið vel í stakk búið að taka þetta mót að sér og aðstæður með ágætum og boðið upp á fjölmargar greinar þannig allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

,,Horft væri mikið til heilsueflingar í tengslum við mótið svo þetta verður um leið íþrótta- og heilsuhátíð sem móthaldarar telji að skipti miklu máli. Landsmót UMFÍ 50+ snýst fyrst og fremst um að fá fólk til að koma saman, hreyfa sig og eiga góða stund saman. Þetta verkefni er jákvætt í alla staði. Við finnum fyrir miklum meðbyr í héraðinu öllu og jákvæðni hvert sem litið er. Mót sem þetta gerir ekkert annað en auka samstöðu á meðal fólks. Við erum tilbúin að taka á móti fólki og ætlum að vanda okkur við það," sagði Jóhanna Kristjánsdóttir, formaður HSÞ.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362323
Samtals gestir: 256783
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:00:51
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 3548
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 3362323
Samtals gestir: 256783
Tölur uppfærðar: 25.2.2018 03:00:51