top of page


Árið 2024 hefur verið viðburðarríkt hjá Héraðssambandi Snæfellsness og Hnappadalssýslu.

Íþróttafólk HSH 2023 var heiðrað í byrjun janúar. Það fólk sem var kjörið að þessu sinni voru:

Skotíþróttmanneskja HSH – Arnar Geir Diego Ævarsson

Blakíþróttamanneskja HSH – Anna María Reynisdóttir

Körfuknattleiksmanneskja HSH – Aron Ingi Hinriksson

Hestaíþróttamanneskja HSH – Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir

Knattspyrnumanneskja HSH – Ingvar Freyr Þorsteinsson

Kylfingur HSH – Sigurþór Jónsson

 

Arnar Geir Diego Ævarsson var kjörinn Íþróttamanneskja HSH 2024.

Að auki voru þau Gunnhildur Gunnarsdóttir og Magnús Ingi Bæringsson valin sem Vinnuþjarkar HSH 2023 fyrir vinnu þeirra við Landsmót UMFÍ 50+.

Öll aðildarfélög fengu tækifæri til þess að tilnefna sjálfboðaliða úr þeirra félagi sem sjálfboðaliða HSH 2023 og var öllu þessu frábæra fólki veitt viðurkenningarskjal og blómvöndur fyrir þeirra ómetanlega starf.


UMF. Víkingur – Ægir Ægisson

Hestamannafélagið Snæfellingur – Erna Sigurðardóttir

UMF. Grundarfjarðar – Gréta Sigurðardóttir

Golfklúbburinn Vestarr – Helga Ingibjörg Reynisdóttir

UMF. Snæfell – María Alma Valdimarsdóttir

Golfklúbburinn Mostri – Vignir Sveinsson

UMF. Eldborg – Kristján Ágúst Magnússon

 

Ársþing HSH var haldið þann 11.apríl 2024 að Lýsuhóli þar sem almenn þingstörf fóru fram. Breytingar voru gerðar á lögum HSH en ný lög, ársskýrslu og þinggerð má finna á heimasíðu HSH.


Mikil þátttaka var á meðal keppenda HSH á Unglingalandsmótin UMFÍ í ár en það var haldið í Borgarnesi. Rúmlega 50 keppendur tóku þátt í ár sem er töluvert meira en hefur verið síðustu ár. HSH keypti merktar derhúfur sem keppendum var afhent svo allir voru merktir. Almenn ánægja var með mótið, keppendur stóðu sig vel og voru héraðinu til sóma. Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir tók að sér að vera verkefnastjóri á landsmótinu í ár fyrir hönd HSH og stóð sig með prýði.


Í byrjun september stóð HSH fyrir Skyndihjálparnámskeiði fyrir þjálfara aðildarfélaganna í Snæfellsbæ, Grundarfirði og Stykkishólmi. Rauði kross Íslands sá um að halda námskeiðið og var Gísli Pálsson leiðbeinandi. Námskeiðið var vel sótt. HSH stefnir að því að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið fyrir þjálfara annað hvert ár að hausti til.


Í hreyfiviku Evrópu bauð HSH í samstarfi við ÍSÍ upp á fyrirlestur með Elísu Viðarsdóttur fyrir unglinga á Snæfellsnesi. Elísa er matvæla- og næringarfræðingur auk þess að vera landsliðskona í knattspyrnu. Fyrirlesturinn bar heitið: Næring fyrir heilbrigða framtíð.  


Um miðjan október var formannafundur HSH haldinn í Grunnskólanum í Stykkishólmi. Guðmunda Ólafsdóttir kom og vann að stefnumótun með formönnum aðildarfélaganna. Góðar umræður mynduðust og munu niðurstöður fundarins nýtast stjórn HSH og framkvæmdastjóra til að standa enn betur vörð um félögin.


HSH var útnefnt sem Fyrirmyndahérað ÍSÍ þann 15.október. Fyrirmyndahérað ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Útbúin var handbók fyrir HSH með ýmsum gagnlegum upplýsingum, m.a. skipuriti, hlutverki stjórnarmanna, upplýsingum um aðildarfélögin, stefnum í ýmsum málaflokkum, lögum og reglugerðum ásamt fleiru. Hægt er að finna handbók HSH inni á heimasíðu HSH.


Í byrjun desember hélt Abler tvö netnámskeið, fyrir þjálfara og stjórnarfólk aðildarfélaga HSH.  


Framkvæmdastjóri HSH leggur nú lokahönd á vinnu við móttökubækling fyrir börn af erlendum uppruna. Bæklingurinn verður hluti af móttökupakka sem börn af erlendum uppruna eiga að fá í hendurnar frá HSH þegar þau flytja inn á svæði héraðssambandsins. Þar munu þau fá í hendurnar íþróttapeysu þess ungmennafélags sem þau tilheyra, auk annars varnings. Bæklingurinn verður gefinn út á fimm tungumálum, þ.e. íslensku, ensku, pólsku, úkrainsku og arabisku. Með móttökupakkanum er markmiðið að börnin finni sig velkomin og séu fljótari að aðlagast samfélaginu í gegnum íþróttirnar.


Framkvæmdastjórar héraða á Vesturlandi ásamt starfsmönnum svæðisstöðva ÍSÍ og UMFÍ hafa myndað gott teymi. Unnið er hörðum höndum að því að samræma stefnur, vinnubrögð og annað sem kemur að héruðunum. Þessa stundina er verið að vinna að sameiginlegri agastefnu fyrir þjálfara á Vesturlandi auk skipulags á deginum Allir með á Vesturlandi. Allir með er samstarfsverkefni íþróttahreyfingarinnar (ÍSÍ, UMFÍ og ÍF) en verkefnið gengur út á að fjölga tækifærum á hreyfingu fyrir börn með fötlun. Stefnt er að því að halda Allir með á Vesturlandi á nýju ári, nánar auglýst síðar.


Að lokum þökkum við öllum þeim sjálfboðaliðum og styrktaraðilum sem hafa staðið með okkur árið 2024 fyrir frábært samstarf og vonumst til þess að það verði enn betra á næsta ári.


f.h. HSH

Gunnhildur Gunnarsdóttir

Framkvæmdastjóri HSH

 




Comments


bottom of page