Ársþing HSH - Garðari Svanssyni veitt Gullmerki HSH fyrir starf sitt í þágu héraðsins síðastliðin 30 árin.
- Gunnhildur Gunnarsdóttir
- 5 days ago
- 6 min read

84. héraðsþing HSH var haldið í Samkomuhúsinu í Grundarfirði mánudaginn 7. apríl. Það var formaður HSH, Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson sem setti þingið en þau Gunnar Kristjánsson og Sigríður Guðbjörg Arnardóttir voru þingforsetar í ár. Þá voru þær María Alma Valdimarsdóttir og Berglind Long ritarar þingsins.
Stjórn HSH þakkar þeim innilega fyrir þeirra störf á þinginu.
Gestir ávörpuðu þingið en þau Álfheiður Sverrisdóttir og Heiðar Mar Björnsson, svæðisfulltrúar á Vesturlandi héldu erindi og sögðu frá því sem þau hafa verið að vinna að. Þá hélt Hafsteinn Pálsson, formaður Heiðursráðs ÍSÍ erindi og veitti eftirfarandi heiðursviðurkenningar.
Jón Pétur Pétursson – Silfurmerki ÍSÍ
Jón Pétur Pétursson var formaður Skotfélags Snæfellsness í 13 ár frá árunum 2011 til 2024 en Jón Pétur hafði það að markmiði að efla félagslífið og bæta aðstæður fyrir skotíþróttafólk á Snæfellsnesi. Hann leiddi félagið í átt að aukinni fagmennsku og bættri aðstöðu fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Jón Pétur lagði mikla vinnu í að byggja upp samstarf við aðra félaga og stofnanir innan sem utan skotíþróttahreyfingarinnar. Hann er fyrirmynd innan sem utan félagsins og mun áfram vera talinn einn af helstu stoðum Skotfélags Snæfellsness.

Ólafur Tryggvason – Silfurmerki ÍSÍ
Ólafur hefur lagt félaginu og hestamennskunni mikið lið í félagsmálum og verið óeigingjarn á sitt starf fyrir hestamenn. Það er margt sem hann hefur komið að fyrir félagið. Var í stjórn í 12 ár núna síðast og var allan tímann gjaldkeri, var formaður reiðveganefndarinnar. Þá hafði hann áður verið í stjórn félagsins, var í framkvæmdanefnd Fjórðungsmótsins 2017, situr í stjórn Vesturlandsdeildarinnar. Sennilega er Ólafur búinn að vera svo lengi í Snæfelling að hann var varla með aldur til að muna hvernær hann var skráður þar sem faðir hans var mjög virkur félagsmaður hjá Snæfelling. Hvar sem hestamennskan er þá er Óli liðtækur hvort sem er í útreiðum, keppnum, hestaferðum, ræktun eða félagsmálum. Svona félagsmenn er gott að hafa með sér í hverjum þeim verkefnum sem til falla á hverjum tíma.

Tryggvi Gunnarsson – Gullmerki ÍSÍ
Tryggvi Gunnarsson er einn af stofnfélögum í Hestamannafélaginu Snæfelling og sat í stjórn Snæfellings um árabil og var formaður þess um tíma. Sat mörg LH þing og var lykilmaður í uppbyggingu svæðisins á Kaldármelum og formaður fjórðungsmótsnefndar bæði 1988 og 1992. Tryggvi var stjórnarmaður í Hrossaræktarsambandi Vesturlands í 8 ár, hann er heiðursfélagi í Hestamannafélaginu Snæfellingi og HrossVest. Duglegur og kraftmikill félagsmaður sem félagið á mikið að þakka.

Guðmundur Sigurbergsson, gjaldkeri UMFÍ hélt ávarp og veitti eftirfarandi heiðursviðurkenningar.
Kristján Ríkharðsson - Starfsmerki UMFÍ
Kristján Ríkharðsson eða Stjáni Tótu eins og hann er alltaf kallaður og eins og nafnið bendir til er kenndur við konuna sína hana Þórunni, kölluð Tóta. Stjáni hefur verið viðloðinn Víking Ólafsvík eins lengi og elstu menn muna en hann er búinn að vera sjálfboðaliði yfir fjóra áratugi. Hann er búinn að vinna í kringum félagið öll möguleg störf. Hann hefur verið búningastjóri, liðsstjóri, séð um matinn eftir leiki ásamt Tótu sinni, hann startaði getraunastarfinu aftur sem var búið að liggja lengi í dvala, sinnt stjórnarstörfum og margt fleira. Hann gerir allt fyrir félagið og meðal þess er að hann hefur áritað leikskýrslur hjá félaginu vegna þess að það vantaði eitt nafn á skýrsluna þá varð Stjáni þess heiðurs aðnjótandi að vera dæmdur í leikbann sem sjálfboðaliði hjá félaginu en það bann var fellt niður af áfrýjunardómstól KSÍ þar sem hann var hvorki þjálfari né forystumaður og ekki hægt að dæma sjálfboðaliða út frá þessum reglum KSÍ. Væntanlega er Stjáni fyrsti og eini sjálfboðaliðinn sem hefur verið dæmdur í leikbann. Það skiptir engu máli hvað Stjáni hefur verið beðinn um að gera fyrir félagið, umsvifalaust kemur já og verkið hefur alltaf verið vel unnið úr hendi hans.

Sigríður Guðbjörg Arnardóttir - Starfsmerki UMFÍ
Sirrý Arnardóttir lét af störfum sem formaður UMFG á aðalfundi félagsins í maí 2024.
Sirrý hafði verið formaður félagsins frá árinu 2018 og tók hún þátt í uppbyggingu félagsins, m.a. stofnun rafíþróttadeildar ásamt mörgum öðrum mikilvægum verkefnum sem eru hluti af starfi félagsins í dag.
Sirrý á hrós skilið fyrir þann dugnað og það óeigingjarna starf sem hún hefur unnið fyrir félagið á þessum 8 árum sem hún var formaður.

Gunnar Kristjánsson - Gullmerki UMFÍ
Gunnar Kristjánsson, var ritstjóri Skinfaxa, blaðs UMFÍ 1977 -1979. Hann ritaði 75 ára sögu UMFÍ 1981-82. Gunnar hefur í gegnum tíðina sinnt störfum bæði fyrir Ungmennafélag Grundarfjarðar og einnig HSH. Verið í stjórnum og öðrum trúnaðarstörfum fyrir bæði félög. Gunnar hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2008.

Laufey Bjarnadóttir ritari HSH veitti að lokum Gullmerki HSH. Þar var Garðari Svanssyni veitt fyrsta Gullmerki HSH fyrir hans störf í þágu HSH síðustu 30 árin. Garðar Svansson gaf ekki kost á sér áfram í stjórn HSH en hann hefur unnið fyrir héraðið síðan 2.maí 1995.
Garðar Svansson
Garðar Svansson hefur starfað fyrir HSH síðan hann tók fyrst sæti í stjórn HSH þann 2. maí árið 1995. Því eru komin 30 ár nú í næsta mánuði sem hann hefur starfað fyrir héraðssambandið. Frá því að Garðar hóf fyrst störf fyrir HSH hefur hann gengt öllum embættum í stjórn sambandsins en um tíma sinnti hann einnig framkvæmdastjórastöðunni. Garðar var í mótsstjórn Unglingalandsmóts UMFÍ 2002 sem haldið var í Stykkishólmi auk þess að vera í mótstjórn Landsmóts UMFÍ 50+ sem haldið var í Stykkishólmi árið 2023. En Garðar hefur ekki einungis unnið fyrir héraðssambandið heldur hefur hann starfað bæði fyrir aðildarfélög HSH og landssambönd íþróttahreyfingarinnar. Garðar var kjörinn í stjórn UMFÍ árið 2009 – 2011 og stjórn ÍSÍ árið 2011. Þar hefur Garðar setið í stjórn í 13 ár en mun ekki gefa kost á sér áfram þegar kosið verður á þingi ÍSÍ nú í maí. Hjá þessum mikilvægu landssamböndum í íþróttahreyfingunni hefur Garðar verið ötull talsmaður fyrir auknum samskiptum og samstarfi samtakanna í þágu íþrótta og félagsstarfs.
Garðar var formaður Ungmennafélags Grundarfjarðar frá árinu 1997 til 2001 en í dag starfar hann fyrir félagið á annan hátt, m.a. sem skoðunarmaður reikninga og dómari í blakinu í Grundarfirði. Garðar hefur að auki unnið ómetanlegt starf fyrir Golfklúbbinn Vestarr en hann var kjörinn formaður Golfklúbbsins árið 2013 og sinnir því starfi enn í dag.
Stjórn HSH þakkar Garðari fyrir alla hans ómetanlegu vinnu síðustu 30 ár fyrir HSH og færði honum litla gjöf í þakklætisskyni.

Hallur Pálsson
Hallur Pálsson var formaður HSH á árunum 1991 – 1995. Hallur hefur sinnt trúnaðarstörfum fyrir Ungmennafélag Grundarfjarðar, Hestamannafélagið Snæfelling og HSH í tugi ára. Hann tók virkan þátt í uppbyggingu íþróttavallar í Grundarfirði þegar hann var byggður 1995 og lagði til bæði efni og vinnu við þá uppbyggingu. Að auki hefur Hallur verið virkur í starfi Snæfellings. Hann var formaður þess frá árunum 1999 til ársins 2003. Hann hefur tekið þátt í mótastarfi og gegnir í dag trúnaðarstörfum fyrir Snæfelling og er fulltrúi félagsins í Hrossvest.
Stjórn HSH telur Hall vera vel að því kominn að vera sæmdur Gullmerki HSH fyrir góð störf fyrir HSH og aðildarfélög þess í tugi ára.

Gunnar Kristjánsson
Gunnar Kristjánsson var formaður HSH á árunum 1976 – 1977. Hann hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna á landsvísu. Gunnar var ritstjóri Skinfaxa, rits Ungmennafélags Íslands á árunum 1977 – 1979. Þá var hann einnig ritstjóri 75 ára sögu UMFÍ, Ræktun lýðs og lands, sem var gefin út 1983. Gunnar var einn af stofnaðilum Golfklúbbsins Vestarr árið 1995 og var ritari fyrstu stjórnar félagsins. Gunnar var í mörg ár skoðunarmaður reikninga HSH og er ávallt tilbúinn að taka þátt í verkefnum ef til hans er leitað. Hann er á þessu þingi HSH þingforseti.
Stjórn HSH telur Gunnar vera vel að því kominn að vera veitt gullmerki HSH fyrir góð störf fyrir HSH og aðildarfélög þess í tugi ára.

Sjö tillögur lágu til samþykktar fyrir þinginu og voru flestar þeirra samþykktar samhljóða og aðrar samþykktar með breytingartillögu. Lítilsháttar breytingar voru gerðar á lögum HSH eftir ábendingar frá ÍSÍ eftir síðasta þing.
Stjórn HSH þakkar UMF. Grundarfjarðar fyrir gott samstarf við undirbúning þingsins og góðar veitingar. Þá vill stjórn HSH senda þakkir á alla þá mikilvægu sjálfboðaliða sem starfa fyrir aðildarfélög HSH.













Myndir: Tómas Freyr Kristjánsson
Comentários